6. kafli – Að finna og hefja vinnu með öðrum ástar- og kynlífsfíklum – hluti 1
Það var kaldhæðnislegur fylgifiskur fráhvarfanna hversu ólíkt við brugðumst nú við þegar það henti að við rákumst á fólk sem okkur hefði aðeins fáeinum dögum eða vikum fyrr þótt gefa okkur vænlegt færi til að fiska á fíknarmiðum. Við stóðum okkur að því að frekar en að reyna landa „inneignarnótu“ mældum við viðkomandi út í leit að einkennum ástar- og kynlífsfíknar. Stundum spreyttum við okkur á boðun „fagnaðarerindisins“. Þetta var heldur betur breyting frá gamla mynstrinu! Oftast var það þó skyndihugdetta að afhjúpa okkur sem ástar- og kynlífsfíkla og gert til þess að verja okkur sjálf. Vandræðagangurinn í návist þeirra sem við fundum strauma frá þvingaði okkur til að tala hreinskilnislega um þessi mál, þrátt fyrir að með því værum við líklega að eyðileggja tækifærið til að svala fíknarþorstanum. Þær málalyktir voru í raun eftirsóknarverðar.
Innan SLAA varð snemma til orðatiltækið „maður má vera fúll dóni til að verja fráhald“. Sjálfsafhjúpunin reif niður rómantískar og kynferðislegar tálsýnir og um leið festum við hin nýju lífsviðhorf í sessi. Þrátt fyrir að líða eins og illa gerðum hlut fyrir allra augum varð uppátækið til þess að efla með okkur jákvæð viðhorf í eigin garð.
Af og til tókum við eftir því að aðrir fíklar runnu á lyktina af einhverju spennandi þegar við „komum út úr skápnum“ sem ástar- og kynlífsfíklar og drógust að okkur. Þrátt fyrir að tækifærin freistuðu vissulega gekk okkur hægt og bítandi betur að takast á við þessi atvik. Okkur gat ekki dulist hversu skýrt sannindamerki um brenglaða veruleikasýn hún var þessi vangeta þeirra til að taka því bókstaflega sem við sögðum. Satt að segja sáum við í hegðun þeirra okkar fyrra sjálf að „mistúlka“ ætlun annarra til að þjóna fíkninni.
Við fundum skortinn svíða sárt þegar við skemmdum viljandi góð tækifæri á þennan hátt. En smám saman vandist að mæta freistingunum á þennan hátt. Kitlandi, eða jafnvel dáleiðandi daður á kynferðislegum eða tilfinningalegum nótum sem einhvern tímann hefði haldið okkur í tilfinningalegri ánauð svo mánuðum eða árum skipti, líktist æ meir hversdagslegum viðburði sem við gátum afgreitt eins og hvert annað verkefni í dagsins önn.
Svo gerðist það fyrr eða síðar að opinber viðurkenning okkar á ástar- og kynlífsfíkn, sem við gripum til í upphafi sem klunnalegri varnartækni, tók á sig annan svip með afgerandi hætti. Okkur var alger nauðsyn að stimpla rækilega í kollinn merkingu þeirra atburða sem dregið höfðu okkur svona djúpt ofan í svaðið og knúðu okkur nú í uppgjör við eigin gildi. Þegar við sáum fólk sem enn var fast í greipum fíknarinnar og jafnvel að glíma við vaknandi vitund um hana í fyrsta skipti, þá sáum við líka okkur sjálf í enn skýrara ljósi. Með því að fylgjast með öðrum ganga í gegnum sömu þjáningar og við sjálf höfðum gert héldum við betur vöku okkar gagnvart ástar- og kynlífsfíkninni. Við vildum að finna aðra fíkla sem við gætum unnið með, en með því mættum við líka eigin þörf fyrir að eignast eins konar „móðurfaðm“, skjól án líkamlegrar og kynferðislegrar snertingar sem veitti okkur tækifæri til að vaxa og þroskast. Að finna aðra mögulega ástar- og kynlífsfíkla til að starfa með var brennandi þörf sem kom að innan, djúpt úr eigin sálarrótum, og henni gátum við ekki hafnað nema með því að stefna okkur sjálfum í bráðan háska.
Reynslusaga félaga frá upphafsárum samtakanna er skýrt dæmi. Eftir sex mánaða fráhald flutti hún á nýjan stað. Þá þótti henni einfaldara að sleppa því að nefna ástar- og kynlífsfíknina. Óbeinar tilvísanir í reynslu af ánetjandi kynferðislegri hegðun og meðvirkni átti til að misbjóða fólki eða gera því illa hverft við, jafnvel kalla fram hlátur, háð eða vafasamar uppástungur, meira að segja á fundum sem hún sótti í öðrum tólf spora samtökum.
