Spor 3

Við tókum þá ákvörðun að fela líf okkar og vilja umsjá Guðs, samkvæmt skilningi okkar á Guði.


Staðan var þessi:  Ef ástar- og kynlífsfíknin var svona stór hluti af persónuleika okkar, ef hún hafði tekið sér bólfestu í okkur fyrir löngu og náð að móta svo margt í hátterni okkar, samböndum og gildismati, þá urðum við að spyrja okkur hvort allar fyrri hugmyndir okkar um okkur sjálf væru byggðar á traustum grunni.  Hér er ekki átt við að allt sem við héldum um okkur sjálf hafi verið bull og vitleysa.  En ef við vildum virkilega breytast og lifa nýju og heilbrigðara lífi urðum við að varpa þessari spurningu fram, að minnsta kosti sem tilgátu.  Við urðum að viðurkenna möguleikann á að margt, ef ekki allt, sem við héldum um okkur sjálf gæti verið vanhugsað.
          Svo við vitnum í Biblíuna þar sem talað er um „fleytifullan bikar“, þá vorum við vissulega eins og bikar sem út úr flóði af þráhyggju, tilætlunarsemi, losta og sjúkum mannlegum samskiptum.  Til þess að efla andlegt líf okkar vorum við í þriðja sporinu hvött til þess að hvolfa þessum bikar og láta sjúkleikann flæða út.  Við vissum það vel að við gætum ekki fyllt þennan bikar aftur í krafti eigin vilja.  Við vissum að ef við fengjum að ráða myndum við fylla hann aftur með þráhyggju og stjórnleysi sem fylgdi fyrri lifnaðarháttum.  Við vorum óhæf til þess að sjá við eigin eðli sem var litað af fíkninni.  VIÐ SJÁLF vorum óvinurinn.
          Við fundum að ef við ætluðum okkur að vera heilbrigð þá yrði sá Æðri máttur, sem við fórum að trúa á í öðru sporinu, að sjá um að fylla bikarinn.  Þessi máttur (hann, hún, það eða þau) myndi gera slíkt á sínum tíma, samkvæmt hans vilja, ekki okkar.
          Hvernig ætli lífið yrði ef við næðum að losna undan ánauð sjúkdómsins, forðuðumst að fylla bikarinn sjálf og létum það verkefni í hendur Guðs?  Við gátum ekki vitað það. Við höfðum enga tryggingu.  Það eina sem við vissum var að við vildum ekki falla aftur í virka ástar- og kynlífsfíkn.  Við þekktum vonleysið sem hafði fylgt ástar- og kynlífsfíkninni og það hvatti okkur til þess að halda áfram sporavinnunni án þess að við vissum hvað væri framundan.  Án nokkurrar tryggingar en vongóð og með grunninn að trú skildum við að úr því við værum ófær um að skrifa upp á okkar eigin lyfseðil við fíkninni þá væri betra fyrir okkur að „láta vilja okkar og líf“ lúta handleiðslu Guðs, samkvæmt skilningi okkar á Guði.  Jafnvel þótt við vissum ekki hvað myndi gerast í kjölfarið þá tókum við þessa ákvörðun. 
          Hvernig gátum við svo ræktað nýfengið samband okkar við Guð eftir að hafa tekið þessa ákvörðun?  Svarið var einfalt, eins og öll góð svör eru.  Við vorum komin í fráhald frá öllu því sem gat komið okkur í fíkn, einn dag í einu.  Við bættum aðeins einu við þetta breytta hegðunarmynstur:  Við fórum að biðja.  Við byrjuðum hvern dag á samneyti við Guð, samkvæmt skilningi okkar á Guði, og báðum um hjálp við að halda okkur frjálsum frá fíkninni þann daginn.  Við báðum Guð einnig um hjálp og leiðsögn í þessu mikla verkefni sem var framundan við að eyða út gamla, fíknikennda sjálfinu og leiða okkur í gegnum endurfæðingu okkar sem heilbrigðrar, lífsglaðrar manneskju.  Ef okkur tókst að ganga í gegnum daginn án þess að falla í fíkn þökkuðum við Guði að kvöldi dags fyrir að hafa hjálpað okkur að lifa í 24 klukkustundir án þess að fara í botnhegðun í ástar- og kynlífsfíkn. 
          Við notuðum æðruleysisbænina á hverjum degi til þess að komast í gegnum aðstæður sem voru krefjandi og jafnvel hættulegar fyrir bata okkar:
          „Guð, gefi mér æðruleysi, til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli.  Verði þinn vilji, ekki minn.“
          Þegar við renndum yfir þau spor sem eftir voru, sáum við að þau byggðu á boðskap þriðja sporsins.  Bikarinn skyldi tæmdur af sjúkleikanum, við myndum hreinsa hann eins vel og við gætum svo Guð gæti fyllt á hann upp á sína náð og samkvæmt sinni forskrift en ekki okkar.

