3. kafli – Sambúð með ástar- og kynlífsfíkli – hluti 3
Einhverju sinni þegar stutt var í þrítugsafmælið gerði ég upp við mig að draumurinn um barn væri mér nógu dýrmætur til að gera hann að spurningu um af eða á. Rich vildi fresta barneignum út í hið óendanlega. En mér var alveg ljóst að ég var ekki reiðubúin að fórna draumnum um fjölskyldu á altari hjónabandsins.
Jafnvel þótt ég gæti fengið sjálfa mig til að fresta barneignum um eitt árið enn þá myndi beiskjan út í Rich fyrir að standa í vegi fyrir því sem skipti mig svona miklu máli á endanum grafa undan og eyðileggja hjónabandið. Rich skildi að mér var alvara. Frekar en að missa mig lét hann undan. Hann naut þess fram í fingurgóma þegar við vorum að reyna að búa til barn enda stunduðum við mikið kynlíf á meðan á því stóð. Eftir tveggja mánaða tilraunir varð ég ólétt og sveif um á bleiku skýi. Mér fannst Rich vera sáttur og var viss um að óléttan og síðan barnið myndu tengja okkur betur saman.
Í kjölfarið réttlætti ég hvert rifrildi með því hvað Rich væri viðkvæmur vegna sligandi ábyrgðarkenndarinnar út af föðurhlutverkinu sem í vændum var. En eftir því sem leið á meðgönguna og kviður minn þykknaði fann ég vaxandi þörf fyrir staðfestingu á því að Rich elskaði mig og væri tilbúinn að axla ábyrgðina með mér. En í staðinn fannst mér hann fjarlægjast og verða uppteknari af sjálfum sér. Hann kom seint heim á kvöldin og talaði um hvað hann þyrfti mikið á AA að halda. Enn einu sinni fékk ég á tilfinninguna að eitthvað amaði að og í þetta skipti lét undirmeðvitundin mig ekki í friði. Eina nóttina fékk ég hræðilega martröð um að Rich væri gagntekinn af annarri konu sem hann væri byrjaður með og ætlaði að yfirgefa mig. Martröðin var svo raunveruleg og kom mér svo úr jafnvægi að ég hágrét og sagði honum frá henni daginn eftir. Ég fékk mig ekki til að trúa því að Rich gæti nokkurn tímann elskað aðra konu nógu mikið til að yfirgefa mig í alvöru, sérstaklega eftir allar þær raunir sem við höfðum gengið í gegnum. Hann var trúr venju og aftók með öllu að minnsti fótur væri fyrir martröðinni. Sjálf reyndi ég að kenna meðfæddu óöryggi mínu og tortryggni um drauminn og afgreiða hann þannig. Samt er ég einmitt alls ekki tortryggin að eðlisfari og sannfærðist á skammri stundu um að ekki væri neitt tilefni til grunsemda.
Við sóttum námskeið um fæðingar. Fyrsta kvöldið sáum við mynd um par sem bæði tóku virkan þátt í fæðingunni á eins jafnan hátt og mögulegt var. Kærleikur parsins og gagnkvæmur stuðningur þeirra var í hrópandi andstöðu við brothætt og sífellt sársaukafyllra sambandið okkar. Þetta var of mikið fyrir Rich. Hann efaðist um geta setið með mér námskeiðið á enda. Kvöldið eftir brast stíflan. Rich sagðist vilja skilnað. Það stakk mig nógu sárt til að ég sagði já, en heimtaði að fá fyrst að vita hvort önnur kona væri í spilinu. Hann sagðist síðustu fimm mánuðina hafa verið heltekin af annarri konu sem hann hefði verið í sambandi við. Tvöfeldnin væri orðin honum ofviða, geðheilsan væri í húfu og hann megnaði ekki að slíta sambandinu við hina konuna. Allt í senn þyrmdi yfir mig, mér varð yfirmáta létt og ég varð hrikalega reið. Ósegjanlega létt að ég væri ekki að missa vitið heldur væri skýring á hegðun hans. Ef hann vildi skilja þá væri það þó alla vega ekki út af því að hann þyldi ekki mig eða ófætt barnið okkar. Falin daðurdrós hefði fjötrað hann í álög úr fylgsni sínu. Síðan helltist ofsafengin reiðin yfir mig. Ég æpti og öskraði í von um að slá á sárasta sviðann sem svikin ollu. Einhver hluti af mér fannst að ef ég gæti tapað mér í hamslausri reiði og trúað á illsku hans og samkenndarleysi þá fengi ég einhvers konar lausn frá sársaukanum sem fylgir því að missa elskaðan ástvin.
