Vika 33

4. kafli – Leiðin að kynferðis- og tilfinningalegum bata – hluti 12 – Spor 11


Spor 11:
Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Mátt æðri okkur sjálfum og báðum um það eitt að vita vilja Guðs og hafa mátt til þess að framkvæma hann.
Hugmyndir okkar um Guð höfðu tekið róttækum breytingum. Guð hafði verið sá sem reddaði okkur úr vandræðum, hálfgerður umsjónarmaður, eftirlitsaðili eða eins konar foreldri. Fram að þessu höfðum við aðeins beðið til Guðs á erfiðleikatímum en nú þroskaðist sambandið yfir í meðvituð samskipti við þennan mátt. Umbreytingin hafði valdið okkur kvíða. Sum okkar grunaði Guð um að hafa valdið sársaukafullum, þroskandi aðstæðum sem við höfðum staðið andspænis í batagöngunni. Í það minnsta hafði Guð gefið leyfi sitt fyrir þeim. Við sáum það hægt og bítandi að samkvæmt áætlun Guðs gætu erfiðleikarnir mögulega hafa átt sér stað til þess að örva meðvitundina um takmarkanir okkar og þannig gert okkur betur í stakk búin til þess að treysta sambandið við Guð. Þetta nýtilkomna samband byggðist á gagnkvæmum heiðarleika og samvinnu og líktist meira sambandi tveggja fullorðinna, meðvitaðra einstaklinga. Svo virtist sem í gegnum sársauka okkar og vöxt í hinu nýja lífi gætum við orðið meðvitaðir félagar í sköpunarverki Guðs.
Við gátum ekki lengur aðskilið veraldlegt öryggi frá tilfinningunum innra með okkur. Við vissum að sáttin sem við fundum með sjálfum okkur var bein afleiðing af sambandinu við Guð og því að samþykkja náð og leiðsögn máttar sem var æðri okkur sjálfum. Þess háttar „öryggi“ byggði aðeins á takmarkaðan hátt á veraldlegum markmiðum. Samt var ekki nauðsynlegt að gefa upp á bátinn allt það veraldlega sem við höfðum sóst eftir. Þetta snérist miklu frekar um forgangsröðun. Við þurftum að líta á traustið til Guðs sem forsendu fyrir samböndum við aðra og starfstengdum skuldbindingum. Traustið til Guðs þurfti að vera grunnurinn að tilraunum okkar til þess að ná persónulegum, félagslegum og faglegum markmiðum.
Við báðum æ oftar um leiðsögn Guðs í öllum málefnum, stórum sem smáum, jafnt  andlegum  sem  veraldlegum.  Með  daglegum  bænum  gerðum  við  margar uppgötvanir. Sú fyrsta var að náð Guðs var sannarlega tiltæk okkur í öllum málum, hvort sem þau voru sérstaklega þýðingarmikil eða hversdagslega smávægileg. Svo virtist sem við gætum fundið tengingu við Guð jafnvel í smáatriðum eins og daglegu skipulagi og þátttöku í hversdagslegum verkefnum og uppákomum.
Vissan um nálægð Guðs í því sem virtist vera ómerkilegur hluti tilveru okkar, leiddi okkur að annarri uppgötvun. Við fundum að hugleiðsla og bæn leiddi af sér aukið daglegt, tilfinningalegt jafnvægi eftir því sem okkur miðaði áfram í lífinu. Það virtist ekki skipta máli hvort bænirnar voru frjálslegar eða innblástur frá merkum rithöfundum. Hugleiðsluna gátum við skipulagt fyrirfram eða einfaldlega notað lítið augnablik til þess að hlusta og stilla hugann svo hugmyndir Guðs gætu seytlað inn í meðvitundina. Hvernig eða hve langa stund við hugleiddum var aukaatriði, svo fremi sem við framkvæmdum hana nógu oft til þess að hún gæti talist reglulegur hluti af  daglegu lífi.
