Við vorum þess albúin að láta Guð fjarlægja alla skapgerðarbrestina.
Að gefa upp á bátinn hvaðeina það í persónuleika okkar sem breytingaferlið krafðist var aðeins fjarlæg hugmynd í öðru og þriðja sporinu. Nú horfðumst við í augu við hvað það þýddi í raun og veru. Það var hægara sagt en gert að sleppa tökunum af skapgerðarbrestunum sem komu í ljós í fjórða sporinu. Hvað var það sem kom í veg fyrir fúsleikann?
Eitt vandamálið var hve auðveldlega við upplifðum „skort“ á ný. Höfðum við ekki gefið nóg frá okkur þegar við hættum allri botnhegðuninni? Var ekki raunverulega vandamálið okkar virk fíkn? Nú þegar við lifðum í batanum, áttum við þá ekki rétt á því að slaka á, „vera mannleg“ og komast í gegnum lífið án sektarkenndar? Vorum við ekki allavega í betri málum en flestir í kringum okkur? Þurftum við að vera fullkomin til þess að vera frambærileg? Hvern í ósköpunum langaði til þess að verða dýrlingur?
Við notuðum þetta viðhorf til ýmissa réttlætinga, en nú þurftum við að muna að við stóðum á krossgötum og næstu skref gætu ráðið úrslitum í batanum. Í fyrstu fimm sporunum fjarlægðumst við virkan sjúkdóm og nú þurftum við að taka fyrsta sporið í átt að enduruppbyggingu. Það var rétt að ekki þurfti að endurgera hvern einasta þátt af persónuleika okkar en augljóslega var sjálfum okkur ekki treystandi til þess að stjórna verkefninu í eigin vilja einvörðungu. Brenglaðar hvatir okkar, sem voru iðulega faldar undir yfirborðinu, gátu allt of auðveldlega nýtt eiginleika sem voru skaðlausir hjá öðrum í fíknihegðun hjá okkur.
Enn einu sinni þurftum við að glíma við auðmýktina. Það hefðu verið alvarleg mistök að kenna fíkninni um alla erfiðleikana því skapgerðarbrestirnir höfðu einnig áhrif á alla aðra þætti lífs okkar. Þetta var ekki rétti tíminn til þess að slaka á. Við þurftum að halda vöku okkar gagnvart stöðugum freistingum í kynlífi og rómantík og tálsýninni um „hið fullkomna ástarævintýri“. Með því að verða þess albúin að láta af skapgerðarbrestunum vorum við að taka þá ákvörðun að sleppa tökunum af þeim hluta af sjálfum okkur sem kunni að „búa til lygarnar“, verkfærin sem við notuðum til þess að laða að okkur elskhuga eða draga fólk á tálar. Að gefa skapgerðarbrestina upp á bátinn þýddi ekki aðeins að við höfðum ekki lengur veiðarfærin sem sjúkdómurinn gaf okkur til þess að krækja í aðra heldur einnig að nú áttum við aðeins okkur sjálf til þess að sýna vinum og mögulegum mökum. Sem fíklar vorum við flest undirlögð af óöryggi og tilfinningu þess að vera óæðri. Við vorum dauðhrædd um að ef við gæfum upp á bátinn „lygavefinn“ og skapgerðarbrestina sem studdu við hann þá yrði litið á okkur með fyrirlitningu og við mundum aldrei finna neinn til þess að „elska“ okkur.
Annað vandamál var að við sem fíklar vorum orðin vön sársauka. Oftar en ekki var hann eitt aðaleinkenni rómantískra sambanda okkar og kynlífshegðunar. Sum okkar höfðu jafnvel sett jafnaðarmerki á milli sársauka og ástar, svo að þegar ástin var ekki til staðar gátum við að minnsta kosti huggað okkur með sársaukanum. Hvað var líka eftir af okkur sjálfum eftir að hafa gefist upp, farið í fráhald og gert fjórða spors lista? Máttum við að minnsta kosti ekki eiga sársaukann í friði? Ef við slepptum tökunum af skapgerðarbrestunum (uppsprettu sársaukans), hvað yrði þá eftir af okkur? Áttum við ekkert val um það hver við yrðum eftir allt saman? Svona voru hugsanir okkar orðnar sjúkar.
