Spor 1

Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart ástar- og kynlífsfíkn og að við gætum ekki lengur stjórnað eigin lífi.


Orðið „vanmáttur” nær yfir nokkrar skyldar hugmyndir.  Í fyrsta lagi þýðir það að sá styrkur sem yfirleitt gerir fólki fært að taka heilbrigðar ákvarðanir í ástar- og kynlífsmálum bjó ekki innra með okkur.  Við vorum í fjötrum ástar og kynlífs (sem við upplifðum sem tilfinningalega ánauð gagnvart einhverjum eða rómantíska spennuleiki).  Ánauðin sjálf sýnir að það var eitthvað óstjórnlega sterkt í kynlífi okkar eða ástarsamböndum sem „umbunaði” okkur á einhvern þann hátt sem við þóttumst ekki geta verið án.
          Stundum gerðum við okkar besta til þess að útiloka heiminn, með öllum sínum kröfum og ábyrgð, frá vitundinni með því að kaffæra okkur í kynlífi.  Stundum reyndum við að deyfa samviskubit eða gremju með því að fara í ástar- eða kynlífs-„skemmtiferð”.  Stundum reyndum við að fylla tómið hið innra með annarri manneskju.  Eða við dulbjuggum ótta okkar við skuldbindingu með því að þykjast trúa á siðferði byggt á „kynlífi án sektarkenndar”, „frjálsum ástum” eða „afþreyingarkynlífi”.  Þegar upp var staðið notuðum við öll kynlíf og tilfinningar annaðhvort til þess að draga úr sársauka eða hámarka nautn.  Þessir tveir drifkraftar gegnsýrðu og stjórnuðu öllu kynlífi okkar og ástarlífi.
          Á einhverju skeiði í lífi okkar tók hegðun okkar að einkennast af áráttu og fíkn.  Atvikin, sem áður voru bæði fá og strjál, urðu mánaðarlegur og síðar vikulegur viðburður.  Þau gerðust á óheppilegum tímum eða röskuðu eðlilegu fjölskyldulífi og vinnu.  Dagdraumur sem verið hafði dægradvöl stöku sinnum breyttist í stöðuga þráhyggju sem eyðilagði getu okkar til þess að sinna daglegu lífi.  Smám saman misstum við ánægjuna af starfinu okkar, félagslíf gufaði upp og vinir fjarlægðust, en hugsanir okkar og gjörðir snérust æ meira um eina manneskju.  Lausnin sem við höfðum áður sótt af og til í sjálfsfróun varð að knýjandi þörf sem við hreinlega urðum að sinna.  Við höfðum misst tökin á því hve oft og í hve miklum mæli við leituðum í ástar- og kynlífs-„lausnina” við öllum okkar vanda.
          Sum okkar lifðu í leiðslu kynlífs og rómantíkur og áttu ekki lengur sjálfstæða tilveru óháð maka eða elskhuga.  Slík tilvera varð stöðugt óviðráðanlegri.  Í byrjun hrifu ævintýrin okkur með í taumlausri gleði en síðan dró jafnt og þétt úr hrifningunni.  Síendurtekin kynlífs- og ástarævintýri völtuðu yfir vilja okkar og skildu við okkur sem þræla eigin tilfinninga og kynlífslangana, í knýjandi þörf sem við urðum að þjóna.
          Það sem fyrst í stað var smá hvíld frá amstri dagsins eða lausn frá sektarkennd og gremju hafði leitt okkur inn í heim blekkinga og algleymis.  Hin nýju, sjálfsköpuðu siðferðisgildi þar sem „allt mátti“ því „ekkert skipti máli“ komu nú í bakið á okkur og við leituðum fálmandi að einhverjum molum af tilgangi og lífsfyllingu.  Hinir nýju herrar okkar voru áráttuhegðun og stjórnleysi sem þýddi að héðan í frá vorum við áhrifalaus um kynlífsmál og tilfinningalíf okkar.  Við höfðum misst stjórnina hvort sem við viðurkenndum það fyrir sjálfum okkur eða ekki.
