5. kafli – Fráhvörfin – hluti 1
Ef þú hefur lesið þetta langt og komist að því, þótt treglega sé, að þú sért haldinn ástar- og kynlífsfíkn ertu sennilega mjög hræddur og hikandi. Kannski ertu ennþá að reyna að hrista af þér meðvitundina um þessa fíkn samhliða því að lesa um reynslu okkar og telja þér trú um að þetta sé ekkert vandamál, eða allavega ekki þitt vandamál. Kannski finnst þér þeir sem segjast þjást af þessum sjúkdómi vera öfgafullir rugludallar eða að minnsta kosti leiðindaskjóður!
En þrátt fyrir að reyna eftir bestu getu að loka augunum fyrir sannleiksgildi þess sem við höfum deilt með ykkur, þá sjáið þið sum að leikurinn er úti. Við erum hér með þér. Við munum alltof vel hve ógnvekjandi það var, þetta óþekkta sem vomaði fram undan þegar við flúðum undan klóm fíknarinnar, inn í eitthvað sem virtist vera tómið eitt. Við streittumst líka ákaflega gegn þeirri hugmynd að ástarlíf okkar og kynlíf væri fíkn.
En hvað svo? Ef ástar- og kynlífsfíknin þín snýst til dæmis um sjálfsfróun, hvernig geturðu þá verið viss um að ef þú hættir verðir þú ekki klifrandi upp um alla veggi af eintómri greddu? Hvernig veistu að ef þú hættir verðir þú ekki kalkaður fyrir aldur fram, kynorkan (eða kynfærin!) skreppi ekki saman og gufi upp og lífinu sjálfu verði ekki lokið í langdregnu dauðastríði? Ef þú hættir að senda frá þér, eða svara, eða á annan hátt halda gangandi orkustraumunum frá öðrum (þessar næstum yfirskilvitlegu tilkynningar um þú sért „TIL Í TUSKIÐ!“), hvernig geturðu verið viss um að þú verðir ekki líkamlega og tilfinningalega geldur og sviptur allri lífsorku? Og hvaða tryggingu hefurðu fyrir því að ef þú reynir að hætta að vera sjúklega háð(-ur) annarri manneskju, einhverjum sem þú gafst alla stjórn á lífi þínu fyrir langa löngu, að þú búir yfir nægum innri styrk til þess að taka aftur við ábyrgð og stjórn á eigin lífi?
Svarið við þessum nístandi spurningum er tvíþætt. Í fyrsta lagi, út frá því hvernig þér líður þá er rétt að þú getur ekki verið viss um neitt. Í öðru lagi þá getur reynsla okkar, eins og henni er deilt í þessari bók, samt mögulega gefið þér von um að komast í gegnum fráhvörf og lifa þau af. Við lestur þessarar bókar nærðu ef til vill að skynja hvað fráhvörfin hafa komið okkur SLAA félögum á miklu betri stað en við vorum á fyrir þau. Og þér er óhætt að treysta því að það er hverju orði sannara og líka hitt, að fráhvörfin gjörbreyttu okkur, hverju og einu.
Við getum ekki farið í gegnum fráhvörfin fyrir þig, né myndum við gera það, þó að við gætum. Hver myndi líka ganga í gegnum annað eins aftur, með fullu viti? Alla vega ekkert okkar! Samt er reynslan af kvölum fráhvarfanna engu öðru lík, einstök og jafnvel má segja að hún sé dýrmæt, (þó að þér finnist það varla núna). Á vissan hátt er reynslan þú sjálf eða sjálfur, sá hluti af þér sem í langan tíma hefur ítrekað reynt að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Þú hefur flúið þessar þjáningar lengi, en samt hafa þær stöðugt náð að glefsa í hælana. Þú verður að komast í gegnum fráhvörf til að geta orðið heilbrigð og heilsteypt manneskja. Þú verður að horfast í augu við sjálfan þig. Í fráhvörfunum, handan við þetta skelfilega sem þú óttast, finnurðu fræ heilbrigðs lífs. Þau eru reynslan sem þú þarft að þola til að gera tækifærin sem svo lengið hafa beðið þín að veruleika.
Við ástar- og kynlífsfíklar hefjumst handa hvert með okkar hætti. En lokaniðurstaðan er alltaf sú sama: Einn dag í einu, þá hættum við ávanabindandi hegðun í kynferðislegum og tilfinningalegum málum. Það skiptir heldur engu máli hverjar birtingarmyndir fíknarinnar eru hjá þér, þótt það sé vissulega mikilvægt að þú skilgreinir þína eigin fíknarhegðun. Hún gæti hafa komið fram sem skyndikynni, kvíðafullt kynlíf án nokkurra tilfinningatengsla, stjórnlaus sjálfsfróun, sýniþörf og/eða gægjuþörf. Aðrir gætu á sama tíma hafi staðið í áráttukenndum daðurleikjum og verið háðir einni eða fleiri manneskjum (hverri á fætur annarri eða samtímis), sannfærðir um að án viðkomandi væri lífið búið í bókstaflegri merkingu. Sama hvert hegðunarmynstrið er, þá verður því að ljúka. Hversu fast sem löngunin til að svala fíkninni sækir á þig þá verður þú að hætta að láta undan henni. Á þeirri stundu sem þú loksins hættir hefst hinn raunverulegi bati í SLAA og sá dagur telst þinn fyrsti dagur í fráhaldi. SLAA félagar hafa náð þessu algjöra fráhaldi eftir ýmsum leiðum og það er vert að líta nánar á þær.
