Vika 37

5. kafli – Fráhvörfin – hluti 3


Þannig opnaðist gáttin inn til okkar sjálfra, einn dag í einu. Með því einfaldlega „að sitja á okkur“ hófum við nýtt samband, við okkur sjálf, á grunni vaxandi trausts, nándar og heiðarleika í eigin garð. Núna skildum við að markmiðið með fráhvarfatímanum var að leggja grunninn að andlegu heilbrigði. Við vissum ekki hvernig það myndi skila sér inn í sambönd eða starf. En við vissum að á endanum myndi ytra yfirborð endurspegla heilsteyptan innri kjarna. Okkur tókst að njóta batnandi andlegrar heilsu og gátum leyft guði að ráða ferðinni. Loks leið okkur skár með breyttum viðhorfum og versta tilvistarkreppan var að baki.
Ytri ógnir voru hin hættan sem vofði yfir okkur á fráhvarfstímanum.  Minnst snérist hún um samtalið við nýja, framandi útgáfu af „sjálfinu“, sjálfi sem svipt hafði verið þeirri sjálfsmynd sem fíknin hafði skapað. Nú fólst „ógnin“ í aðstæðum sem stöðvað gátu sjálft fráhvarfsferlið og þvingað okkur aftur inn í gamla fíknarmynstrið. Ef við festumst aftur í fyrra fari gátum við auðveldlega farið á mis við að glíma við þær lykilspurningar um lífið og tilveruna sem við þurftum að finna svör við svo bati okkar næði að skjóta rótum og dafna. 
Ytri ógnir voru af ýmsum toga en ótrúleg „tilviljun“ einkenndi margar þeirra. Af djöfullegri nákvæmni birtust þær gjarnan einmitt þegar við vorum hvað viðkvæmust fyrir. Ef við höfðum til dæmist slitið augljósu þráhyggjusambandi (eða okkur sagt upp) og vorum enn óviss og tvístígandi (eins og alltaf er raunin) þá auðvitað „rákumst við óvænt á“ þráhyggjuna okkar á ólíklegustu stöðum. Heldur lúmskara, en ekki síður varasamt, var að hitta sameiginlega vini eða kunningja fyrir „tilviljun“ og þeir dembdu yfir okkur óumbeðnum fréttum af tilfinningalegu ástandi þráhyggjunnar fyrrverandi. Vitneskjan um að fyrrum elskhugar eða ástmeyjar væru þjökuð af þunglyndi eða sjálfsvígshugleiðingum, eða stæðu í einhverju daðri við annað fólk, hafði sterk áhrif á okkur.
Í SLAA hafa mörg okkar neyðst til að fallast á mögulega tilvist dulrænna afla að baki undarlegra atburða sem ekki var hægt að útskýra með öðrum hætti. Jafnvel þótt það væri mjög fjarri okkur að hafa nokkurt samband við þráhyggjuna á einn eða annan hátt gerðust atburðir, til dæmist barst okkur óvænt bréf eða skyndilega vorum við umkringd einhverju sem rifjaði upp minningar um sambandið. Slíkt gat vakið upp eða magnað tilfinningar um sérstaka andlega tengingu við gömlu þráhyggjuna. Áður en leið á löngu vorum við farin að gera ráð fyrir stöðugum áminningum í þessum dúr um alla framtíð! Þetta átti ekki síst við þegar okkur bárust tvíbent skilaboð frá þráhyggjunni sem vildi „hætta með“ okkur – en bara kannski. Við höfum tekið eftir því að alltaf þegar eitthvað er óljóst og tvírætt þá getur fíknin ennþá blossað aftur upp. 
Við þurftum öll, án undantekninga, að ganga í gegnum tímabil þar sem við vorum afskaplega berskjölduð gagnvart tilfinningalegu og andlegu áskorunum. Við urðum að takast á við þær þegar við lentum í kringumstæðum, eða hittum einhverja, sem beint eða óbeint höfðu áður tengst fíkninni. En jafnoft varð okkur ljóst vanmátturinn hafði þá þegar tekið að krauma undir niðri innra með okkur áður en við mættum einhverjum ytri prófraunum. Það var eins og varnarleysi okkar og vanmáttur gagnvart ánetjandi kynferðislegum og tilfinningalegum áhrifum – rómantísku eða kynferðislegu daðri eða að hengja okkur tilfinningalega á einhvern út af nagandi þörfinni innra með okkur – gæti í sjálfu sér skapað „tilviljanirnar“! 
Þegar ytri ögranir reyndu á þolrifin, sérstaklega þær af dulræna taginu, og við þurftum aftur að taka á öllu okkar til að standast freistingar fíknarinnar og falla ekki í botnhegðun, skynjuðum við aftur hversu djúpt ástar- og kynlífsfíknin hafði grafið um sig í sálinni og hversu þéttriðið net fíknarinnar var. Stundum virtust öflin sem héldu okkur í hlekkjum teygja sig svo miklu dýpra en geta okkar til sporna gegn þeim. 
Það kenndi okkur auðmýkt, og gerir enn, að sjá hversu rækilega fíknaránauðin hefur grafið um sig inni í innsta kjarna okkar. Jafnvel eftir langa edrúgöngu í SLAA getur fíknin teygt klær sínar þaðan og gripið okkur aftur heljartökum. Samt þorum við að fullyrða að fráhvarfstímabilið losar líka um þessa hörðustu fjötra fíknaránauðarinnar. Lykilorðin hér, sem leysa okkur undan grimmdaránauð dulrænu aflanna, eru tími og dagleg vinna af staðfestu eftir handleiðslu guðs. Vel kann vera að þetta sé það vígi fíknarinnar sem lengst stendur. En það vígi mun einnig falla. 