          Út frá hugmyndinni að „allt megi því ekkert skipti máli“ virtist stjórnleysi ekki svo slæmur kostur.  Fíknin hélt okkur í heljargreipum og taldi okkur trú um að við vildum fylgja henni.  Mörg okkar voru orðin svo líkamlega og tilfinningalega dofin að það eina sem kveikti í okkur var vænn skammtur af „dópinu“ okkar.  Eins og önnur fíkniefni fékk það okkur til þess að trúa því í smástund að við værum lifandi.  Það var eins og rödd í höfðinu á okkur segði:  „Ef þú færð meira verður allt í himnalagi.“
          Ef fíkn okkar beindist að einni manneskju virtist stjórnleysið heldur ekki svo slæmt í sjálfu sér.  Við töldum okkur trú um að ánauð okkar staðfesti hversu „himneskt“ sambandið væri.  Við hlytum að uppskera verðskulduð laun fyrir að vera reiðubúin að fórna öllu fyrir þessa ást.  Þegar við vorum ein var lífið litlaust og tómt en ef við gætum nálgast þráhyggjuna okkar enn frekar og SAMEINAST Í EITT með henni þá yrði allt í lagi.
          Djúpt innra með okkur var þó veikburða, nöldrandi rödd sem ekki vildi þagna og hvíslaði að okkur að hlutirnir væru alls ekki í lagi.  Þrátt fyrir dulargervin sem fíknin okkar brá sér í svo við gætum þóst vera eðlileg var ómögulegt að þagga niður í þessari rödd.  Til þess hefði þurft sjálfsvíg.  Hún benti okkur sífellt á tækifærin til þess að lifa eðlilegu, skapandi og þroskandi lífi, sem við misstum stöðugt af án þess að fá við neitt ráðið.  Samviskubitið vegna gjörða okkar og þeirra möguleika sem við höfðum glutrað niður, varð að djúpri sektarkennd.  Við höfðum í rauninni ekki lifað okkar eigin lífi heldur tapað tækifærunum til þess að ljá lífinu einhverja merkingu.
          Við kærðum okkur ekkert um þessa tilvistarkreppu og vildum ekkert af henni vita.  Samt tókst henni að þröngva sér inn í vitundina, sama hversu mjög við reyndum að ýta henni frá.  Ástríðan og spennan sem fylgdi fíkninni megnaði ekki lengur að þagga niður í þessum efasemdarröddum.  Fíknin gat ekki lengur skilað gamla góða kynferðislega og tilfinningalega blossanum.  Algjört tilgangsleysi ástar- og kynlífsbrímans var loksins að renna upp fyrir okkur.
          Það skipti litlu hvort fíknin birtist sem óhamið lauslæti, tilfinningalegur þrældómur við aðra manneskju eða eitthvert sambland af þessu tvennu.  Hvert og eitt okkar upplifði á einhverju stigi algera örvæntingu.  Við sáum fram á að ef við lifðum áfram í fíkn og undir stjórn áráttunnar, myndum við missa vitið og lenda í ginnungagapi þar sem vonlaust væri að finna nokkurn tíma sálarró og tilgang með tilverunni.  Þessi hugsun var enn skelfilegri en tilhugsunin um líkamlegan dauða.  Þau örlög að missa sálu sína voru enn óbærilegri ef líkaminn lifði áfram, sálarlaus og ófær um annað en að svala fíkn sem nú væri búin að ná algerri stjórn.
          *Sumum okkar þótti þessi tilhugsun um að vera lifandi étin af ástar- og kynlífsfíkn nógu skelfileg til þess að horfast í augu við skilyrðislausa uppgjöf.  Við ákváðum að við YRÐUM að hætta, sama hvað það kostaði.  Þá kom að því að skilja hina hliðina á vanmætti:  Mótsögnina að batinn byrjar þá fyrst þegar við beygjum okkur fyrir því að fíkninni verður aldrei stjórnað.
