4. kafli – Leiðin að kynferðis- og tilfinningalegum bata – hluti 9 – Spor 8
Spor 8:
Við skráðum misgjörðir okkar gagnvart náunganum og urðum fús til þess að bæta fyrir þær.
Í áttunda sporinu snérum við okkur aftur að sjálfsskoðun og sjálfshreingerningu, líkt og í fjórða sporinu. Nú voru vandamálin þó öllu flóknari þar sem þau tengdust samskiptum við aðra og voru oft hlaðin tilfinningum. Listinn sem við gerðum var stundum langur. Við fórum að sjá að skapgerðarbrestir okkar höfðu haft áhrif á svo til öll kynni við fólk. Hvert einasta samband var skoðað ofan í kjölinn, jafnvel allt aftur í barnæsku.
Eins og aðrir höfðum við að mörgu leyti verið fórnarlömb. Mörg okkar áttu minningar um vanrækslu og líkamlega eða kynferðislega misnotkun. Litlu máli skipti hvort misnotkunin hafði verið raunveruleg að öllu leyti eða að við hefðum aðeins skynjað hana. Aðalatriðið var að tilfinningarnar höfðu þróast yfir í mikla biturð út í gerendurna. Oft beindum við hatrinu inn á við gegn sjálfum okkur. Við fylltumst sjálfshöfnun og viðbjóði gagnvart sjálfum okkur. Við notuðum sjálfshöfnunina til þess að réttlæta að við vorum ekki þess virði að vera elskuð og leystum þannig aðra undan ábyrgð. Eftir því sem við skoðuðum betur gömul sambönd gátum við ekki séð af hverju við skulduðum öðrum yfirbót. Að eigin mati vorum það við sem höfðum orðið fyrir skaða.
Í mörgum tilfellum höfðum við átt erfitt með að sjá að við hefðum gert nokkuð rangt. Samkvæmt reynslu okkar virtist raunverulegt vald í fíknisamböndunum hafa verið hjá öðrum: „Þeir veiddu mig á börum. Þær eltu mig á röndum. Ég reyndi að fara úr sambandinu en hann/hún þrábað mig um að vera. Hann/hún notaði mig, tók peningana mína, særði mig.“
En sporin sem við höfðum stigið höfðu breytt viðhorfum okkar. Fjórða spors listinn fékk okkur til þess að sjá að rót vandamálanna lá í eigingjörnum hvötum og sjórnlausum ástríðum. Hvort sem við vorum fórnarlömb eða gerendur (og flest okkar voru hvort tveggja) höfðum við notað óheilbrigð sambönd í þágu eigin hagsmuna til þess að hagnast á fíkninni. Án tillits til þess hvað aðrir höfðu gert eða mistekist að gera var okkar þáttur undirlagður af óheiðarleika og stjórnsemi, í bland við þrjósku og hroka. Við áttuðum okkur á að við þurftum að fyrirgefa öðrum sömu skapgerðargalla og hegðun og við vildum að aðrir fyrirgæfu okkur. Sjálfra okkar vegna þurftum við að sýna þeim sem við höfðum andúð á sama skilning og við þurftum á að halda til þess að geta fyrirgefið sjálfum okkur. Við gátum ekki gert fyrirgefningu okkar háða þeim skilyrðum að aðrir bættu okkur skaðann eða leiðréttu mistök sín. Við urðum að fyrirgefa þeim af því þeir voru veikir og beygðir, rétt eins og við, án þess að ætla sér það.
Næsta verkefni var að skoða eðli brota okkar og finna út hvort hægt væri að bæta fyrir þau. Við þurftum ekki aðeins fúsleikann til þess að biðjast fyrirgefningar, heldur einnig getuna til þess að sjá nákvæmlega hvernig við höfðum skaðað aðra og hvernig við gátum gert yfirbót. Það var ógnvekjandi tilhugsun, svo ekki sé meira sagt, að hitta þá sem höfðu auðmýkt okkur eða viðurkenna eigið ranglæti gagnvart þeim sem höfðu þurft að líða fyrir brot okkar. Jafnvel þótt við gætum ekki séð hvernig við ættum að öðlast hugrekki til þess að bæta fyrir brot okkar var viljinn til þess að reyna það mikilvægur fyrir þroska okkar. Með því að leyfa ótta og hroka að halda okkur frá þessu mikilvæga skrefi andlegs bata hættum við á að verja lífinu í að reyna að forðast gamla félaga úr eyðileggjandi samböndum. Við sáum að við hefðum lítið valfrelsi í framtíðarsamböndum ef við mundum ekki bera fulla ábyrgð á okkar þætti í eyðileggingu fyrri sambanda.
