Vika 41

7. kafli – Að stofna S.L.A.A. deild – hluti 1


Í þriðju erfðavenju S.L.A.A. segir að: „Hvaða tveir eða fleiri einstaklingar, sem koma saman til að hjálpa hver öðrum til að ná bata frá ástar- og kynlífsfíkn, mega kalla sig S.L.A.A.-deild svo framarlega sem hópurinn hafi engan annan tilgang.“  Í anda þessarar erfðavenju þá getur þú hreinlega stofnað S.L.A.A. deild jafnskjótt og þú hefur fundið aðra líklega manneskju af holdi og blóði sem stefnir á fráhvörf og þú ert að hitta án formlegheita, (svo framarlega sem hópurinn sem slíkur tengist engu öðru). 
Samt sem áður er líklegt að á einhverjum tímapunkti verði æskilegt að koma meiri reglu á stað og stund. Formfestan með föstum fundartíma S.L.A.A. funda, jafnvel þó að bara tveir mæti, getur orðið til að þú skynjir betur eigin ásetning um að hjálpa öðrum sem þurfa bata til að átta sig betur á ástar- og kynlífsfíkninni. Fundur getur líka þjónað sem torg þar sem deilt er reynslu, styrk og von varðandi bata frá ástar- og kynlífsfíkn, staður sem vísa má nýju fólki á.  
Snemma í sögu S.L.A.A. rákumst við á margar gildrur á leið okkar sem vel hefðu getað skapað togstreitu en sem okkur tókst að yfirstíga á uppbyggilegan hátt. Ef þú tekur þátt í að stofna eða verða hluti af S.L.A.A. deild gæti reynsla okkar nýst þér. Að hugsa upp deild var mjög spennandi í byrjun. Deild virtist rökrétt framhald af stopulum skiptum þar sem nokkur okkar höfðu hist og deilt reynslu hvert með hvort á óformlegan en kraftmikinn hátt um nokkurra mánaða skeið. Þó að S.L.A.A. sem slíkt megi rekja til þess að fyrstu reglulegu S.L.A.A. fundirnir hófust þá liðu meira en níu mánuðir áður en þessir fundir komust á næsta stig. Þegar annar einstaklingur byrjaði í raunverulegum bata og varð edrú, breyttist þessi fyrsta deild í samfélag og næsta stig tók við. 
Nokkurn veginn það eina sem þeir vissu þessir fyrstu S.L.A.A. félagar í upphafsglímu batans, var að þeir yrðu að finna aðra til að vinna með til að halda sjálfum sér á tánum gagnvart eigin fíkn. Að vinna með öðrum var besta leiðin til að koma í veg fyrir slævandi áhrif fíknarinnar á vitund okkar sjálfra um hana, sem þeir vissu að var svo einkennandi fyrir sjúkdóminn. Skuldbindingin sem fólst í því að nú var reglulegur fundur, óháð því hvort einhverjir aðrir mættu eða ekki, átti sinn þátt í að skapa meiri samfellu, og tempraði ofsagleðina eða vonbrigðin, sem stöfuðu frá stopulli þátttöku þeirra sem þegar höfðu fengið frá okkur mikinn tíma og athygli. 
Í fyrstu voru fundirnir mánaðarlegir, en síðan annan hvern mánuð. Allt frá byrjun gerðum við engar tilraunir til að vekja athygli á fundinum. Ástæðurnar fyrir því að sækjast ekki eftir almennri athygli voru fjölmargar. Í fyrsta lagi var enginn efi í okkar huga, ekki einu sinni í blábyrjun, að grunnreglurnar sem mótuðust í deiglu AA samtakanna ættu að verða leiðarljós okkar. Þær höfðu tryggt tilvist AA á tímum þegar miklir fordómar gagnvart alkóhólisma voru ríkjandi. Við trúðum því að sömu erfðavenjur myndu þjóna okkur jafn vel, ef við myndum virða þær. Við vissum að í samfélaginu nú væru engu minni fordómar gagnvart „ástandi“ okkar sem ástar- og kynlífsfíklar heldur en verið hefðu gagnvart alkóhólisma á fjórða og fimmta áratugnum. Né heldur værum við sem einstaklingar eitthvað síður knúin áfram af sjálfshyggju heldur en frumkvöðlar AA samtakanna. Við þyrftum vernd fyrir óvinveittri athygli að utan og þeim tortímandi innri djöfli sem sérgæska eigin vilja er.
