Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust svo framarlega sem það særði engan.
Ferðalagið frá fúsleika yfir í það að gera yfirbót fól í sér ákveðna áhættu, líkt og oft var raunin þegar batinn fól í sér framkvæmdir. Reynslan sýndi að við urðum að fara mjög varlega í að bæta fyrir brot okkar. Þegar við lærðum fyrst um sporin sem nýliðar í SLAA urðu sum okkar óþreyjufull að fá að „bæta fyrir brot sín“, sérstaklega gagnvart elskhugum úr fíknisamböndum. Við sáum okkur sjálf í hillingum fara með stórbrotnar játningar og sýna tilfinningaríka iðrun þegar við vorum í senn að leita að lausn frá sársaukafullri sektarkennd og tækifæri til þess að byrja upp á nýtt með hreinan skjöld. Að hreinsa upp óreiðukenndar og óþægilegar tilfinningar úr fíknisamböndum á þennan hátt myndi þó aðeins „leiða okkur í móðu“ fíknarinnar enn einu sinni. Auðvitað var oft nauðsynlegt að slíta samböndum snemma í fráhaldinu eða finna skjóta lausn á aðstæðum þar sem aðrir áttu í hlut. Í þeim tilfellum var öruggast að skrifa einfalt bréf til viðkomandi. Við þurftum að horfast í augu við ruglingslegar og „tómlegar“ tilfinningar, sem voru gjarnan afleiðingar af fíknisambandi, í samhengi við fráhald en ekki nota þetta spor til þess að stytta okkur leið framhjá þeim á óviðeigandi hátt. Að biðjast fyrirgefningar og bæta fyrir brot okkar, eins og við gerðum í þessu spori, var allt annað en gamla þráin eftir að „lagfæra“ sködduð sambönd. Undirstöðurnar sem við höfðum byggt með sporunum átta voru nauðsynlegar til þess að tryggja að við gætum gert það með réttum ásetningi. Okkur var ókleift að greina samúð frá ástríðu ef við hefðum ekki sett líf okkar í hendur Æðri máttar, unnið rækilega í fjórða spors listunum og leyft Guði að fjarlægja gallana. Án þess skýrleika var augljóslega best að koma ekki nálægt þeim sem höfðu verið hluti af lífi okkar í fíkninni.
Í áttunda sporinu höfðum við grandskoðað öll sambönd okkar og vorum hætt að einblína á það sem aðrir gætu hafa gert okkur. Við vorum einnig búin að horfast í augu við það sem við höfðum gert öðrum. Í sumum tilfellum var auðvelt að sjá hvernig við ættum að bæta fyrir brot okkar milliliðalaust. Við gátum brennt bréf frá fyrrverandi elskhugum sem við gætum annars notað til fjárkúgunar og skilað erfðagripum og eigum til réttra eigenda. Við gátum skrifað bréf til þeirra sem við höfðum skilið eftir úti í kuldanum, í óvissu um hvort og þá hvenær sambandið yrði endurnýjað. Stundum lásum við þessi bréf fyrir aðra SLAA-félaga áður en við sendum þau, en það hjálpaði okkur að koma í veg fyrir alla kynferðislega meiningu og mögulegar ásakanir. Þessi bréf, send án skilyrða eða væntinga um svar, gátu losað viðtakendurna undan óvissu og væntingum í eitt skipti fyrir öll.
Mikilvægustu afsökunarbeiðnirnar voru samt sem áður þær sem þurfti að framkvæma augliti til auglitis við viðkomandi. Þær kröfðust mikils hugrekkis, auðmýktar og undirbúnings. Mikilvægt var að bera ábyrgð á áhrifunum sem þær höfðu í för með sér, alveg eins og gagnvart misgjörðunum sem voru undirrót þeirra. Í þessum tilfellum fundum við sérstaklega hve gott var að ráðfæra sig við aðra SLAA-félaga í fráhaldi nákvæmlega um það hvenær og hvernig við ættum að bera okkur að og undir hvaða kringumstæðum. Þrátt fyrir góðan ásetning gat það gerst að við lentum í aðstæðum þar sem hinn aðilinn virtist staðráðinn í að misskilja tilgang okkar og reyndi að tæla okkur úr lokkandi einmanaleikanum. Við lærðum að í níunda sporinu, eins og á öllum sviðum lífsins, gæfi Guð okkur fúsleikann og innsæið til þess að vita hvaða umhverfi og orð voru viðeigandi. Einnig varð okkur ljóst að Guð talaði oft skýrast í gegnum reynda SLAA-félaga!
Nú skildum við að samviska og reynsla annarra var leiðsögnin sem við þurftum til þess að framkvæma þetta spor á viðeigandi hátt. En meira þurfti til en vel orðaða afsökunarbeiðni. Okkur varð ljóst að margir á áttunda spors listanum lifðu við afskræmdan raunveruleika eftir fortíðina með okkur í fíkninni. Yfirbót okkar gat verið það sem þetta fólk þarfnaðist til þess að átta sig á hlutunum. Algjör viðurkenning okkar á eigin þætti í þessum eyðileggjandi samböndum, ásamt heiðarleika um líf okkar sem ástar- og kynlífsfíklar, gat gefið öðrum nýja sýn á það sem þeim hafði fundist vera sér að kenna. Ef til vill gátum við líka orðið til þess að aðrir fengu skýrari sýn svo þeir gætu losað sig við byrðina af óuppgerðum tilfinningum eftir tímann sem þeir áttu með okkur. Við áttuðum okkur á að það var undir þeim sjálfum komið að draga eigin ályktanir um okkur. Það eina sem við gátum gert var að leiðrétta okkar hlut, viðurkenna mistök okkar og misgjörðir í ljósi fíknisjúkdómsins.
