Vika 4

1. kafli – Uppgötvun ástar- og kynlífsfíknar: Sagan mín – hluti 4


Fíknir eru hins vegar eins og óveður innra með manni. Það er kannski kyrrt um hríð en aldrei er að vita hvenær brestur á með næsta stormi. Sex vikum eftir brúðkaupsferðina kom í ljós að ég var með kynsjúkdóm og þar sem ég vissi ekki hvort Kata væri smituð neyddi ég sjálfan mig til að segja henni frá því. Við fórum saman á Húð og kyn – raunveruleg nánd!
Nú var ég farinn að eiga á hættu dýpri tilfinningasambönd í ástarævintýrum mínum þar sem ég gat ekki lengur notað áfengi sem deyfilyf á tilfinningar. Raunveruleg ástarsambönd fóru að koma við sögu. Ég var ekki lengur aðeins að leita að kynlífsævintýrum, ég var að leita að hóru/gyðju samsetningu, konu sem gæti bæði veitt mér kynferðislegt algleymi og um leið snert sál mína.
Eftir aðeins fimm mánuði í hjónabandinu varð ég alvarlega „ástfanginn“ af Feliciu en hjá henni fann ég hvort tveggja, mikla kynhneigð og andlega upplifun. Ég fór á ógnvekjandi hraða úr einhverju sem ég hafði fulla stjórn á í ástand þar sem þrá mín eftir henni varð óseðjandi. Máttur fíknar minnar kom berlega í ljós þegar ég fór í ferðalag með konu minni til Nova Scotia. Ég fékk heiftarlegt kvíðakast á öðrum degi ferðarinnar. Mér fannst ég vera við dauðans dyr. Ég grét hástöfum, skjálfandi af móðursýki í fósturstellingu í framsætinu á bílnum. Ég kallaði þetta „ferðakvíða“. Í dag veit ég að þetta var afleiðing þess að vera ekki í samskiptum við Feliciu – að vita ekki hvað hún væri að gera á meðan ég var fjarverandi eða hvort hún yrði tilbúin að veita mér  „fixið“ mitt við heimkomuna. Þetta var svo ógnvænlegt að ég stytti tveggja vikna ferð niður í fimm daga af ofsafengnum akstri. „Látu Kötu fá nóg til að friða hana svo hún viti að ég sé að gera mitt besta en að koma mér sem fyrst aftur heim í dópið,“ – þannig voru hugsanir mínar.
Að lokum og af ótta við að hólfaskipt líf mitt væri í hættu, sleit ég sambandinu við Feliciu. Mér rétt svo tókst að standa við þá ákvörðun með aðstoð enn eins ævintýrisins, annarrar endurtekningar á hinu venjulega mynstri. Eftir að samband mitt við Feliciu hafði verið svo nálægt því að fara úr böndunum var ég mjög upptekinn af því að hafa stjórn á tilhneigingu minni til að þróa tilfinningasambönd. Ég kom mér upp nokkrum „öryggissvæðum“ í öðrum byggðarlögum þar sem kynferðislegir greiðar, ástarævintýri og rómantískir órar gátu farið fram á þann hátt  að mér fannst ég sæmilega öruggur. Ég stofnaði líka til nokkurra sambanda þar sem mér fannst tiltölulega lítil hætta á því að bindast tilfinningalega.
Í einu slíku sambandi við eldri og gifta konu sameinaðist kynlífssamband viðskiptum. Þrátt fyrir að ég fyndi stundum fyrir ógeði á sjálfum mér fyrir að sambandið gengi svona kaupum og sölum hélst þetta fyrirkomulag í nokkur ár. Stundum reyndi ég að halda mig frá þessu, yfirkominn af sjálfsfyrirlitningu. En líkamleg þörf fyrir spennulosun hafði alltaf yfirhöndina og ég fann mig hjá henni aftur, oft að hugsa upp einhverja fantasíu til að ná fullnægingu. Ég var að nota hana sem aukna sjálfsfróun.
Ég réttlætti þessa aðstöðu, eins og allar aðrar, með því að sjá þetta sem „kynferðislegt eðli“ mitt, helsta drifkraft minn, sem var mitt aðal persónueinkenni. Þetta var djöfull sem þurfti að friða – og lifa með. „Aðrir upplifa þetta kannski ekki svona“ hugsaði ég, „en kyneðlið er mitt  grunngildi – undirstaða þess sem ég er í raun og veru.“ Og þessu vildi ég ekki breyta. Ég var staðráðinn í að fara með þetta í gröfina, vonandi án þess að særa of marga aðra í leiðinni. Ekkert annað virtist mögulegt, hvað þá eftirsóknarvert. Þrátt fyrir hina vaxandi martröð hafði ég ekki enn upplifað þá tilfinningalegu þjáningu sem þurfti til að breyting gæti orðið.
Kata varð ófrísk í nóvember 1975, eins og við höfðum ákveðið, þrátt fyrir að ég hafði aldrei viljað eignast börn, á sama hátt og ég hafði aldrei „viljað“ giftast. Slíkar aðstæður þóttu mér vera sem fjötrar. Aukin ábyrgð gæti aðeins takmarkað möguleika mína (rétt minn!) til að eltast við rómantík annars staðar. Það var samfélagið sem var sjúkt, hugsaði ég, að reyna að þröngva mér í fjötra. En þessi speki sem ég hafði svo í hávegum hrundi undan ógninni, einu sinni enn, að ég myndi missa Kötu ef ég léti ekki undan löngun hennar til að eignast börn. Svo ég lét undan, með semingi, án þess að það breytti þessari lífsskoðun minni neitt.
