Vika 22

4. kafli – Leiðin að kynferðis- og tilfinningalegum bata – hluti 1 – Spor 1a


Tólf  reynsluspor  voru  upphaflega  sett  fram  árið  1938  af  Bill  W.  sem  var  einn af  stofnendum  AA-samtakanna.  Þau  eru  afsprengi  lífsreglnanna  sem  Oxford- reglan aðhylltist (Oxford-reglan var trúarhópur sem var bakhjarl AA-samtakanna á upphafsárum þeirra í Akron, Ohio). Lífsreglurnar voru aðlagaðar að sameiginlegri reynslu AA-félaga sem höfðu náð bata frá alkóhólisma á þessum tíma. Reynslusporin voru fyrst gefin út í AA-bókinni (1939) og fengu nánari umfjöllun í Tólf  reynslusporum og tólf  erfðavenjum (1953) en báðar bækurnar voru skrifaðar af  Bill W.
Með því að birta hér S.L.A.A.-útgáfuna af  Tólf  reynslusporum vonumst við til þess að gera það sem AA-samtökin höfðu í huga þegar þau kynntu sporin upphaflega til sögunnar í AA-bókinni. Nógu mörg okkar hafa unnið sporin tólf  til þess að sameiginleg reynsla af  bata frá ástar- og kynlífsfíkn sé til staðar. Engu að síður eru samtökin enn fámenn og svo virðist sem margir séu í sárri þörf  fyrir þá von sem tólf spora kerfið býður upp á. Við vonum í fullri einlægni að fjölskyldur og aðrir, sem þurfa að þola þá tortímingu sem virkur ástar- og kynlífsfíkill veldur, muni hætta sjálfsásökunum eftir að hafa lesið um reynslu okkar í þessari bók. Okkur er þó mest í mun að sá sem þjáist af  ástar- og kynlífsfíkn muni, með tólf  spora kerfinu, komast burt frá sjálfseyðileggingunni sem fylgir þessum sjúkdómi og leggja grunn að andlegum og tilfinningalegum bata.
Umfjöllun okkar um sporin er ekki hugsuð sem fullkomin yfirferð á sporunum tólf frá sjónarhóli S.L.A.A.-samtakanna. Við leitumst þó við að setja þau fram á nógu nákvæman hátt til þess að gefa til kynna dýpt batans sem við höfum náð frá ástar- og kynlífsfíkn. Ef þú færð á tilfinninguna við lestur bókarinnar að S.L.A.A.-samtökin geti hjálpað við
að leysa vandamál þín mælum við með því að þú lesir líka AA-bókina (sérstaklega 5.-7. kafla) og bókina Tólf  reynsluspor og tólf  erfðavenjur. Þrátt fyrir að á stöku stað séu hugmyndir og orðfæri bókanna barn síns tíma þá þykir okkur þessar bækur henta furðuvel og koma að góðum notum þegar við notum tólf spora kerfið við ástar- og kynlífsfíkn. Við lestur bókanna notum við orðin „fíkn okkar“ eða „ástar- og kynlífsfíkn“ í stað þess að vísa til alkóhólisma. Sú staðreynd að bækurnar hafa orðið sígildar á hálfri öld og komið að notum gagnvart ýmsum tegundum fíknar, meðal annars ástar- og kynlífsfíkn, sýnir að þær eru bæði vel skrifaðar og bera með sér mikið sálfræðilegt og andlegt innsæi.
Ljóst er að sporin tólf, eins og þau eru upphaflega sett fram í AA-bókinni, eru yfirgripsmikill og nákvæmur leiðarvísir í baráttunni við fíkn, þar á meðal ástar- og kynlífsfíkn. Við erum mjög þakklát fyrir átak frumkvöðla AA-samtakanna. Við getum ekki sýnt þeim nógu vel allan þann sóma sem þeir eiga skilið fyrir þennan gríðarlega árangur. 
Svona hljóða Tólf reynsluspor Sex and Love Addicts Anonymous:  

  1. Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart ástar- og kynlífsfíkn og að við gætum ekki lengur stjórnað eigin lífi.
  2. Við fórum að trúa að máttur okkur æðri gæti gert okkur andlega heilbrigð að nýju.
  3. Við tókum þá ákvörðun að fela líf okkar og vilja umsjá Guðs, samkvæmt skilningi okkar á Guði.
  4. Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.
  5. Við  játuðum  misgjörðir  okkar  fyrir  Guði,  sjálfum  okkur  og  annarri manneskju og nákvæmlega hvað í þeim fólst.
  6. Við vorum þess albúin að láta Guð fjarlægja alla skapgerðarbrestina.
  7. Við báðum Guð í auðmýkt að losa okkur við brestina.
  8. Við skráðum misgjörðir okkar gagnvart náunganum og urðum fús til að bæta fyrir þær.
  9. Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust svo framarlega sem það særði engan.
  10. Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar út af bar viðurkenndum við yfirsjónir okkar umsvifalaust.
  11. Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Mátt æðri okkur sjálfum og báðum um það eitt að vita vilja Guðs og hafa mátt til að framkvæma hann.. 

12. Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum ástar- og kynlífsfíklum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum á öllum sviðum lífs okkar.

