Vika 2

1. kafli – Uppgötvun ástar- og kynlífsfíknar: Sagan mín – hluti 2


Svo að ég, sem hafði einsett mér að sækjast eftir vellíðan með skuldbindingarlausu kynlífi var nú allt í einu, alveg óvænt, fallinn fyrir þurftarfrekju eigin tilfinninga, klófestur í skuldbundnu sambandi …, við allra fyrsta hugsanlega tækifæri! Kraftur þrár minnar í ást, sem ég hafði svo lengi afneitað, bar mig algjöru ofurliði. Ég hélt að „ástkona“ mín væri „hin eina sanna“, hið eina ljós lífs míns – sköpuð á himnum fyrir mig.
Barátta mín fyrir óbeisluðu og tilfinningalausu kynlífi án sektarkenndar hvarf þó ekki við upphafnar ástarjátningar mínar til einnar konu. Þrátt fyrir að vera í ástarsambandi bjó ég enn yfir óseðjandi löngunum í villt kynlíf og þar sá varla högg á vatni. Þvert á móti blótaði ég sjálfum mér fyrir að hafa byrjað með Leonore. Í ljósi þess sem ég hafði einsett mér að upplifa, hefði þetta átt að vera það síðasta sem ég vildi. Engu að síður tókst henni að spila á mína næmustu sálarstrengi, sérstaklega á viðkvæmni mína og umkomuleysi.
Ég streittist á móti þessum ósamræmanlega veruleika sem orðinn var í lífi mínu. Það eina sem mig langaði að gera var að stunda kynlíf. En þarna var kona búin að ná mér, að einhverju leyti, og ég virtist ekki geta staðist það. Hluta af mér langaði heldur ekkert til þess. Í lífi Leonoru var ég í hlutverki riddaralegrar hetju. Ég var hrifinn af því hvernig hún íklæddi mig búningi draumaprinsins á hvíta hestinum. Það var eins og hetjuhlutverkið sem mig hafði dreymt um væri nú mitt. Að þetta væri að gerast í „raunheimum“ var bara of mikið. Ég gat ekki brugðist henni, Helgur málstaður var í húfi.
Svo Leonore varð tilfinningaleg fótfesta mín – eða gaf tilfinningum mínum alla vega eitthvað innra samræmi þó svo að tilhugsunin  um að vera „bundinn“ léti mér líða eins og dýri í búri. Um leið og fyrst rómantíski blossinn tók að dofna leið mér ömurlega með henni – ekki vegna þess að mér fyndist ég ekki „elska“ hana, heldur vegna þess að mínar eigin óslökkvandi langanir ýttu mér út í kynlíf með öðrum. Alltaf þegar ég var ekki með henni var ég að græja og gera. Ég gat ekki hamið mig og langaði sjaldnast til þess. Þegar ég vafði enn eina konuna örmum mínum og fann vald mitt rísa og fullnusta sig sjálft, þá fann ég að einmitt þessi stund, þetta faðmlag, var það eina sem skipti máli í þessum heimi. Ekkert annað skipti máli.
Ég var fastur milli steins og sleggju. Tvær ástríður toguðust á í mér og hömruðu stöðugt á sjálfum mér  með spurningunum: „Ef þú vilt bara sofa hjá úti um allt, hvers vegna hættirðu þá ekki með Leonore og hellir þér út í það sem þú þykist vilja? Ef þú vilt í alvörunni vera með Leonore, af hverju geturðu þá ekki  hætt að eltast við aðrar konur og sofa hjá þeim?“ Ég var svo tilætlunarsamur kynferðislega og tilfinningalega, að mér fannst ég eiga hvoru tveggja skilið. Hvorugt var ég fær um að neita mér um. Mig grunaði ekki hversu ákaflega ég var háður Leonore. Eftir tveggja ára samband ákvað hún að henda mér út. Viðskilnaður okkar var mér gífurlegt áfall og ég var hætt kominn. Yfirþyrmandi sorg helltist yfir mig og heltók. Ég tapaði þyngd, missti svefn, varð lystarlaus, þjáðist af uppköstum og var stöðugt þjakaður af sjálfsvígshugsunum. Skelfing þessa „dauða“ – dauða „ástar“ sambands míns og Leonore – var fólgin í því að gjörvöll sjálfsmynd mín, sem snérist um að vera hluti af henni, var einnig að deyja. Hvað „ég“ stóð fyrir í mínum huga spratt alfarið upp af því hvað „við“ þýddi fyrir mér. Ég átti mér enga sjálfstæða, persónulega sjálfsmynd með jákvæðum formerkjum. 
Ég afneitaði eins miklu af því sem ég var að verða eins og mér var unnt, og hrópaði hástöfum að sjálfum mér  að ég skyldi ná henni til baka. Með valdi, ef þyrfti. Ég fann þó nýja og betri leið til að halda sjálfsupplausninni í skefjum. Ég uppgötvaði hinn hugbreytandi mátt áfengis. Hvílík uppgötvun! Áfengi, eins og sjálfsfróunin áður, varð leið mín til að stíga um stund út úr heiminum – til að týna sjálfum mér í algleymi skyndislökunar. Það var mér þó líklega til happs að áfengið varð mín aðferð til að flýja  lífið, þrátt fyrir alla erfiðleikana sem því fylgdi. Þar sem ég átti á þeim tíma enga aðra leið i til að gefa lífinu einhverja framtíðarvon eða tilgang, hefði ég sennilega fyrirfarið mér annars.
