Vika 26

4. kafli – Leiðin að kynferðis- og tilfinningalegum bata – hluti 5 – Spor 4


Spor 4:
Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.

Þegar við heyrðum orðin „siðferðilegur listi“ í fyrsta skipti fóru viðvörunarbjöllurnar í gang. Slíkt verkefni væri örugglega of  stórt og taugatrekkjandi! Okkur sjálfum til undrunar nálguðumst við verkefnið engu að síður óttalaust – af  því við höfðum sæst við hugmyndina um þriðja sporið. Eftir því sem við gáfum okkur Guði á vald, samkvæmt skilningi okkar á Guði, heyrðum við smám saman betur í rödd „innsæisins“. Það sagði: „haltu þig fjarri þessu“, „hringdu í vin“, „farðu frekar þangað“ og fleira í þessum dúr. Við fórum smám saman að treysta þeirri leiðsögn sem leiddi okkur burt frá gömlu fíknihegðuninni. Ef  við trúðum því að það væri Guð sem var að hjálpa okkur við að ná stjórn á veraldlega lífinu var auðveldara að hreinsa til á andlega sviðinu og treysta Guði fyrir andlega ferðalaginu.
En hvernig áttum við að gera þennan lista? Reynsla okkar hafði sýnt að engir tveir einstaklingar gera hann nákvæmlega eins og að það var engin ein leið „réttari“ en önnur. Það sem við í raun og veru þurftum að ná fram var ekki aðeins að létta á okkur með því að játa syndir okkar, ljúka við tiltekinn gátlista eða segja frá lífi okkar. Við þurftum að öðlast raunverulegan skilning á sjálfum okkur, eins vel og við gátum, án ótta, hroka eða skilyrða. Við þurftum að geta metið heiðarlega hver og hvað við höfðum verið í tilverunni gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Til þess að skilja hvað það var sem fíknin hafði gefið okkur þá þurftum við að átta okkur á hvötunum á bak við hlutverkin sem við höfðum leikið og þeirri mynd sem við höfðum sýnt öðrum.
Flest okkar áttuðu sig á að það væri hjálplegt að gera fjórða spors lista. Að sjá svart á hvítu hvað við höfðum gert var gagnlegt við að leiða okkur inn á braut heiðarleika og hlutleysis. Sömu eiginleikarnir og við notuðum til þess að byggja upp fíknina, svo sem stolt, gremja og sjálfsréttlæting (ásamt fleirum), höfðu komið í veg fyrir að við sæjum þá sem bresti og gætum unnið með þá. Eftir því sem við sáum betur eigin útgáfu af  því sem gerðist gátum við séð í gegnum afsakanir okkar og þörfina fyrir að ásaka aðra. Við sáum skýrt framvindu andlega meinsins og hversu „hentugar“ minningarnar gátu verið í tilraunum til þess að gera lítið úr okkar hlut í sársaukafullum ósigrum. (Það sem hægt var að „lesa á milli línanna“ í fjórða spors listanum var oft mikilvægara en orðin sjálf).
Þegar við skoðuðum líf  okkar eins og það hafði verið í nútíð og fortíð sáum við að við höfðum nýtt nánast allt sem við gerðum og alla sem við þekktum til þess að fullnægja fíkninni. Við byrjuðum ef  til vill fjórða spors listana á að skoða þau sambönd sem höfðu reynst okkur sérstaklega erfið en sáum fljótt mynstur sem endurtók sig ítrekað. Við fórnuðum lífinu fyrir ljóskur eða fólk sem „gekk vel“. Við leituðum uppi fólk sem við gátum bjargað eða sem gat mögulega bjargað okkur. Við klæddum okkur upp til þess að laða að okkur manneskjuna sem við sögðumst ekki vilja. Við tældum vini og vinnufélaga. Við fældum fjölskyldur okkar í burtu með ljótum orðum og tilfinningalegu ofbeldi þegar við þurftum mest á þeim að halda og þannig hélt listinn áfram.
