Vika 42

7. kafli – Að stofna S.L.A.A. deild – hluti 2


Tillaga að fundarformi
Þegar fyrstu reglulega fundirnir höfðu náð að festa betri rætur fór deildin að halda vikulega fundi og staðlað fundarform varð til. 
„Fundarstjórnin“ gekk vikulega á milli félaga í kjarna deildarinnar. Fyrstu mánuðina var sjálfskilgreint fráhald eina krafan til fundarstjórans, án skilyrða um tímalengd. Að nokkrum tíma liðnum tók vaknandi samviska deildarinnar að miða við sex vikna samfellt (og sjálfskilgreint) fráhald í S.L.A.A. sem skilyrði fyrir því að stjórna fundi. Núna hefur verið miðað við það í rótgrónum S.L.A.A. deildum í nokkur ár. Okkur finnst að fyrstu vikur fráhvarfa frá ástar- og kynlífsfíkn séu svo krefjandi að það taki nýliða nokkurn tíma að festa rætur í S.L.A.A. og aðlagast nægjanlega til að stjórna fundi. Manneskja sem fer í fráhvörf breytist venjulega mjög mikið á fyrstu sex vikunum og í kjölfarið taka við enn frekari meðvitaðar breytingar á næstu þremur til sex mánuðum. En, þó að sex vikna fráhald hafi reynst góð regla fyrir fundarstjórn, þá hafa ekki, né hafa nokkru sinni verið, nein tímamörk fyrir því að deila eigin reynslu á venjulegum S.L.A.A. fundum. 
Eftirfarandi fundarfomið varð til í fyrstu deildinni okkar og hefur reynst vel í öðrum deildum sem orðið hafa til síðar. 
Fundarstjóri tilkynnir: „Þetta er reglulegur fundur í S.L.A.A., samtökum ástar- og kynlífsfíkla. Við byrjum fundinn með stuttri þögn áður en Inngangsorð S.L.A.A. verða lesin.“
Síðan eru Inngangsorðin lesin: 
Inngangsorð S.L.A.A.
SLAA er félagsskapur byggður á grunni tólf reynsluspora og tólf erfðavenja AA-samtakanna. Eina skilyrðið fyrir þátttöku í SLAA er löngun til að hætta að lifa í mynstri ástar- og kynlífsfíknar. SLAA-samtökin eru alfarið rekin með frjálsum framlögum meðlima og eru opin hverjum þeim sem þarfnast þeirra.
Til að sporna við hinum mannskemmandi afleiðingum ástar- og kynlífsfíknar beitum við fimm meginúrræðum:

  1. Fráhald. Fúsleiki okkar á hverjum degi til að hætta að ástunda botnhegðun okkar.
  2. Trúnaðarmennska / fundir. Geta okkar til að leita eftir stuðningi félaga í SLAA. 
  3. Reynslusporin. Ástundun okkar á tólf spora bataleiðinni til að ná heilbrigði á kynferðis- og tilfinningasviðinu. 
  4. Þjónusta. Endurgjöf okkar til SLAA-samfélagsins fyrir allt sem við höfum fengið. 
  5. Andlegt líferni. Þróun sambands okkar við Mátt æðri okkur sjálfum sem getur leiðbeint og haldið okkur í bata.

Sem félagsskapur hafa SLAA-samtökin enga skoðun á utanaðkomandi málefnum og blanda sér ekki í opinber deilumál. SLAA-samtökin eru ekki tengd neinum öðrum samtökum, hreyfingum eða stefnumálum, hvort sem þau eru trúarleg eða ekki.
Við sameinumst hins vegar um það markmið að takast á við ávanabindandi hegðun í ástar- og kynferðismálum. Við glímum öll við mynstur áráttu- og þráhyggju sem gerir muninn á kynferði okkar og kynhneigð að aukaatriði. 
Við þurfum sérstaklega að vernda nafnleynd allra SLAA-félaga. Einnig reynum við að forðast að vekja óþarfa athygli á SLAA í heild sinni í opinberum fjölmiðlum.