Augljóst var að við þurftum að skoða vandlega hvort það væri yfirhöfuð rétt að reyna að koma inn í líf þessa fólks, stundum eftir langa fjarveru. Eins þurftum við að vega og meta eðli afhjúpunar okkar. Við gátum ekki sett aðra í hættu með því að uppljóstra einhverju sem gæti teflt hugarró þeirra eða núverandi aðstæðum í tvísýnu. Við gátum ekki byggt eigin framfarir á nýjum sárindum annarra. Við þurftum að hafa í huga muninn á því að „koma hlutunum á hreint“ og „jafna metin“.
Ef við vorum enn þjáð af sektarkennd eða tilfinningunni að geta ekki lokið tilteknu máli vegna möguleikans á að valda annarri manneskju nýjum sárindum, þurftum við einfaldlega að sætta okkur við stöðuna. Með því að segja félögum okkar í SLAA frá þessum vandræðum gátum við orðið eins frjáls og hægt var. Stundum var í raun ávinningur af því að geta ekki bætt fyrir brot okkar því þá gleymdum við síður auðmýktinni. Það var erfiðara að halda í hrokafull viðhorf til fólks, jafnt innan sem utan SLAA, á grunni þess hve flekklaust eigið líf og samviska væri, ef við vissum að í myrkustu fortíð okkar voru hlutir sem við gætum aldrei bætt fyrir. Að sumu leyti yrðum við aldrei „algjörlega óflekkuð“.
Varnarleysi okkar gagnvart sumum einstaklingum var stundum langvarandi. Þótt við værum sannarlega tilbúin að verða frjáls undan sársaukanum sem sambönd höfðu valdið okkur þurftum við oft að fara ítrekað í fyrri sporin. Við fundum ekki frelsið og sjálfsvirðinguna af því að bæta fyrir brot okkar fyrr en við vorum algjörlega tilbúin. Bænin var mikilvægur þáttur í ferlinu, sérstaklega til þess að ráða við fíknisambönd sem við vorum enn í. Á hverjum degi báðum við um hjálp Guðs svo að framlag okkar til sambandanna væri samkvæmt vilja Guðs. Við báðum um að losna undan því að vera sjálfhverf svo við gætum heiðarlega og án skilyrða gert það sem mögulegt var til þess að frelsa fólk undan þeirri þjáningu og vonbrigðum sem við höfðum valdið. Umfram allt reyndum við að fylgjast nákvæmlega með sjálfum okkur til þess að valda ekki frekari þjáningu.
Með því að vinna níunda sporið eftir bestu getu lukum við hreingerningu á fortíðinni miðað við núverandi skilning okkar á henni. Við gátum ekki gert þetta fullkomlega enda var ekki til þess ætlast. Eftir því sem fráhaldið varð lengra og meðvitund okkar jókst sáum við fleira sem við gátum gert og betri leiðir til þess að bæta fyrir brot okkar. Með því að fara í gegnum fyrstu níu sporin gáfum við upp á bátinn hugmyndina um að hafa vald yfir ástar- og kynlífsfíkn okkar og öðluðumst í það minnsta undirstöðuatriðin í trú. Við ákváðum að lifa einn dag í einu á grunni þessarar trúar, gerðum sjálfsrannsókn og deildum því sem við uppgötvuðum með öðrum. Við gerðum okkar besta til þess að átta okkur á skapgerðarbrestunum og leyfa Guði að fjarlægja þá. Við bættum fyrir brot okkar gagnvart öðrum eins vel og við gátum.
Við gátum ekki hraðað ferlinu, vegna þess að á hverju augnabliki gátum við ekki verið heiðarlegri við okkur sjálf en við vorum tilbúin til. Fúsleikinn var oft meiri en getan. Þrjóskufullar tilraunir til þess að hraða batanum sýndu okkur stundum á sársaukafullan hátt vangetuna til þess að lækna okkur sjálf. Þetta atriði var í sjálfu sér hluti af batanum og vexti okkar. Hvernig svo sem við ráfuðum um vorum við á bataleiðinni svo fremi sem við fórum ekki í botnhegðun.
Nú fundum við greinilegt frelsi frá fortíðinni! Við vorum laus við stóran hluta af sektarkenndinni vegna misgjörða okkar og skömminni yfir að hafa ekki fylgt innra gildismati. Gildin sem við héldum að væru okkar eigin voru í mörgum tilfellum fengin frá öðrum. Við losuðum okkur við þessi gildi eða umbreyttum þeim svo að við gætum fest rætur og vaxið sem heilbrigðar manneskjur.
Við vorum sannarlega farin að lifa nýju, jákvæðu og blómstrandi lífi. Hvort sem við vorum ein eða í sambandi höfðum við fengið andlegan bata frá ástar- og kynlífsfíkn. Þótt enn væri áríðandi að vera varkár virtist allt val auðveldara. Við fundum meira trúnaðartraust í vaxandi sambandi okkar við Guð og vorum virkir félagar í SLAA-samtökunum. Við nutum þess að vera ein og vorum óhrædd við að vera heiðarleg og hreinskilin við aðra. Við sáum nú og skildum hvað fólst í því að hafa sjálfsvirðingu.
