Vika 10

2. kafli – Byrjun bata og samtök ástar- og kynlífsfíkla – hluti 2


Næstu vikurnar reyndi nokkrum sinnum á þennan „andlega grundvöll“ minn. Eitt sinn var ég á gangi innan um fjölda fólks í um mílufjarlægð frá heimili mínu. Skyndilega leið mér eins og yfirvofandi hætta væri í nánd, áður en ég einu sinni sá hana. Þarna var hún, um það bil tuttugu fetum fyrir framan mig! Adrenalínskotið var svo svæsið að ég hrökk við og hnykkti til höfðinu eins og ég hefði rekið hausinn í. Ég veit ekki hvort hún sá mig. Á eftir leið mér herfilega í heilan dag en ég vissi að þrátt fyrir hversu mjög aðstæðurnar og mín viðbrögð við þeim tóku á þá var andlegt jafnvægi mitt í lagi því ég hefði ekkert aðhafst til að mynda tengsl, ekki einu sinni laumulega.
Nokkrum vikum seinna barst umslag í póstkassann minn. Í því voru haustlauf og umslagið merkt vinnuheimilisfangi Söru. Aftur, meðvitaður um að ég hafði ekki sóst eftir þessari innrás inn á mitt svæði,fór ég með laufin út í almenningsgarð í nágrenninu, dreifði þeim þar og henti umslaginu. Það þýddi ekki að í kjölfarið fyndi ég ekki fyrir þörf  og jafnvægi mitt færi ekki úr skorðum. En það þýddi að gjörðir mínar voru ennþá í samræmi við þá fyrirætlun að falla ekki aftur í fíkn. Þannig var ég að staðfesta skuldbindingu mína um halda fráhaldinu til streitu.
Ég fór norður að hitta eiginkonu mína og barn með tveggja og hálfrar til þriggja vikna millibili. Við Kata stunduðum kynlíf í þessum heimsóknum þrátt fyrir að hvað ég vildi kynferðislega væri mjög ruglingslegt fyrir mér. Að vissu leyti fannst mér að úr því að ég væri nú orðinn „góði strákurinn“ þá ætti ég tilkall til funheitrar kynorku frá henni sem hafði verið mér svo eftirsóknarverð í þráhyggjunni þrátt fyrir að það hefði yfirleitt ekki verið þannig í kynlífi okkar Kötu. Á hinn bóginn, hvernig gat ég verið viss um að sjúkleiki minn snerist bara um fjölda skipta og rómantíska leiki með „öðrum konum“? Gæti hann ekki líka litað hugmyndir mínar um „heilbrigt kynlíf“ með hverjum sem er, ekki síst konunni minni? Meðfram tilfinningunni um að eiga rétt á einhverri umbun innan sambandsins við Kötu vakti líka sú nagandi spurning hvort gildið sem slík umbun hefði fyrir mér væri ekki einmitt líka hluti sjúkleika míns!
Atvik sem sem gerðist um þremur vikum eftir að ég hætti með Söru var þó ljós punktur í tilverunni. Í miðjum ástarleik með Kötu brast ég í óstöðvandi grát og gat tjáð henni angist mína yfir sársaukanum sem ég hafði valdið henni í stjórnleysi mínu. Ekkert þessu líkt hafði áður hent  mig í kynlífi. Ekki með neinni.
Þegar ég hugsaði til Kötu stóð ég alltaf frammi fyrir torræðri tilfinningaflækju sem enn var óleyst ráðgáta um  hvort ég vildi byrja með henni aftur. Ég sagði einfaldlega við sjálfan mig að það væri allt í lagi að vita ekki svarið og að einbeita mér að fráhaldinu og batanum.
Svo illa vildi til að alvarlegar freistingar virtust oft verða á vegi mínum daginn áður en ég hitti Kötu. Ég var enn í tónleikaferðum og var oft í Pennsylvaníu. Tvisvar kom það fyrir, þegar ég ætlaði að aka beint til Kötu úr tónleikaferð að mér bauðst sá heillandi möguleiki að gleyma mér með eldheitum þurfandi aðdáanda. Á einum tónleikum haustið 1976 kom kona sem var heima í helgarfríi að sjá mig spila. Hún reyndist einnig vera „í fríi“ frá erfiðu ástarsambandi. Þetta var snemma í fráhaldi mínu og ég átti ennþá erfitt með að höndla svona freistingar því svo stór hluta af mér langaði enn til að láta undan! Ég fann átakanlega skýrt fyrir þessari innri baráttu. Meira að segja meðan ég var ennþá að spila þá tók ég eftir henni í mannfjöldanum. Hún beið eftir mér að tónleikunum loknum, en ennþá höfðum við ekkert talað saman. Hún kom með mér inn á herbergi og ég skipti um föt fyrir framan hana og lét eins og ekkert væri sjálfsagðara að vera á brókinni einni saman. Ég gerði þetta jafnvel þó á sama tíma öskraði ég á sjálfan mig innra með mér: „Rich, í drottins nafni, hvað heldurðu eiginlega að þú sért að gera!“ Mér þótti það mjög óþægilegt en ég  kom okkur síðan út þaðan og í gönguferð um borgina.
