Vika 14

2. kafli – Byrjun bata og samtök ástar- og kynlífsfíkla – hluti 6


Snemma júlímánaðar var ég á AA hádegisfundi í miðbænum. Eftir fund gekk ég af stað í átt að neðanjarðarlestarstöð tæpan kílómeter frá. Óvænt þá slóst maður í för með mér, Jack, náunginn sem mér hafði mislíkað við á Sörutímabilinu mínu og sá sem ég hafði límt mig á þennan sunnudag nokkrum mánuðum fyrr þegar ég rakst á Söru á AA fundi. Ég hélt göngu minni áfram og Jack lagði sig greinilega í líma við að halda í við mig. Ég spurði hann hvað hann vildi. Ég sagðist hvorki treysta né geðjast að honum – að mér hefði alltaf fundist hann hafa lagt sig fram um gera lítið úr mér á einn eða annan hátt. Hann sagðist alltaf hafa virt mig fyrir að láta ekki mótlæti slá mig út af laginu og blammeringar hans hefðu ekki verið illa meintar. Hann nefndi að fyrir utan þennan sunnudag þá hefði hann ekkert séð mig í langan tíma. Hann vildi vita hvernig mér gengi. Viðmót hans var vingjarnlegt. 
Ég ákvað að setja hann inn í mín mál eins vel og ég gat. Þó ég væri enn að halda reglulegum S.L.A.A. fundum til streitu þá liðu heilu vikurnar án þess að nokkur annar birtist. Dave var horfinn og ég var ansi einmana og beygður. Hver var ég að vera vandfýsinn á með hverjum ég deildi sögu minni? 
Við stóðum utan við innganginn á neðanjarðarlestarstöðinni, hölluðum okkur að steinvegg í þröngum gangvegi sem var rúmlega hálfs metra breiður og ég rakti sögu mína fyrir Jack. Fall mitt með Söru hafði hann sjálfur séð að miklu leyti þó hann hafi ekki skilið samhengið. Ég tengdi það við lífsmynstur mitt og fléttaði önnur sambönd inn í frásögnina til að lýsa því hvernig fíknin virkaði. Sögunni lauk ég á nákvæmri útskýringu á fráhvarfsferlinu, hvers vegna nauðsynlegt var að láta mig hverfa, hvernig mér leið í fráhvörfunum og hvað mér fannst ég nú vera að uppskera. Ég talaði um sjálfræði í kynferðislegum og tilfinningalegum málefnum, frelsi frá því að vera háður annarri manneskju og lausn frá örvæntingunni undir niðri. Ég minntist líka á Samtök ástar- og kynlífsfíkla®, og sagði honum hvar og hvenær fundir væru.  
Þegar ég hafði lokið mér af hafði ég ekki hugmynd um hvað honum fannst. Hann sýndi engin svipbrigði. Hann minntist eitthvað á að hafa farið í gegnum erfitt tímabil með kærustu sinni sem hann hefði verið með lengi, en ég gat ekki lesið hvort orð mín ættu við um þá reynslu og hann gaf ekkert upp. Ég hafði sagt sögu mína fyrst og fremst af því að það virtist styrkja mig og halda mér á tánum. Við skildum kurteislega. 
Næst þegar kom að fundi, mörgum dögum seinna, hringdi dyrabjallan. Það var Jack. Við vorum tveir á fundinum þetta kvöld.
Það reyndist vera svo að Jack hafði slitið þráhyggjusambandi, eða reynt að slíta því. Kærastan var farin að vera með öðrum mönnum. Hann áttaði sig á hversu ofboðslega háður hann verið henni í fjögur á og leitaði sér undankomu með því að fara kynlífsfyllerí. Hann var ófær um að sofa einn og hafði ekki tekist að halda sér frá kærustunni. Hann fann fyrir vanmætti sínum. 
