Spor 2

Við fórum að trúa að máttur okkur æðri gæti gert okkur andlega heilbrigð að nýju.


Við þraukuðum fyrstu stig fráhalds, oft með herkjum, einn dag í einu.  Samhliða því þurftum við að glíma við sjálfsmynd sem komin var í verulegar ógöngur.  Á meðan við vorum á kafi í fíkninni var útilokað fyrir okkur að sjá (ef við leiddum þá yfirleitt hugann að því) í hve ríkum mæli við höfðum veðjað á hana.  Við fórum að gera okkur grein fyrir að sjúkdómurinn var ekki einungis leið til þess að drepa tímann með losta og spennu.  Hann hafði mótað persónuleika okkar til þess að við gætum náð öllu því sem mögulegt var út úr fíkninni.  Útlit okkar og framkoma, allt sem snéri að vinnu og starfsframa, margt af því sem við höfðum talið vera sérkenni okkar var sniðið að þörfum fíknarinnar.  Hún hafði meira að segja afskræmt jákvæða eiginleika eins og umhyggju fyrir náunganum og skilið okkur eftir í mikilli innri baráttu og togstreitu.  Við höfðum aldrei skilið muninn á ást og vorkunnsemi.
          Ástar- og kynlífsfíknin hafði úrskurðað hvað við vorum og vildum í lífinu og verið ein um að skapa sjálfsmynd okkar.  Við höfðum verið svo sjálfsörugg í hópi fólks þegar við gáfum til kynna að við værum „á markaðnum“.  Við gátum alltaf náð í „inneignarnótur“ því við vissum að við myndum finna sams konar strauma frá öðrum.  Þvílíkt öryggi sem við höfðum fundið í vissunni um að við gátum alið á óöryggi annarra, gert þá háða okkur og þannig tryggt vellíðan okkar.  Við nutum valdsins yfir öðrum, sem við sóttum í kynþokkann, með því að gefa þeim í skyn að við gætum alveg skipt viðkomandi út fyrir einhvern annan.  Við fundum öryggi í því að vita að jafnt líkamlega, tilfinningalega sem andlega gætum við alltaf laðað til okkar nýtt fólk eða hlekkjað fastar þá sem við höfðum þegar klófest. 
          En hvort sem við gerðum okkur grein fyrir því eða ekki var öll tilvera okkar í molum.  Ýmist mistókst okkur að leysa raunveruleg vandamál okkar í lífinu eða við afneituðum þeim: óöryggi, einmanaleika og skorti á sjálfsvirðingu.  Með kynlífi, þokka, tilfinningum eða sannfærandi greind höfðum við notað aðrar manneskjur eins og „fíkniefni“ svo við kæmumst hjá því að sjá eigin vankanta.  Það gerðum við til þess að sleppa undan því að líta í eigin barm og horfast í augu við að við vorum ófær um að uppfylla okkar eigin þarfir.  Þegar við komum auga á þetta áttuðum við okkur á því að í uppgjöfinni gagnvart fíknihegðuninni fólst óhjákvæmilega endurskoðun á persónuleika okkar og sjálfsmynd frá grunni.
          Okkar beið yfirþyrmandi verkefni:  Gamla sjálfið varð að deyja, að minnsta kosti að eiga það á hættu, til þess að hið nýja sjálf, laust við fíkn, gæti lifað.  Við gátum ekki losnað út úr ógöngunum með digurbarkalegum yfirlýsingum um nýja siði og venjur sem við værum NÚNA tilbúin til þess að lifa eftir.  Við gerðum okkur grein fyrir að sjúkdómurinn hafði litað öll fögur fyrirheit um að við gætum sjálf umbylt lífi okkar.  Getan til þess að hugsa skýrt var ekki einu sinni til staðar.  Það var ekkert til sem hét sjálfslækning.  Of mörg okkar höfðu reynt hana en mistekist ítrekað.  Við reyndum að nota skynsemina og hugsa rökrétt en þrátt fyrir góðan ásetning braut sjúkdómurinn kerfisbundið niður getuna til þess að sjá vandamálið í skýru ljósi.  Hann braut líka niður viljann til þess að breytast.  Sá hluti hugans sem gerði sér þó einhverja grein fyrir sjúkleikanum var ekki einu sinni óhultur og það var ekki hægt að treysta á leiðsögn hans á vegferð okkar í átt að bata. 