Samtökin okkar myndu því aðeins lifa ef okkur tækist að finna lausn sem hamið gæti báðar þessar ógnir. Ef okkur mistækist að sjá og takast á við þessar áskoranir og samtökin myndu leysast upp, vissum við að við, sem einstaklingar, myndum líklega ekki lifa af. Þó að við værum ekki í neinu skapi til að finna hjólið upp aftur, vissum við að við urðum sjálf að taka ábyrgð á lífsreglunum sem verða mundu leiðarljós okkar. Reyndar var það okkar eigin reynsla snemma á ferli samtakanna, til viðbótar við dæmin úr sögu AA, sem færði okkur heim sanninn fyrir því að hver og ein þessara erfðavenja væri nauðsynleg. Við ræddum sérhverja þeirra og stundum voru þær umræður ansi heitar. Þegar þess var þörf löguðum við þær að þörfum okkar eigin samtaka. 
Hér eru tólf erfðavenjur S.L.A.A., samtaka ástar- og kynlífsfíkla:

  1. Sameiginleg velferð okkar situr í fyrirrúmi. Bati hvers og eins er undir einingu S.L.A.A.-samtakanna kominn.
  2. Í málum deilda er aðeins einn leiðtogi, kærleiksríkur Guð, eins og þessi máttur getur birst í samvisku hvers hóps. Forsvarsmenn okkar eru þjónar sem við treystum en ekki stjórnendur. 
  3. Til þess að gerast S.L.A.A.-félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að lifa í mynstri ástar- og kynlífsfíknar. Hvaða tveir eða fleiri einstaklingar, sem koma saman til að hjálpa hver öðrum til að ná bata frá ástar- og kynlífsfíkn, mega kalla sig S.L.A.A.-deild svo framarlega sem hópurinn hafi engan annan tilgang. 
  4. Sérhver S.L.A.A.-deild á að vera sjálfstæð nema í málum er varða aðrar deildir eða S.L.A.A.-samtökin í heild.
  5. Sérhver deild hefur aðeins eitt meginmarkmið: Að flytja ástar- og kynlífsfíklum sem enn þjást boðskap samtakanna.
  6. S.L.A.A.-deild eða S.L.A.A.-samtökin í heild ættu aldrei að ljá öðrum samtökum eða málstað nafn sitt, fjármagn, fylgi eða lausafé, svo eignir eða upphefð fjarlægi okkur ekki upphaflegum tilgangi.
  7. Sérhver S.L.A.A.-deild ætti að standa á eigin fótum og hafna utanaðkomandi fjárhagsaðstoð.
  8. Félagar í S.L.A.A.-samtökunum eru ætíð einungis áhugamenn, en þjónustustöðvar okkar mega ráða launað starfsfólk. 
  9. S.L.A.A.-samtökin sem slík ætti aldrei að skipuleggja en við getum myndað þjónustunefndir og ráð sem eru ábyrg gagnvart þeim sem þau starfa fyrir.
  10. S.L.A.A.-samtökin taka ekki afstöðu til annarra mála en sinna eigin. Nafni þeirra ætti því að halda utan við deilur og dægurþras. 
  11. Afstaða okkar út á við byggist fyrst og fremst á aðlöðun en ekki áróðri. Við þurfum ávallt að gæta nafnleyndar í blöðum, útvarpi, sjónvarpi, kvikmyndum og öðrum fjölmiðlum. Við þurfum sérstaklega að varðveita nafnleynd allra félaga okkar í S.L.A.A.