Eftir því sem samband okkar við Guð dýpkaði þá varð það okkur stöðugt tryggari kjölfesta. Án tillits til hve miklir stormar geisuðu í ólgusjó lífsins eða hversu mikið við þöndum seglin í formi skuldbindinga, sem við réðum ekki við með takmörkuðum styrk okkar og orku, fundum við að hugleiðsla og bæn tryggðu að okkur mundi ekki hvolfa. Við mundum haldast á floti í hverjum stórsjó og lifa af allar þær aðstæður sem lífið kæmi okkur í.
Við uppgötvuðum líka að við áttum sannarlega persónulegt samband við Guð. Það þurfti ekki að fylgja skilgreiningum neinnar kirkju eða reynslu annarrar manneskju. Í rauninni var óþarfi að skilgreina Æðri mátt, jafnvel fyrir okkur sjálfum. Vitundarvakningin fyrir því að Guð er alls staðar leiddi mörg okkar að því að kanna aðrar andlegar leiðir, til dæmis með ástundun eða námi í hugleiðslu eða guðfræði, hvort sem það var í skóla eða upp á eigin spýtur. Við fórum að sjá að sambandið við Guð var samband sem þróast gat í allar áttir líkt og saga sem var nýhafin. Það veitti okkur tækifærið til þess að hefja okkur upp yfir okkur sjálf sem svo mörg okkar höfðu reynt að finna í gegnum fíknina. Stóra kraftaverkið var að þarna vorum við að upplifa leyndardóma andlegrar tilveru sem uppskeru þess að taka þátt í „daglegu“ lífi frekar en sem verðlaun fyrir að flýja það.
Við reglulega hugleiðslu og bæn rann einnig upp fyrir okkur að nú var einni af grunnþörfunum mætt. Sem ástar- og kynlífsfíklar hafði þörf okkar fyrir ást virst óseðjandi. Fíknin hafði ekki uppfyllt hana né heldur tengslin sem við höfðum byggt upp í fráhaldinu, þótt þau gæfu okkur stuðning. Við gætum líkt tilraunum okkar í virkri fíkn við það að reyna að slökkva hræðilegan þorsta með því að drekka saltvatn. Því meira sem við drukkum, því þyrstari urðum við, allt þar til við höfðum stofnað lífi okkar í hættu. Á batagöngunni reyndum við að slökkva þorstann með því að vera upptekin í S.L.A.A. og með tilfinningalegri næringu, svipað og að borða appelsínur. Til þess að svala þorstanum í eitt skipti fyrir öll þurftum við fyrr eða síðar hreint vatn.
Við áttuðum okkur á að þorstinn, þörfin fyrir ást, var andlegur og að hreina vatnið var Guð, samkvæmt skilningi okkar á Guði. Jafnvel þótt sum okkar væru ekki trúuð eða reið við Guð þegar við komum fyrst í S.L.A.A., tókst okkur að eignast kærleiksríkt samband við þennan mátt. Eftir því sem við þroskuðum nándina við Guð fundum við að þörfinni fyrir ást var mætt á dularfullan hátt. Allan tímann hafði það verið ást sem við þörfnuðumst og ástin var af Guði. Dásamlegast af öllu var að með því að ganga í gegnum daginn meðvituð um leiðsögn Guðs virtist kærleikurinn streyma úr lind hið innra svo við mættum slökkva þennan þorsta í ást frá sjálfum okkur og öðrum. Á þennan hátt fórum við að upplifa nánd við sjálf  okkur, nánd við Guð og síðan við aðrar manneskjur.

Við höfðum leitað eftir algerri samvinnu við Guð og þekkingu á því sem Guð ætlaði okkur. Með því að lifa í heilindum og heiðarleika til þess að verða öðrum að gagni uppgötvuðum við að uppspretta kærleikans frá Guði var farin að streyma í gegnum okkur. Við vorum komin að tólfta sporinu.