Skáld eitt fangaði líðan mína í fáeinum orðum:
„Afbrýðisemi er ekki endilega bara ómerkileg og eigingjörn þrá eftir því að eiga einhvern fyrir sig einan, ekki bara eigingjörn andstaða við því að deila því sem þú átt. Hún er angist hins örvinglaða. Samlífið með hinum elskaða sem þú hélst að væri þinn er brostið. Gullið festarband ástarinnar liggur slitið fyrir fótum þér. Þú ert yfirbuguð af ótta sem brennur af heitri þrá eftir heilun og örvæntingu vegna svikanna“.
Eftir að blekkingarvefur Rich raknaði í sundur greip okkur bæði áköf löngun til að leggja spilin á borðið. Loksins hafði opnast sprunga í þéttan og þykkan múrinn milli okkar og tími kominn til að rífa hann niður. Við ráfuðum um og ræddum saman fram á rauða nótt uns dagur rann. Rich sagði í smáatriðum frá öllu framhjáhaldsbrölti sínu og síðasta virka hliðarsambandinu. Ég var dofin, eins og fyrsta reiðarslagið hefði gert mig ónæma fyrir meiri sársauka. Í staðinn kviknaði sjúkleg forvitni og ég hlustaði eins og á ókunnugan mann úti á götu.
Á sinn hátt þótti mér undirferlið og flækjurnar heillandi, um leið og ég reyndi að púsla brotunum úr moluðu sambandinu okkar saman í nýja samstæða mynd. Ég tók eftir því að ég gerði stöðugt greinarmun á milli þess sem var „hann“ og þess sem var „við“ því mér var jafn ómögulegt að blanda þessu tvennu saman eins og olíu og vatni. Ég velti því fyrir mér hvort ég hefði nokkurn tímann þekkt þennan mann sem stóð fyrir framan mig. Ég dró allar innilegustu stundir okkar í efa. Hvort hafði hann raunverulega verið með mér eða í faðmi annarrar konu í huganum. Rich hjálpaði mér með því að telja upp skiptin sem hann upplifði nándina með mér eða verið með hugann annars staðar. Við það sá ég erfiðustu rifrildin okkar í nýju ljósi. Næstum undantekningarlaust gerðust þau þegar Rich var órótt út af nýju sambandi. Tvö skæðustu, nánast ofbeldisfullu rifrildin, urðu þegar við vorum á ferðalagi. Í ljósi nýfenginnar vitneskju blasti við að í þau skipti var ég saklaust fórnarlamb spennu og kvíða Rich út af öðru sambandi.
Kynlíf mitt var alltaf ósköp blátt áfram og feluleikjalaust. Þess vegna vakti það furðu mína þegar Rich fór að tala um „kynferðislegar inneignarnótur“ og útsendinga á „til í tuskið“ skilaboðum. Mér gekk illa að skilja hvað hann átti við. Í einfeldni minni hafði ekki hvarflað að mér að aðrir en vændiskonur og karlhórur stæðu í slíku. Hvaða fólk var það sem var á meðal okkar hinna, hvarf í fjöldann, lifði „venjulegu“ lífi, en sendi frá sér og meðtók öll þessi kynferðislegu skilaboð? Mér varð óglatt af tilhugsuninni um hversu margar fúsar og þurfandi konur væru til í leikinn og hversu lítið mál þeim virtist þykja að vera með og leika sér með giftum karlmönnum. Raunar höfðu tvær kvennanna sem Rich taldi upp verið góðar vinkonur mínar, en flutt burt. Af og til tempraði Rich frásagnargleðina af tillitssemi við sálarástand mitt. Ég skynjaði ekki lengur sársaukaþröskuld minn og vissi þess vegna ekki alltaf hvort frásögnin fór yfir þolmörkin. Stundum, ef það kom fyrir, þá gat ég á einhvern hátt aftengt mig og látið mig hverfa. Ég hafði enga hugmynd um hvers konar samband gæti hugsanlega lifað af þvílíka hreinsun. En ég vissi að hvað sem öðru liði og hvað sem það hefði í för með sér þá myndum við héðan í frá ekki víkja aftur út af hinum mjóa vegi heiðarleikans í garð hvors annars.