  12. Nafnleyndin er andlegur grundvöllur allra erfðavenja okkar og minnir okkur á að setja málefni og markmið ofar eigin hag.

Okkur var ljóst að samkvæmt þessum erfðavenjum þá hvorki gætum við né ættum að  neita neinum um aðild að samtökunum sem á þeim þyrfti að halda. En við vissum líka að ef við gættum ekki vel að því, sérstaklega í byrjun, að fundir og samtökin væru helguð bata frá ástar- og kynlífsfíkn gætum við lent í vandræðum. Ef við myndum stíga fram og útvarpa tilveru samtakanna okkar út um víðan völl, gætum við drukknað í flóði fólks í leit spennu, gægjum og þeirra sem hugsanlega væru fíklar en væru fyrst og fremst komin til að leita sér ævintýra. Ef þeir taka yfir sem ekki eru að leita sér að bata þá myndi upphaflegur tilgangur okkar breytast á óafturkallanlegan hátt, en „samviska deildarinnar“ á að viðhalda þeim tilgangi eins og sagt er í erfðavenjunum. Ef grafið yrði undan því að samviska deildarinnar sé helguð persónulegum bata myndum við tortímast. 
Til þess að virða hugmyndina um samvisku deildarinnar urðum við að velja stað og stund og sýna varfærni þegar við „gáfum boðskapinn áfram“. S.L.A.A. gat ekki ekki útilokað neina ástar- og kynlífsfíkla í leit að bata, en við getum samt ekki trommað upp frammi fyrir alþjóð með stefnulýsingu og framtíðarsýn fyrir S.L.A.A. á kostnað þess að rækta garðinn okkar. Við gátum ekki lagt áhersluna á að draga fjöldann inn á fundi til okkar á kostnað þess að þynna út boðskapinn um bata. Að stytta okkur leið kom ekki til greina. 
Jafnvel þó þetta atriði væri skýrt í okkar huga þurftum við óhjákvæmilega að takast á við nokkrar áskoranir snemma á ferlinum sem ógnað gátu megin tilgangi deildarinnar. Eitt dæmi um slíkt kom fyrir á því stutta tímabili þegar þegar fyrsta S.L.A.A. deildin hittist á fundum heima hjá einstaklingi sem ekki var í fráhaldi. Viðkomandi var með þráhyggju fyrir því að brjóta af sér hömlur gegn því að láta undan lönguninni til að snerta og vera snertur. Á einum fundinum tókst honum að fá konu til að nudda á sér bakið. Á fundinum voru margir nýliðar og S.L.A.A. félagi í góðum bata vakti athygli á því að þetta væri ekki í lagi og áréttaði tilgang deildarinnar með skýrum hætti. Sá sem sóttist eftir baknuddinu reiddist illilega og hélt því fram að við gætum ekki skipað honum fyrir á hans eigin heimili. Óþarfi er að taka fram að deildin hittist aldrei aftur þarna og að viðkomandi aðili lét sig hverfa stuttu síðar í leit að afslappaðri félagsskap.
Við höfðum lært dýrmæta lexíu. Ef halda átti S.L.A.A. fundi heima hjá einhverjum félaga, eins og venjan var í byrjun, þá urðu viðkomandi að hafa náð góðu fráhaldi í S.L.A.A. í talsverðan tíma. Þeir urðu að vera trúverðugir. Ef þeir voru ekki bæði trúverðugir og í fráhaldi þá var sjálft örugga svæðið í hættu, sem varð að vera til staðar á hverjum einasta S.L.A.A. fundi. Við urðum að vera stöðugt vakandi fyrir því að það sem gerðist á fundum væri í samræmi við fimmtu erfðavenjuna: „Sérhver deild hefur aðeins eitt meginmarkmið: Að flytja ástar- og kynlífsfíklum sem enn þjást boðskap samtakanna.”