Ég man að ég talaði eitthvað um fíkn mína í „ást“ og kynlíf. Ég veit að ég var að reyna að búa til ytri þröskulda fyrir því að ég svæfi hjá henni. Eftir að hafa gengið um og fengið okkur að borða komum við til baka. Það var löng þögn á meðan við stóðum fyrir framan húsið sem var gististaður minn. Við vorum alein, enginn var á ferðinni. Ég tók utan um hana, kyssti hana snöggt á munninn, faðmaði hana og ýtti henni svo frá mér og sagði: „Ég bara get það ekki,“ allt í sömu andránni. Ég fann hvernig líkami minn bæði langaði í  hana en stífnaði upp á sama tíma. Ég sá hvernig andlit hennar breyttist, hún varð ringluð á svip.  færðist yfir andlit hennar. . Síðan sneri hún sér við og gekk að bílnum sínum. Ég horfði á eftir henni þar sem hún ók í burtu meðan ennþá týrði í  afturljósin. Ég andvarpaði og stundi þungan, fann til og dofnaði,  fann svo meira til og fór svo inn á herbergið mitt og sofnaði.
Næsta dag fór ég á fætur til að hefja langa aksturinn til Kötu. Fyndið, nú sá ég ekki eftir neinu. Ég vissi að ég myndi minnast á þetta við Kötu en ég vissi líka að ég hafði ekki hætt bata mínum og lifði enn opnu og ósundurhólfuðu lífi. Mörgum klukkustundum síðar beygði ég að húsinu þar sem Kata bjó. Ég get ekki lýst léttinum sem ég fann til, ekki aðeins við að sjá hana heldur að vita hversu þakklátur ég var að hafa ekki gengið lengra í kynferðislega ástarleiknum kvöldið áður. Það sem hafði virst svo upplögð himnasending aðeins sólarhring áður virtist nú hafa verið djöfulleg gildra til að fella mig og ná mér til baka í klær fíknarinnar.
Í annarri ferð lenti ég í svipaðri aðstöðu. Í þetta sinn hafði ég í einfeldni minni sent póstkort til konu sem lagði alltaf lykkju á leið sína til að hlusta á mig spila ef ég var á svæðinu. Ég leit á hana sem tryggan aðdáanda. Við höfðum aldrei átt í kynferðislegu sambandi. Þegar ég birtist í stúlknaháskólanum þar sem ég átti að koma fram, hver birtist þá ekki, blönk og visin, nema þunnhærði „aðdáandinn“ minn. Ég hafði þá þegar fundið fyrir kynferðislegum ágangi frá nokkrum nemendum skólans og var því mjög á varðbergi.
Mér hafði verið séð fyrir  mjög góðu herbergi til gistingar, sem ég hafði alveg út af fyrir mig. Því var það svo að þegar vinkona mín, hún Sharon, sagðist vanta gistingu varð mér ljóst að nú væri  úr vöndu að ráða. Aðstæðurnar voru vandræðalegar en ég var harðákveðinn í að sofa einn. Ég vildi ekki einu sinni hleypa henni inn til mín undir þeim tvíræðum formerkjum að „sofa í hinu rúminu“. Ég ákvað að leggja spilin á borðið. Ég fór til nemandans sem var tengiliður minn við skólann og útskýrði fyrir henni að „vinkona“ mín væri komin og spurði hvort hægt væri að útvega henni gistingu um nóttina. Þessi hressa skólastúlka sendi boltann beint aftur til mín. „Ó,“ sagði hún „vinkona þín getur alveg sofið hjá þér. Okkur er alveg sama!“ Ég svaraði um hæl og með áherslu: „Mér er ekki sama.“ Fyrir mér var það ekki til umræðu. Ég sá hvað hún varð hissa á svip. Líklega fannst henni ég vera mesti fýlupoki í heimi, eða í það minnsta algjört fífl. Engu að síður þá var „aðdáanda“ mínum fundinn næturstaður og ég svaf einn.
Ég þurfti að aka til New York daginn eftir á leiðinni til Vermont. Sharon vantaði far til New York svo ég lét það eftir henni. Í hversdagslegri morgunbirtunni spurði ég hana hverjar væntingar hennar hefðu verið með því að ferðast alla þessa leið til að heyra mig spila. Ég var ekkert ógnandi, heldur aðeins forvitinn. Hún viðurkenndi að hafa ætlað sér að búa til eitthvað spennandi. Ég deildi með henni aðstöðu minni og lagði áherslu á meðvitund mína um „ástar“ og kynlífsfíkn og hún sagði mér frá sínum aðstæðum og samskiptum við elskhuga og foreldra. Öll spennan og leyndardómarnir sem höfðu umlukið okkur kvöldið áður hurfu eins og dögg fyrir sólu í raunveruleika þessarar morgunhreinskilni. Ég skildi hana eftir í miðbæ Manhattan og vinkaði bless. Hún virtist hafa komist við af samtalinu og ég var þakklátur fyrir að hafa komið frá þessu óskaddaður og margs vísari. 
Það rann upp fyrir mér að samskonar aðstæður komu reglulega upp og næstum alltaf þegar ég var á leiðinni til Kötu. Mikilvæg regla virtist koma í ljós „Þegar og þar sem ég var veikastur fyrir þá lendi ég í prófraun.“ Heiðarleiki fráhaldsins og sú sjálfsvirðing sem var byrjuð að myndast út frá því var eins og ónæmiskerfi. Það er eðli ónæmiskerfa að virkjast aðeins þegar ráðist er á líkamann , svo árásirnar sjálfar neyða ónæmiskerfið til að styrkjast. Þannig var það í fráhvörfunum frá „ástar“ og kynlífsfíkn. Fráhvörfin voru alls ekkert sældarlíf. Endalaus straumur freistinga og „orkusviða“ sérstaklega þegar mér fannst ég alls ekki fær um að standast þau, neyddi mig til að horfast í augu við dýpt og styrk „ástar“ og kynlífsfíknar minnar og styrkja endalaust staðfestu mína í því að sigrast á henni. Þjáningarfullt ferli? Já, en ekkert annað hefði virkað jafn vel. Ég var að læra og mér var byrjað að batna.