Upphaf fráhaldskaflans í S.L.A.A. bókinni (5. kafli)
Ef þú hefur komist að því að þú þjáist af ástar- og kynlífsfíkn ertu sennilega mjög hrædd(-ur) og hikandi. Kannski ertu enn að reyna að telja þér trú um að þetta sé ekkert vandamál, eða allavega ekki þitt vandamál. Kannski finnst þér þeir sem segjast þjást af þessum sjúkdómi vera öfgafullir rugludallar eða að minnsta kosti leiðindaskjóður!
En sum ykkar vita samt, þrátt fyrir afneitunina, að viðvörunarbjöllurnar eru farnar að hringja. Og við erum með ykkur. Við munum vel hversu skelfilegt hið óþekkta getur verið, þegar það gnæfir fyrir framan okkur þegar við hlaupum úr greipum fíknarinnar og inn í tómið sem virðist óhjákvæmilegt þegar við reynum að lifa án hennar. Við reyndum líka af miklum ákafa að telja okkur trú um að við værum ekki haldin fíkn.
En hvað gerist núna? Ef að fíkn þín hefur fengið útrás við sjálfsfróun, hvernig veistu að þegar þú hættir henni verðir þú ekki klifrandi upp um alla veggi, að springa af ófullnægðum fýsnum? Hvernig veistu að afleiðingar þess að hætta verði ekki þær að þú verðir kalkaður, kynkaldur eða að kynfærin skreppi saman og detti af og þú deyir að lokum? Að ef þú hættir að gefa kost á þér, bregðast við, og á annan hátt næra orkusviðið sem myndast milli fólks þegar það daðrar og gefur til kynna að það sé til í tuskið, að þú verðir ekki líkamlega og tilfinningalega geld(-ur) og allur lífskraftur úr þér? Og hver gefur þér tryggingu fyrir því að þegar þú reynir að hætta að vera sjúklega háð(-ur) annarri manneskju, einhverjum sem þú gafst stjórn á lífi þínu fyrir langa löngu, að þú búir yfir nægum innri styrk til þess að taka ábyrgð og stjórn á eigin lífi aftur?
Svarið við þessum spurningum er tvíþætt. Í fyrsta lagi, þá er það alveg rétt hjá þér að þú getur ekki verið viss um neitt. Í öðru lagi, þá er það möguleiki að þú getir með því að nýta þér reynslu okkar hinna, öðlast von um að komast í gegnum fráhald og jafnvel lifað það af. Kannski færðu á tilfinninguna að þau okkar sem hafa farið í gegnum fráhald séu í miklu betra ástandi núna en þegar þau hófu fráhaldið. Þú getur verið viss um að þetta er sönn tilfinning og að við sem höfum farið í fráhald eigum það sameiginlegt að gerbreyting hefur orðið á lífi okkar til hins betra.
Enginn getur farið í gegnum fráhaldið fyrir þig og þó við gætum það þá myndum við ekki gera það. Hvaða heilvita maður myndi ganga í gegnum slíkt tvisvar? Auk þess sem upplifun hvers og eins af fráhaldi er sérstök og einstaklingsbundin og óskaplega dýrmæt (þó að þér finnist það ekki núna). Í rauninni er þessi reynsla hluti af þér sem hefur lengi verið að reyna að vekja á sér athygli. Þú hefur beitt ýmsum aðferðum til þess að forðast þennan sársauka um langa hríð og samt hefur þér aldrei tekist að losna alveg við hann. Þú verður að fara í gegnum fráhald til þess að verða heil(-l) að nýju. Þú þarft að horfast í augu við sjálfa(-n) þig. Handan skelfinganna, sem þú óttast svo mjög, eru fræin sem geta gert þig heila(-n) að nýju. Þú verður að ganga í gegnum sársaukann til þess að gera þér ljóst hver þú ert og hvaða spennandi möguleika líf þitt býður upp á.
Kynlífs- og ástarfíklar hafa nálgast fráhaldið á mismunandi hátt en niðurstaðan er sú sama: Látið er af daglegri þráhyggjuhegðun í sambandi við ást og kynlíf.
Það skiptir ekki máli hvert mynstrið hefur verið, þó að það sé auðvitað mikilvægt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því. Sum okkar hafa verið háð „einnar nætur gamni“, krampakenndum kynlífsiðkunum án nokkurra tilfinninga, hafa stundað sjúklega sjálfsfróun eða haft óeðlilega sýni- eða gægjuþörf. Önnur hafa átt í þráhyggjusambandi og orðið háð einum eða fleiri einstaklingum (annaðhvort einum í einu eða mörgum samtímis) og verið sannfærð um að án þráhyggjunnar okkar værum við við dauðans dyr. Sama hvaða mynstri þú hefur fylgt þá verður því að ljúka. Sama hversu sterkar tilfinningar þínar eru til þráhyggjunnar eða langanir til þess að snúa aftur í sömu hegðun, þá mátt þú ekki láta undan. Það er á þeirri stundu sem þú byrjar í bata og frá þeim degi telur þú þig edrú.
