Vika 19

3. kafli – Sambúð með ástar- og kynlífsfíkli – hluti 4


Mánuðirnir tveir voru rússíbanareið upp á hvern dag. Ég leitaði sitt á hvað í hlutverk „fórnarlambsins“, „skilningsríku eiginkonunnar“ eða „hefndarþyrstu tæfunnar“. Tilfinningarnar sneru mér eins og skopparakringlu og langtímum saman var ég alveg út á þekju. Stundum var ég skelfilega langt niðri og íhugaði sjálfsvíg. Heimurinn var á hvolfi og hvergi fótfestu að finna.  Ábyrgðartilfinningin gagnvart barninu sem óx í kviði mínum hjálpaði örlítið en ég var líka mjög sakbitin út af þeim skaða sem barnið gæti orðið fyrir á meðgöngunni vegna hugaræsingsins og andlega álagsins. Stundum var ég frjáls nútímakona full sjálfstrausts og í fullkomnum rétti til að stíga endanlega út úr hjónabandinu og velja mér hvern þann mann sem hugnaðist mér. En oftast var ég afbrýðisöm, óörugg og full haturs í garð Söru. Ég vissi að í rúminu stæðist ég engan samanburð við hana. Þar bauð hún Rich upp á sannkallaðar kynferðislegar guðaveigar eftir því sem mér skildist. Ég kærði mig ekki einu sinni um að keppa við hana á þeim vettvangi því ég var hvort eð er ekki í neinu skapi fyrir kynlíf þetta sumar. Mér gramdist gríðarlega aðgengið að kynlífi sem eðli málsins samkvæmt fellur viðhaldinu í skaut. Auðvitað er það svo að ef þú ert ekki límd við einhvern  alltaf, alla daga, þá er ósköp einfalt (og máttugt) að verða sú sem úthlutar  kynferðislegum unaði. Ég sá að um margt áttu Sara og Rich enga samleið út af ósamrýmanlegum  viðhorfum og lífsstíl, en fíknina, sem var öllu öðru yfirsterkara, áttu þau bæði og hún hnýtti þau saman. Þegar þörfin til að tengjast Rich, hvað sem það kostaði mig, var hvað sterkust, átti ég það til að stinga að honum góðum hugmyndum um sambandið við Söru. 
Vitanlega var vandamálið ekki kallað fíkn á þessum tíma og engin SLAA gleraugu til sem horfa mætti á hlutina í gegnum. Yfirleitt leið mér eins og orðin „ég þjáist“ stæðu skrifuð stórum stöfum á enni mitt. Brestir komu líka í hugmyndir mínar um kærleiksríkan guð. Mér fannst ég svikin og reið æðri mætti fyrir að leyfa þessu að gerast. Af hverju ég? Ég átti þetta ekki skilið. Hvers konar refsing var þetta og fyrir hvaða synd? Ég hafði verið trú og kærleiksrík eiginkona og gjörðir mínar verðskulduðu sannarlega ekki allan þennan sársauka. Hvernig gat það verið að ást mín á Rich hafði ekki gert hann heilan? Hvernig gat það verið að hún jafnaði ekki upp óhamingju bernskunnar? Ég vissi að í fortíð hans var margt sem gæti verið ástæða fíknarinnar en ég trúði því ennþá að ástin mín dygði til að stoppa í öll göt og laða fram í honum manninn sem ég var að bíða eftir. Eins og segir í textanum sem ég raulaði gjarnan: 
Ég elska birtu bjarta,
ég elska tíðir ársins allar,
ég elska, laust við rökhyggju alla.
Ég gæfi allt, að þú aðeins mættir sjá,
ég elska þann sem bíður þér hjá, 
ég elska þann sem fylgsni þér að baki á.

Svo grét ég alla mína brostnu drauma. Ef rofaði ofurlítið til ríghélt ég í vonina um að skelfilegur sársaukinn gæti orðið upphaf einhvers góðs og varanlegs, að nú myndi prinsinn minn loksins svipta af sér huliðsskikkju myrkranna og stíga inn í ljósið. 
Að lokum var biðin á enda. 
Barnið kom. 
