Vika 40

6. kafli – Að finna og hefja vinnu með öðrum ástar- og kynlífsfíklum – hluti 2


Endurfæðing eigin hugmynda um hvað felst í því að starfa með öðrum gat af sér þau heilbrigðu viðhorf sem áttu eftir að reynast gott veganesti. Fyrr eða síðar birtist einhver sem var móttækileg(ur) í raun og veru, yfirleitt vegna svo ólíklegra atvika að þau gátu varla verið tilviljun. Kannski hringdi vinur vinar. Eða einhver, sem við þekktum ekki sjálf en hafði fylgst með okkur um tíma, hafði samband að fyrra bragði. Sem sé, allt aðrar aðstæður en þær sem við sjálf höfðum  talið bestar til að auglýsa leið okkar til bata. Nú vorum við leituð uppi. Hvernig var þá best að bregðast við?
Umfram allt urðum við að forðast að sjúkdómsgreina annað fólk. Við urðum að einblína á það sem við þekktum best en það voru einkenni okkar sjálfra. En úr einstökum atriðum í mynstrinu okkar mátti lesa algild einkenni fíknar: Eftirsóknina í að forðast vanlíðan og/eða magna ánægju, í bland við að missa stjórn á því að velja eða hafna nautn (þ.e. valdið var komið í hendur fíknarinnar) og stöðug þróun til verri vegar (vaxandi stjórnleysi með stöðugu niðurrifi og skaða á öllum sviðum lífsins). Í starfi með öðrum gátum við hamrað á þessum atriðum með því að týna til dæmi úr okkar eigin reynslu. Hvernig sjúkdómurinn þróast stöðugt var hugsanlega kjarni málsins, áminning um að – þegar við einu sinni höfum misst tökin á því hversu oft eða hversu lengi við veltum okkur upp úr kynferðislegri eða tilfinningalegri nautn – þá er til lengri tíma litið engin undankomuleið fyrir okkur til að forðast að tefla geðheilsu og jafnvel lífinu sjálfu í alvarlega tvísýnu. Vanmáttur og vonleysi voru svo sannarlega okkar hlutskipti .
Okkur lærðist að þegar við lýsum reynslu okkar af uppgjöf og fráhvörfum væri óviturlegt að gera of lítið úr vanlíðaninni með því að mála batann í of rósrauðum litum. Við vissum að ef viðkomandi var í raun og veru þjakaður af sjúkdómnum þá var þjáningin sem hún eða hann upplifði nú þegar svo miklu verri en nokkuð það sem við gátum sagt frá í tengslum við fráhvörfin. Að tala um fráhvörf sem  „skárri kost tveggja slæmra“ virkaði alveg jafn sannfærandi á vonarfélagann eins og „Fráhvörf – beinn og breiður vegur til alsælu!“ Það var líka miklu heiðarlegra.
Annað sem mikilvægt var að hafa í huga við starf með öðrum var að viðurkenna að margt vissum við hreinlega ekki. Við vissum til dæmis ekki hvert batinn myndi leiða okkur eða hvers vegna við værum „útvalin“ til að upplifa hann. Við „þekktum“ ekki hegðunarmynstur einhvers annars eða hversu lengi hann yrði að þjást í fráhvörfum. Við „vissum“ ekki hvort sumir gætu leyft sér að stunda lauslæti eða „rómantík“  án þess að ánetjast, eða þá hvers vegna við sjálf gátum það ekki úr því að annað fólk var fært um það. Það var margt sem við „vissum“ ekki.
Ef batinn hafði náð því stigi að við fundum að æðri máttur ætlaði okkur eitthvað ákveðið hlutverk í lífinu máttum við að sjálfsögðu deila þeirri nýju vídd tilverunnar, þessum nýju leiðum til að sjá og skynja okkur sjálf. En þrátt fyrir það var brýnt að hafa í huga að þessar nýju víddir sálarinnar væru trúlega ofar skilningi þeirra sem við vorum að hjálpa. Að öllum líkindum kæmist ekkert annað að hjá þeim en tilhugsunin um að mega ekki lengur láta undan kynferðislegum eða tilfinningalegum löngunum sínum og því væri von um persónulega og andlega heilun í þeirra huga óttalega döpur sárabót eða sjálfsblekking af verstu sort.
Okkur lærðist að hafa ekki áhyggjur af vangetu hins blinda til að skilja hugtakið „litur“. Hughreystandi lærdóminn sem lesa mátti úr okkar reynslu af fráhaldi fengi betri hljómgrunn síðar meir þegar hinir nýju félagar hefðu sjálfir tekist á við þrautir fráhvarfa og þann missi sem þeir sáu fram á.
Eitt enn: Við gátum aldrei sagt fyrir um (og getum það ekki enn) hverjir mundu „ná“ bata og hverjir ekki. Úr því að nánast við öll sem látum sjá okkur í S.L.A.A. vorum (og erum) í mikilli vanlíðan mátti alveg trúa því að hvert einasta okkar var nógu þjakað til að geta orðið edrú. En samt var það nú gjarnan þannig að þau sem virtust í hvað mestri kvöl og ringulreið og tjáðu sig hvað mest um léttinn sem fólginn var í því að uppgötva S.L.A.A.  voru einmitt þau voru fljótust voru að gleyma vanlíðaninni þegar versta kreppan var liðin hjá og misstu upp úr því allan frekari áhuga á S.L.A.A.. Þau fundu sér iðulega eitthvað til að ergja sig á og notuðu sem fyrirslátt til að hætta í S.L.A.A.. Skapgerðareinkenni einhvers félaga eða einhver ímynduð eða raunveruleg „afstaða“ S.L.A.A. varðandi fráhald var algeng afsökun til að láta sig hverfa. (Reyndar gefur sameiginleg reynsla okkar vísbendingar um að okkur sé sérlega tamt að nota tylliástæður í þessum dúr til að einangra okkur frá samtökunum sökum þess hve erfitt við eigum með hreinskilin og opinská samskipti við aðrar manneskjum.)
Við höfum ótal sinnum séð þetta gerast. Við höfum hvorki reynt að letja né hvetja þessa framvindu mála. Þegar öllu er á botninn hvolft verða þessir einstaklingar, alveg eins og við hin, að horfast í augu við eigin birtingarmynd fíknarinnar og axla ábyrgð gagnvart henni, ekki S.L.A.A. samtökunum. Að fá að fara án beiskju, tala nú ekki um í heiðarleika og prúðmennsku, auðveldaði stundum viðkomandi leiðina til baka þegar hann eða hún áttu betri möguleika á að finna sinn botn og gefast upp. Ítrekað höfum við orðið vitni að því hvernig viðskilnaður í góðu bar ríkulegan ávöxt með því að vonarfélaginn skilaði sér aftur heim til S.L.A.A. þar sem hann eða hún varð edrú. Raunar er reynslan sú að þau sem komu inn í S.L.A.A. og áttu einna erfiðast með að sætta sig við það voru gjarnan þau sem komin voru til frambúðar!