Spor 1:
Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart ástar- og kynlífsfíkn og að við gætum ekki lengur stjórnað eigin lífi.

Orðið „vanmáttur” nær yfir nokkrar skyldar hugmyndir. Í fyrsta lagi þýðir það að sá styrkur sem yfirleitt gerir fólki fært að taka heilbrigðar ákvarðanir í ástar- og kynlífsmálum  bjó  ekki  innra  með  okkur.  Við  vorum  í  fjötrum  ástar  og  kynlífs (sem við upplifum sem tilfinningalega ánauð gagnvart einhverjum eða rómantíska spennuleiki). Ánauðin sjálf  sýnir að það var eitthvað óstjórnlega sterkt í kynlífi okkar eða ástarsamböndum sem „umbunaði” okkur á einhvern þann hátt sem við þóttumst ekki geta verið án.
Stundum gerðum við okkar besta til þess að útiloka heiminn, með öllum sínum  kröfum  og  ábyrgð,  frá  vitundinni  með  því  að  kaffæra  okkur  í  kynlífi. Stundum reyndum við að deyfa samviskubit eða gremju með því að fara í ástar- eða kynlífs-„skemmtiferð”. Stundum reyndum við að fylla tómið hið innra með annarri manneskju. Eða við dulbjuggum ótta okkar við skuldbindingu með því að þykjast trúa á siðferði byggt á „kynlífi án sektarkenndar”, „frjálsum ástum” eða „afþreyingarkynlífi”. Þegar upp var staðið notuðum við öll kynlíf  og tilfinningar annaðhvort til þess að draga úr sársauka eða hámarka nautn. Þessir tveir drifkraftar gegnsýrðu og stjórnuðu öllu kynlífi okkar og ástarlífi.
Á einhverju skeiði í lífi okkar tók hegðun okkar að einkennast af  áráttu og fíkn. Atvikin, sem áður voru bæði fá og strjál, urðu mánaðarlegur og síðar vikulegur viðburður. Þau gerðust á óheppilegum tímum eða röskuðu eðlilegu fjölskyldulífi og vinnu. Dagdraumur sem verið hafði dægradvöl stöku sinnum breyttist í stöðuga þráhyggju sem eyðilagði getu okkar til þess að sinna daglegu lífi. Smám saman misstum við ánægjuna af  starfinu okkar, félagslíf  gufaði upp og vinir fjarlægðust, en hugsanir okkar og gjörðir snérust æ meira um eina manneskju. Lausnin sem við höfðum áður sótt af  og til í sjálfsfróun varð að knýjandi þörf  sem við hreinlega urðum að sinna. Við höfðum misst tökin á því hve oft og í hve miklum mæli við leituðum í ástar- og kynlífs-„lausnina” við öllum okkar vanda.
Sum okkar lifðu í leiðslu kynlífs og rómantíkur og áttu ekki lengur sjálfstæða tilveru óháð maka eða elskhuga. Slík tilvera varð stöðugt óviðráðanlegri. Í byrjun hrifu ævintýrin okkur með í taumlausri gleði en síðan dró jafnt og þétt úr hrifningunni. Síendurtekin kynlífs- og ástarævintýri völtuðu yfir vilja okkar og skildu við okkur sem þræla eigin tilfinninga og kynlífslangana, í knýjandi þörf  sem við urðum að þjóna.
Það sem fyrst í stað var smá hvíld frá amstri dagsins eða lausn frá sektarkennd og gremju hafði leitt okkur inn í heim blekkinga og algleymis. Hin nýju, sjálfsköpuðu siðferðisgildi þar sem „allt mátti“ því „ekkert skipti máli“ komu nú í bakið á okkur og við leituðum fálmandi að einhverjum molum af tilgangi og lífsfyllingu. Hinir nýju herrar okkar voru áráttuhegðun og stjórnleysi sem þýddi að héðan í frá vorum við áhrifalaus um kynlífsmál og tilfinningalíf okkar. Við höfðum misst stjórnina hvort sem við viðurkenndum það fyrir sjálfum okkur eða ekki.
Út frá hugmyndinni að „allt megi því ekkert skipti máli“ virtist stjórnleysi ekki svo slæmur kostur. Fíknin hélt okkur í heljargreipum og taldi okkur trú um að við vildum fylgja henni. Mörg okkar voru orðin svo líkamlega og tilfinningalega dofin að það eina sem kveikti í okkur var vænn skammtur af „dópinu“ okkar. Eins og önnur fíkniefni fékk það okkur til þess að trúa því í smástund að við værum lifandi. Það var eins og rödd í höfðinu á okkur segði: „Ef þú færð meira verður allt í himnalagi.“ Ef  fíkn okkar beindist að einni manneskju virtist stjórnleysið heldur ekki svo slæmt í sjálfu sér. Við töldum okkur trú um að ánauð okkar staðfesti hversu „himneskt“ sambandið væri. Við hlytum að uppskera verðskulduð laun fyrir að vera reiðubúin að fórna öllu fyrir þessa ást. Þegar við vorum ein var lífið litlaust og tómt en ef  við gætum nálgast þráhyggjuna okkar enn frekar og SAMEINAST Í EITT með henni þá yrði allt í lagi.