          Við höfðum tekið „ákvörðunina“.  Við reyndum að opna líf okkar fyrir Guði með daglegri bæn.  Samt virtist margt í þessu sporakerfi vera tóm óskhyggja eða langsótt loforð.  Við vorum enn plöguð af þráhyggju og tilfinningaþrunginni löngun eftir rómantík, daðri, viðurkenningu eða kynferðislegu algleymi.  Þetta ferli gat auðveldlega farið af stað ef við rákumst til dæmis á gamla elskhuga og þráhyggjur á almannafæri.  Stundum leið okkur eins og gömlu þráhyggjurnar kepptust við að birtast einmitt þegar við vorum viðkvæm og varnarlaus gagnvart þeim.  Einnig ímynduðum við okkur að það væri til fullt af fólki í heiminum sem hefur ekki hugmynd um að það sé til nokkuð sem heitir „ástar- og kynlífsfíkn“.  Í hugarheimi okkar var þetta fólk að slá sér upp í alveg guðdómlega vel heppnuðum eðal-ástarsamböndum.  Það kom fyrir að við minntumst með djúpum söknuði allra „góðu stundanna“ með fyrrverandi elskhugum eða mökum og gleymdum öllum hræðilegu afleiðingunum sem sambandið hafði í för með sér. 
          Slíkir dagdraumar gerðu ekkert fyrir bata okkar og rugluðu okkur einungis enn meira í ríminu.  Við vorum greinilega mjög djúpt sokkin.  Dagdraumarnir blinduðu okkur sýn á leiðinni í átt til bata.  Þrátt fyrir að við værum komin á betri stað eftir að við hófum sporavinnuna þráðum við að snúa aftur í meðvitundarleysið.  Á sama tíma fundum við fyrir því að dyrunum að meðvitundinni um ástar- og kynlífsfíkn okkar, sem við höfðum opnað, yrði ekki lokað aftur.  Við höfðum séð, jafnvel upplifað sjálf, hvernig heilbrigð tilvera getur verið í raun.  Þótt við streittumst stundum á móti og ynnum sporin með hálfum huga fundum við að við stefndum nú í átt að andlegu og tilfinningalegu heilbrigði sem átti sér engin takmörk.
          Við náðum að kippa okkur út úr dagdraumum og hálfkáki og öðlast nýja sýn á okkur sjálf með því að deila reynslu okkar á SLAA-fundum, með einveru og hugleiðslu eða jafnvel í draumi.  Það var eins og við fengjum nýtt innsæi þegar við hættum að eyða orkunni í fíknihegðun, þótt við yrðum enn fyrir mörgum freistingum.  Smám saman fengum við dýpri skilning á innra eðli okkar.  Stundum virtist þetta nýja innsæi sem „kom til okkar“ vera eins konar laun fyrir að hafa haldið okkur í bata og við urðum mjög þakklát fyrir að falla ekki aftur í fíknina. 
          Á þessu stigi batans fundum við að tilfinningaþrungna orkan sem við eyddum í fíknina var nú að koma upp á yfirborðið sem raunverulegar tilfinningar og minningar hlaðnar merkingu.  Fyrra mynstur ástar- og kynlífsfíknarinnar kom sífellt betur í ljós og við náðum að átta okkur betur á því.  Sum okkar héldu dagbók eða skráðu niður drauma sína, aðrir fóru til ráðgjafa eða sálfræðings.  Við fundum að við vorum óafvitandi búin að bretta upp ermarnar og gengum til verks í anda fjórða sporsins.