Við játuðum misgjörðir okkar fyrir Guði, sjálfum okkur og annarri manneskju og nákvæmlega hvað í þeim fólst.
Mörg okkar áttuðu sig á því að eitt einkenni ástar- og kynlífsfíknarinnar var hversu líf okkar var klofið í vandlega aðgreinda hluta sem voru sveipaðir leynd og þurfti að fara með sem trúnaðarmál. Þetta var staðreynd, óháð því hvort við höfðum verið lauslát, höfðum bundist fleiri en einni manneskju rómantískum eða tilfinningalegum böndum, eða höfðum verið háð einni manneskju. Við vorum jafnvel stolt af hæfileikum okkar til þess að eiga leyndarmál, að hafa allt slétt og fellt á yfirborðinu, að fela tilfinningarnar, að komast í gegnum þetta ein. Þessi djarfa, einmanalega leikaðferð leiddi af sér mikilvægan ávinning. Ef við gátum ráðið við glundroðann af leynimakkinu án þess að upp kæmist eða gátum haldið raunverulegum tilfinningum okkar leyndum fyrir þeim sem við vorum háð, virtumst við losna undan afleiðingum gjörða okkar. Við gátum jafnvel afneitað því fyrir sjálfum okkur að það væri yfirhöfuð eitthvað til sem héti „afleiðingar“. Þvílík hvatning til þess að vera áfram innilokuð og opinbera ekki fyrir neinum þann mann sem við höfðum raunverulega að geyma!
En með því að halda áfram „ein okkar liðs“ fundum við fyrir tilfinningalegum og andlegum hindrunum. Við vorum ófær um að nýta reynslu okkar og tilfinningar á uppbyggjandi hátt. Innra ástand okkar líktist fremur ruslaþjöppu en endurvinnslu. Við vorum á kafi í miðjum ruslahaugnum.
Með fimmta sporinu byrjuðum við að leyfa lífi okkar að opnast á ný. Það hafði verið nógu erfitt, í gegnum langt ferli í fjórða sporinu, að opna okkur fyrir sjálfum okkur. Samt sem áður var fráhaldið í mikilli hættu ef við héldum ekki áfram og deildum með annarri manneskju því sem við höfðum uppgötvað um okkur sjálf. Það þjónaði engum tilgangi að bera kennsl á vanmátt okkar til þess að stjórna eigin lífi, en hann hafði ítrekað leitt okkur aftur í fíknimynstrin, ef við ætluðum nú að reyna að endurbyggja líf okkar upp á eigin spýtur. Einmanaleikanum og einangruninni, sem voru á sama tíma orsök sjúkdómsins og afleiðingar hans, yrði ekki aflétt fyrr en við færum að sættast við Guð og aðra menn.
Hér, eins og alls staðar annars staðar á vegferð okkar í átt að heilbrigðara lífi, þá urðum við að vera fús til þess að taka áhættu. Í sporavinnunni, sem var nú þegar orðin hluti af lífi okkar, höfðum við lært að treysta Guði að minnsta kosti svolítið. Við vorum nú orðin nokkuð meðvituð um að Guð, samkvæmt skilningi okkar á Guði, hafði allan tímann vitað hvað við vorum að gera og virtist engu að síður annt um okkur. Nú þurftum við að taka þá áhættu að opinbera þennan hræðilega sannleika um okkur sjálf fyrir annarri manneskju og að horfast í augu við nákvæmt eðli þeirra vandamála sem höfðu fyllt okkur svo mikilli skömm, sektarkennd og eftirsjá. Þótt tilhugsunin væri ógnvekjandi þurftum við að gera þetta ef við ætluðum að skuldbinda okkur til þess að snúa af einlægni frá hegðun okkar sem hafði einkennst af fíkn og þeim undirliggjandi hvötum sem héldu henni gangandi.
Hvernig áttum við að velja manneskjuna sem myndi stíga þetta spor með okkur? Sumum okkar þótti auðveldara að deila sögu sinni í bútum með nokkrum aðilum en flest höfðum við þörf fyrir að vera algjörlega heiðarleg með allan fjórða spors listann við eina manneskju. Hjá mörgum okkar var það hluti af fíknimynstrinu að vera aðeins heiðarleg við fólk að hluta til. Að ná fram algjörum heiðarleika við eina manneskju var mikilvægt skref í átt til auðmýktar. Enn mikilvægara var að með því að segja loksins allt gátum við leyst upp þann hræðilega einmanaleika sem hafði alltaf komið í veg fyrir það sem við þráðum – óskilyrta ást og samþykki á þeirri raunverulegu manneskju sem við höfðum að geyma, með sínar góðu og slæmu hliðar.
Trúnaðarmaðurinn var stundum félagi með mikla reynslu í SLAA. Stundum völdum við að tala við meðferðaraðila eða einhvern úr nálægum trúarsöfnuði. Það mikilvægasta var að sú manneskja sem við völdum héldi uppljóstrunum okkar algjörlega fyrir sig og skildi að við vorum hvorki að leita eftir siðferðilegum dómum né því að fá að skrifta. Viðkomandi þurfti að hafa góðan skilning á eðli mannsins og góða tilfinningu fyrir jafnvægi, ásamt stjórn á kynlífi og rómantík í eigin lífi.