SLAA félagar hafa komist á þennan stað eftir ýmsum leiðum og er hér nokkrum þeirra lýst:
Sum okkar héldu áfram að næra þráhyggjuna okkar alveg þangað til við náðum botninum og gáfumst upp. Þá tókum við út fráhvarfseinkenni eins og aðrir fíklar. Þetta var mikið högg fyrir okkur, tilfinningalega og andlega, og fyrstu fráhvarfseinkennin komu skyndilega og hörkulega. Að fara í fráhald á þennan hátt er ekki endilega „styttra“ eða „betra“ en fráhald sem farið er í á mildari hátt. Sameiginleg reynsla okkar sýnir að fráhaldið lýsir sér á svipaðan hátt fyrir okkur flest og útkoman er sú sama. Hér erum við aðeins að lýsa hvernig hægt er að hefja fráhaldið á mismunandi vegu.
Sum okkar fóru hægt og rólega í fráhaldið og unnu markvisst að því að skoða vandamálin og að halda sig smám saman frá hættusvæðunum. Þegar við unnum litla sigra á þeim vettvangi urðum við meðvitaðri um aðra fíknarhegðun, sem kannski hafði verið ómeðvituð fram að því, og öðluðumst þannig betri skilning á okkur sjálfum og sjúkdómnum okkar. Þessi aukni skilningur leiddi að lokum til þess að við létum af þráhyggju okkar og fíkn og hófum líf í kynferðislegum og tilfinningalegum bata.
Þeim sem þekkja til hugtaksins fíknar kann að finnast þessi „hægfara“ uppgjöf ósennileg til árangurs. Það er viðtekinn skilningur í AA að „maður getur ekki verið frekar óléttur“ og „eitt glas er einu glasi of mikið“. Svo er fíkn svo lúmskur sjúkdómur að þegar við erum haldin honum dettur okkur ekki í hug að vilja losna við hann þótt allt sé að hrynja í kringum okkur!
Það er heilmikið til í þessu. En það má hins vegar ekki gleyma því að ef við erum farin að hugsa um fráhald þá gerum við okkur einhvers staðar grein fyrir því að fíknin er ekki að veita okkur þá huggun eða algleymi sem við sækjumst svo mikið eftir. Sífellt meiri orka varð að fara í tilfinningalega og kynferðislega „svallið“ okkar til þess að við fengjum eitthvað út úr því, hvað þá til þess að við kæmumst til „himna“. Í hvert sinn sem við lögðum út í nýtt ævintýri, tilfinningalegt eða kynferðislegt, hvíslaði einhver innra með okkur: „Þú hefur gert þetta allt saman þúsund sinnum áður.“
Nýjabrumið á hverjum nýjum rómans var ekki nóg til þess að fela sannleikann fyrir okkur lengur, loforðið sem „sambandið“ gaf var álíka innantómt og tyggjókúla. Þegar við fundum fyrir þessari tilfinningu varð sífellt erfiðara að fá eitthvað út úr þráhyggjuferlinu okkar. Þegar við nálguðumst fráhaldið fundum við stöðugt betur hvað ævintýrin okkar voru innantóm. Þó svo mörg okkar gerðu tilraunir á sjálfum sér með hvað við „þyldum“ mikið þá varð að lokum ekki annað hægt en að fara í fráhald, við áttum í rauninni engra annarra kosta völ.
Aðrir nýttu sér „ytri skilyrði“ til þess að komast í fráhaldið. Þegar orkan sem þurfti til þess að viðhalda fíkninni varð meiri en við áttum innistæðu fyrir, sprakk stíflan og við játuðum fyrir mökum okkar og elskhugum hvað nákvæmlega var í gangi í lífi okkar. Án þess að við vildum það, þá „köstuðum við upp“ sannleikanum þegar okkur var orðið svo óglatt að við gátum ekki haldið honum niðri lengur. Eitthvað innra með okkur neyddi okkur til þess að losna við eitrið úr sálinni. Við höfðum ef til vill ekki mikinn skilning á hugtökunum „fíkn“ og „fráhald“. En þegar við sáum hvaða áhrif hegðun okkar hafði á þá sem okkur þótti vænt um, neyddumst við til þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða okkar, bæði í fortíð og nútíð. Þegar við höfðum opnað okkur svona upp á gátt var engin leið að láta eins og ekkert hefði gerst, sauma saman sárin eða reyna að láta þau gróa á yfirborðinu. Bæði vorum við útkeyrð tilfinningalega og einnig óttuðumst við sýkinguna sem enn svall í sárinu.
