2. kafli – Byrjun bata og samtök ástar- og kynlífsfíkla – hluti 5
Í þriðja lagi þá var ég kominn yfir það að finnast að einvera væri snauð tilvera og ekkert annað, heldur spjaraði ég mig ágætlega einn. Ég hafði lært að elda góðan mat fyrir sjálfan mig, þvo þvottinn minn, halda heimilinu í lagi. Ég var farinn að sinna allskyns hlutum sem ég hafði áður alltaf reitt mig á aðra um. Ég var farinn að njóta þess að geta séð um mig sjálfur.
Í fjórða lagi var það að vera einn orðið mér mikils virði. Viðtöl hjá sálfræðingi höfðu kennt mér heilmikið um sjálfan mig sem manneskju, ekki bara sem annan aðilann í sambandi. Enn mikilvægara var að ég hafði öðlast sýn á hvernig sú heilbrigða manneskju væri sem ég vildi og gat vaxið upp í að verða.
Í fimmta lagi sóttist ég ekki eftir nýju sambandi við Kötu í örvæntingu þess sem bara verður. Mér þótti magnað að átta mig á því. En það var augljóst út frá því hvernig ég brást við þegar Kata byrjaði að hitta annan mann á meðan við vorum ennþá skilin. Fyrst þegar hún sagði mér frá því fann ég fyrir afbrýðisemi og kvíða. En þær tilfinningar hjöðnuðu fljótt, sem kom á óvart. Ég var svo upptekinn af eigin bata að ég var fullkomlega sáttur við þann möguleika að hún byrjaði með öðrum manni. Ég var meðvitaður um eigin verðleika og að ég var verðugur. Ef Kata myndi eyða ævinni með einhverjum öðrum þá var það ekki endir alls fyrir mig. Ég átti mitt eigið líf og það yrði gott. Sú sannfæring var greinilega svo djúp að ég spurði ekki einu sinni út í hvernig málin stæði með þessum manni. Spurningin hvarflaði einfaldlega ekki að mér.
Í sjötta lagi, með því að sættast við Kötu fannst mér eins og ég yrði að gefa frá mér þetta stórkostlega líf svo ríkt af inni reynslu sem ég var nú farinn að líta á sem hluta daglegrar tilveru. Tilvera mín einn með sjálfum mér hafði verið mér kyrrlát vin íhugunar. Ég vissi að ég myndi sakna þess.
Síðast en ekki síst þá fannst mér að Kata væri óklárað dæmi. Ég gerði mér grein fyrir að sjálfur hafði ég aldrei verið nema stopult til staðar tilfinningalega fyrir samband okkar. Í rauninni vissi ég ekki hvort það gæti gengið eða ekki. Þetta þýddi líka að hvort okkur tækist að endurvekja sambandið yrði ekki mælt með því hvort við værum saman eða ekki. Ef saga mín var höfð í huga þá væri eini mælikvarðinn á það hvort ég væri raunverulega til staðar í sambandinu án truflana frá fíkninni. Ef við myndum byrja aftur saman þá gæti ég núna komist að því hvað við ættum saman og hvað ekki. Ef við ættum ekki saman þá vissi ég að ég gæti kvatt sambandið án eftirsjár og án þess að kveljast yfir því að vita ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga og án sektarkenndar yfir því sem „gæti hafa orðið ef ég hefði bara lagt meira á mig.” Ef eitthvað var á milli mín og Kötu fannst mér að núna hefði ég náð nægum bata til að komast að því. Hvernig það myndi ganga réðist af getu minni til að geta gefið af mér tilfinningalega, ekki bara stundum, heldur alltaf.
Þessi sjö atriði mátti draga saman á einfaldan hátt: Með því að vera einn og fara í gegnum fráhvörf hafði ég í fyrsta sinn á ævinni öðlast sjálfsvirðingu, Hún var mín, guðs gjöf til mín eins og ég var. Ég þurfti ekki lengur á annarri manneskju að halda til að veita mér hana, eða taka hana frá mér.
