Vika 36

5. kafli – Fráhvörfin – hluti 2


Tilgangurinn með því að „afhjúpa“ okkur svona frammi fyrir þeim sem við höfðum svo oft farið á bak við var ekki að refsa neinum. Við reiddum okkur á þau og viðbrögð þeirra við kæruleysinu í okkur sjálfum til að tryggja að við fengjum afleiðingarnar strax í fangið. Við völdum sjálf að spilla fyrir eigin tilhneigingum til að leyna, fela eða fegra rómantísk samskipti og sambönd. Uppsafnaðar afleiðingar í samböndunum við þá sem skiptu okkur máli var iðulega það sem á endanum neyddi okkur til að gangast við stjórnleysinu og fíkninni. Skuldbindingin sem við gengumst þannig undir innra með okkur sjálfum um algjöran heiðarleika gagnvart öðru fólki um kynlíf okkar og tilfinningalíf, virtist nægja ein og sér til að hrinda af stað keðjuverkun vaxandi sjálfsheiðarleika, sem að lokum leiddu til skilyrðislausrar uppgjafar og fráhvarfa. 
Auðvitað er dálítið villandi að tala um mismunandi leiðir eða aðferðir til að komast í fráhvörf úr virkri ástar- og kynlífsfíkn því satt að segja hugsum við ekki meðvitað út bestu leiðina fyrirfram. Flest þekkjum við af eigin reynslu einhverja þætti úr öllum aðferðunum. Þá er rétt að rifja upp enn einu sinni að sama hversu heiðarlegar lokatilraunir við gerðum til að „stjórna“ fráhaldinu, þá byrjaði það ekki raunverulega fyrr en við slepptum síðustu tökunum og samþykktum, einn dag í einu, (eða einn klukkutíma í einu), að sleppa síðasta veika þræðinum við fíknina. Ekkert kveðjupartý.
Og nú hefurðu náð hingað, kominn í fráhvörf. Hvaða hættur leynast í þeim? Hvað geta þau fært þér? Hvernig kemstu klakklaust undan óumflýjanlegum freistingunum sem vilja toga þig aftur inn í gamla farið?
Hætturnar eru af tvennum toga. Í fyrsta lagi eru þær sem sem felast í eðli umbreytinganna sjálfra. Í öðru lagi hættur sem koma utan frá og láta þér finnast þú aldrei geta komist í gegnum fráhvörfin, og fá þig til að hætta við.
Ef til vill er mesta innri ógnin fólgin í því að nú þarftu að mæta því óþekkta. Eitt er að ákveða að fara í fráhvörf þegar þig svíður ennþá undan sársaukanum eftir síðustu rússibanareiðina. Allt annað er að velja fráhvörfin áfram, ekki út af einhverjum tilteknum atburði sem þú ert brenndur af, heldur sem andsvar við þekktu hegðunarmynstri úr fíkninni. Samt er það nú svo að þetta víðara sjónarhorn er algjört grundvallaratriði ef við ætlum að komast gegnum fráhvörfin. Reynslan sýnir að þegar við höfum komið auga á nokkrar botnhegðanir og sömuleiðis að við erum háð þeim, þá sjáum við ótal aðra siði og eiginleika í skapgerð okkar og hegðun sem tengjast fíkninni.
Að uppgötva þennan aragrúa af undirliggjandi hegðunareinkennum sem tengjast fíkninni getur dregið úr okkur allan mátt. Sá sem stöðugt heilsar með handabandi gæti til dæmis áttað sig á því að hann notar snertinguna í öðrum tilgangi en bara til þess að heilsa. Einhver sem klæðir sig á ákveðinn hátt gæti séð að tilgangurinn er að draga að sér ákveðna tegund athygli. Sá sem alltaf faðmar gæti verið að kanna viðbrögðin og möguleikann á nánari kynnum síðar meir. Eða sá sem er „rosalega góð(-ur) að nudda“ gæti með nuddinu verið að reyna smekklega (eða ósmekklega) við viðkomandi. Þessi dæmi eru bara nokkur af þeim augljósari af ótal mörgum. 
Áður sáum við þessi mildari hegðunareinkenni aldrei sem hluta af fíkninni því þau þrifust til hliðar við aðra, miklu svæsnari botnhegðun sem var svo augljós fíkn. Eftir að við hættum að komast í aðalvímuefnið okkar þá fórum við að sjá þessa hliðareinkenni sem veiðiferðir. Í fráhvörfum rann upp fyrir okkur að í hvert sinn sem við létum eftir okkur eitthvað í þessum dúr, sama hve saklaust eða hugsunarlaust það var, þá vorum við óafvitandi að skapa aðstæður fyrir kynferðislegar og tilfinningalegar flækjur – einmitt þær aðstæður sem við vildum forðast! 
Hugarfar okkar þurfti líka að breytast. Við vorum óvön því að láta nokkuð halda aftur af okkur í einu eða neinu og alvön því að vaða hiklaust eins og kjánar út í fúafenið án þess að líta til hægri eða vinstri. 