Ég ákvað að fara ekki frá Rich fyrr en barnið væri fætt en þá myndi ég flytja til systur minnar og fjölskyldu hennar. Rich samþykkti þetta. Og nú virtist hann loksins getað tekið væntanlegu barni opnum örmum, sem var heldur hláleg mótsögn við tilfinningarnar sem hann hafði lagt í nýjasta ástarævintýrið. Hann sagðist ekki geta hætt að hitta Söru og myndi halda því áfram þann tíma sem við værum ennþá saman. Eftir að hafa heyrt sögu hans skildi ég að það var rétt og eina leiðin til að hann gæti losnað úr flækjunni með Söru væri að leyfa sambandinu við hana að þróast alla leið til enda. Ég setti honum fáeinar leikreglur sem mér tókst að slæða upp úr slitrunum af sjálfsvirðingunni og hann samþykkti þær.
Nú tóku við tveir skelfilegir mánuðir meðan við biðum eftir barninu. Þegar við gerðum samkomulagið var ég orðin svo framsett að ég var viss um von væri á barninu að minnst kosti mánuði fyrir tímann og þóttist geta þolað hvað sem væri í fjórar vikur. Foreldrar mínir voru hneykslaðir og reiðir og áttu von á að ég tæki af skarið með skilnað. Systur mínar, bræður og nokkrir nánir vinir voru líka mjög reið, en slepptu því þó að kveða upp dóma svo mér gæfist svigrúm til að sjá hvað ég vildi sjálf. Ég eyddi miklu púðri í að skilgreina hegðun Rich sem taugaveiklun og áráttuhegðun til þess að hann yrði síður siðferðislega fordæmdur.
Félagsskapur okkar er fjölbreyttur hópur einstaklinga úr ólíkum áttum félagslega sem efnahagslega og af mismunandi kynþáttum og þjóðerni. Við spönnum líka alla breiddina horft út frá kynhneigð og því hvernig kynlífi við sækjumst eftir. En við höfum komist að raun um þá yndislegu staðreynd að ástar- og kynlífsfíknin eins hún birtist í þeirri persónulegu reynslu sem við deilum með hvert öðru er sameiningarband sem gerir að engu þá aðgreiningu vegna mismunandi kynhneigðar og kynferðislegra langana sem svo oft skapar gjá á milli fólks utan S.L.A.A.Um batann og hvernig hann birtist gætum við bætt að minnsta kosti jafn miklu við um hvert og eitt dæmi um hann í S.L.A.A. og hér hefur þegar verið sagt. Lítum á nokkur atriði, úr minni sögu og annarra. Í fyrsta lagi þá hef ég ekki dregist út í fíknarhegðun síðan batinn byrjaði, sem nú er farinn að telja nokkur ár. Í því felst að þessi ár hef ég verið algjörlega laus við botnhegðun í kynferðislegri og tilfinningalegri áráttu og þráhyggju. Fráhaldið þýddi oft mikla áreynslu og vaxtarverki, en þess á milli átti ég þægilegri kafla. Um það get ég aðeins talað um sem „kraftaverk“ í ljósi sögu minnar sem fíkils.
Að lýsa heilbrigðu sambandi fyrir fíkli sem er enn á valdi fíknarinnar er eins og lýsa litum fyrir blindum manni. En þó að ég hafi á sínum tíma engan veginn getað gert mér í hugarlund hvað í því fælist þá er heilbrigt samband orðinn órjúfanlegur hluti af mínu lífi í dag. Ég er ennþá giftur. Raunar eigum við Kata nú liðlega átta ára samband að baki síðan við ákváðum að taka upp þráðinn aftur og láta reyna á hvað við ættum með hvort öðru. Í dag þá eigum við skuldbindingu, traust og samvinnu, við deilum með hvort öðru og við eigum (ég þori að segja það) ást svo langt umfram það sem ég hefði getað látið mig dreyma um. Nú höfum við getuna til að lifa, vinna, leika okkur og þroskast saman. Mig óraði ekki fyrir því öll árin í fíknarkvalræðinu að ég ætti eftir að verða sáttur í hjúskap; en það er ég þó. Svarið við þessari gömlu spurningu „vil ég raunverulega vera hér?“ liggur nú ljóst fyrir.