Jack var mjög brugðið yfir því hvað fólst í fráhvörfum, sem ég sagði að þýddi tímabil með algjöru kynferðislegu fráhaldi til að líkamanum gæfist færi á að slaka á (eitthvað sem hann hafði enga trú á að gæti nokkurn tímann gengið). Jack vildi ekki taka neinn þátt í neinu slíku. Hann var gallharður á því að geta ekki sleppt kynlífi. Hann  vissi af hverju hann þurfti kynlíf, það var róandi lyf til milda tilfinningalegar afleiðingar þeirra skelfilegu aðstæðna sem hann var í. Hugmyndin um að hætta komst einfaldlega ekki að í huga hans. Við skildum við málið þar. Ég var sannarlega ekki að reyna þröngva honum til eins eða neins, heldur reyndi ég bara að fá hann til að skoða sýna eigin reynslu og meta stöðuna sjálfur. 
Í rauninni nálgaðist ég Jack ekkert á annan hátt en aðra þá sem ég hafði reynt eitthvað með. Það var þó einn munur á. Jack var áfram hræddur við að sogast inn í martröðina. Þar að auki var raunin sú að þó hann héldi áfram að stunda kynlíf með öðru fólki, oft þannig að hann bjó til eitthvað kynferðislegt fyrir og eftir að hann hitti kærustuna til að skapa tilfinningalega fjarlægð frá henni, þá fékk hann æ minna út úr því að umbreyta tilfinningunum gagnvart kærustunni yfir í kynlíf með öðrum. 
Þegar komið var fram í miðjan September hafði sitthvað markvert og gagnlegt gerst í lífi mínu. Í fyrsta lagi þá höfðum við Kata rekist á alvarlega tilfinningalega þröskulda í endurnýjuðu sambandi okkar. Við rifumst mikið. Sambandið var mjög erfitt. Mér leið ekki eins og mig langaði til að halda því áfram, með allri þeirri reiði sem ég mætti, en samt treysti ég ekki þeim hluta af mér sem vildi slíta því. Hvernig gat ég verið viss um að löngun mín til að stinga af væri ekki runnin undan meiði fíknarinnar? En ef ég þurfti að fara varlega í að treysta löngun minni til að slíta sambandinu, þá átti það ekki síður við um löngun mína til að halda því áfram. Hvernig gat ég vitað hvort löngun mín til að halda því lifandi væri ekki bara enn einn sjúkur kaflinn í sögu minni um að halda áfram stöðugu en ömurlegu þráhyggjusambandi, að þetta væri ekki bara enn eitt dæmið um örvæntingarfulla þrá eftir tilfinningalegu öryggi hvað sem það kostaði? Í hugarvíli mínu reif ég mig oft niður með spurningum sem þessum. 
Fullur af væntingum um hvað ætti að felast í sambandi við Kötu þráði ég í reynsluleysi mínu hlutverk hetjunnar hennar, með kynferðislega alsælu í boði stöðugt og fyrirvaralaust eftir því sem mér þóknaðist. Því miður fyrir fíkilinn minn þá er raunverulegt samband ekki byggt á hugarórum eða hetjudraumum, né á frjálsum og óheftum aðgangi að kynlífi.  Greinilegt var að nú þegar ég var í fyrsta sinn að þreifa fyrir mér um alvöru samband við Kötu þá vissi ég ekkert um hvað það snérist. Mér var að skiljast að það tók jafnmikið á að sættast eins og að slíta sambandi. 
Því var það að í september ákváðum við að fara saman til hjónabandsráðgjafa. Enn einu sinni var ég að leita að svari við vandræðaspurningunni: „Vil ég eða vil ég ekki vera hér?“ Þegar rifrildin voru heiftarlegust fannst mér að allt samband okkar sem spannaði bæði virkan alkóhólisma minn og virka ástar- og kynlífsfíkn mína hlyti að eiga sér of djúpar rætur í sjúkum uppruna og væri svo illa farið að ekki yrði aftur snúið. Ég velti því fyrir mér hvort einhver hluti þess væri heilbrigður. Við vorum svo sliguð af því liðna. Á þessum tíma óraði mig ekki fyrir því að við myndum ná að taka í smáatriðum á öllum meginstefjunum um traust, nánd, skuldbindingu, væntingar, uppeldi, annað barn og viðhorf okkar til kynlífs í endurnýjuðu sambandi okkar eftir því sem við unnum okkur lengra í átt að betri tjáskiptum, skilningi og samvinnu. Með öðrum orðum, í átt til raunverulegs sambands. 

