Vika 3

1. kafli – Uppgötvun ástar- og kynlífsfíknar: Sagan mín – hluti 3


Eftir um það bil ár byrjuðum við að stunda kynlíf. Mér þótti það óspennandi, en það var orðið auðveldasti leikurinn í stöðunni. Á yfirborðinu fannst   mér ég ekkert skuldbundnari henni en áður. Kvöld eitt  kom ég um svipað leyti og ég var vanur, (fastákveðnir tímar komu aldrei til greina með mér), en hún var ekki á vistinni. Það gerði mig órólegan, af því að  hún var alltaf heima. Ég gáði að henni aftur og aftur, fyrst í hálfkæringi en síðan ágerðist þráhyggjan um að vita hvort hún væri komin. Engin Jean. Ég hringdi í hana klukkan níu næsta morgun. Hún var komin heim, en ég var orðinn frávita af áhyggjum og vildi fá að fá að vita hvar hún hafði dvalið alla nóttina. Í fyrstu voru svör hennar ólós og loðin en að endingu skipaði ég henni beinlínis að segja mér það. Hún sagðist hafa sofið hjá Bert, – strák sem ég þekkti lítillega.
Ég var í rusli. Jean var, að því er ég hélt, háð mér. Þetta átti ekki að geta gerst og sló mig alveg út af laginu. Sjálfsmynd mín byggði algjörlega á því að ég væri bæði eftirsóknarverður og ómótstæðilegur. Ég sá þau endalaust fyrir mér í rúminu saman. Mér varð óglatt af því. Ég gat samt ekki afmáð myndina úr huga mér. Mér fannst eins og mér hafi verið nauðgað.
Jean tók eftir viðbrögðum mínum og þau virtust fara í taugarnar á henni. Eftir nokkra stund var ég orðinn viss um að ef ég kærði mig um, gæti ég enn náð henni til baka. Það var engin spurning. Við fórum yfir til Berts til að sækja dót sem hún hafði skilið þar eftir kvöldið áður. Nú sagðist hún ekki hafa neinn frekari áhuga á honum. Hún virtist jafnháð mér og áður – en eitt var ólíkt, nú var ég loksins „skuldbundinn“.
Eftir því sem sambandið slagaði áfram fór Jean að gruna á hversu veikum stoðum það byggði; gagnkvæmri tilfinningalegri meðvirkni. Hún átti líka erfiðara með að horfa framhjá hinu hrópandi ósamræmi á milli þeirrar skuldbindingu sem ég tjáði henni, og hversu oft ég var í burtu. Þótt ég væri í orði kveðnu með Jean, eyddi ég flestum helgum annars staðar í leit að kynlífsævintýrum.
Eitt dæmigert kvöld tilkynnti ég að ég ætlaði aleinn út, að eigin sögn á djasstónleika. Í staðinn eyddi ég tímanum í rómantískri kynlífsfantasíu með konu sem ég hafði verið að sofa hjá um nokkurra ára skeið. Ég kom mjög seint heim til Jean og áður en ég skreið upp í til hennar fór ég í sturtu og skolaði munninn mjög vel með munnskoli til að losa mig við lyktina af kynlífsfélaga mínum. Daginn eftir talaði ég af miklum ákafa um þessa djasshljómsveit sem ég hafði aldrei heyrt í.
Vegna þessa ævintýris og ótal annarra af svipuðum toga, er mér núna ljóst að ég gerði mér aldrei almennilega grein fyrir hvaða tilfinningar ég bar til Jean, aðrar en fíknina. Þar sem hún hafði lagt mikið kapp á að skapa þá draumsýn, þar sem ég lék hlutverk ofurhetjunnar í lífi hennar, var hana farið að gruna ósamræmið í tilfinningalífi mínu. Ákveðinn atburður afhjúpaði þessa tilfinningu vægðarlaust.
Eina helgina, þegar við dvöldum hjá móður hennar úti á landi, vorum við að aka í gegnum sveitina. Hún minntist einu sinni enn á umræðuefni sem hafði komið upp nokkrum sinnum – hjónaband. Ég var farinn að finna fyrir ákveðnum þrýstingi frá henni og móður hennar. Í bíltúrnum fann ég fyrir vaxandi einmanaleika. Ég man ekki eftir neinum verri einmanaleika en að vera með einhverjum sem ég elskaði, að eigin sögn, án þess að nokkur djúp eða merkingarþrungin samskipti ættu sér stað, eða gætu nokkurn tímann átt! Það er miklu einmanalegra en að vera einn. 
