Spor 10

Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar út af bar viðurkenndum við yfirsjónir okkar umsvifalaust.


Við fundum nú að við vorum merkilega laus við byrðar sektarkenndar og löngunina í það sem var liðið.  Ef við ætluðum að halda áfram á þeirri ævilöngu vegferð að skapa sátt og nánd við sjálf okkur og aðra þurftum við að læra að meðhöndla lífið eins og það kom fyrir, einn dag í einu.  Það þurfti að losa fyrirstöðuna frá óuppgerðri fortíð og halda tilfinningum og þörfum í núinu.  Að öðrum kosti færi fortíðin að eitra út frá sér á nýjan leik.
          Enn voru margar tilfinningar og viðbrögð við fólki og atburðum til vandræða.  Það kom fyrir að við fylltumst skyndilegri reiði vegna þess sem einhver sagði eða gerði og oft virtist okkur að aðrir væru að reyna að vekja hjá okkur þessi viðbrögð.  Fólk sem við vorum af og til í samskiptum við átti það til að gefa merki um hrifningu eða kynferðislegan áhuga sem gat komið okkur alvarlega úr jafnvægi.  Það kom fyrir að við urðum orðlaus innan um fólk og óhæf um einföldustu samskipti, jafnvel á SLAA-fundum.
          Þegar við fórum úr jafnvægi vegna þess sem fólk sagði og gerði, eða ef til vill aðeins vegna óttans við það sem það gæti sagt og gert, þurftum við að vera fljót að meta andlegt ástand okkar til þess að fá rétta sýn á okkur sjálf og hinn aðilann.  Við fundum að einföld leið til þess var að spyrja eftirfarandi spurninga:  „Ef ég gerði einhverjum öðrum þetta sem mér finnst verið að gera mér, væri það þá merki um minn eigin sjúkleika?“ og „Ef ég sæi einhvern annan fara í vörn í þessum aðstæðum, tæki ég því sem sjúkdómseinkenni hans eða hennar?“
          Hvort sem við svöruðum þessum spurningum játandi eða ekki (oft svöruðum við báðum spurningunum játandi) fundum við að það sem við sáum í öðrum var venjulega speglun á hversu auðsæranleg við sjálf vorum.  Tilfinningalegar kröfur annarra, hvernig þeir virtust vilja brjóta okkur niður og ónæmi fyrir þörfum okkar voru sem bergmál frá eigin kröfum og sjúklegum þörfum.  Það olli okkur enn frekari óþægindum að okkur fannst við eiga rétt á því að aðrir kæmu fram við okkur á ákveðinn hátt og reyndum því að þvinga þá til þess að uppfylla háleitar væntingar okkar.  Einnig gat það gerst að við fórum að hafa varann á okkur vegna hugmynda um leynilegt ráðabrugg annarra og fannst eins og verið væri að svíkja okkur.
          Staðreyndin var sú að þegar andlegt ástand okkar var óstöðugt virtust allir í kringum okkur vera „veikir“ af brestum sem við nánari umhugsun voru ótrúlega líkir okkar eigin.  Hvort sem það var rétt eða ekki urðum við að draga þá ályktun að það væri heimskulegt og árangurslaust að vera í uppnámi yfir því sem við túlkuðum sem sjúklegar athafnir annarra, sérstaklega ef við óskuðum eftir umburðarlyndi fyrir ítrekuðum óheiðarleika okkar og stjórnsemi.  Þegar við vorum komin út á ystu nöf með okkur sjálf lögðum við mikið á okkur til þess að flagga eigin veikleikum, gefa þeim merkimiða, skilja þá og fyrirgefa sjálfum okkur fyrir að hafa þá.  Það var mikilvægt að ala ekki í brjósti þá hugmynd að við gætum bjargað virðingu okkar út á við með því að halda þessari innri baráttu leyndri fyrir öðrum.
          Okkur reyndist erfitt að halda til streitu hreinskilni um tilfinningar okkar, hvatir og væntingar til annarra.  Við leyndum vonbrigðum, sárindum, ótta og reiði undir yfirborði samþykkis.  Við þögðum um saklausa draumóra um manneskjur sem við áttum í óreglulegum samskiptum við og fullvissuðum okkur í laumi um að við myndum að sjálfsögðu ekkert gera í málunum.  Ásetningurinn um að gera ekkert rangt dugði ekki til.  Við þurftum að vera stöðugt að framkvæma samkvæmt lífsreglunum úr fjórða spors listunum og níunda sporinu.  Á hverjum degi urðum við að einbeita okkur og endurmeta margsinnis fyrirætlanir okkar og skapgerðarbresti og vinna í því eftir bestu getu að leiðrétta hlutina eftir því sem þeir komu upp.
          Við lærðum líka meira um hvernig skapgerðarbrestirnir, sem við höfðum þegar skilgreint, gátu birst á mildari hátt en samt orðið til vandræða.  Stundum uppgötvaðist nýr brestur, til dæmis eigingirni falin á bak við skort á vilja og getu til þess að standa á eigin fótum, eða ótti við nánd sem leyndist á bak við sjúklegan áhuga á að vera ein út af fyrir okkur og á stöðugu flakki.
          Mörg okkar sáu að við þurftum að taka frá tíma til þess að vera ein og íhuga, bæði daglega og reglulega yfir lengri tímabil.  Þetta sjálfsmat gaf sýn á andlegan þroska og tækifæri til þess að tengjast okkur sjálfum og batanum.  Við leituðum eftir fólki til þess að vera til staðar í þessu verkefni, vinum í SLAA og andlegum ráðgjöfum eða meðferðaraðilum.  Sá hluti SLAA-fundanna sem snérust um „tengingu við núið“ gátu stundum nýst okkur til þess að vinna með tilfinningar okkar gagnvart samböndum og lífinu í heild.  Við þurftum líka að taka frá tíma til þess að „vera í núinu“ með þeim sem við vorum skuldbundin, hvort sem það voru makar, nánir vinir eða aðrir.  Við gátum ekki verið hluti af sambandi upp á eigin spýtur!  Það þurfti æfingu og samvinnu til þess að læra að mæta þörfum annarra án þess að finnast við fórna eigin virðingu og til þess að vera heiðarleg án þess að særa eða vera í vörn.
          Í öllum þessum verkefnum einbeittum við okkur að eigin göllum og mistökum.  Við vorum að átta okkur á því að eigin viðhorf og gjörðir voru það eina sem við gátum haft einhver áhrif á.  Við höfðum alltaf verið, vorum enn og mundum alltaf vera vanmáttug gagnvart hvötum og athöfnum annarra.