Eftir að inngangsorðin hafa verið lesin kynnir fundarstjóri sig með því að segja: „Ég heiti …… og ég er ástar- og kynlífsfíkill.“ 
Því næst gerir fundarstjóri grein fyrir sér sem slíkur, með því að segja fíknarsögu sína á nokkuð nákvæman hátt. Í meginatriðum þýðir „saga“ einhverja lýsingu á mynstrinu sem ástar- og kynlífsfíkn viðkomandi tók á sig, hver staðan var á honum þegar hann kom í S.L.A.A. og hvað hefur gerst síðan. Almenna leiðarljósið fyrir hverja sögu er að hún  segi bæði frá reynslu af virkri fíkn og batanum sem viðkomandi  hefur öðlast.
Eftir kynninguna velur fundarstjóri venjulega ákveðið þema. Í nýrri deild eða ef nýliðar eru á fundinum er fundarefnið venjulega valið með nýliðana í huga, svo að umræður út frá því gefi nýju fólki tækifæri til að tengja við fíknarmynstur okkar. Hentug málefni tengjast mörgum þemum ástar- og kynlífsfíknar: Hvað varð til þess að ég kom inn í S.L.A.A.? Hvernig varð mér ljóst að ég er ástar- og kynlífsfíkill? Hvað þýðir vanmáttur gagnvart ástar- og kynlífsfíkn fyrir mér? Hvað er botnhegðun? Önnur góð fundarefni eru m.a.: Að fara í gegnum fráhvörf, þráhyggja og ástar- og kynlífsfíkillinn, árátta og ástar- og kynlífsfíkillinn, að vera tilfinningalega ófrjáls, að glata valfrelsinu. 
Að sjálfsögðu eru mörg önnur fundarefni alveg jafn góð. Stundum gæti fundarstjóri beðið fundarmenn um að segja örstutt frá eigin fíknarsögu og látið það koma í stað eiginlegs fundarþema. 
Þegar búið er að velja fundarþema þá er venjan sú að fara hringinn þannig að allir viðstaddir fái tækifæri til að tjá sig. Þetta getur tekið góða stund og stundum verður að setja tímamörk á hvað hver má tala lengi. 
Þegar þessari tjáningu er lokið þá notum við hluta af fundartímanum í það sem við köllum að „taka stöðuna“. Að taka stöðuna þýðir að allir viðstaddir fá tækifæri til að deila því sem er í gangi þá stundina hjá viðkomandi. Við leggjum sérstaka áherslu á segja frá spennandi aðstæðum eða leynimakki á kynferðislega og tilfinningalega sviðinu sem eru hættulegar fráhaldi okkar hér og nú. 
Reynsla okkar er sú að það að „taka stöðuna“ er ómissandi hluti fundanna. Hugbreytandi þættir ástar- og kynlífsfíknarinnar láta lítið yfir sér en eru stöðugt að. Við lendum svo ört  og oft í aðstæðum sem slæva meðvitund okkar um ástar- og kynlífsfíknina að við verðum að geta „jarðtengt“ alla kynferðislega og tilfinningalega tvöfeldni sem farin er að grafa undan andlegri heilsu okkar. Aðeins með því að deila stöðugt því sem togar í okkur getum við í praksís viðhaldið „opinni“ tilveru. Við þurfum næstum því öll, líka þau okkar sem hafa verið í fráhaldi í tiltölulega langan tíma, að „taka stöðuna“ reglulega, frá einum fundi til annars. Alveg sama hversu langt okkur hefur tekist að þroskast í fráhaldinu þá erum við aldrei ónæm fyrir freistingunum. 
„Stöðutakan“ gengur hringinn þangað til öll sem þess þurfa hafa gert það. Aftur kann að þurfa að setja, – og halda – tímamörk á tjáningu hvers og eins.
Eftir að þessum hluta fundarins er lokið þá leggjum við í púkkið (í samræmi við sjöundu erfðavenjuna) og fundarstjóri tilkynnir: „Þetta var fastur fundur deildar í S.L.A.A. Við ljúkum fundi með bæn (gjarnan Æðruleysisbæninni). Við biðjum saman öll sem það vilja. Við höldumst í hendur í lokabæninni, þau sem það vilja, en það er enginn skylda.“ 
Þessi síðasta setning um að það sé valkvætt að haldast í hendur kann að hljóma sem smámunasemi. En mörg okkar hafa séð út frá eigin reynslusögu sem ástar- og kynlífsfíklar hversu gríðarlega tvíræðni við getum lesið út úr snertingu sem á að heita án kynferðislegs tilgangs. Reyndar var það svo að við notuðum mörg einmitt slíkar sakleysislegar snertingar til að skima hópinn endalaust í leit að fíknarsvörun. Úr því að við viljum ekki rækta óþarfa leynimakk, tvíræðni og tvöföld skilaboð innan S.L.A.A. samtakanna þá þurfum við sem erum næm á þennan hátt að virða mörkin sem eigin reynsla hefur kennt okkur. Þess vegna eru engar fastar venjur sem fela í sér snertingu skylda innan S.L.A.A. 
Með síðustu orðum lokabænarinnar er fundinum lokið. 
Þetta fundarform er aðeins hugsað sem ábending. Ekkert „samþykkt“ eða „opinbert“ fundarform er til. Breytingar frá hugmyndinni hér að ofan geta reynst gagnlegar, svo sem að bæta við tveimur eða fleiri minni umræðuhópum þegar reglulegi fundur deildarinnar hefur náð að festa sig í sessi með stöðugri og góðri fundarsókn. 
Eitt sem við höfum reynt að forðast eftir megni, innan leiðbeininganna sem þegar hafa verið raktar hér að ofan, er of formlegt fundarhald. Ef fundarforminu eru lagðar of ákveðnar línur þá er hætta á „flokkadráttum“ um hvað sé leyfilegt og hvað ekki. Slíka tilraunir til að dauðhreinsa fundi geta tekið á sig það form að setja reglur um leyfilegt orðaval eða „endurtúlka“ athugasemdir til að láta þær falla að einhverju tilteknu viðhorfi. Niðurstaðan úr slíku krukki er að hinn sameiginleg nefnari tjáninga er smættaður í innihaldssnauðan jafning. Lifandi og lífsnauðsynleg einstaklingsbundin tjáning, sem alltaf felur í sér fjölbreytileika, hefur beint eða óbeint verið bæld niður og þess vegna horfið. Hvaða deild sem fellur í þessa gildru mun sjá að hún hefur þróað með sér æðaþrengingar langt fyrir aldur fram með þeim skertu lífslíkum sem því fylgir. 
Sérfundir (Special Purpose Meetings)