Okkur þóttu afsakanirnar mjög sannfærandi. „Ég get ekki annað en hitt hann, við vinnum jú bæði á sama vinnustað.“ „Ef maki minn væri oftar til í kynlíf þá þyrfti ég ekki að halda framhjá.“ „Mér finnst hálfvitalegt að tala ekki við fólk sem mér er annt um.“ „Ég á jafnmikinn rétt á að vera á staðnum og hann eða hún. Af hverju þarf ég þá endilega alltaf að víkja?“ 
Sumar afsakanirnar voru ekki eins sannfærandi en við notuðum þær nú samt. „Ég hef ekki séð hann eða hana dögum/vikum/mánuðum saman, svo varla getur þetta nú verið fíkn og þess vegna getum við byrjað að hittast aftur.“ „Mig langar bara stundum í kynlíf af þessu tagi. Ég veit að ég glími við vandamál en ég held að þetta sé ekki hluti af því.“ „Ef ég segi engum frá þá telst það ekki með.“    
Vandamálið var að við vorum slegin blindu fyrir því að með svona hegðun vorum við að fiska eftir spennandi laumuspili og þegar sannleikurinn rann loks upp fyrir okkur þá kunnum við einfaldlega ekkert annað. Okkur var fyrirmunað að gera greinarmun á eigin persónu og þeim ósiðum sem við höfðum tamið okkur, réttlætingunum, augnsambandinu, faðmlögunum, handabandinu og öðru álíka. En núna, þegar fíknareðlið í eigin venjum og hegðun stóð okkur skýrar fyrir sjónum, rákum við okkur líka á að það að taka slaginn við fíknina í hvert skipti sem hún skaut upp kollinum tók einfaldlega of mikið á. Við gátum ekki lengur vikist undan því að stíga næsta sársaukafulla skref. Við neyddumst til að fella grímuna sem fíknin var og horfast í augu við okkur sjálf án hennar. Við urðum að sjá hvaða manneskja leyndist bak við hana. 
Sjálfsskoðunin reyndi á þolrifin. Við neyddumst til að brjóta fráhvörfin upp í tuttugu og fjögurra stunda einingar og þrauka einn dag í einu. Þegar við vöknuðum, oft eldsnemma morguns, var fyrsta hugsun okkar: „Guð minn almáttugur! Enn einn dagur af ÞESSU!“ Stundum hefðum við helst kosið okkur hægt andlát í svefni þá nóttina. En hvernig sem okkur leið, þá báðum við guð um að hjálpa okkur í gegnum daginn sem framundan var. Ef við vorum ósátt við guð þá töluðum við líka um það í bænum okkar. Enginn þvingaði upp á okkur eitthvert þykjustuþakklæti! Við reyndum eftir bestu getu að vera einlæg frekar en að leika „góða barnið“.
Svo tók dagurinn við. Mörg okkar bjuggu ein á þessum tímamótum og þess vegna skiptu daglegar venjur eins og að þvo sér, klæða sig og næra sérstaklega miklu máli. Bara það að takast á við þessi hversdagslegu viðfangsefni undirstrikaði viljann til að sinna þörfum okkar.
Síðan hugleiddum við viðfangsefni dagsins framundan. Sennilega biðu okkar einhver verkefni, svo sem að borga húsaleiguna, þvo þvottinn, kaupa í matinn eða mæta í vinnuna. Líkamleg hreyfing, jafnvel bara eitthvað einfalt eins og langur göngutúr, gat þokað okkur áleiðis inn í daginn. Sumir tóku að stunda hlaup eða annað ámóta sem reyndi meira á skrokkinn. Með því tókst okkur að verða líkamlega þreytt og þreytan fyllti eitthvað eða jafnvel alveg upp í tómið sem varð eftir þegar við fengum ekki lengur kynferðislega útrás. Það hjálpaði okkur líka að tala við aðra SLAA félaga eða góða vini sem við treystum, kannski einhverja úr öðrum tólf spora samtökum. Trúlega var í boði að fara á opna fundi í AA eða Al-Anon eða jafnvel vorum svo lánsöm að okkur bauðst að sækja SLAA fundi. Kannski vorum við að reyna koma slíkum fundum í gang og höfðum þá einhverju að sinna í tengslum við það.
Tilgangurinn var ekki að fylla hverja stund dagsins með alls kyns verkefnum. Flest þurftum við líka hvíld, stund í næði ein með sjálfum okkur og ekki síst tóm til að sinna öðrum málum, nánum samböndum og skuldbindingum. Innri togstreitan brenndi ámóta orkumagni og flestir aðrir notuðu til að skila fullum vinnudegi og lifðu virku fjölskyldulífi. Raunar vorum við í meira krefjandi „vinnu“ en nokkurn tímann áður. Við vorum, jú, að rembast við halda aftur af okkur, brjóta af okkur hlekki hræðilegrar fíknar sem hafði sogað okkur niður í hyldjúpt svartnætti sjálfseyðileggjandi hegðunar. Bara það að gera ekkert útheimti gríðarlega áreynslu. Í bili ýttum við til hliðar mjög áþreifanlegum áhyggjum um hvert þessi vegferð stefndi með því að einblína á verkefnin sem voru hér og nú. Við einbeittum okkur að núinu og sáum að þannig tókst okkur að komast í gegnum einn klukkutíma, eina morgunstund, heilan dag. Og nú uppgötvuðum við gleðina sem fólst í því að sigla heilu og höldnu í gegnum hvern tuttugu og fjögurra stunda áfangann.
Okkur lærðist að besta lækningin við svíðandi sársaukanum sem fylgdu þessum átökum öllum og stöðugum bakþönkum var að bera allar vangaveltur um hvað nú biði framundan undir guð eða hvern þann mátt sem hélt okkur frá gamla farinu.