          Flest höfðum við reynt á ýmsa vegu að stjórna hegðun okkar svo við mættum áfram lifa í fíkn samhliða „daglegu“ lífi.  Stundum slitum við erfiðu sambandi eða komum okkur í annað með eldingarhraða.  Við hættum að stunda sjálfsfróun eða hófum að stunda sjálfsfróun (í stað þess að stunda kynlíf með öðrum).  Við prófuðum að vera með fólki af öðru kyni en áður eða fólki sem okkur þótti ekki eins aðlaðandi.  Við fluttum til annarra bæja eða landa, hétum sjálfum okkur hinu og þessu og strengdum heit fyrir framan þá sem okkur þótti vænt um.  Við giftumst afbrýðisömu fólki eða skildum við maka okkar svo við gætum fundið einhvern sem hentaði okkur betur.  Við frelsuðumst til trúarbragða og völdum okkur stundum trúarbrögð sem kröfðust einlífis og gengum í klaustur til þess að hindra okkur í að lifa kynlífi.  Við reyndum að tengjast fólki nánum tilfinningaböndum og reyndum síðan að jafna út tilfinningahita eins sambands með öðru nýju.  Svona hélt þetta stöðugt áfram.
          Sama hversu ákveðin við vorum í því að standa okkur vorum við alltaf „á hnefanum” með þessum ráðum.  Ef okkur tókst að stemma stigu við áráttuhegðuninni blossaði strax upp óverðskuldað sjálfsöryggi og við þóttumst nú vera fær um að „stjórna“ hegðun okkar.  Þegar við gættum ekki lengur að okkur sukkum við aftur á kaf í kviksyndi fíknarinnar.  Stundum tók það okkur mánuði eða vikur, oftar aðeins nokkra daga eða klukkustundir.
          Staðreyndin var augljós:  Við vorum stjórnlaus og gátum ekki hamið fíkn okkar.  Hvað eftir annað höfðum við gengið í gegnum lífsreynslu sem breytti okkur andlega og veikti vilja okkar til þess að brjótast undan áþján ástar- og kynlífsfíknarinnar.  Þess vegna nálguðumst við í sannri auðmýkt þá hugmynd að gefast upp og gefa fíknina frá okkur því við gátum engan veginn vitað hvort slíkt væri yfirleitt mögulegt.
          Fíknin sjálf sáði fræjum efasemda í huga okkar um að við vildum í raun og veru losna undan henni.  En nú vorum við enn eina ferðina orðin nógu örvæntingarfull til þess að reyna að losna.  Okkur varð ljóst að við vorum vanmáttug, ekki einungis yfir einhverjum ákveðnum elskhuga eða aðstæðum.  Við vorum vanmáttug gagnvart hegðunarmynstri og aðstæður dagsins í dag voru einungis nýjasta birtingarmyndin af þessu mynstri.
          Ástæða þess að okkur hafði mistekist að stjórna fíkninni var sú að við höfðum gersamlega vanmetið í hversu alvarlegu ástandi við vorum.  Þegar við ráfuðum stefnulaust um og reyndum að losna undan einum ákveðnum elskhuga eða atviki fór heildarmyndin framhjá okkur.  Við sáum ekki að síðasta uppákoman var aðeins einn þráður í stórum vef sem spannaði tilveru okkar vítt og breitt.  Að gefast upp fyrir ástar- og kynlífsfíkninni þýddi að við þurftum ekki einungis að gefast upp fyrir þeim aðstæðum sem við vorum í núna.  Mestu skipti að verða reiðubúin að losa lífið undan allri þráhyggju og áráttu um ást og kynlíf.  Þegar við ákváðum að losna við einn ákveðinn þátt, án þess að skoða heildarmyndina, gerðum við það sama og alkóhólisti sem „hættir á hnefanum“.
          Meðan við vorum að átta okkur á eigin fíknimynstri gætum við hafa glapist af því að í SLAA þarf hver og einn sjálfur að finna út hverjar birtingarmyndir fíknar hans eða hennar eru.  Þetta þýddi að mörg okkar komust að þeirri niðurstöðu að þau gætu „skilgreint“ fíknimynstrin þannig að fíknina mætti stunda áfram í annarri mynd.  Með öðrum orðum myndi duga að kalla augljósa vandræðahegðun fíkn en við gætum undanskilið „hina réttina á matseðlinum“.