Kata féllst á ósk mína um að koma aftur. Hún hafði líka verið að meta hlutina upp á nýtt og vildi sjálf sjá hvort við gætum unnið úr okkar málum. Við ákváðum að við myndum stíga það skref í byrjun maí.
Með tvo og hálfan mánuð þangað til þá var í nógu að snúast fyrir mig. Ég þurfti að finna íbúð handa okkur og leysa peningamál og ýmsa praktíska hluti. En stærstu áhyggjuefnin voru: Gat ég haldið mér í fráhaldi og sleppt allri fíknarhegðun með því að flækja mér ekki í neitt kynferðislegt eða tilfinningalegt? Og gæti ég haldið í mitt heilsteypta sjálf? Ég hugsaði og var ekki alveg viss. Hafði ég náð nógu góðum bata?
Ég hélt áfram tilraunum mínum til að styrkja batann með því að reyna stöðugt að finna nýtt fólk í „ástar- og kynlífsfíknar” deildina, S.L.A.A. Áhyggjur mínar vegna þess fóru vaxandi því tveir upphafsfélaganna af fyrsta fundinum voru að láta smám saman að láta sig hverfa. Sá þriðji mætti stopult og hætti svo alveg. Mér tókst að hvetja fáeinar aðrar manneskjur til að mæta, hverra fíknarhegðun mér þótti augljós. En annað hvort sá ég eitthvað rangt eða þeim tókst ekki að átta sig á eigin ástandi, því þetta fólk mætti ekki á nema einn eða tvo fundi.
Eftir því sem gat séð þá hafði enginn annar félagi náð „bata” í S.L.A.A. Það að ég hafði fundið minn botn, gefist upp, farið í gegnum fráhvörf og snúið við blaðinu í fíkn minni skipti harla litlu máli í stóra samhenginu ef aðrir gæti ekki farið í gegnum sama ferli, þó það væri auðvitað mikilvægt fyrir mig persónulega. Þó að tjáning okkar á S.L.A.A. fundum hefði verið nokkrum einstaklingum sannkölluð eldhreinsun þá var öll sú nálgun að líta á áráttukennda kynferðislega og tilfinningalega hegðun sem fíkn ennþá aðeins fræðileg hugmynd nema því aðeins að annað fólk gæti notað þann vegvísi til að öðlast sjálft bata. Samt fannst mér ég styrkjast bæði að skilningi og stöðugleika hegðunar minnar eftir því sem ég sagði öðrum oftar frá reynslu minni, bæði fyrir og eftir batann, jafnvel þó þau væru ekki móttækileg.
Dæmigert var að nýr einstaklingur kæmi á fund í mikilli sálarkreppu, svo sem að „ástar”samband væri að renna út í sandinn. Viðkomandi virtist tengja afskaplega vel við frásagnir um það hvernig fíknin virkar svo lengi sem honum eða henni leið hræðilega út af aðstæðum sínum. Nýliði í þessu ástandi heimfærði oft ýmis önnur atvik úr eigin lífi við það sem var í gangi þá stundina sem mynstur áráttu og þráhyggju. Þegar viðkomandi byrjaði svo að tjá sig þá eðlilega linaðist versti sársaukinn.
En þegar þjáningunni tók að linna þá gleymdi nýliðinn öllum fyrri skiptum sem eitthvað svipað hafði gerst. Þau fóru aftur að útskýra vesenið með óheppni eða röngu vali eða þá að útmála sambandsfélagann sem ómögulega manneskju. Það var sem þau hefðu aldrei litið á þá atburði á nokkurn annan hátt. Oft virtist lífsmynstur sem ég gat ekki betur séð en hefði verið jafn afdrifaríkt og nokkuð sem ég hafði upplifað sjálfur huga horfið sem dögg fyrir sólu úr huga viðkomandi jafnskjótt og þessi síðasta tilvistarkreppa var liðin hjá. Þetta gerðist jafnvel þó S.L.A.A. fundirnir héldu sér alltaf vel við efnið á skýran og skilmerkilegan hátt. Þar með missti deildin aðdráttarafl sitt fyrir nýliðanum sem fannst hún orðinn hreinn viðbjóður. Hann eða hún lét sig svo hverfa, tilbúinn út á galeiðuna aftur og taka annan sjálfseyðileggjandi snúning.
