Vika 29

4. kafli – Leiðin að kynferðis- og tilfinningalegum bata – hluti 8 – Spor 7


Spor 7:
Við báðum Guð í auðmýkt að losa okkur við brestina.

Okkur hafði til þessa virst auðmýktin varasöm og óæskileg en skildum nú hvað í henni fólst. Við rugluðum henni ekki lengur saman við auðmýkingu, það að vera neyddur til þess að kyngja beiskum sannleika. Við vorum farin að sjá að baráttan við skapgerðarbresti og undirliggjandi átök voru nauðsynleg til þess að bæta sambandið við Guð. Mikið af  því sem við héldum um okkur sjálf  og að við gætum ekki lifað án gufaði hreinlega upp. Eftir því sem við skildum þetta betur varð gjörbreyting á viðhorfum okkar. Við fundum fyrir sterkri þrá til þess að upplifa vilja Guðs á öllum sviðum lífs okkar sem tilgang í sjálfri sér en ekki einungis til þess að ná fram þeim takmörkuðu markmiðum sem við stefndum að. Við urðum farvegur sem hentaði betur tilgangi Guðs. Hæfni okkar til þess að upplifa sátt í eigin lífi var nátengd getunni til þess að meðtaka vilja Guðs.
Jafnvel þótt við værum komin langt í batanum gátum við ekki í eigin vilja mótað líf  okkar á farsælan hátt. Við gátum nú viðurkennt þessa sýn á raunveruleikann, ef  ekki í þakklæti, þá að minnsta kosti átakalaust. Auðmýktin FÓLST í þessari viðurkenningu, sem og í fúsleikanum til þess að leyfa Mætti æðri okkur sjálfum að gera áfram það sem við gátum ekki gert fyrir okkur sjálf.
Með því að halda áfram að biðja Guð á hverjum degi um að fjarlægja gallana sem voru svo áberandi á öllum sviðum lífsins byrjuðum við að þjálfa andlegu vöðvana sem voru sannarlega orðnir slappir. Það var auðvelt að þiggja hjálp Guðs við þeim annmörkum sem þegar höfðu valdið okkur miklum þjáningum. Það var mun erfiðara að takast á við mynstur sem enn fólu í sér skammtímagróða, jafnvel þótt þau kostuðu okkur hugarró til lengri tíma litið.
Eftir því sem meðvitund okkar um þessi atriði jókst urðum við stundum reið út í Guð. Við vorum búin að ná því sem áður hafði virst vonlaust, frelsi frá ástar- og kynlífsfíkn. Þrátt fyrir alla velgengnina virtumst við enn þurfa upp á eigin spýtur að glíma við óleystan ágreining og veikleika. Jafnvel þótt við værum langrækin út í Guð uppgötvuðum við að þessi máttur var sá eini sem við gátum treyst á að stæði með okkur. Jafnvel þegar við vorum á kafi í vonleysi, vonbrigðum og svartsýni vissum við að ekkert sem við gerðum gæti aukið jafn mikið möguleika okkar á farsælli niðurstöðu. Það skipti engu máli hversu oft á dag okkur misheppnaðist að HALDA OKKUR FRÁ einhverjum tilteknum skapgerðarbresti, eina leiðin var fram á við. Hvort sem okkur líkaði betur eða verr þá tilheyrðum við Guði án þess að hafa neitt með það að gera.
Með tímanum fengum skýrari sýn á vandræði okkar. Við höfðum búist við að Guð fjarlægði skapgerðarbrestina í einu vetfangi svo við þyrftum ekki að horfast í augu við þá. Við höfðum vonað að þeir væru aðeins ör á yfirborðinu sem væri auðvelt og sársaukalaust að losna við. Nú byrjuðum við að upplifa að Guð „gaf“ sannarlega mikið. Frekar en að leysa okkur undan ábyrgð með lágmarksáreynslu virtist Æðri máttur krefjast virkrar þátttöku okkar.