          Ef við ákváðum til dæmis að „botnhegðun“ okkar væri sýniþörf, þá gátum við talið okkur trú um að nú mættum við kaupa vændi því það væri ekki hluti af fíknimynstrinu.  Við héldum því fram að slík nýbreytni væri í rauninni skref fram á við úr því við værum að reyna að tengjast fólki í stað þess að vera ein að sýna okkur einhvers staðar.  Hið gagnstæða gilti um þau okkar sem sögðu að vandamálið væri bundið við óhamið lauslæti.  Þá tókum við upp hegðun sem stunda má í einrúmi eins og sjálfsfróun, gægjuþörf eða sýniþörf og sögðum það skref fram á við því við flæktum annað fólk ekki lengur beinlínis inn í fíkn okkar.
          Þetta voru jafn fánýtar aðferðir og þegar alkóhólisti skiptir víni út fyrir bjór og heldur því fram að það sé mikil „framför“.  Þau okkar sem skilgreindu ekki fíknihegðun sína á heiðarlegan hátt tóku annaðhvort aftur upp gömlu hegðunarmynstrin eða áttu í miklum erfiðleikum með að taka „næstu skref“.  Við lærðum með herkjum að það er ekki hægt að gefast upp að hálfu leyti.  Við gátum ekki notað „frelsið“ til þess að skilgreina eigin fíkn á sjálfselskan og eigingjarnan hátt.  Fíknin heldur áfram að vera til hvað sem líður skammsýnum og þægilegum skilgreiningum.  Ef við héldum einhverju eftir þegar við skilgreindum fíknina var alveg víst að við færum aftur í gamla farið.
          Sársaukinn sem hlaust af því að halda áfram í ástar- og kynlífsfíkn fékk okkur að lokum til þess að viðurkenna í fyrsta sporinu „að við værum vanmáttug gagnvart ástar- og kynlífsfíkn“ og að við gætum ekki stjórnað eigin lífi nema við losnuðum undan henni.  Loksins gáfumst við upp skilyrðislaust.  Sönnun þess að uppgjöfin var skilyrðislaus var sú að nú vorum við í fráhaldi einn dag í einu frá öllu því sem við skilgreindum sem botnhegðun.  Ef aðalbirtingarmynd fíknarinnar var þráhyggjuástarsamband þá fórum við frá „félögum“ okkar í sambandinu eða slitum öll tengsl við þá.  Þetta var ekki gert til þess að refsa sjálfum okkur eða öðrum, heldur vegna þess að við vissum að spilið var tapað.  Mörg okkar grunaði eða vissu að við þyrftum að vera ein um ótiltekinn tíma til þess að læra að skilja og meðhöndla sjúkdóminn.  Við treystum okkur ekki til þess að takast á við þær truflanir sem ástar- eða kynlífssamband mundi valda.  Ef við vorum nýbúin að ganga í gegnum sársaukafull sambandsslit við einhvern sem okkur fannst „algerlega ómissandi” þýddi uppgjöfin það að við sættumst við missinn og neituðum að reyna að hefna okkar eða dæma viðkomandi.  Hún þýddi líka að, ef til vill í fyrsta skipti á ævinni, leituðum við ekki huggunar í örmum einhvers annars.
          Hvert og eitt okkar var reiðubúið til þess að gera hvað sem var, einn dag í einu, til þess að falla ekki aftur í sama farið.  Við tókum þessa ákvörðun algerlega upp á eigin spýtur.  Hún átti ekkert undir aðstoð eða andúð maka okkar, elskhuga eða kynlífsfélaga.  Við vorum tilbúin, ekki fyrir næsta elskhuga eða kynlífsóra, heldur fyrir það sem gæti gerst innra með okkur sjálfum.  Mótsögnin var að fúsleikinn stafaði ekki af styrk okkar heldur af því að við vissum hvað myndi gerast ef við héldum áfram að lifa í fíkn.  Þegar við komumst upp úr gamla mynstrinu leiddi sársaukinn, sem við höfðum alltaf reynt að forðast, okkur að röð nýrra uppgötvana sem var sú gjöf sem okkur hlotnaðist í öðru sporinu.