Skyndilega brast Jean í grát og snökti að ég elskaði hana ekki í raun og veru. Mér fannst ég sem kaldur steinveggur í návist hinna raunverulegu tilfinninga hennar. Ég reyndi að hughreysta hana og sannfæra… ég fann að ég var að tala þvert á raunverulegar tilfinningar mínar en ég gat ekki verið heiðarlegur, þar sem hvort sem ég elskaði hana eða ekki, þá þarfnaðist ég hennar. Hún var öryggið sem ég treysti á svo ég gæti fúnkerað í lífinu. Skuldbindingin sem hjónaband fól í sér var óhugsandi fyrir mig, en það sama gilti um það að vera án hennar. Að vera heiðarlegur um tilfinningar mínar var ekki, og gat ekki verið, til umræðu.
Hún skynjaði óákveðni mína og að lokum sagði hún mér upp.. sex vikum síðar bað ég hennar á hnjánum, með tárin streymandi niður kinnar mér. Ég var að grátbiðja hana um að losa mig frá vandamálinu, mér sjálfum. Jafnvel þótt ég viti í dag að ég var ekki fær um raunverulega ást á þeim tíma, voru fráhvörfin eftir Jean hundrað sinnum verri en eftir Leonore.
Nú hafði mynstur „ástar“ og kynlífsfíknar minnar um alllangt verið í föstum skorðum. Aðeins persónur og leikendur breyttust. Ég gerði mér auðvitað ekki grein fyrir þessu. Fyrir mér var hvert viðfang nýtt og spennandi. Ég hélt að aðrir öfunduðu mig af lífstíl mínum, á laun. „Þeir eru heiglar“ hugsaði ég, „og þora ekki að taka áhættur í lífinu“. Sá möguleiki hvarflaði ekki að mér að þetta tilgangslausa mynstur kæmi í veg fyrir alla varanlega hamingju. Reyndar var tilhugsunin að „sú næsta“ yrði sú sem myndi fullkomna líf mitt og gera mig heilan, sú gulrót dinglaði látlaust fyrir framan nefið á mér og dreif mig áfram.
Horft til baka, þá var mynstrið með Kötu alveg eins strax frá upphafi. Öryggisgjafanum í lífi mínu gat ég aðeins sýnt lítinn hluta af mér. Lífi mínu var rækilega skipt niður í hólf. Öll mín orka fór í að halda þeim aðskildum til að öryggi mínu með Kötu yrði stefnt í hættu með því að ég væri stöðugt að reyna við og táldraga aðrar.
Við Kata áttum í fremur stormasömu haltu mér/slepptu mér sambandi í nokkur ár. Það var ekki fyrr en ég varð edrú með aðstoð AA samtakanna, seint í janúar 1971, að fræjum mikilla breytinga var loks sáð. Ég var tuttugu og fjögurra ára gamall. Á síðustu drykkjumánuðum mínum hafði Kata orðið að rödd sjálfsrýni minnar – hluti af mér sem mér var meinilla við að væri til. Eftir því sem sannanir þess að ég var ófær um að hætta að drekka hlóðust upp, varð ég loks opinn, þótt í þröngum skilningi væri, fyrir hjálp AA samtakanna.
Það var þó eitt sem ég varð að tryggja um leið og ég varð allsgáður frá áfengi; að kyn- og „ástar“ líf mitt þyrfti ekki að breytast! Þegar ég hafði aðeins verið edrú í um mánuð, þegar ástarævintýri í viðskiptaferð færði mér um sanninn um að það þyrfti þess ekki. Og ekkert breyttist.
Ég er þess fullviss að sú staðreynd að ég gat haldið áfram með kynlífs og „ástar“ líf mitt eins og áður gerði edrúlíf mitt í AA minna ógnvekjandi. En ég streittist ekki meðvitað gegn bata mínum í AA. Ég varð mjög virkur í félagsskapnum og tólf sporunum tiltölulega snemma. Ég var þó ekki tilbúinn að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum mér á ákveðnum sviðum. Viðhorf mín til þess hvernig ég hagaði mér í ást og kynlífi voru of nálægt því hvernig ég sá sjálfan mig sem persónu til að ég gæti horfst í augu við það – fyrr en lífið neyddi mig til þess.
Á fyrsta árinu sem ég var edrú var Kata að vinna hjá manni sem var einnig hrifinn af henni og hafði mikið að gefa. Það var vegna þessarar ógnandi samkeppni sem ég bað hennar. Mér fannst þetta eina leiðin til að halda henni hjá mér. Við Kata giftum okkur þegar ég hafði verið edrú í átta mánuði. Ég lofaði innra með mér að vera „trúr“ – þó svo að það væri óhugsandi að eiga aldrei framar ástarævintýri. Þrátt fyrir efasemdirnar gekk trúlofun, brúðkaup og hveitibrauðsdagar vel fyrir sig og þetta var tímabil sem ég satt að segja, naut í raun og veru nándar með Kötu. Það var jafnvel dálítill léttir fólginn í því að ég væri í það minnsta að taka áhættuna að lifa lífinu í stað þess að streitast af öllu afli á móti því.