Þannig vildi til að Rich var hjá Söru þetta kvöld og var seinn heim með einhverja frásögn af martröð hennar á vörunum. En fæðingin var komin af stað og aldrei þessu vant var mér sléttsama um allt og alla nema sjálfa mig og ófætt barnið mitt. Ég vissi að brátt yrði ég laus undan öllum sársaukanum. Barnið okkar var lausnarmiðinn minn. Fæðingin sjálf reyndist löng og erfið og hugtakið „eðlileg“ fæðing tók að hljóma eins og kvikindislegur brandari. Ég hafði alltaf þóst þola sársauka óvenju vel en eftir því sem fæðingarstríðið dróst á langinn þreyttist ég og tilfinningastreita síðustu vikna tók sinn toll. Ég lét til leiðast á endanum og þáði deyfandi sprautu. Klukkutíma síðar hélt ég á fallegri lítilli stúlku í örmum mínum og var himinsæl. Hún var fullkomin! Og ég elskaði hana með allri þeirri orku sem ég átti enn eftir. Rich rauk út til að básúna fréttirnar og athuga hvernig Söru liði, en ég sveif um á bleiku skýi næstu þrjá dagana. Tilfinningar Rich voru í of mikilli flækju þessa daga til að hann gæti notið gleðinnar af neinu viti en ég kærði mig kollótta. Fljótlega færi ég til Vermont og átti nýfætt barn sem þarfnaðist mín á allan hátt. 
Bjartur og fagur rann brottfarardagurinn upp. Við Rich komum vöggunni fyrir í bílnum ásamt ýmsum öðrum nauðsynjum og ókum til Vermont. Okkur var báðum létt að þessar kvalafulla vikur voru að baki en óviss um hvað nú tæki við. Mér fannst á Rich að hann vildi losna úr sambandinu við Söru og vera einn í einhvern tíma. Ég tók því með fyrirvara og leyfði mér aðeins ofurlitla vonarglætu. Systir mín og börnin hennar tóku okkur opnum örmum og mér leið eins og ég væri komin heim. Loksins. Rich flaug til baka til Boston daginn eftir og þar með var sambandi okkar formlega lokið.   
Í átta mánuði dvaldi ég hjá systur minni og hennar fjölskyldu, sem var einmitt það sem ég þurfti. Í fallegu húsi umvafin umhyggjusamri fjölskyldu með barnið mitt sem átti mig alla hverja stund. Lukkan var byrjað að snúast mér í hag og mér fannst ég örugg. Ég þurfti samt að endurreisa líf mitt og leitað mér hjálpar hjá sálfræðingi. Mér varð það til gæfu að systir mín vissi um mjög góðan sálfræðing. Fyrstu viðtölin fóru í að útskýra fyrir honum hvað væri að hrjá Rich.  Sálfræðingurinn horfði á mig og spurði svo: „En þú hefur ennþá ekkert sagt mér um sjálfa þig – hvernig leið þér sjálfri?“ Þar hitti hann á snöggan blett. Hver var ég og hvernig leið mér? Snerist sjálfsmyndin mín ennþá fyrst og fremst um hvernig hjónabandið mitt væri? Eftir að við slógum því föstu og að ég væri alveg búin að týna sjálfri mér þá sólunduðum við ekki meiri tíma í Rich, heldur sökktum okkur á bólakaf ofan í bernsku mína í von um að finna þá Kötu sem til var löngu fyrir tíma Rich. 
Við Rich komust að samkomulagi um stutta heimsókn þremur vikum eftir skilnaðinn. Tilhugsunin vakti samt blendnar tilfinningar. Mér fannst ég skynja að samband Rich við Söru væri orðið harla lítið. Í bréfum sínum til mín talaði hann ekkert um hana og ég vonaði að skilnaðurinn væri farinn að hafa sín áhrif. En heimsóknin reyndist erfið. Við elskuðumst og töluðum látlaust saman en eitthvað þvældist fyrir. Ekki fyrr en í lokin áttaði ég mig loks á öllum tímanum sem hann eyddi í Söru. Svona gat þetta ekki gengið lengur. Daginn eftir að hann fór hringdi ég og sagði skýrt og skorinort að ég kærði mig ekki um að sjá hann oftar svo lengi sem hann væri enn í sambandi við Söru. Þetta var erfið ákvörðun því ég var mjög efins um hvort hann væri yfirleitt fær um að slíta því sambandi, jafnvel þó hann vildi það. En þetta sumar var ég búin að fá upp í kok af því að deila Rich með annarri konu. 