Sum okkar héldu áfram að næra fíknina með óskertum skammti af hverju því sem gaf okkur kikk alveg þangað til við náðum botninum okkar og gáfumst upp. Þá var uppgjöfin líka algjör og við skrúfuðum fyrir allt í einu vetfangi. Þetta er harkalegasta aðferðin, sú sem er mest afgerandi. Að loka snögglega á allt var mesta reiðarslagið fyrir tilfinningalíf okkar og andlegt ástand svo fráhvarfseinkennin helltust yfir hratt og rækilega. Að byrja fráhvörf á þennan hátt var samt ekki endilega fljótlegra eða „betra“ heldur en að nálgast fráhvörfin á rólegri hátt. Sameiginleg reynsla kennir okkur að lengd, dýpt og afleiðing fráhvarfatímabils sé í meginatriðum hið sama fyrir okkur öll. Hér erum við aðeins að vísa til hinna mismunandi leiða til að hefja fráhvörfin.
Sum okkar mjökuðu sér hægt og rólega inn í fráhvörf með því að klippa út augljós vandamál eitt af öðru. Jafnvel litlir og blendnir sigrar opnuðu augu okkar fyrir öðrum birtingarmyndum fíknarinnar sem við vorum áður blind fyrir. Með vaxandi skilningi varð að lokum engin önnur leið í boði en allsherjar uppgjöf á öllum vígstöðvum. Með henni byrjuðu raunveruleg fráhvörf og nýtt líf í kynferðislegum og tilfinningalegum bata.
Þeim sem þekkja til eðlis fíknar kann að þykja þessi „hægfara“ uppgjöf óskhyggjan ein. Í AA er viðtekinn skilningur að „hálf ólétta sé ekki til“ og að „eitt glas sé einu glasi of mikið“. Fíkn brenglar líka huga fíkilsins svo mjög að ekkert eimir lengur eftir af þeirri hugsun að vilja hætta. Fíklinum dettur aldrei í hug að vilja losna!
Það er heilmikið til í þessu. Samt er það nú gjarnan svo að þegar við loksins gáfum hugmyndinni um fráhvörf eitthvað færi, þá var fíknin hætt að skila okkur því algleymi eða þeirri fróun sem við sóttum svo mjög í. Tilfinningalega og kynferðislega „svallið“ okkar útheimti sífellt meiri orku bara til að halda sjó, hvað þá að komast til „himna“. Þegar við lögðum út í nýtt tilfinningalegt eða kynferðislegt ævintýri var sem rödd hvíslaði innra með okkur „hvað ertu eiginlega að vilja“ með þessu nýja andliti, líkama eða sál? „Þú hefur gert þetta allt saman þúsund sinnum áður.“
Nýjabrumið í nýjasta ástarævintýrinu eða „sáttunum“ gat ekki lengur dulið sannleikann fyrir sjónum okkar. Hver ný vending var aðeins enn ein vonlaus saga, loforð álíka líklegt til lífsgæfu og það að skiptast á fótboltamyndum. Þegar þessi þreytta tilfinning tók að skjóta upp kollinum varð stöðugt erfiðara að kreista eitthvað út úr fíkninni. Við fundum orðið rækilega fyrir tilgangsleysi hennar þegar nær dró fráhvörfunum. Þó að við höfum mörg hver spreytt okkur á tilraunum með nákvæmlega hversu mikið við „réðum við“ urðu fráhvörf að lokum jafn óhjákvæmileg og það að eimreið sem keyrð er á kaf inn í svellkaldan jökul, mun fyrr eða síðar kólna niður og stöðvast.
Aðrir reyndu að virkja ytra aðhald til að koma sér í fráhvörfin. Þegar orkan sem fíknin útheimti var orðin okkur ofviða þá brast stíflan og sannleikurinn flæddi út í játningum fyrir mökum okkar og elskhugum um stórt sem smátt í lífi okkar. Við ældum upp úr okkur óboðlegum sannleikanum eins og okkur væri ekki sjálfrátt. Eitthvað afl innra með okkur ætlaði sér að hreinsa allt út og neyddi okkur til þess að spúla gjörsamlega allt eitrið út úr sálinni. Að koma út úr skápnum á þennan hátt þýddi ekki endilega við skildum hvað átt væri við með „fráhvörfum“ eða „fíkn“. En að verða vitni að því hvaða áhrif þessar afhjúpanir sem við höfðum svo lengi velt á undan okkur höfðu á fólkið sem skipti okkur mestu máli varð til þess að við gerðum okkur í fyrsta skipti grein fyrir afleiðingum gjörða okkar, bæði fyrr og nú. Eftir að hafa tætt okkur svona í sundur þorðum við heldur ekki að loka sárinu yfirborðslega eða láta duga að rétt rimpa það saman. Við vorum ekki bara útkeyrð tilfinningalega, við vorum dauðhrædd við sýkinguna sem enn svall í sárinu og hvað hún gæti gert okkur. Fremur af nauðung en kjarki héldum við þess vegna áfram að vera nánast fullkomlega opin og heiðarleg um allt milli himins og jarðar. Satt best að segja vorum við trúlega ekki edrú í alvöru, kannski ekki einu sinni meðvituð um að vera haldin fíkn. Sem þýddi að að líklega vorum við enn að detta inn í fíknarhegðun af og til. En, alltaf þegar við lentum í aðstæðum sem gátu kveikt á fíkninni fundum við vörn í því að segja öllum sem málið varðaði frá því hvað var að gerast. Kannski hringdum við í maka eða vin og sögðum þeim að nú værum við alveg á brúninni, rétt í þann veginn að steypa okkur inn í einhverja yfirmáta spennandi uppákomu. Vonbrigðin sem þetta fólk upplifði og uppnámið sem það komst í var afleiðing gjörða okkar og með því að velja að vera opin og horfast í augu við afleiðingarnar lokuðum við á tækifærið til að láta freistast.
