5. kafli – Fráhvörfin – hluti 4
Annað merkið um að nú væru fráhvörfin brátt að baki var þegar við vorum ekki lengur stöðugt að hugsa um hve lengi enn við yrðum að halda okkur frá tilfinningalegum og kynferðislegum flækjum. Í fyrstu vældum við mörg: „Hvað þarf ég svo að bíða lengi áður en ég get byrjað nýtt samband eða stundað kynlíf?“. „Ég vil drífa þetta af svo ég sé fær um að vera í sambandi.“ En núna virtust þessar áhyggjur ekki lengur þjaka okkur á sama hátt og áður. Satt best að segja voru þær frekar spaugilegar í baksýnisspeglinum. Í rauninni bjó alltaf sama hugsun að baki. „Hversu lengi neyðist ég til að sleppa fíknarhegðun áður en má halda henni áfram?“
Þegar við hættum flóttanum frá okkur sjálfum inn í fíknina gerðist dálítið. Við fórum að kynnast sjálfum okkur og upplifa nánd í eigin garð. Slíkri reynslu er erfitt að lýsa. En í hnotskurn snérist hún um að nú byrjuðum við nýtt samband, hið innra. Þrátt fyrir að vera stundum örmagna eftir átök við freistingar umhverfisins og innra öryggisleysi vorum við ekki lengur bara að finna að eitthvað væri frá okkur tekið með fráhvörfunum, heldur líka að við værum að öðlast eitthvað dýrmætt. Fráhvörfin voru okkar verk. Við sjálf kusum að endurheimta þá orku sem við áður sólunduðum í vonlausa eltingarleiki. Sama orkan, nú á okkar valdi, nýttist til að ná andlegum bata.
Þessi dýpkandi skilningur á umbreytingunum innra með okkur hélt okkur á floti. Svo lengi sem okkur miðaði eitthvað áleiðis í átt til andlegs bata, var tími aukaatriði. Þversögnin er að þegar við loksins sættumst á að vita einfaldlega ekki hversu lengi fráhvörfin entust og vorum tilbúin að halda þeim áfram eins lengi og með þyrfti, þá rann upp fyrir okkur að björninn var unninn! Óttinn við að missa fíknina var hinn raunverulegi ótti að baki áhyggjum okkar um hversu lengi þau stæðu. Þegar við sættumst við þann ótta styttist óðum í fráhvörfunum lyki.
Þriðja merkið um lok fráhvarfa var betri meðvitund um náin sambönd, við börn, maka (kærasta/ur eða lífsförunauta), vini, systkini og foreldra. Að íhuga og velta hlutunum fyrir okkur eins og við gerum í fráhvörfunum, vakti okkur til meðvitundar um hvernig ástar- og kynlífsfíknin gegnsýrði sambönd okkar við flestar þær manneskjur sem skiptu okkur einhverju máli. Núna vorum við tilbúin til þess að verja einhverju af nýfenginni orku okkar í að endurhugsa þessi sambönd og laga, ef með þyrfti.
Að loknum fráhvörfunum biðu oft nokkrar erfiðar ákvarðanir. Sum sambönd okkar byggðust á tálsýnum eða fölskum forsendum. Önnur byggðust á mjög frjálslegri skilgreiningu á hugtakinu „vinátta“. Skortur á sjálfsvirðingu hafði orðið til þess að við sættum okkur við rýran kost. Okkur hafði þótt skárra að fá lítið heldur en ekki neitt. Aldrei höfðum við staldrað við og hugsað um eigin þarfir í þessum samböndum. Við fórum að taka eftir endalausu símhringingunum og öðru því sem við framkvæmdum sífellt en fengum aldrei endurgoldið. Okkur þótti orðið of dýru verði keypt að brenna upp allri þeirri orku sem til þurfti svo eitthvað líf tórði í þessum aumu samböndum.
Í öðrum tilvikum reyndist einhver sem okkur þótti áður svo „ómissandi“ (og hentaði okkur svo vel) alls ekki tilbúinn að samþykkja vitundarvakninguna um ástar- og kynlífsfíkn og þörf okkar til að þroskast í SLAA. Stundum stóð þessu fólki ógn af meðvitund okkar. Þau vildu „gömlu útgáfuna“. Við urðum að kyngja þeim beiska sannleika að nú vorum við vaxin upp úr samböndum af þessu tagi. Svo sannarlega sáum við nú að við áttum skilið að fá eitthvað til baka!
Þau okkar sem slitið höfðu samböndum og áttu fyrrverandi (fólk sem verið hafði hluti tilveru okkar og samferða okkur, en ekki endilega sjálft verið ástar- og kynlífsfíklar), fóru að spyrja áleitinna spurninga um heilbrigðar sem óheilbrigðar hliðar þessara sambanda. Á fyrstu skeiðum fráhvarfanna höfðum við alveg verið tilbúin að afskrifa öll fyrri sambönd sem fólu í sér kynlíf og skuldbindingu sem „sjúk“. Nú fórum við að sjá hlutina í skýrara ljósi og skilja þau betur. Okkur varð ljóst að þetta fólk hafði aldrei getað treyst okkur til þess að vera tilfinningalega til staðar. Þar til við hefðum gefið sambandinu tækifæri edrú, gætum við ekki vitað hvaða möguleikar bjuggu í því. Studd af dómgreind annarra SLAA félaga til að halda hugsun okkar skýrri, fórum við að þreifa fyrir okkur um mögulegar sættir.