          Eftir því sem við héldum áfram að lifa samkvæmt breyttum lífsstíl og vöndumst því að vera í núinu og tilfinningalega samkvæm sjálfum okkur þá íhuguðum við betur samband okkar við Guð.  Ferðalagið í átt að andlegum bata var fyrir löngu hafið með málamiðlun okkar um að treysta á hugmyndina um að til væri Guð, máttur sem væri æðri okkur sjálfum.  Við höfðum enga tryggingu fyrir því að lífið yrði þess virði að lifa því eða neitt yrði eftir handa okkur ef ástar- og kynlífsfíknin yrði tekin frá okkur og við gæfum eftir persónuleikann sem hún hafði gefið okkur.  Með sársaukafulla uppgjöf og fráhald að baki fundum við samt sem áður að þráin eftir völdum og orðstír gat enn fengið okkur til þess að knýja fram markmið sem reyndust mjög óviðeigandi.  Leyndur, djúpstæður ótti varð til þess að við gerðum ósanngjarnar kröfur og reyndum að kreista fram algjört öryggi úr persónulegum samböndum.  Afar seint og gjarnan treglega leiddi málamyndasamband okkar við Æðri mátt til þess að við reiddum okkur á leiðsögn hans.
          Eftir því sem batinn jókst fórum við að efast um að það væri þess virði að eltast við gömlu lífsgildin eða jafnvel sum markmið sem þó virtust ekki tengjast ástar- og kynlífsfíkn.  Sum okkar gátu komið með ferskan andblæ og nýja orku í starf og sambönd sem fíknihegðunin hafði ekki náð að skemma nema að takmörkuðu leyti.  Hjá öðrum virtist ávinningurinn af tilteknum starfsframa eða lífsstíl ekki lengur vera nema blekking, í það minnsta ekki fyrirhafnarinnar virði.  Það kom stöðugt betur í ljós að leikreglur okkar dugðu hvorki til þess að færa okkur veraldlegt öryggi né sálarró og við þurftum því óhjákvæmilega að spyrja hvað gæfi lífinu gildi.  Þar sem við höfðum ekkert raunhæft gildismat eða áætlun, aðra en þá sem við höfðum sjálf búið til, varð okkur ljóst að við þurftum að gera stöðuga sjálfsrannsókn í ljósi vilja Guðs.  Hver voru áhrifin af sambandi okkar við Guð?  Sú spurning leiddi okkur að ellefta sporinu.