Þess vegna var okkur nauðugur einn kostur að halda áfram að vera heiðarleg og opin. Við vorum kannski ekki edrú, kannski vissum við ekki af því að við værum haldin fíkn. Líklega vorum við ennþá í þráhyggju og fíknarferli. En í hvert sinn sem við vorum á hættusvæði fundum við að það var hægt að verjast því að missa alla stjórn með því að segja öllum sem málið kom við hvað var að gerast. Kannski hringdum við í maka okkar eða félaga til þess að segja þeim að við værum á mörkum þess að lenda í heillandi aðstöðu. Vonbrigðin og sársaukinn sem þetta fólk fann fyrir var afleiðing gjörða okkar og með því að velja að vera heiðarleg og opinská vorum við að hindra okkur sjálf í því að láta undan freistingunni.
Ætlun okkar með því að opna okkur fyrir okkar nánustu var ekki að refsa einum né neinum. Við treystum á þetta fólk og viðbrögð þess við gjörðum okkar til þess að tryggja að við myndum mæta afleiðingum gjörða okkar um leið. Við völdum að eyðileggja áhrifamátt afsakana, lyga og blekkinga. Það var oft þessi hreinskilni og viðbrögð okkar nánustu við henni sem neyddu okkur til þess að sjá að við værum stjórnlaus í hegðun okkar og að við yrðum að líta á hana sem fíkn. Þessi innri skuldbinding til þess að vera heiðarleg við aðra hvað varðaði kynferðis- og tilfinningalega hegðun okkar virtist vera nóg í sjálfu sér til þess að hefja ferli innra með okkur sem á endanum leiddi til þess að við gáfumst upp og fórum í fráhald.
Það er auðvitað misvísandi að tala um „leiðir“ til þess að fara í fráhald þar sem við gerum okkur alls ekki alltaf grein fyrir að við séum á leiðinni þangað. Flest okkar kannast við einhvern hluta af þeim aðferðum sem við töldum upp hér að ofan. Að lokum þá er mikilvægt að taka það skýrt fram að þó við höfum notað ýmsar aðferðir til þess að stjórna fíkninni, þá hófst edrúmennska okkar ekki fyrr en við létum af rétti okkar, einn dag (eða eina klukkustund) í einu, til þess að ástunda fíknina okkar á einhvern hátt.
Og nú ertu komin(-n) í fráhald og hvað gerist þá? Hvaða hættur gætu legið í leyni? Hvað er líklegt að þú upplifir í fráhaldinu og hvernig áttu að lifa af þær óhjákvæmilegu freistingar sem verða á vegi þínum?
Hætturnar eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru þær hættur sem þú átt eftir að mæta innra með þér þegar þú byrjar þetta ferli. Í öðru lagi koma þær úr umhverfinu sem getur stundum látið það virðast nánast ómögulegt að vera í fráhaldi og gæti fellt þig á leiðinni.
Kannski er hið óþekkta sem þú mætir innra með þér mesta hættan? Það er eitt að draga sig í hlé þegar þú ert ennþá sár og aum(-ur) eftir síðasta „fyllerí“. Það er hins vegar allt annað að vera tilbúinn að vera í fráhaldi frá degi til dags og taka ábyrgð á því að allt lífið hefur verið undirlagt af fíkn og þráhyggju. En það er nauðsynlegt að sjá hlutina í þessu stærra samhengi til þess að hægt sé að ganga í gegnum fráhaldið. Við höfum komist að því að með því að læra að þekkja nokkur einkenni eða botnhegðun sem við vitum að vekur fíknina í okkur, og halda okkur síðan frá þessari botnhegðun, gerum við okkur ljóst að alls konar venjur okkar og persónueinkenni hafa mótast af fíkninni.
Það getur verið afar erfitt og niðurdrepandi að gera sér grein fyrir því hversu stór hluti lífsins hefur verið lagður undir ástar- og kynlífsfíkn. Einhver sem alltaf vill heilsa fólki með handabandi kemst kannski að því að sú hegðun hans er fíknarbundin, að hann notar snertinguna í öðrum tilgangi en bara til þess að heilsa. Manneskja sem klæðir sig á vissan hátt gerir sér kannski ljóst að allur klæðaburður hennar miðar að því að fá ákveðna tegund athygli. Sá sem „vill alltaf faðma“ fólk að sér gerir það kannski til þess að athuga hvort sá sem hann faðmar hafi áhuga á nánari samskiptum. Eða sá sem er „rosalega góð(-ur) að nudda“ kemst ef til vill að því að allt þetta nudd var framkvæmt í kynferðislegum tilgangi. Og þetta eru bara fáein augljós dæmi um hegðun af þessu tagi.
Í fortíðinni gerðum við okkur aldrei grein fyrir að þessar aukaverkanir gætu verið fíknartengdar, þar sem að botnhegðunin var yfirleitt svo miklu alvarlegri og augljósari. Þegar við fengum ekki lengur „verðlaunin“ okkar urðum við að horfast í augu við að þessi hegðunarmynstur okkar voru í rauninni „veiðiaðferðir“. Með því að framkvæma þessa hluti í fráhaldinu, vorum við í rauninni ómeðvitað að búa í haginn fyrir tilfinningaleg og/eða líkamleg samskipti. Þetta voru einmitt aðstæðurnar sem við vildum forðast!
Framhald sem kemur síðar… 🙂
