Vika 12

2. kafli – Byrjun bata og samtök ástar- og kynlífsfíkla – hluti 4


Jim sagði frá „fixinu“ sem hann fékk með því að þiggja tott frá frjálsíþróttaþjálfara sínum í menntó og hvernig hann reyndi að halda sambandi gangandi við konu sem hann var alvarlega hrifinn af, á sama tíma og áráttan drekkti honum í klámi og strippbúlluferðum. 
Jill sagði frá óvelkomnum óléttum, mörgum, og vafasömum fóstureyðingum. Hún talaði um raðsambönd við menn sem alltaf voru í hlutverki bjargvættarins. Þrítug endaði hún í hjónabandi með táningi sem skaffaði matarmiða, son og – eftir að hveitibrauðsdagarnir voru liðnir – tilfinningakulda. Hún var ennþá að reyna telja sér trú um að þau ættu saman. 
Sandy, miðaldra kona, talaði um að þvinga bíla út úr elskhugum með því að hóta að segja eiginkonum þeirra frá, og þar fyrir utan, áhuga á ungum drengjum. Fimm árum fyrr hafði minnstu munað að hún svipti sjálfa sig lífi og hafði þá loksins tekist að losa sig við virka fíknarhegðun. 
Við fjögur forum hringinn og ég talaði síðast. Ég reyndi að segja sögu mína í eins miklum smáatriðum og Jim og klára hana alla leið með því að tala um hvernig afleiðingarnar höfðu stöðugt versnað því lengur sem ég var í fíkn.  Ég kom inn á hversu furðulega fráhvörfin höfðu fram til þessa verið gegnsýrð af sársauka og von.
Þessi fyrsti S.L.A.A. fundur stóð í um þrjá klukkutíma og að honum loknu vorum við öll úrvinda. Við ákváðum að hittast aftur mánuði síðar
Eftir að hin voru farin tók ég eftir hversu dauðuppgefinn ég var og dásamlegri, útvíkkandi tilfinningu innra með mér. Ég hristi hausinn fullur af vantrú Síst af öllu hefði hvarflað að mér að ætti nokkurn tímann eftir að tjá mig með þessum hætti. En þrátt fyrir það þá var ég hingað kominn, ekki í neinni fíknarhegðun, heldur raunverulega að sækja í tengsl við aðrar manneskjur til að deila með þeim því sem ég nú vissi um mína eigin fíknina. Ég fann fyrir mikilli hlýju í því að uppgötva, upplifa og eiga eitthvað sameiginlegt með þessum þremur manneskjum sem tengdi okkur saman. Hrærður af djúpu þakklæti og dýpkandi skuldbindingunni sem ég fann gagnvart því sem gerst hafði þetta kvöld, sem sagan átti síðar að sjá sem upphaf Samtaka ástar- og kynlífssfíkla®, fór ég á hnén. „Kæri guð“, sagði ég, „mér hefði aldrei dottið í hug . . . ákveðið,“ (ég andvarpaði þungt, mjög þungt). „Ok, kæri guð, ef þetta er í alvöru það sem þú vilt að ég geri, þá er ég til . . . “ Ringlaður af óraunveruleikatilfinningu yfir því að ég, af öllum, myndi lenda í þessari stöðu. Svo fáránlegt virtist það í ljósi fyrri gilda minna og svo framandi út frá hinum nýju. 
Fundir Samtaka ástar- og kynlífsfíkla® héldu áfram í hverjum mánuði. En brátt skynjaði ég að ég virtist vilja þá meira en hin. Það lenti í minn hlut að kalla fólk saman og finna fleiri til að mæta. Á milli funda hékk ég í símanum með Jill, Sandy og Jim að reyna að skapa þá skuldbindingu gagnvart deildinni sem mér fannst nauðsynleg til að viðhalda fráhaldinu. 
Á sama tíma hélt líf mitt áfram að gerast annars staðar. Til dæmist hélt ég áfram að lenda í freistandi aðstæðum sem hefðu getað dregið mig aftur ofan í fen fíknarinnar. Meðal annars einni mjög erfiðri prófraun sem snérist um Söru. Tímasetningin var svo undurfurðuleg að hún hlaut að merkja eitthvað. 
Kata var væntanleg í heimsókn eftir nokkra daga, nokkuð sem ég hlakkaði mjög mikið til. Ég hafði verið mjög passasamur að forðast allar varasamar aðstæður sem hefðu getað leitt til endurnýjaðra kynna við Söru. En sú staðreynd að ég átti von á að hitta Kötu aftur eftir langan tíma gerði mig sérstaklega viðkvæman fyrir óvæntum hittingi, „tilviljun” sem ég var þá þegar búinn að lenda í nokkrum sinnum.  