Fjórða merki þess að nú værum við reiðubúin undir annað og meira en fráhvörf var nátengt því þriðja. Við áttum orðið þrek í ný eða löngu gleymd áhugamál. Möguleikinn á andlegum bata leiddi okkur inn á nýjar brautir, nýjan starfsvettvang, nám, nýtt tómstundagaman, nýjan vinahóp. Ef til vill var nýtt tilfinningasamband í fæðingu. Við vorum fær um og tilbúin að takast á við ný tækifæri á mörgum sviðum tilverunnar.
Þetta nýfengna þrek var ekki af því taginu sem eitt sinn hafði knúið okkur áfram af svo mikilli þráhyggju og áráttu. Að hafa horfst í augu við ringulreiðina og sársaukann innra með okkur og komist í gegnum þá reynslu, virtist hafa umbreytt eðli lífsorkunnar úr áráttu og þráhyggju í eitthvað miklu lygnara og jafnara. Í anda þessarar grundvallarbreytingar skynjuðum við að hvaða nýju lífstækifæri sem það nú voru sem framundan biðu, þá voru þau nú hluti af andlegum vexti, en hvorki útúrdúrar né flóttaleiðir.
Við fórum að finna að lífið hafði tekið stefnu og miðaði í átt að einhverju handan við fráhvörfin, í átt að nýrri tilveru þar sem nýfengin andleg reynsla okkar endurspeglaðist í samböndum, samfélagslegri virkni og starfi. Andlegir vaxtarverkir fráhvarfanna höfðu krafist orku sem nú var laus til annarra verka og nýttist okkur til að takast á við tækifærin sem lífið bauð upp á. Það var enn eitt merkið um að fráhvörfin væru brátt að baki. Á einhvern undarlegan hátt urðu til atvik eða aðstæður af „sjálfu sér“ sem gáfu okkur ný færi til að njóta okkar sem edrú fólk. Urðu þau gjarnan einmitt um leið og við fundum að við vorum tilbúin að spreyta okkur á þessum sömu tækifærum. Öfugt við það sem áður var þegar við syntum andstreymis við fljót forlaganna þá þótti okkur nú sem við syntum með straumnum. Forlögin unnu nú með okkur og við vorum að öðlast tilfinningu fyrir því að hafa eitthvað hlutverk í lífinu.
Hvað getum við sagt um síðustu merki þess að fráhvörfum sé lokið? Raunar birtust þau eftir á, þegar við vissum orðið að líf okkar í fráhaldi og fráhvörfum væri í þann mund að breytast. Ef til vill voru að takast sættir í hjónabandinu, nýtt samband í deiglu, eða breyting framundan á starfsvettvangi, sem fól í sér að persónuleg ábyrgð okkar og skyldur breyttust til mikilla muna. Vinnan við verkefni tilverunnar, hvort heldur þau vörðuðu okkur sjálf, sambönd, starf eða nám, var að hefjast á ný. Ekki lengur sem fjarlægur möguleiki, heldur vorum við nú þess albúin að taka strax til starfa.
Þegar við færðumst nær þessum vendipunkti í lífi okkar upplifðum við yfirleitt óvæntar tilfinningar af mörgu tagi. Við skildum að tíminn í fráhvörfunum – sem og reynslan öll sem fráhvörfin voru – var dýrmætur og einstakur tími í lífi okkar. Þrátt fyrir allan sársaukann og þjáninguna fyrstu metrana, þrátt fyrir allar þær erfiðu og hættulegu ögranir sem nýfengið og brothætt fráhaldið okkar hafði mætt og alla þá sálarangist sem þjakaði okkur í þessari úlfakreppu sjálfsmyndar og tilgangs, þá vissum við einhvern veginn að þessa tíma ættum við eftir að sakna.
Í miðjum erfiðleikunum og óvissunni hafði einfalt og náið samband orðið til; við höfðum kynnst okkur sjálfum og séð að við vorum verðug. Við vorum nú „elskuð“ af okkur sjálfum. Við höfðum eignast alveg nýtt samband við guð og lífið. Þegar við íhuguðum breytta tilveru, þá þráðum við meira að segja þann tíma sem beið í ókominni framtíð, þegar við myndum aftur skynja magnaðan mátt einsemdarinnar og upplifa á ný þá uppsprettulind sjálfsvirðingar, reisnar og heilbrigðis sem nú endurnærði okkur og flóði um tilvist okkar í heiminum.
Við vissum að við höfðum upplifað sanna náð.