Þrátt fyrir hina meðgönguna sem í vændum var breyttist hegðunarmynstur mitt ekki neitt. Í AA, eins og annars staðar í lífi mínu, safnaði ég stefnumótum við varnarlausar, aðlaðandi konur. Ein þeirra, Sara, var sérlega heillandi. Þar sem ég skynjaði hættuna sem mér stafaði af sambandi við hana reyndi ég að halda henni í skefjum með því að sofa ekki hjá henni. Þrátt fyrir það varð ég smám saman háðari henni þar til það var orðin hrein kvöl að hitta hana ekki.
Í febrúar 1976 dró Sara sig skyndilega í hlé og veitti mér enga athygli í nokkra daga. Ég var sem lamaður. Ég var þá þegar orðinn mjög háður henni. Síðan, rétt áður en ég fór í nokkurra daga viðskiptaferð út úr bænum, kom ég óvænt við heima hjá henni og tjáði henni ást mína. Þessari ástarjátningu fylgdi léttir yfir því að ég væri að fara úr bænum í nokkra daga og þyrfti þess vegna ekki að takast á við afleiðingar þessarar játningar.
Í annarri viðskiptaferð nokkrum vikum síðar missti ég af tengiflugi og tilhugsunin um að ná ekki fluginu heim þar sem ég hafði ætlað að hitta Söru kom mér í svo mikið ójafnvægi að litlu mátti muna að annað ofsafengið kvíðakast og algjört tilfinningalegt stjórnleysi tæki völdin.  
Þegar við Sara stunduðum loks kynlíf í fyrsta skipti náði hin uppsafnaða þrá, nú frjálslega tjáð í formi atlota, að flytja mig yfir í aðra veröld. Ég hafði aldrei getað fengið fullnægingu þegar kona veitti mér munnmök en með Söru var sú hindrun yfirstigin. Mér fannst ég komast á nýtt stig unaðar. Á aðeins þremur vikum þróaðist himneskt kynlífið með henni frá því að vera vikulegur viðburður yfir í knýjandi dagleg þörf. Kata, með sístækkandi óléttumagann sinn, fór í vinnuna snemma á morgnana. Þá flýtti ég mér frammúr, dreif mig til Söru og skreið upp í til hennar. Þar lágum við 
í eins konar tímalausri vímu, klukkustundum saman og nutum hvors annars. Ég horfði í augu hennar og tældi hana inn í endalaust samtal: „Ég elska þig“; „Ég þarfnast þín“; „Það ert þú sem ég vil“; „Ég get ekki lifað án þín.“ Stemmning gagnkvæmrar dáleiðslu var alltumlykjandi. Bæði vorum við eins og ljósið og flugan sem laðast hvort að öðru.
Undir áhrifum þessa dáleiðandi samruna hafði hvorki tíminn né umheimurinn nokkra merkingu. Heima lét ég eins og ekkert væri. Í það minnsta reyndi ég það. Dagskipulag mitt var þó undarlegt og Kata hafði stundum orð á því hversu seint ég skilaði mér heim á kvöldin, eða þá væri að rjúka út fyrirvaralaust eitthvað að sýsla. Ég gat samt haldið grímunni heima fyrir en með naumindum þó.
Um miðjan apríl gerði Sara sér ferð þvert yfir landið til að heimsækja gamlan kærasta og slíta sambandinu við hann að hennar sögn . Það var þá sem ég viðurkenndi endanlega fyrir sjálfum mér að ég væri háður henni – að ég „elskaði“ hana og eitthvað væri farið í gang sem ég réði ekki við. Ég var líka óskaplega feginn að hún yrði í burtu um tíma.
Þá gat ég hugsað málið. Mér fannst ég ekki geta lifað án Söru. Hálfpartinn hefði ég viljað að hjónabandið mitt og væntanleg barnseign myndu fæla hana frá mér. Það hafði ekki gerst. Þær ytri kringumstæður höfðu ekkert slegið á áhuga hennar. Auk þess hafði ég næstum því hætt að halda framhjá með öðrum konum (þó ekki alveg) eftir því sem samband okkar magnaðist. Þótt ég reyndi að klappa sjálfum mér á bakið fyrir þá hugmynd að ég væri „trúr“, gat þetta tæplega talist einkvæni. Sara tók sífellt meira af orku minni og ég gat ekki lengur haldið mér fjarri henni nokkra stund. Þrátt fyrir að Sara dýrkaði mig fannst mér ég ekki geta treyst því nema vera stöðugt  til staðar. Ef ég vanrækti að viðhalda því sem ég hafði lagt inn gætu aðrir „ósýnilegir félagar“ komist að henni. Og myndi hún standast það? (Þegar allt kom til alls þá var hún kannski eins og ég.)
Svo var það Kata. Þegar ég kom seint heim eftir kvöld hjá Söru, sem ég hafði enn einu sinni játað ódauðlega ást mína – og meint hvert orð – þá skreið ég upp í til Kötu og lagði arminn yfir stækkandi kvið hennar. Ég kúrði mig upp að henni, hlustaði á andardrátt hennar og tilfinningar ástar og væntumþykju til hennar flæddu um mig. Ég sagði við sjálfan mig: „Rich, þú hlýtur að vera geðveikur. Þú ert að missa vitið. Hvernig getur þú verið í þessari stöðu? Hvað ætlarðu að gera?“