          Eftir því sem við gerðum okkur grein fyrir umfangi sjúkdómsins og hvernig hann hafði breytt hugsun okkar og gildismati, urðum við að viðurkenna að við gætum ekki endurmótað persónuleika okkar og sjálfsmynd upp á eigin spýtur.  Þegar við áttuðum okkur á bláköldum veruleikanum og sáum breyskleika okkar þá upplifðum við þörfina fyrir að finna mátt, æðri okkur sjálfum – eitthvað sem væri allavega einu skrefi á undan sjúkum ásetningi okkar.  Við þurftum eitthvað sem gæti gefið okkur þá stöðugu leiðsögn sem við gátum ekki veitt okkur sjálf.  Möguleikinn á að finna einhvers konar trú sem væri ekki byggð á einhverjum fyrirfram ákveðnum hugmyndum um „Guð“, heldur frekar þörfinni fyrir að finna trú, var fyrsta skrefið í átt að andlegum bata. 
          Sú staðreynd að við þörfnuðumst trúar á einhvers konar mátt, úr því við gátum ekki treyst eigin staðfestu varðandi hvatir eða hegðun, gerði sum okkar jafnvel enn hræddari.  Hvar áttum við að finna svo mikið sem vísi að trú sem gæti leitt okkur í gegnum upplausn og endurmótun alls persónuleika okkar?  Ef EKKI væri nú til neinn máttur okkur æðri þá væri þetta ógjörningur!
          Einfaldasta lausnin á þessu trúarvandamáli voru reglulegir SLAA-fundir.  Þar hittum við fólk í fráhaldi sem hafði sjálft yfirstigið trúarþröskuldinn.  Þegar við hlustuðum á frásagnir annarra af fíkninni og hvernig þau höfðu náð bata gátum við tengt við fíknimynstur þeirra og fársjúkt gildismat.  Við gátum auðveldlega séð að þau lifðu nú mun jákvæðara og heilbrigðara lífi.  Þau voru lifandi dæmi um lausn og gáfu okkur þá von að sú andlega lausn sem þau þökkuðu bata sinn stæði okkur einnig til boða.  Við gátum ekki dregið í efa geðveikina í sögum þeirra.  Hún var svo augljós.  Þegar við bárum lífsgæði þeirra saman við baráttu okkar og ógöngur í fíkninni var enginn vafi á því að þau höfðu fundið einhvers konar frelsi.
          Að halda sambandi við þá sem voru nú þegar í bata frá ástar- og kynlífsfíkn reyndist líka hjálplegt við að halda okkur sjálfum í fráhaldi einn dag í einu.  Við fengum leiðbeiningar um hvernig við gætum forðast aðstæður sem gætu komið okkur í fíkn.  Með því einfaldlega að segja félögum frá freistingum eða tilteknum aðstæðum náðum við að vera heiðarlegri við sjálf okkur.  Þegar við gerðum okkur grein fyrir því hve mikilvægt þetta stuðningskerfi var þá fundum við að trú á einhvern tiltekinn Guð eða guðlega veru var ekki nauðsynleg.  Þörf okkar fyrir trú var svarað með von.  Við skynjuðum möguleikann á andlegri leiðsögn sem birtist í reynslu þeirra SLAA-félaga sem komu í samtökin á undan okkur.

          Þessi breyting á viðhorfi okkar úr þörf yfir í von leiddi okkur á annan mikilvægan stað í batanum.  Við höfðum lagt hornsteininn að trú.  Við höfðum séð að það var mögulegt að ganga í gegnum þjáninguna sem fylgdi fráhaldi án þess að hverfa aftur til fyrri lifnaðarhátta.  Við fundum að mátturinn sem gerði okkur þetta kleift var utan við okkur sjálf.  Nú vorum við tilbúin til þess að íhuga hvernig við gætum nýtt þessa trú í verki.  Við fórum að skoða hvað þriðja sporið gæti haft í för með sér í lífi okkar.