Sjálfum sér líkur brást Rich við afarkostum mínum með rósemd og sagðist þurfa að hugsa sig um en léti mig svo vita. Nokkrir langir dagar liðu. Loksins hringdi ég í hann. Hann sagði bréf vera á leið til mín í pósti og von á því daginn eftir. Bréfið var skrifleg yfirlýsing um þá ákvörðun hans að slíta sambandinu við Söru. Raunar væri hann þegar búinn að því. Rödd hans í símanum var hljómlaus og fjarlæg. Að „hætta með“ Söru, sagði hann, þýddi samt ekki endilega að „vera með“ Kötu. Fyrst og síðast þyrfti hann tíma með sjálfum sér. Mér varð mjög létt. Ég skildi að það væri ekkert sem ég gæti gert til að gera honum missinn bærilegri. Ég velti því líka fyrir mér hvort ég kærði mig eitthvað um að vera með þessum hálfa manni. Átti ég nú að fylla upp í skarðið sem Sara skildi eftir, svo hann fyndi ekki eins fyrir tóminu innra með sér? Ég átti bágt með að ímynda mér að við gætum nokkurn tímann tendrað aftur bálið á milli okkar eftir annað eins tilfinningalegt skipbrot – kannski væri betra að við létum okkur nægja að vera vinir frekar en hjón. 
Einhverjum vikum seinna kom hann til mín. Afar varfærnislega fórum við að þreifa á möguleikunum á því að endurnýja sambandið. Við fórum okkur hægt. Kvöld eitt um sex vikum síðar hringdi hann. Hann hafði fengið hugljómun. Framhjáhald og skyndikynni væru fíkn. Í fyrstu tók ég þurrlega undir það. Mér þótti hugmyndin hljóma eins og ofureinföldun á flóknu máli. Hann sagðist vera reyna að starta hópi. Mér þótti langsótt að honum tækist að finna einhverja aðra með sambærilega sögu. Sem betur fer lét hann ekki áhugaleysi mitt slá sig út af laginu og SLAA varð til án þess að ég kæmi þar nærri.

Félagsskapur okkar er fjölbreyttur hópur einstaklinga úr ólíkum áttum félagslega sem efnahagslega og af mismunandi kynþáttum og þjóðerni. Við spönnum líka alla breiddina horft út frá kynhneigð og því hvernig kynlífi við sækjumst eftir. En við höfum komist að raun um þá yndislegu staðreynd að ástar- og kynlífsfíknin eins hún birtist í þeirri persónulegu reynslu sem við deilum með hvert öðru er sameiningarband sem gerir að engu þá aðgreiningu vegna mismunandi kynhneigðar og kynferðislegra langana sem svo oft skapar gjá á milli fólks utan S.L.A.A.Um batann og hvernig hann birtist gætum við bætt að minnsta kosti jafn miklu við um hvert og eitt dæmi um hann í S.L.A.A. og hér hefur þegar verið sagt. Lítum á nokkur atriði, úr minni sögu og annarra. Í fyrsta lagi þá hef ég ekki dregist út í fíknarhegðun síðan batinn byrjaði, sem nú er farinn að telja nokkur ár. Í því felst að þessi ár hef ég verið algjörlega laus við botnhegðun í kynferðislegri og tilfinningalegri áráttu og þráhyggju. Fráhaldið þýddi oft mikla áreynslu og vaxtarverki, en þess á milli átti ég þægilegri kafla. Um það get ég aðeins talað um sem „kraftaverk“ í ljósi sögu minnar sem fíkils.
Að lýsa heilbrigðu sambandi fyrir fíkli sem er enn á valdi fíknarinnar er eins og lýsa litum fyrir blindum manni. En þó að ég hafi á sínum tíma engan veginn getað gert mér í hugarlund hvað í því fælist þá er heilbrigt samband orðinn órjúfanlegur hluti af mínu lífi í dag. Ég er ennþá giftur. Raunar eigum við Kata nú liðlega átta ára samband að baki síðan við ákváðum að taka upp þráðinn aftur og láta reyna á hvað við ættum með hvort öðru. Í dag þá eigum við skuldbindingu, traust og samvinnu, við deilum með hvort öðru og við eigum (ég þori að segja það) ást svo langt umfram það sem ég hefði getað látið mig dreyma um. Nú höfum við getuna til að lifa, vinna, leika okkur og þroskast saman. Mig óraði ekki fyrir því öll árin í fíknarkvalræðinu að ég ætti eftir að verða sáttur í hjúskap; en það er ég þó. Svarið við þessari gömlu spurningu „vil ég raunverulega vera hér?“ liggur nú ljóst fyrir. 