Það var lúmskur ávinningur af gamla tilfinningamynstrinu sem gerði okkur erfitt fyrir að sleppa því. Mörg okkar voru fórnarlömb tilfinningalegrar vanrækslu á uppvaxtarárunum og höfðu lært að lifa af með því að rækta með okkur hatur, reiði og gremju sem hvata til þess að einangra okkur frá sársauka og ótta. Nú uppgötvuðum við að við vorum orðin skemmd af þessari einhæfu stefnu vantrausts og einangrunar í öllum samböndum, hvort sem þau voru í eðli sínu fjandsamleg eða ekki. Stundum voru öfgarnar orðnar svo miklar að við gátum ekki lengur treyst eða upplifað nánd með neinum, jafnvel fólki sem okkur fannst í batanum vera viljugt til þess að treysta og vinna með okkur.
Við virtumst enn vera ófær um að endurgjalda traustið. Innri hindranir héldu trausti og umhyggju í seilingarfjarlægð. Það var sárt fyrir okkur að sjá þessar hindranir og viðurkenna þær, sérstaklega þar sem við vissum núna að okkur langaði til þess að treysta og taka áhættu með því að deila sjálfum okkur með öðrum. Þetta var þeim mun sársaukafyllra sem við áttuðum okkur betur á að hindranirnar voru innra með okkur og við gátum ekki fundið leið til þess að yfirvinna þær. Það var óttinn við að láta valta yfir okkur annars vegar og hins vegar óttinn við að enda í óumflýjanlegri einangrun sem virtust vera ástæðan.
Þar sem við þurftum að halda áfram að lifa með sjálfum okkur fundum við hvernig stöðugt var erfiðara að þola afleiðingarnar af því að leyfa skapgerðarbrestunum að ráða ferðinni. Reiðin gat skyndilega náð tökum á okkur og magnað upp í okkur óhugnanlega heift, tilfinningasveiflur gátu fyllt okkur örvæntingu eða sjálfsmorðshugleiðingum og þunglyndi gat grafið undan vilja okkar til þess að halda áfram að lifa og eyðilagt von okkar um að eiga yfirhöfuð nokkra framtíð. Við fórum að sjá hversu haldlítil þau rök væru að við værum saklaus og að allt hefði verið sök ástar- og kynlífsfíknarinnar. Við sáum andlega gjaldþrotið sem lá að baki þeirri tilbúnu „auðmýkt“ okkar að vilja ekki vera fullkomin. Okkur varð ljóst að það mundi ekki ganga fyrir okkur að skilgreina nákvæmlega hvað Guð gæti og gæti ekki gert.
Viðhorf okkar gagnvart skapgerðarbrestunum og vandamálunum sem lágu að baki fóru að breytast. Við fengum nýja sýn á alvarlegar afleiðingar í lífi annarra þegar þeir gátu ekki sleppt tökunum. Með auknum þroska áttuðum við okkur á að sambönd blómstruðu frekar þegar við leyfðum okkur að vera mannleg heldur en ofurmannleg. Við fórum að skilja að ástar- og kynlífsfíkn virðist utan frá séð vera sjúkdómur athafna en er í raun og veru afskræming á siðferðilegum gildum innra með okkur. Andlegar hliðar sjúkdómsins voru orðnar okkur augljósar.
Við færðumst nú frá takmarkaðri uppgjöf yfir í það að gefa okkur á vald ævilöngu ferli sem mundi auka hæfni okkar og bæta lífsgæðin. Að baki þessum breyttu viðhorfum var aukið traust til Guðs samkvæmt skilningi okkar á Guði. Svo virtist sem þetta væri nýtt boð um að dýpka samstarfið við Guð. Það eina sem þurfti var að við yrðum tilbúin og opin fyrir því hver niðurstaðan yrði. Náð Guðs mundi gefa okkur frelsi frá byrðum gömlu sjálfsmyndarinnar. Í auðmýkt skildum við að við þurftum einungis að víkja til hliðar fyrir Guði og vera samvinnuþýð og þá myndi vilji Guðs ná fram að ganga í lífi okkar.