Um morguninn sama dag og Kata ætlaði að koma hringdi síminn og allt í einu var ég staddur í símtali við Nancy, sem leigði með Söru. Ég var í losti. Hún sagðist vera klambra saman sýningu í leikhúsi og þyrfti aðstoð með tónlistina. Myrkrahöfðinginn sjálfur hefði ekki getað kokkað upp meira lokkandi tækifæri! Ekki bara var þetta tækifæri til að fá tónlistarlega viðurkenningu og kitlaði mig þannig sem tónlistarmann, heldur var Nancy líka einstaklega aðlaðandi. Ég gæti þóst taka þetta að mér í þágu framans, en um leið „sýnt” Söru hversu lítið ég þyrfti á henni að halda með því að hrífa meðleigjanda hennar. Magnaðir möguleikar! Þetta tiltekna tækifæri dinglaði freistingunni fyrir framan mig á einstaklega áhrifaríkan hátt. 
Allt fór þetta rann um hugann á einu sekúndubroti. Ég hlustaði á sjálfan mig svara, „ég verð að segja nei takk, þetta hljómar of mikið eins og aftur í sama farið fyrir mig. Ég vona að þú hafir það gott. Vertu sæl.” Ég lagði á. Mér hafði tekist það, kannski ekki mjög kurteislega, en hvað ég fann til!  
Það var heldur ekki allt búið. Síðdegis sama dag, áður en ég sótti Kötu, fór ég á AA fund sem ég hafði ekki komið á í mörg ár. Þangað fór ég til að virða breyttu fundarútínuna mína. Um leið og ég kom inn í stóran fundarsalinn fann ég fyrir spennu, eins og ég hefði gengið inn í „orkusvið”. Skjálfti fór um mig. Sara var á staðnum. Ég vonaði að hún hefði ekki tekið eftir mér. Ég vissi að ef þetta yrði mér of erfitt þá myndi ég yfirgefa svæðið. Mér tókst samt að þola óþægindin.  
Þegar fundinum lauk snéri ég mér að Jack, manni sem vildi svo til að var rétt hjá mér. Þó að mér geðjaðist ekki að honum (hann hafði látið óþægileg orð falla á sársaukafullum lokakaflanum með Söru), mannaði ég mig upp í spjall við hann. Ég man ekki orð af því sem fór á milli okkar, en það var gott að geta beint athyglinni að honum. Meðan við spjölluðum heyrði ég fólk fyrir aftan mig yfirgefa salinn. Ég vonaði að Sara færi líka. Þegar ég loksins sleit samtalinu fimm mínútum (eða frekar fimm árum?) síðar og snéri mér við, þá létti mér afskaplega að sjá að Sara var horfin. 
Tvöfalt kjaftshöggið (símtalið frá Nancy og að sjá Söru) skildi mig eftir í áfalli og utangátta á leið til móts við Kötu. Ég sagði henni hvað hefði gerst fyrr um daginn. Þráin, missirinn og hungrið sveið eins sárt og nokkru sinni síðustu fjóra og hálfan mánuðina. En ég jafnaði mig mun hraðar. Líf mitt var ennþá opið og allt upp á borðum gagnvart Kötu og sjálfum mér. Ég var á lífi og heill. 
Í febrúarbyrjun fannst mér ég tilbúinn til að spyrja Kötu hvort hún vildi byrja aftur með mér. Fyrir því voru margar ástæður. Í fyrsta lagi þá hafði mér tekist að halda mér frá „ástar- og kynlífsfíkninni” í meira en fjóra mánuði. Þannig séð var það ekki langur tími. En það var samt lengsti tími sem ég hafði verið óvirkur í fíkn í fimmtán ár og í fyrsta skipti á ævinni sem ég hafði valið mér það sjálfur!
Í öðru lagi þá höfðu þessir fjórir mánuðir ekki verið neitt sældarbrauð. Í fráhvörfunum hafði reynt látlaust á heiðarleika minn og vilja. Að komast í gegnum það og þangað sem ég var nú kominn hafði leitt mér enn betur í ljós hversu þrálát fíknin var og  hve djúpt hún risti. En skilningur minn á jákvæðum og frelsandi áhrifum fráhvarfa hafði líka vaxið og öðlast dýrmæta innsýn inn í eðli og birtingarmyndir fíknarinnar í lífi mínu.