Ferlið líktist því að flysja lauk. Einungis var hægt að skera burt eitt lag í einu og hverju lagi fylgdu oft mörg tár. Eftir því sem við köfuðum dýpra fundum við að margir þættir í samböndum okkar sem við höfðum skilgreint sem „heilbrigða“, eða í það minnsta „skaðlausa“, voru í rauninni aðeins lúmskari birtingarmyndir fíknarinnar. Á sama hátt sáum við smám saman að sambönd við vini, fjölskyldu, vinnufélaga og fleiri aðila sem tengdust ekki kynhegðun okkar voru drifin áfram af nákvæmlega sömu hvötum og persónuleikabrestum.
Til þess að byrja með sáum við aðeins þá atburði og þau mynstur sem endurtóku sig. Svo fórum við að koma auga á tilfinningar og hvatir sem lágu þar að baki eins og illskeytt undiralda. Við áttuðum okkur á að óheiðarleiki hafði komið í veg fyrir að við sæjum þróun sjúkdómsins. Við höfðum ekki leyft okkur að leiða hugann að þeim fjármunum sem við eyddum í kynlíf, að hættunni á kynsjúkdómum, að merkjum um vanmátt gagnvart kynferðislegum þráhyggjum eða að öllum þeim lygum sem við höfðum notað til þess að fela hegðun okkar. Sjálfmiðun og stolt virtust vera rótin að erfiðleikum okkar. Við höfðum notað klæðnað og hegðun til þess að tæla fólk í þörf  fyrir athygli og óhóflegan skammt af  kynferðislegu leynimakki. Við eyddum peningum til þess að ganga í augun á fólki. Við helltum okkur yfir fólk sem veitti okkur ekki þá athygli sem okkur fannst við verðskulda og reyndum að særa þá sem komu í veg fyrir að við fengjum vilja okkar framgengt. Við sýndum fram á vald okkar með því að tæla maka vina og urðum reið þegar við fengum ekki eigingjörnum hvötum okkar fullnægt.
Eftir því sem fjórða spors listinn lengdist fórum við að skilja af  hverju við vorum ástar- og kynlífsfíklar. Þetta var ekki sálfræðileg kenning um „orsakir“ þess að við vorum svona. Þetta var heiðarleg skoðun á umbun fíknarinnar: þægindum sjálfsvorkunnarinnar, munaði réttlátrar reiði og einangruninni frá þeirri tilfinningalegu áhættu að bera ábyrgð gagnvart öðrum. Í ljós kom að minniháttar misgjörðir og „tilviljanirnar“ í gamla lífinu reyndust einnig vera birtingarmynd á þrálátum sjúkdómi okkar. Við vorum ekki aðeins manneskjur sem höfðum gert „slæma“ hluti, við vorum það sem við höfðum gert.
Á sama tíma og við áttuðum okkur á óheiðarleika okkar og sjálfmiðun, sáum við líka að við sjálf höfðum oft verið notuð. Við höfðum ekki valið meðvitað að vera ástar- og kynlífsfíklar. Í mörgum tilfellum hafði eðlilegum þörfum okkar ekki verið mætt á uppvaxtarárunum. Við uppgötvuðum að það var einmanaleiki sem hafði gert okkur hrædd við að vera ein svo að við höfðum valdið elskhugum samviskubiti þegar þeir yfirgáfu okkur eða þá að við sváfum hjá ókunnugum. Óttinn við að við verðskulduðum ekki sanna ást varð til þess að við færðum miklar fórnir fyrir foreldra eða ástvini, döðruðum við hvern sem var til þess að sanna að við værum aðlaðandi og lugum til þess að ganga í augun á öðrum. Óttinn við að horfast í augu við sársauka eða skuldbinda okkur hélt okkur föstum í eyðileggjandi og innantómum samböndum eða leiddi okkur inn í sambönd við fólk sem okkur líkaði ekki við. Í fjórða sporinu uppgötvuðum við að stolt og þvermóðska hafði falið þrá einmana og óttaslegins barns og skilið eftir ginnungagap sem varð að fylla. Við bjuggum það ekki til og við gátum ekki stjórnað aðstæðunum. Þessi uppgötvun leiddi til þess að við fórum að fá samúð með sjálfum okkur sem var fyrsta merkið um sjálfsfyrirgefningu.

 Við fórum að finna fyrir innri þörf til þess að losna við það sem við höfðum lært um okkur sjálf, frekar en að nota kynlíf og þráhyggju til þess að sleppa við að horfast í augu við það. Við urðum reiðubúin að stíga fimmta sporið.