4. kafli – Leiðin að kynferðis- og tilfinningalegum bata – hluti 13 – Spor 12
Spor 12:
Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum ástar- og kynlífsfíklum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum á öllum sviðum lífs okkar.
Við lestur á tólfta sporinu varð okkur ljós sú viska sem í því bjó og byggð var á reynslu annarra. Árangurinn af því að hjálpa öðrum yrði aðeins í réttu hlutfalli við „andlega vakningu“ okkar. Andlega vakningin var afleiðing þess að ná botninum og gefast upp, byggja upp trú og skoða fortíðina og persónuleika okkar með raunsæjum augum. Hún var gjöfin sem við fengum við að þroska sambandið við Guð, bera ábyrgð á áhrifum fíknarinnar á aðra, verða meðvituð um á hvaða sviðum lífsins við glímdum við vandamál og vinna að lausn þeirra á uppbyggjandi hátt. Við fundum áhrif andlegrar vakningar þegar við bættum fyrir brot okkar og stunduðum reglulega bæn og hugleiðslu til þess að eiga nánari samskipti við uppsprettu leiðsagnar og náðar.
Við uppgötvuðum að við gátum fest batann í sessi með því að vinna með öðrum ástar- og kynlífsfíklum. Fyrir utan sektarkenndina hafði reynsla okkar úr fíkninni umbreyst í djúpan og varanlegan lærdóm. Við deildum reynslu okkar frjálslega og opinskátt með öðrum og byggðum upp heilandi tengsl sem gátu fengið þá til þess að átta sig á eigin erfiðleikum og gefið hugmynd um hvar hjálp væri að finna fyrir þeirra eigin bata. Engin reynsla var eins mikilvæg og að fá að vera farvegur heilunar og frelsandi náðar. Þversögnin í þessu var að hæfnina fengum við úr sjúkdómnum sjálfum ekki síður en batanum.
Við áttuðum okkur á að á öllum sviðum lífsins þurftum við að lifa áfram eftir þeim gildum sem birtust okkur í batanum í S.L.A.A.. Við höfðum lært að vinna okkur í áttina að sem mestum heiðarleika, hreinskilni og ábyrgð og fórum að njóta tilfinninganna sem fylgdu í kjölfarið, að tilheyra og hafa tilgang. Við fundum að aðstæður þar sem þessi andlegu gildi áttu ekki við, persónulegar jafnt sem faglegar, máttu missa sín. Þau voru ekki „eintóm sýndarmennska“. Starfsframi sem við höfðum leitað eftir einungis til þess að tryggja veraldlegt öryggi höfðaði ekki lengur til okkar og annaðhvort breyttum við um stefnu eða gáfum hann upp á bátinn.
Völd og orðstír hættu að vera megindrifkrafturinn í samböndum við aðra og við uppgötvuðum hvað það er sem gefur öllum samböndum gildi, hvort sem þau eru fagleg, persónuleg eða félagsleg. Við sáum að í öllum samskiptum var aðeins hægt að þiggja jafn mikið og við höfðum að gefa.
Í sambandinu við maka okkar öðluðumst við nýja reynslu af kynlífi sem var ekki tengd fíknihegðun. Við uppgötvuðum að viðbótarávinningurinn af heiðarleika og samvinnu var sú uppgötvun að það er ekki hægt að byggja kynlíf á sjálfu sér. Í fíkninni höfðum við notað kynlíf, rómantík og meðvirkni til þess að gefa af okkur allt sem við álitum að væri við sjálf. Nú þegar við höfðum fundið sjálfsvirðinguna og vorum farin að finna til nándar með öðrum fundum við að við þurftum ekki lengur að treysta eingöngu á kynferðislega tjáningu til þess að upplifa öryggistilfinningu og skilgreina okkur sjálf. Aukin hæfni í samböndum til þess að treysta, deila og vera opinská var nauðsynlegur stuðningur í þessari þróun. Með því að losna við þessa byrði varð kynlífshegðun okkar frekar tæki til þess að átta okkur á stöðunni – tjáning á því sem þegar var til staðar í sambandinu. Það gat hvorki verið neitt meira né minna. Þó var frelsið og gleðin í kynlífinu möguleiki sem birtist aðeins hægt og bítandi. Tálsýnin um að samband ætti að snúast um kynlíf og „ást“ hafði verið svo sterk að við áttum mikið fráhald fyrir höndum áður en hún myndi dofna verulega og fara. Það var erfitt að öðlast heilbrigð viðhorf til trausts, kynlífs og nándar. Við sáum að ekki var hægt að aðgreina sanna nánd frá skuldbindingu.
Með því að upplifa áfram batann í S.L.A.A. skiljum við að við erum sannarlega þátttakendur í stórkostlegu ævintýri ósvikins frelsis. Okkur hefur og mun áfram hlotnast mikið lán sem við höfðum ekki einu sinni hugmyndaflug til þess að óska eftir. Lífið er frjálst og yndislegt. Ný vellíðan bíður okkar.