Við hættum að einblína á þann skaða sem aðrir höfðu valdið okkur. Það var mannlegt að vilja réttlæti og jafnrétti og „ná jafnvægi“ við heiminn, vera hvorki sá sem misnotar vald né fórnarlamb, en í rauninni höfðum við beint athyglinni að því sem aðrir skulduðu okkur frekar en því sem við höfðum gert þeim. Nú reið á að komast út úr tilfinningalega bókhaldinu, að hætta að reyna að „gera upp reikningana“ eða „jafna metin“. Án tillits til skaðans sem við höfðum orðið fyrir gátum við ekki breytt annarri manneskju. Það var aðeins okkar eigin þáttur sem við gátum breytt. Æðruleysisbænin öðlaðist dýpri merkingu þegar við báðum ítrekað um æðruleysi til þess að ná sátt við fólkið og atburðina sem við gátum ekki breytt og um kjark til þess að breyta því sem við gátum sjálf breytt með náð og heppni.
Með því að ígrunda misgjörðir okkar og með því að horfa framhjá „þætti annarra“ var okkur ljóst að við skulduðum mikla yfirbót. Jafnvel sem fórnarlömb höfðum við skaðað marga. Við höfðum valdið ringulreið í lífi fólks með sjúkdómi okkar og stundum kæft möguleika þeirra á að mynda heiðarleg sambönd annars staðar. Á löngum listum okkar yfir fólk sem við vissum ekki einu sinni hvað hét sást að við höfðum gert lítið úr „ástinni“ og svikið sjálf okkur og aðra um einlægni og heilindi. Við sáum greinilega hvernig óheiðarleikinn og blekkingin ollu því að fólk bjóst við hlutum frá okkur sem við hvorki gátum né mundum gefa. Við höfðum verið meistarar í að sýnast vera eitthvað annað en við vorum.
Þegar við sáum eigin þörf fyrir fyrirgefningu annarra á gjörðum okkar varð auðveldara að fyrirgefa skaðann sem aðrir höfðu valdið okkur. Auðmýktin jókst eftir því sem við sáum betur hversu mikil eyðileggingin var og hve margt yrði aldrei hægt að taka til baka. Við nákvæma skoðun á eigin þætti öðluðumst við nýjan skilning á hvötum okkar sem í grunninn byggðust á þörf fyrir ást og innihaldsríkt líf en sem fíknin hafði afskræmt yfir í eitthvað ljótt og skaðlegt, bæði gagnvart sjálfum okkur og öðrum.
Í auðmýkt snérum við okkur til Guðs og báðum: „Ég er ekki ábyrgur fyrir þeim aðstæðum sem sköpuðu mig en ég er fús til þess að reyna að bera ábyrgð á mér. Hjálpaðu mér að finna fúsleikann til þess að bæta hverri einustu manneskju í lífi mínu upp það sem ég hef gert á hennar hlut.“ Við hættum að halda yfirlit yfir „gjörðir annarra“ og fórum með eigin reikninga í rækilega endurskoðun. Í meðvitund Guðs, kærleikanum, fundum við í fráhaldinu nýja samúð gagnvart sjálfum okkur og ábyrgðartilfinningu í samskiptum við annað fólk. Í virkri fíkn vorum við birtingarmynd sjúkleika og afmynduðum raunveruleikann fyrir öllum þeim sem nálguðust okkur. Andlegur, tilfinningalegur, huglægur og í sumum tilfellum líkamlegur sjúkdómur okkar hafði jafnvel smitað þau sambönd sem hefðu getað verið heilbrigð.
Fyrir okkur var batinn nú orðinn meira en aðeins áhugi á því að lifa af. Við vildum í auðmýkt bregðast við vitneskjunni um þjáningarnar sem við höfðum valdið öðrum og bæta fyrir brot okkar.