Að greiða úr kynferðislegum og tilfinningalegum flækjum hefur tekið okkur bæði langan tíma, það hefur verið erfitt og oft niðurdrepandi. En sú vinna hefur skilað okkur miklum skilningi, auknu trausti og getunni til þess að upplifa raunverulega nánd hvort með öðru. Í tvígang höfum við sótt okkur aðstoð ráðgjafa um talsvert skeið til að koma málum upp á borðið á uppbyggilegan hátt í stað niðurrifs. Mér hefur þótt samband okkar gefandi, líka á erfiðu tímabilunum. 
Við erum búin að eignast annar barn síðan við byrjuðum aftur saman og það hefur reynt mjög á okkur. Kannski er það kaldhæðnislegt en þrátt fyrir einbeittan ásetning um að giftast aldrei né eignast börn þá finnst mér, að í fráhaldi frá fíkninni standi ég mig sem eiginmaður og faðir (félagi og foreldri). Ég er ekki lengur undir harðstjórnarvaldi gömlu hugmyndanna um hlutverk eiginmanna og foreldra. Mér hefur lærst sjá og meta mína eigin getu. Börnin elska mig og óttast mig ekki. 
Áskoranirnar og erfiðleikarnir sem fylgja því að byrja og viðhalda sambandi er nokkuð sem við tökumst æ oftar á við í samfélagi S.L.A.A. Að gera það andlega heilbrigð er nýtt fyrir okkur öll, frumherjana í S.L.A.A. Þau okkar sem hafa gengið í hjónaband hefur tekist að halda sig frá fíkninni. Við höfum ekki þurft að flýja það alvöru álag sem því fylgir með því að verða „ástfangin“ af einhverjum öðrum, eða sækja í kynferðislegt algleymi. Önnur hafa kosið sér að vera ein í langan tíma, lengur en fráhvörfin ein og sér kalla á, vegna þeirra innri auðlegðar sem við eignumst ein með sjálfum okkur. 
Í öllum tilvikum þá hafa fráhvörfin gefið okkur djúpan skilning sem ekki hverfur frá okkur á verðleikum okkar sem manneskjur. Að skynja það innanfrá gefur okkur frelsi frá því að reyna að kreista það út úr öðrum, sem gengur hvort eð er aldrei upp.
Hvað sjálfan mig varðar þá hafa forsendur sambanda við aðra tekið algerum stakkaskiptum. Samskipti mín við aðra karlmenn voru áður lituð af tortryggni og samkeppni. Í virkri fíkn þá gekk ég út frá því aðrir sæktust yfirleitt líka eftir „ást“ og kynlífi. Því voru aðrir af sama kyni mögulegir mótherjar. Ennfremur sá ég þær sem ástríður mínar beindust að hverju sinni eingöngu út frá því hversu vel þær gátu svalað mínum þörfum. Hversu vel þær gátu það skilgreindi þær algjörlega. Þær voru tæki, ekki manneskjur. 
Nú þegar ég er orðinn edrú í S.L.A.A er ég þess að aðnjótandi að hlusta á aðrar manneskjur af öllum kynjum og kynhneigðum tjá sig af dýpt og einlægni. Reynslan af fíkninni er sá þráður sem tengir okkur saman í SLAA og er svo miklu sterkari en mismunurinn vegna kynferðis og kynhneigðar sem aðskilur á meðal “venjulega” fólksins. Þegar við horfumst í augu við hana og skiljum þá verður sú reynsla sameiginlegur grundvöllur að nýju ævintýri sem snertir okkur djúpt, leitinni að tilgangi mannsandans. Líf okkar öðlast nýjan tilgang. Sum okkar leita inn á nýjan starfsvettvang gjörólíkan öllu því sem okkur hefði áður getað komið til hugar. Hinn nýi heilsteypti innri kjarni og sú mannlega reisn sem okkur hefur áskotnast er orðin sú mælistika sem við leggjum á það sem við tökumst á hendur. Okkur þykir eftirsóknarvert að víkka út sjálfsskilning okkar og leitumst eftir því á öllum sviðum lífs okkar að efla hann. Ekkert minna er nóg fyrir okkur. 