Svo virtist sem Guð hefði ekki áhuga á að tengjast okkur eins og foreldri hjálparlausu barni sem er sífellt að hrufla sig. Guð virtist frekar vera til í einhvers konar samstarf. Í stað þess að snúa okkur mótstöðulaust að Guði sem allsherjar verndara okkar eða refsandi, almáttugum einræðisherra var þess ef til vill vænst af okkur að við þroskuðum okkur til fulls sem manneskjur, þar með talið getuna til samstarfs og að gefa af okkur. Þessi nýju og opnu samskipti við Guð um galla okkar voru ekki samkomulag sem við gerðum í hræsni eða örvæntingarfullar bænir og kröfur líkt og við hneigðumst til þegar við vorum í virkri fíknihegðun. Guð skuldaði okkur ekkert og ætlaði ekki að taka tilsögn í því sem við kröfðumst.
Útkoman á þessu nýja samstarfi við Guð, þar sem við tókum leiðsögn um hvar við þurftum andlega aðstoð, var undraverð. Við höfðum kannski beðið um að óþolinmæðin yrði tekin frá okkur en fengum þá að uppgötva að við þurftum ekki að æfa okkur í þolinmæði. Í staðinn þurftum við að verða heiðarleg gagnvart því hvað við vorum sjálflæg og þvermóðsk. Eftir því sem við æfðum tillitsemi gagnvart öðrum og það að geta gefið án þess búast við umbun hvarf óþolinmæðin. Við höfðum eitt augnablik hemil á skapbræðinni sem við höfðum beðið Guð að fjarlægja. Þá fundum við skyndilega varnarviðbrögðin frá óttanum sem var falinn á bak við reiðina og fengum hugrekkið til þess að fylgja tilfinningu um traust fremur en óttanum. Við báðum um að þráin í aðra manneskju eða tiltekinn „veiðistað“ fyrir kynlíf yrði tekin í burtu og fórum að finna að við höfðum val. Þegar við völdum sjálfviljug að forðast staðina og fólkið þá dofnaði þráin. Þegar við þrábáðum Guð um að losa okkur undan minnimáttarkenndinni og óörygginu og gefa okkur sjálfstraust í staðinn þá fengum við opinskáa viðurkenningu annarra á þessum sömu tilfinningum. Þegar við meðtókum stuðninginn eða heyrðum lýsingar annarra á sams konar óöryggi þá fór okkur að líða betur.
Við gátum jafnvel fundið andlega næringu í árangurslausum tilraunum okkar til þess að ná framförum gagnvart skapgerðarbrestunum. Hjá mörgum okkar voru til dæmis fullkomnunarárátta og stolt tveir af erfiðustu brestunum. Jafnvel þegar okkur mistókst ítrekað að hafa stjórn á smásmugulegri eigingirni eða frestunaráráttu – sem var alls ekki „fullkomið“ – sáum við að við vorum að læra að sættast við framfarir frekar en fullkomnun! Þótt við gætum ekki alltaf  verið ánægð með árangurinn af tilraunum okkar til þess að breytast höfðum við allavega unnið okkur inn réttinn til þess að virða okkur sjálf  fyrir viðleitnina.

Eftir því sem við fundum sambandið við Guð styrkjast kom það okkur ekki á óvart að sjá að þörf  var á frekari hreingerningu. Með því að gefast upp fyrir vanmættinum gagnvart ástar- og kynlífsfíkn og því næst okkur sjálfum höfðum við kynnst okkur eins og við vorum í raun og veru. Við höfðum hafið samstarf við mátt sem gat frelsað okkur frá fíkninni og leitt okkur inn í nýja tilveru. Við vorum byrjuð að þróa með okkur andlega eiginleika sem höfðu ekki verið til staðar eða sem við höfðum lagt til hliðar á meðan við vorum í virkri fíkn. Það var kominn tími til þess að semja frið við aðrar manneskjur undir handleiðslu okkar nýja samstarfsfélaga, sem var Guð.