Að greiða úr kynferðislegum og tilfinningalegum flækjum hefur tekið okkur bæði langan tíma, það hefur verið erfitt og oft niðurdrepandi. En sú vinna hefur skilað okkur miklum skilningi, auknu trausti og getunni til þess að upplifa raunverulega nánd hvort með öðru. Í tvígang höfum við sótt okkur aðstoð ráðgjafa um talsvert skeið til að koma málum upp á borðið á uppbyggilegan hátt í stað niðurrifs. Mér hefur þótt samband okkar gefandi, líka á erfiðu tímabilunum.
Við erum búin að eignast annar barn síðan við byrjuðum aftur saman og það hefur reynt mjög á okkur. Kannski er það kaldhæðnislegt en þrátt fyrir einbeittan ásetning um að giftast aldrei né eignast börn þá finnst mér, að í fráhaldi frá fíkninni standi ég mig sem eiginmaður og faðir (félagi og foreldri). Ég er ekki lengur undir harðstjórnarvaldi gömlu hugmyndanna um hlutverk eiginmanna og foreldra. Mér hefur lærst sjá og meta mína eigin getu. Börnin elska mig og óttast mig ekki.
Áskoranirnar og erfiðleikarnir sem fylgja því að byrja og viðhalda sambandi er nokkuð sem við tökumst æ oftar á við í samfélagi S.L.A.A. Að gera það andlega heilbrigð er nýtt fyrir okkur öll, frumherjana í S.L.A.A. Þau okkar sem hafa gengið í hjónaband hefur tekist að halda sig frá fíkninni. Við höfum ekki þurft að flýja það alvöru álag sem því fylgir með því að verða „ástfangin“ af einhverjum öðrum, eða sækja í kynferðislegt algleymi. Önnur hafa kosið sér að vera ein í langan tíma, lengur en fráhvörfin ein og sér kalla á, vegna þeirra innri auðlegðar sem við eignumst ein með sjálfum okkur.
Í öllum tilvikum þá hafa fráhvörfin gefið okkur djúpan skilning sem ekki hverfur frá okkur á verðleikum okkar sem manneskjur. Að skynja það innanfrá gefur okkur frelsi frá því að reyna að kreista það út úr öðrum, sem gengur hvort eð er aldrei upp.
Hvað sjálfan mig varðar þá hafa forsendur sambanda við aðra tekið algerum stakkaskiptum. Samskipti mín við aðra karlmenn voru áður lituð af tortryggni og samkeppni. Í virkri fíkn þá gekk ég út frá því aðrir sæktust yfirleitt líka eftir „ást“ og kynlífi. Því voru aðrir af sama kyni mögulegir mótherjar. Ennfremur sá ég þær sem ástríður mínar beindust að hverju sinni eingöngu út frá því hversu vel þær gátu svalað mínum þörfum. Hversu vel þær gátu það skilgreindi þær algjörlega. Þær voru tæki, ekki manneskjur.
Nú þegar ég er orðinn edrú í S.L.A.A er ég þess að aðnjótandi að hlusta á aðrar manneskjur af öllum kynjum og kynhneigðum tjá sig af dýpt og einlægni. Reynslan af fíkninni er sá þráður sem tengir okkur saman í SLAA og er svo miklu sterkari en mismunurinn vegna kynferðis og kynhneigðar sem aðskilur á meðal “venjulega” fólksins. Þegar við horfumst í augu við hana og skiljum þá verður sú reynsla sameiginlegur grundvöllur að nýju ævintýri sem snertir okkur djúpt, leitinni að tilgangi mannsandans. Líf okkar öðlast nýjan tilgang. Sum okkar leita inn á nýjan starfsvettvang gjörólíkan öllu því sem okkur hefði áður getað komið til hugar. Hinn nýi heilsteypti innri kjarni og sú mannlega reisn sem okkur hefur áskotnast er orðin sú mælistika sem við leggjum á það sem við tökumst á hendur. Okkur þykir eftirsóknarvert að víkka út sjálfsskilning okkar og leitumst eftir því á öllum sviðum lífs okkar að efla hann. Ekkert minna er nóg fyrir okkur.