Um þetta leyti byrjaði ég líka í námi sem fól í sér að vera tvær vikur í burtu á heimavist á sex mánaða fresti, ofan á strembið nám á eigin spýtur. Eftir að hafa hætt í skóla í alkóhólísku þokuskýi nokkrum árum áður með heitstrengingum um að koma ekki nálægt skóla aftur, þá var þetta veruleg áskorun. Þannig þurfti ég að takast á við báðar þessar breytingar, tilfinningavandamál okkar Kötu og námið, á sama tíma. 
Skólinn var einstök og mikil reynsla. Skólinn lagði mikið upp úr því að hjálpa nemendum að skipuleggja sjálfstæð rannsóknarverkefni og fylgja þeim eftir. Kynferðislegar og rómantískar freistingar í þessum skóla voru svo svakalegar að mér var nauðugur einn sá kostur að skipuleggja námið út frá hugtakinu ástar- og kynlífsfíkn, að rannsaka fyrirbærið, lesa mér ítarlega til um það sem tengdist því og skrifa það sem ég gat um málefnið. Í hvaða mæli mátti nota líkön um efnamisnotkun um óefnatengda fíkn? Ég vissi þegar svarið hvað varðaði kynlíf og ást (tilfinningalega ánauð), en tækifærið til að rannsaka þetta svið allt á formlegan hátt var mér kærkomið. Hagnýtasti ávinningurinn af því að byrja þessa rannsókn var að óvenjulegt áhugasvið mitt varð almenn vitneskja í skólanum. Orðsporið (gott sem slæmt) sá mér fyrir ytri vörnum gegn því að fara í botnhegðun í skólanum.. Ef ég var að reyna að lýsa ástar- og kynlífsfíkn út frá hrikalegum afleiðingum hennar, með því að nota eigin reynslu sem dæmi, þá væri lítið vit í því að reyna hoppa upp í rúm með einhverjum eða hverfa inn í eitthvað rómantískt ævintýri. Ég gæti allt eins vel hengt mig. Þannig hjálpaði það mér til að vera edrú í skólanum að velja mér ástar- og kynlífsfíkn sem umfjöllunarefni og styrkti mig í því að nýta þetta tækifæri. Ég kom heim aftur endurnærður og fullur af eldmóði. 
Í tveggja vikna fjarveru minni voru engir S.L.A.A. fundir. Greinlega var deildin fjarri því að vera sjálfbær á þessum tíma. Þegar ég kom til baka hafði ég samband við Jack og nokkra aðra og fundirnir hrukku í gang aftur, aðra hverja viku eins og áður. Um þetta leyti virtist Jack loksins vera að ná fyrir horn. Nokkur nýleg atvik utan fylkisins höfðu varpað skýru ljósi á hversu stjórnlaus kynferðisleg tilvera hans var. Hann áttaði sig á að hann vissi ekki hvað fólst í heilbrigðu sambandi sama hver átti í hlut. Hann leigði sér herbergi í nálægum bæ, fékk sér óskráðan síma og hafði langt í næstu stoppistöð. Hann hafði náð botni, var tilbúinn í fráhvörf og myndi ekki hrökkva. 
Mér þótti þetta mjög uppörvandi og það fékk mig til að meta enn betur það sem ég hafði gengið í gegnum. Þegar ég horfði á Jack, þá trúði ég því varla að önnur manneskja myndi leggja það sama á sig. Á vissan hátt trúði ég því naumast sjálfur að ég hefði farið í gegnum fráhvörfin og komist heill í gegn.