Þegar sá tími nálgaðist að Kata kæmi til mín aftur hrakaði sálarástandi mínu stöðugt. Taugakerfi mitt var komið á háspennustig, en ég lærði að hemja slíkt ástand með hugleiðslu og var þakklátur fyrir það.
Kata og dóttir mín snéru aftur þann 3ðja maí. Ég var skelfilega kvíðinn. Í rúma tvo mánuði hafði ég svipast um eftir annarri íbúð en ekki fundið neitt. Ég vissi að nú reyndi á. Ég var óviss og óöruggur, nákvæmlega þær tilfinningar sem ég hafði alltaf deyft með kynlífi og rómantískri spennu.
Um það leyti sem Kata kom aftur þá hafði ég unnið með manni að nafni Dave í tvo mánuði. Hann var ennþá giftur og virtist þykja innilega vænt um konu sína, en glímdi við mynstur lauslætis sem leiddi hann á klámstaði og út í kynferðislega tilburði með öðrum karlmönnum, sem þannig sagðist hann forðast tilfinningatengslin sem fylgdu kynnum við konur. Hugmyndin var að ná kynferðislegu algleymi án tilfinningaflækja.
Kynhneigð Dave skipti mig engu máli en það gerði áráttuhegðun hans hins vegar. Ég minnist þess þegar við gengum saman í almenningsgarði og ég sagði Dave sögu mína. Hann virtist í góðu jafnvægi í byrjun en í lokin var hann grátandi. Hann tengdi virkilega við söguna mína. Mér þótti það mjög uppörvandi. Kannski væri hér kominn maður sem væri fær um að gefast upp. Við byrjuðum að hittast á tveggja vikna fresti og í um það bil mánuð virtist Dave vera að ná árangri.
Svo kom bakslagið sem ég hafði þá svo oft orðið vitni að. Dave kæmi á S.L.A.A. fundina á leið af einum hittingi yfir á næsta. Frekar en að efla skilning og meðvitund virtist hann nota fundina eingöngu til að hreykja sér og montast. Þegar ég heyrði frásagnir hans af kynferðislega ævintýrinu sem var í gangi þá stundina óskaði ég mér þess stundum að hafa ekki orðið meðvitaður um sjúkdóminn svo ég gæti líka „notið” fróunarblossanna sem voru lífsbrauð þessa manns. Loksins spurði ég hann hvers vegna hann héldi áfram að mæta á fundina. Ég útskýrði að tilgangur fundanna væri að dýpka skilning og meðvitund um fíknina eins hún gæti birst í kynferðislegum og tilfinningalegum þáttum í hans lífi. Ég rifjaði upp tárin sem runnu þegar hann tengdi og augljósa tilfinningalega vanlíðan hans þegar við hittumst fyrst. Ég benti á að sá Dave sem ég sæi nú væri afar ólíkur þeim örvinglaða manni sem ég hafði hitt átta vikum fyrr.
Hann reiddist mjög undir lýsingu minni á honum og hlutverki deildarinnar, rauk svo í burtu og kom ekki aftur. Ég hafði greinilega hrakið hann burt og átti nú engan félaga til að vinna með. Kominn aftur á upphafsreit með kynlífs- og ástarfíknar deildina mína. Ég var sorgbitinn og einmana. Ég vissi að varð að setja mörk gagnvart Dave, en saknaði félagsskaparins frá fyrstu kynnum okkar.