Hluti af blekkingunni sem áfengið veitti mér var sýndargetan til að komast nær því lífi sem ég taldi mig vilja: Lífi hins hömlulausa, samviskulausa og skuldbindingalausa lauslætis sem ég átti og mátti lifa. Það er að segja, nú gat ég átt í kynlífsamböndum og sleppt því að nota kauðslega rómantík sem yfirvarp. Hegðun mín í kynlífs-  og tilfinningasamböndum breyttist þó ekkert.
Sorgbitinn út af Leonore hafði ég endað í afskekktum háskóla úti í sveit, nokkur hundruð mílum fyrir norðan hið kunnuglega umhverfi borgarljósanna þar sem ég fann til öryggis. Ég ól á heitu hatri í garð þess að vera fastur í þessari einangrun. Ég komst að því að hatrið gaf mér styrk  og vilja til að komast af þrátt fyrir allt mótlætið. Hatrið kom mér til þess að pakka niður á hverjum föstudegi. Eftir eina kennslustund og snemmbúinn hádegisverð húkkaði ég mér far leiðina löngu suður til borgarinnar. Í þessari borg var stór háskóli og eina helgina snemma hausts fór ég á háskólaball. Tilgangurinn var að fara að detta í það, fá mér á broddinn og ýta til hliðar öllum hugsunum um puttaferðlag sunnudagsins aftur til baka í einangrunina.
Í þessu tiltekna partíi kom ég auga á konu á dansgólfinu sem hringsnérist tryllingslega eins og vængbrotin mölfluga. Hún var úr öllum takti og þegar ég skynjaði örvinglan hennar var ég sjálfkrafa búinn að sogast inn  í dansinn. Mettaður  af áfengi  átti ég auðvelt með að svara hinum brjálæðislegu hreyfingum hennar með mínum eigin og náði að fanga athygli hennar. Við töluðum saman og ég skrökvaði að henni, sagðist vera í sama háskóla og hún, hér í borginni. Við sváfum ekki saman. Ég áttaði mig ekki á því að enn og aftur, við fyrsta tækifæri sem gafst, hafði  ég umhugsunarlaust komið mér í næsta fasta ömurlega sambandið. Þetta samband hlífði mér,  í bili að minnsta kosti, við því að þurfa  takast á við sorgina vegna Leonore, og það átti eftir að eiga  mig næstu tvö árin.
Á yfirborðinu virtust Leonore og Jean mjög ólíkar. Bakgrunnur þeirra, útlit, skoðanir o.s.frv. voru úr ólíkum áttum. Fyrir mér var  ást það sama og það undarlega afl sem hafði komið mér til að gefast Leonore viðstöðulaust á vald.  Ég fann alls ekki eins sterkt fyrir tilfinningunni að „elska“ Jean. En hún var gagntekin af mér og þegar ég vandist því að eiga óskipta athygli hennar, lét ég berast með flaumnum, sagðist elska hana  og reyndi um leið að telja sjálfum mér trú um að ég gerði það í raun og veru. Mér þótti hún heldur ekki aðlaðandi kynferðislega. Mér fannst hún líta ósköp hversdagslega út. Hvort tveggja vöntun á kynferðislegri aðlöðun og sú staðreynd að hún var hrein mey, gerði mér mögulegt að nota sem afsökun fyrir því að stunda ekki kynlíf með henni í næstum heilt ár.  Þó að ég væri áfram talsmaður kynlífs án skuldbindinga og samviskubits, fannst mér að með því að stunda ekki kynlíf með Jean væri ég ekki skuldbundinn henni á nokkurn hátt.
Jean virtist tilbiðja mig. Ég var ljósið sem lýsti upp tilveru hennar. Hún kallaði mig „Kraftaverkið Rich“ og jós yfir mig ást og athygli. Ég hafði aldrei áður upplifað slíka „ást“ né svo mikið vald yfir annarri manneskju. Því meiri ást sem hún hellti yfir mig, því fastar þótti mér hún vera á önglinum og að ég gæti áfram verið óskuldbundinn henni án þess að óttast að missa hana. Svo virtist sem hún væri ófær um að slíta sig frá mér.
Ég misnotaði mér aðstöðu mína að Jean væri háð mér og hún gæti ekki yfirgefið mig. Sjálfur virtist ég ekki vera háður henni og það veitti mér frelsi. Ég hélt áfram þeirri iðju að sofa hjá stelpu sem bjó á sömu heimavist og Jean. Hegðun mín var að verða of augljós til að geta dulist Jean. Svo var það Georgia, vinkona Jean, sem var of til í tuskið til að ég gæti staðist hana. Hún var ein fjölmargra kvenna, sem í gegnum árin veittu mér allan þann líkamlega unað sem ég hélt að ég þráði. Ég varð alveg límdur á hana, en ég reyndi þó að fela það. Að sjálfsögðu komst að lokum upp um okkur og reyndist það endirinn á sambandinu við Georgíu. Ég varð mjög miður mín vegna þess. Þar með lauk jafnframt margra ára vináttu Jean og Georgiu – en það snerti mig ekki. Ég streittist áfram gegn því að bindast Jean.
Stundum lét ég mig hverfa í nokkra daga. En ég gat ekki sagt henni hreint út þegar ég vildi ekki hitta hana. Ég skáldaði ýmist upp veikindi, aðkallandi ferðir, eða bjó til einhverja aðra afsökun og lét mig svo hverfa. Jean átti enn eftir að veiða mig í net sitt, en það gerði hún á endanum.