Heilbrigð löngun til að öðlast samþykki og virðingu í nýjum vinahópi sannfærði hana áreynslulaust um gildi þagnarinnar. Eftir fáeina mánuði nefndi hún fíknina varla á nafn nema með sjálfri sér í bæn og hugleiðslu.
Hún tók varla eftir því þegar fíknin fór að læðast hægt og hljótt aftur inn í þau gildi sem hún lifði eftir. Sex mánuðir liðu. Þá gerðist það, á einu andartaki, að freisting sem bauðst breyttist í atburðarás sem hún hafði enga stjórn á. Sem betur fer þá hætti mótleikarinn við áður en lánlaus fíkillinn náði að rjúfa fráhaldið – en það var aðeins tæknilegt atriði og hrein heppni, en ekki eitthvað sem hún gæti þakkað sjálfri sér eða eigin árvekni. Skelfingu lostin skrifaði hún trúnaðarmanni sínum í S.L.A.A. bréf sem dró skýrt fram í dagsljósið að fráhaldið var orðið álíka brothætt og í byrjun! Mikilvægi þess að finna aðra til að starfa með var ekki einungis einhver fræðileg vangavelta, hvorki fyrir hana né okkur.
En hvar mátti finna mögulega félaga til að starfa með? Á fyrstu árum S.L.A.A. voru mörg okkar þegar virk í öðrum tólf spora samtökum, sérstaklega í A.A., O.A., Al-Anon og G.A. Þó S.L.A.A. sem slíkt hafi aldrei tengst (né, í samræmi við erfðavenjur okkar, mun tengjast) nokkrum öðrum samtökum, gátum við sem einstaklingar áfram verið félagar í þessum samtökum. Mörg okkar litu orðið á ástar- og kynlífsfíknina sem enn eina birtingarmynd fíknaráráttu sem teygði anga sína í aðrar áttir, svo sem alkóhólisma, ofát og spilafíkn. Því var okkur eðlilegt að leita mögulegra nýrra félaga í S.L.A.A. á meðal þeirra sem við þekktum nú þegar í þessum samtökum.
Það rann þó upp fyrir okkur að hægara var sagt en gert að grafa upp vonarfélaga af holdi og blóði. Engu breytti hvort við krydduðum tjáningu okkar rækilega með lýsingum á mynstrinu sem heyrði til ástar- og kynlífsfíkninni þegar við deildum reynslu okkar á fundum í þessum samtökum eða legðum hlutina beint á borð fyrir einstaka félaga. Það sem okkur þótti liggja svo í augum uppi – að ef látið er af fíknarhegðun á einu sviði þá finnur fíknin sér nýjan farveg – hljómaði eins og hebreska fyrir öðrum. Við sem vorum svo viss um að hafa á réttu að standa! Við horfðum upp á fólk tærast upp að innan vegna sjálfseyðileggjandi hegðunar sem var nákvæm endursýning á okkar eigin píslarsögu en samt tókst okkur ekki að kveikja á perunni hjá þessu fólki. Við héldum að fólk í augljósum fíknarvanda myndi flykkjast í hópum inn í S.L.A.A. En sú var aldeilis ekki raunin, ekki einu sinni hjá þeim sem okkur fannst vera í stórkostlegum vandræðum.
Hvað áttum við þá til bragðs að taka? Í fyrsta lagi þurftum við að hafa í huga að jafnvel þó ekki væri hlustað á okkar þá værum við samt að tengja sjálf við eigin reynslu með því að segja söguna okkar upphátt og styrkja með því eigin staðfestu. Í öðru lagi þá var afneitunin sem við urðum vitni að ekkert endilega neitt ólíkt því hvernig við sjálf höfðum hlúð svo vandlega árum saman að vanþekkingu varðandi þessi málefni öll.. Í þriðja lagi urðum við að gera okkur ljóst að sjálf vorum við á algjöru byrjunarstigi batans. Vanlíðan fráhvarfanna var trúlega ósköp auðsæ þeim sem við deildum reynslu okkar með og varla sérlega hvetjandi. Í fjórða lagi þá var bati okkar ekkert endilega háður því að okkur tækist að landa nýjum félaga inn í S.L.A.A. heldur miklu frekar viðleitni okkar til þess. Þess vegna skipti ekki máli að breiða út sýn okkar eða bæta við nýjum félögum. Við urðum að virða erfðavenjuna um „aðlöðun” fremur en „áróður” (ellefta erfðavenjan), ekki síst þegar við stóðum maður á móti manni eða kona á móti konu. Allt og sumt sem við gátum gert var að deila eigin reynslu. Þegar upp var staðið urðum við að treysta á leiðsögn æðri máttar um að okkur yrði sýnt hvernig við ættum að finna aðra félaga eða að þeir mættu sjálfir rata til okkar sem þyrftu á bata að halda og væru móttækilegir fyrir því sem við hefðum fram að færa.