Þessi mynd af hinum ýmsu hliðum bataferlisins er óhjákvæmilega takmörkuð og nokkuð handahófskennd. Látum nægja þau orð að við vonum að önnur sem föst hafa verið í klóm fíknarmynsturs svipuðu því sem hélt okkur í heljargreipum megi finna í frásögninni von um breytingar og hvatningu til að hafa samband við okkur og hefja sína eigin batagöngu. Ef þú ert eins og við ertu hugsanlega rétt í þann veginn að upplifa magnaða lífsreynslu og heilun. Megir þú þá þiggja með okkur náð guðs og endurlausn eins og við þekkjum hana í S.L.A.A. Við viljum fá þig með og þörfnumst þín.

Um þetta leyti byrjaði ég líka í námi sem fól í sér að vera tvær vikur í burtu á heimavist á sex mánaða fresti, ofan á strembið nám á eigin spýtur. Eftir að hafa hætt í skóla í alkóhólísku þokuskýi nokkrum árum áður með heitstrengingum um að koma ekki nálægt skóla aftur, þá var þetta veruleg áskorun. Þannig þurfti ég að takast á við báðar þessar breytingar, tilfinningavandamál okkar Kötu og námið, á sama tíma. 
Skólinn var einstök og mikil reynsla. Skólinn lagði mikið upp úr því að hjálpa nemendum að skipuleggja sjálfstæð rannsóknarverkefni og fylgja þeim eftir. Kynferðislegar og rómantískar freistingar í þessum skóla voru svo svakalegar að mér var nauðugur einn sá kostur að skipuleggja námið út frá hugtakinu ástar- og kynlífsfíkn, að rannsaka fyrirbærið, lesa mér ítarlega til um það sem tengdist því og skrifa það sem ég gat um málefnið. Í hvaða mæli mátti nota líkön um efnamisnotkun um óefnatengda fíkn? Ég vissi þegar svarið hvað varðaði kynlíf og ást (tilfinningalega ánauð), en tækifærið til að rannsaka þetta svið allt á formlegan hátt var mér kærkomið. Hagnýtasti ávinningurinn af því að byrja þessa rannsókn var að óvenjulegt áhugasvið mitt varð almenn vitneskja í skólanum. Orðsporið (gott sem slæmt) sá mér fyrir ytri vörnum gegn því að fara í botnhegðun í skólanum.. Ef ég var að reyna að lýsa ástar- og kynlífsfíkn út frá hrikalegum afleiðingum hennar, með því að nota eigin reynslu sem dæmi, þá væri lítið vit í því að reyna hoppa upp í rúm með einhverjum eða hverfa inn í eitthvað rómantískt ævintýri. Ég gæti allt eins vel hengt mig. Þannig hjálpaði það mér til að vera edrú í skólanum að velja mér ástar- og kynlífsfíkn sem umfjöllunarefni og styrkti mig í því að nýta þetta tækifæri. Ég kom heim aftur endurnærður og fullur af eldmóði. 
Í tveggja vikna fjarveru minni voru engir S.L.A.A. fundir. Greinlega var deildin fjarri því að vera sjálfbær á þessum tíma. Þegar ég kom til baka hafði ég samband við Jack og nokkra aðra og fundirnir hrukku í gang aftur, aðra hverja viku eins og áður. Um þetta leyti virtist Jack loksins vera að ná fyrir horn. Nokkur nýleg atvik utan fylkisins höfðu varpað skýru ljósi á hversu stjórnlaus kynferðisleg tilvera hans var. Hann áttaði sig á að hann vissi ekki hvað fólst í heilbrigðu sambandi sama hver átti í hlut. Hann leigði sér herbergi í nálægum bæ, fékk sér óskráðan síma og hafði langt í næstu stoppistöð. Hann hafði náð botni, var tilbúinn í fráhvörf og myndi ekki hrökkva. 
Mér þótti þetta mjög uppörvandi og það fékk mig til að meta enn betur það sem ég hafði gengið í gegnum. Þegar ég horfði á Jack, þá trúði ég því varla að önnur manneskja myndi leggja það sama á sig. Á vissan hátt trúði ég því naumast sjálfur að ég hefði farið í gegnum fráhvörfin og komist heill í gegn.