Það þurfti að gera tvenns konar varúðarráðstafanir. Játningar byggja upp nánd og heilbrigð nánd er mikilvægt skref í átt að því að verða heil. Við þurftum samt að vera á verði gagnvart tilfinningalegri hrifningu. Við þurftum að velja einhvern sem við löðuðumst ekki að kynferðislega. Það þýddi að þetta mátti ekki vera elskhugi eða maki, hvorki fyrrverandi né einhver sem gæti orðið það í framtíðinni. Einnig urðum við að hafa í huga að jafnvel þótt það væri freistandi að reyna að fá fyrirgefningu frá þeim sem við höfðum sært með því að demba „fimmta sporinu“ yfir þau, þá var ekki markmið þessa spors að bæta fyrir brot okkar og ekki mátti nota það í þeim dulda tilgangi.
Hin varúðarráðstöfunin var sú að ekki mátti rugla fimmta sporinu saman við „djarfa“ frásögn af öllu ósiðlegu sem hafði gerst í lífinu eða rugla því saman við meðferð til þess að finna „orsakir“ allra andlegu truflananna. Við máttum ekki hika við að afhjúpa hvert það smáatriði sem skipti máli en það var sjálft hvatakerfið innra með okkur sjálfum, „umbunin“ sem við vorum að kreista fram, sem varð að komast út í dagsljósið. Þótt hvorki væri viðeigandi að kenna uppvaxtarárunum né sjálfum okkur alfarið um hegðunina sem ástar- og kynlífsfíklar, þá urðum við að axla einhverja ábyrgð. Við urðum að forðast að fela hinar raunverulegu hvatir og reyna að fegra hlutina með réttlætingum og ásökunum.
Líf okkar hafði verið öðrum lokað árum saman og þessi fyrsta reynsla af því að deila sjálfum okkur í heiðarleika með annarri manneskju tók stundum sinn toll af líkamlegu ástandi okkar. Sumir fengu mígreniköst, aðrir urðu hreinlega örmagna og svimaði eftir átökin. Það að fletta svona ofan af sjálfum sér var einfaldlega svo andstætt eðli okkar! Hjá sumum birtust jákvæðu áhrifin, sem við fundum öll fyrr eða síðar, nærri því samstundis. Þegar þessir félagar losuðu um sjálfskapaðar spennitreyjurnar fundu þau ekki aðeins létti heldur líka tilfinningalega hvíld. Án tillits til viðbragðanna við þessari fyrstu reynslu af að deila sjálfum okkur svo ítarlega með annarri manneskju fundum við öll með tímanum að við höfðum lokið nýjum áfanga á bataleiðinni. Við gátum staðið hnarreist í baki gagnvart öðrum og varnarleysið gaf okkur lykilinn að óskilyrtu samþykki annarra. Við þurftum ekki lengur að lifa ófrjálsu lífi og gátum verið heilsteypt gagnvart öðrum.
Við vorum nú komin vel á veg með að breyta lífsmynstri okkar. Við það að láta af fíknihegðuninni fórum við að finna fyrir votti af trú. Undir vernd þessarar nýtilkomnu trúar neyddum við okkur til þess að horfast í augu við okkur sjálf og grófum í því ferli upp ýmis mynstur sem við höfðum óafvitandi lifað eftir. Við höfðum verið drifin áfram af tilhlökkuninni fyrir því að deila uppgötvunum okkar með annarri manneskju. Nú höfðum við tekið áhættuna, stigið þetta spor og lifað það af.
Þá kom annað vandamál í ljós. Við uppgötvuðum að jafnvel þótt við hefðum öðlast nýja sýn á okkur sjálf og værum farin að aðhyllast leiðsögn Guðs í lífi okkar þá héldum við engu að síður áfram að lifa sjálfseyðileggjandi og niðurbrjótandi lífi á mörgum sviðum, oft nákvæmlega þeim sömu og fjórða spors listinn hafði leitt í ljós að voru okkur erfið. Það lék enginn vafi á að misræmi var á milli þess sem við höfðum uppgötvað að væri til góðs og þess hvernig við lifðum lífinu í raun og veru.
Við höfðum auðvitað verið bjartsýn á að hluti uppskerunnar af því að deila fjórða spors listanum með öðrum yrði sá að öll okkar vandamál og skapgerðarbrestir mundu hverfa. En smám saman kom það í ljós að við vorum enn að burðast með „gamla kunningja“ þrátt fyrir heiðarlega tilraun til þess að átta okkur á þeim. Þetta leiddi til þess að við fórum að missa kjarkinn. Það var ergilegt að þurfa að horfast í augu við að það var ekki sami hluturinn að átta sig á skapgerðarbrestunum og að losna við þá. Þessi klemma leiddi okkur að sjötta sporinu.