Hvaða tól nýttust okkur til að standa keik og halda haus þrátt fyrir ögranir í umhverfinu? Augljóst er að eitthvað þurftum við til mótvægis við tortímingarafl dulrænu atvikanna á staðfestu okkar og meðvitund. 
Kannski skipti mestu máli að afneita því einmitt ekki að nú reyndi í alvöru á þolrifin. Úr því að staðan var sú að endurteknar aðfarir að viljastyrk okkar urðu ekki umflúnar var eins gott að kannast sem fyrst við þær. 
Annað varnarvopn gegn taugastrekkjandi áreitinu var að skerpa á árvekninni með því að skrifa örstuttar lýsingar á blað um líðan okkar í fráhvörfunum. Mörg okkar biðu ekki með slíkar skriftir þangað til glímurnar hófust, enda var það gjarnan of seint. Við hlupum aldrei yfir neinar neikvæðar tilfinningar í dagbókarskrifunum. Hvað sem þjáningunum leið í fráhvörfunum náðum við sem þekktum skelfinguna úr virkri fíkn augljósum jákvæðum árangri strax í upphafi. Jafnvel upphafsóþægindi fráhvarfanna voru skárri kostur. Svo við skrifuðum og skráðum af kappi! Sú tilfinning eða glósa var ekki til sem ekki átti erindi í safnið. 
Hér að neðan nefnum við nokkur dæmi um atriði sem enduðu í dagbókunum. Ef til vill eiga sum þeirra líka við þig.
„Í dag er ég alveg að deyja úr söknuði og fráhaldsverkjum, en laus við sjálfsfyrirlitingu.“
„… kvíði og þörf eru að naga mig að innan …“
„Ástar- og kynlífsfíkn: Ég er ekki sjúkdómur sem ég er með, hún er ég sjálf.“
„Íkorni nagar hnetu lag fyrir lag, þannig nagar X mig.“
„Þrír klukkutímar liðnir í dag án þess að hugsa um X. Þori varla að trúa því.“
„Hittumst óvart … nagandi hungrið æpir á mig. Mig langar svo yfirgengilega.“
„Kannski X sé heilbrigður en ég sjúk? Allavega, saman erum við sjúk.“
Dagbókarskrif af þessu tagi voru máttug varnarvinna ofan á daglegar bænir og aðra SLAA vinnu, fyrirbyggjandi aðgerð til að hindra freistingar fíknarinnar í að fella okkur í hvert sinn sem umhverfið truflaði venju fremur. Hver stök dagbókarfærsla fól í sér eitthvað úr fíkninni sem sló innra með okkur. Með því að festa færsluna á blaðið var eins og þetta eitthvað festist þar líka og hætti að hreyfa við okkur. Þegar við mættum áskorun og við skynjuðum tilfinningarótið sem henni fylgdi, þá leituðum við í dagbókina. Hún hjálpaði okkur til að halda áttum, næstum í trássi við okkur sjálf. Að lesa gamlar færslur gerði að verkum, jafnvel líka á þeim tímum þegar við vorum í þann veginn að láta undan, að við sannfærðumst aftur að „víst var það svona ömurlegt“ og að ef við myndum grípa þetta nýjasta „tækifæri“ þá héldum við áfram að flækjast um í neti fíknarinnar.  Núna væri ekkert öðruvísi en áður. Hversu meiðandi sem þeir voru árekstrarnir milli freistinga fíknarinnar og kraftanna sem héldu okkur á réttum kili í öllum athöfnum, tilfinningum og andlega, þá vissum við hvað þurfti að gera – og láta ógert.
Auðvitað sóttum við líka mikinn stuðning í regluleg samskipti við aðra SLAA félaga eða aðra þá sem við gátum treyst og vissu hvað vorum að glíma við. Raunar var það svo að allt sem eflt gat meðvitund okkar reyndist dýrmætt haldreipi. Allt skipti máli. En verkfæri eins og dagbókin voru sérstaklega gagnleg því þau gátum við alltaf notað og alls staðar, óháð því hvort annar SLAA félagi væri tiltækur eða ekki.
Á hverju getum við þekkt það þegar við nálgumst lok þessa áfanga batagöngunnar? Þrátt fyrir allt þá vara, jú, fráhvörfin ekki til eilífðarnóns (þó að okkur líði stundum þannig). Hvaða atriði eru til marks um að nú séum við reiðubúin undir nýjan kafla í edrúlífinu? Við viljum gjarnan deila nokkrum slíkum merkjum með ykkur, eins og þau birtust okkur.
Fyrsta merkið var vaxandi meðvitund um að vera orðin nokkuð sjóuð í því að glíma reglulega við freistingar. Þó að stundum væri það óþægilegt, þá gekk orðið greiðlega að ráða við aðstæður sem voru svo lamandi í upphafi fráhvarfanna. Fráhvörfin höfðu kennt okkur að meta rétt þær margvíslegu ógnir sem urðu á vegi okkar, afgreiða þær og vera samkvæm sjálfum okkur í því. Við kunnum að „stíga ölduna“ og bjarga okkur í daglegri tilveru. Við höfðum öðlast frelsi til að velja og hafna kynferðislegum og tilfinningalegum tengslum.