Þessi mynd af hinum ýmsu hliðum bataferlisins er óhjákvæmilega takmörkuð og nokkuð handahófskennd. Látum nægja þau orð að við vonum að önnur sem föst hafa verið í klóm fíknarmynsturs svipuðu því sem hélt okkur í heljargreipum megi finna í frásögninni von um breytingar og hvatningu til að hafa samband við okkur og hefja sína eigin batagöngu. Ef þú ert eins og við ertu hugsanlega rétt í þann veginn að upplifa magnaða lífsreynslu og heilun. Megir þú þá þiggja með okkur náð guðs og endurlausn eins og við þekkjum hana í S.L.A.A. Við viljum fá þig með og þörfnumst þín.
Um þetta leyti byrjaði ég líka í námi sem fól í sér að vera tvær vikur í burtu á heimavist á sex mánaða fresti, ofan á strembið nám á eigin spýtur. Eftir að hafa hætt í skóla í alkóhólísku þokuskýi nokkrum árum áður með heitstrengingum um að koma ekki nálægt skóla aftur, þá var þetta veruleg áskorun. Þannig þurfti ég að takast á við báðar þessar breytingar, tilfinningavandamál okkar Kötu og námið, á sama tíma.
Skólinn var einstök og mikil reynsla. Skólinn lagði mikið upp úr því að hjálpa nemendum að skipuleggja sjálfstæð rannsóknarverkefni og fylgja þeim eftir. Kynferðislegar og rómantískar freistingar í þessum skóla voru svo svakalegar að mér var nauðugur einn sá kostur að skipuleggja námið út frá hugtakinu ástar- og kynlífsfíkn, að rannsaka fyrirbærið, lesa mér ítarlega til um það sem tengdist því og skrifa það sem ég gat um málefnið. Í hvaða mæli mátti nota líkön um efnamisnotkun um óefnatengda fíkn? Ég vissi þegar svarið hvað varðaði kynlíf og ást (tilfinningalega ánauð), en tækifærið til að rannsaka þetta svið allt á formlegan hátt var mér kærkomið. Hagnýtasti ávinningurinn af því að byrja þessa rannsókn var að óvenjulegt áhugasvið mitt varð almenn vitneskja í skólanum. Orðsporið (gott sem slæmt) sá mér fyrir ytri vörnum gegn því að fara í botnhegðun í skólanum.. Ef ég var að reyna að lýsa ástar- og kynlífsfíkn út frá hrikalegum afleiðingum hennar, með því að nota eigin reynslu sem dæmi, þá væri lítið vit í því að reyna hoppa upp í rúm með einhverjum eða hverfa inn í eitthvað rómantískt ævintýri. Ég gæti allt eins vel hengt mig. Þannig hjálpaði það mér til að vera edrú í skólanum að velja mér ástar- og kynlífsfíkn sem umfjöllunarefni og styrkti mig í því að nýta þetta tækifæri. Ég kom heim aftur endurnærður og fullur af eldmóði.
Í tveggja vikna fjarveru minni voru engir S.L.A.A. fundir. Greinlega var deildin fjarri því að vera sjálfbær á þessum tíma. Þegar ég kom til baka hafði ég samband við Jack og nokkra aðra og fundirnir hrukku í gang aftur, aðra hverja viku eins og áður. Um þetta leyti virtist Jack loksins vera að ná fyrir horn. Nokkur nýleg atvik utan fylkisins höfðu varpað skýru ljósi á hversu stjórnlaus kynferðisleg tilvera hans var. Hann áttaði sig á að hann vissi ekki hvað fólst í heilbrigðu sambandi sama hver átti í hlut. Hann leigði sér herbergi í nálægum bæ, fékk sér óskráðan síma og hafði langt í næstu stoppistöð. Hann hafði náð botni, var tilbúinn í fráhvörf og myndi ekki hrökkva.
Mér þótti þetta mjög uppörvandi og það fékk mig til að meta enn betur það sem ég hafði gengið í gegnum. Þegar ég horfði á Jack, þá trúði ég því varla að önnur manneskja myndi leggja það sama á sig. Á vissan hátt trúði ég því naumast sjálfur að ég hefði farið í gegnum fráhvörfin og komist heill í gegn.