Eftir því sem á leið sáum við að ansi margt hlóðst á einn stundarlangan, vikulegan S.L.A.A. fund. Fyrst og fremst bjó hann til hann til vettvang fyrir nýliða þar sem tala mátti um ástar- og kynlífsfíkn í einlægni án nokkurra vífillengja og það hefur alltaf verið, og er ennþá, ofar öllu öðru. En við sem tólf spora samtök fundum líka þörf fyrir vettvang þar sem kafa mátti dýpra ofan í tólf spora bataferlið og ræða það. Þetta varð til þess að ákveðið var að fyrsti fundur hvers mánaðar yrði „Tólf spora“ fundur, þar sem við myndum lesa um eitt tiltekið spor í fjórða kaflanum í S.L.A.A. bókinni eða úr AA bókinni „Tólf spor og tólf erfðavenjur“ og deila persónulegri reynslu okkar sem tengdist viðkomandi spori, út frá sjónarhorni ástar- og kynlífsfíknar. Á þessum fundum héldum við líka áfram að bjóða viðstöddum að „taka stöðuna“. 
Eftir því sem fleiri komu inn í S.L.A.A. og byrjuðu fráhvarfstímabil varð þörfin augljósari fyrir fastan tólf spora fund sem fjallaði um sporin í ákveðinni röð. Skömmu síðar fæddist því nýr fastur fundur sem helgaður var því. 
Þetta tímabil í sögu samtakanna var dásamlega friðsælt. Fleiri höfðu náð bata og nýjar S.L.A.A. deildir voru stofnaðar í fleiri fylkjum Bandaríkjanna. Ný hefðbundin tólf spora deild, sú seinni á okkar svæði tók til starfa og létti álaginu af fyrstu deildinni, sem gat nú aftur snúið sér að því sem hún gerði best, að skapa nýliðum tækifæri til að sjá dæmi um bata og hefja sinn eigin. 
Þegar tvær deildir á sama svæði, sem báðar þjónuðu ólíkum þörfum, höfðu náð góðri fótfestu, þróaðist verkaskiptingin á næsta stig þegar það margir voru farnir að mæta reglulega á báða fundina að nauðsynlegt var tímans vegna að takmarka þann tíma fundarins sem félagar höfðu til að segja frá andlegri stöðu sinni þá stundina. Úr varð að stofnaðir voru sérstakir fundir til þess eingöngu. Við höfðum stöðuga þörf til þess að taka stöðuna svo betra var að koma á laggirnar sérstökum fundi sem helgaður væri því frekar en hafa aðeins takmarkað svigrúm þess á öðrum fundum. Á upphaflegu fundunum var bara haldið áfram að taka stöðuna í neyðartilvikum. Tíminn hefur leitt í ljós að þetta hefur gefist mjög vel.