Vika 43

7. kafli – Að stofna S.L.A.A. deild – hluti 3


Rétt er að minnast á aðra hlið á þróun S.L.A.A. deildanna. Þegar komnar voru þrjár virkar deildir á Boston svæðinu varð þörf fyrir mánaðarlega samviskufundi samtakanna allra til að takast á við hluti sem varðaði samtökin í heild. Á meðan aðeins var til ein deild og einn fundur var samviska deildarinnar og samviska samtakanna auðvitað eitt og hið sama. En það átti ekki lengur við þegar deildum tók að fjölga. Stöku sinnum komu upp mál sem trufluðu yfirlýstan tilgang samtakanna og hvernig deildirnar störfuðu, auk þess sem takast þurfti á við ýmis önnur mál, svo sem hvernig við gætum búið til Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur fyrir S.L.A.A.
Gerð bæklinga, verkefnið sem skilaði þessari bók, stofnun óhagnaðardrifins þjónustufélags (The Augustine Fellowship, Sex and Love Addicts Anonymous, Fellowship-Wide Services, Inc.) sem nota mátti til að gefa bókina út og samhæfa önnur þjónustuverkefni, spurningar um hvernig bregðast ætti við tilboðum um umfjöllun í útbreiddum fjölmiðlum (yfirleitt hafa þau verið sniðgengin) – ásamt því að takast á við ýmis önnur viðfangsefni. Á mánaðarlegum samviskufundum samtakanna í heild var fjallað um þessi mál ásamt venjulegum rútínum eins og samþykkt á þátttöku og atkvæðagreiðslur á fundum heildarsamtakanna, hvernig erfðavenjur eiga við tiltekin tilvik um vaxtarverki deilda, o.s.frv.
Loks urðu mánaðarlegu fundir heildarsamtakanna að ársfjórðungslegum fundum trúnaðarráðs, svæðisbundnum samstarfsnefndum og árlegri þjónusturáðstefnu samtakanna þar sem taka mátti fyrir viðfangsefni vaxandi samtaka. Þjónusturáðstefnan sem haldin er árvisst um miðjan janúarmánuð er komin til að vera sem samviska samtakanna í heild sinni svo þau megi áfram auðnast vera í góðum tengslum við félaga sína. 
Kannski mun S.L.A.A. samtökunum ekki alltaf lánast að leiða starfsemina á jafn farsælan og átakalítinn hátt og hingað til. Hvað sem því líður þá virðast fordæmin sem sett voru í tíð fyrstu deildarinnar og sköpuðu hlutverkaskiptingu deilda með margvíslegu sniði og þróun þjónustustarfsemi heildarsamtakanna, hafa skilað af sér skipulagi sem skapar S.L.A.A. svigrúm til að þróast áfram í bæði anda sjálfstæðis deildanna og samheldni heildarsamtakanna. 

Að finna fundarstað

Fyrsta S.LA.A. deildin fundaði á einkaheimilum í mörg ár og fann sér nýjan fundarstað um það bil einu sinni á ári. Að því kom þó að lokum að finna varð opinberan fundarstað sem hýst gat fleira fólk. Þessi breyting, frá einkaheimili að opinberum fundarstað var mikilvægur áfangi fyrir okkur og hún kenndi okkur ákveðna lexíu sem við viljum koma til skila. 
Við vissum af kirkju á svæðinu í grenndinni sem var vel þekkt fyrir virka þjónustu við söfnuðinn. Ef einhver hópur vildi fá að nýta kirkjuna til funda, þurfti tengiliður hópsins venjulega ekki að gera annað en að hitta kirkjuvörðinn og panta tíma. Við ákváðum að fara ekki þannig að. Með hliðsjón af viðkvæmi eðli málefnisins sem samtökin okkar glíma við þá ákváðum við af ræða beint við prestinn. 
Við hittum hann einan og útskýrðum hver og hvað við værum og lögðum öll spilin á borðið. Ekkert var unnið við að koma ekki hreint fram. Á þessum tíma áttum við ekkert prentað efni, en presturinn hlustaði vandlega á það sem við höfðum að segja. Hann sagði að sér hugnaðist vel hugmynd okkar um að hittast í kirkjunni, en hann þyrfti að fá að íhuga málið og yrði síðan í sambandi.
Allnokkrum dögum síðar heyrðum við aftur frá honum. Hann sagði að heitið okkar, samtök ástar- og kynlífsfíkla, þvældist fyrir honum. Hann þyrfti eitthvað sem væri ekki eins stuðandi fyrir sóknarnefndina.  Eftir kurteisislegt „vertu sæll“ og þvingað „við sjáum til hvað við getum gert“ fylltumst við gremju og settum upp varnargírinn. Við vorum bitur. Hver þóttist þessi maður vera að þykjast geta sagt okkur að skipta um nafn! Okkur þótti vænt um heitið Samtök ástar- og kynlífsfíkla og tengdumst því sterkum böndum. Með einhverju sætabrauðsnafni sáum við fyrir okkur S.L.A.A. breytast í samtök fyrir fólk í leit að sálufélaga. Né heldur gat presturinn sætt sig við neitt annað nafn sem orðið „kynlíf“ kom fyrir í. (Við stungum upp á ýmsum útfærslum). Eiginlega ályktuðum við að presturinn kærði sig ekkert um okkur í kirkjunni sinni hvort eð var og hefði kvartað undan nafninu til þess eins að spilla því að við gætum fundað þar. 
En eftir nokkra umhugsun sáum við að þetta ætti eftir að verða vandamál hvar sem við yrðum svo að við töluðum aftur við prestinn. Við útskýrðum hversu mikilvægt S.L.A.A. nafnið og merking þess væri fyrir okkur. Við ræddum áhyggjur okkar um hvernig breytt nafn gæti raunverulega brenglað sjálfsmynd okkar og hvernig við nálguðumst bata. Hann skildi okkur. Hann áréttaði að hann virkilega vildi að deildin okkar fengi að nota kirkjuna hans án þess að hlutverki hennar væri haggað á nokkurn hátt. Hann sagðist ekki vera að reyna fá okkur til að skipta um nafn, aðeins að bjóða upp á annan valkost svo hann gæti leyst pólitíska hnútinn innan kirkjunnar. Fyrir honum væri það ekkert mál þó að við töluðum um okkur sjálf sem ástar- og kynlífsfíkla á fundum. Spurningin til okkar var hvort við værum fús til að hjálpa honum að leysa sín mál? Svarið hlaut að vera „Já“. 
Samviskufundur fjallaði um málið og þar varð til nafn sem reyndist magnaður valkostur: Ágústínusarfélagið. Ágústínus frá Hippó var trúlega einn af okkur – eins og þeir vita sem hafa lesið Játningar, sjálfsævisögu hans. Sú staðreynd að kirkjan hafði síðar gert hann að dýrlingi kom okkur strangt til tekið ekkert við, því sem samtök höfum við „enga skoðun á utanaðkomandi málefnum . . .“ (Tíunda erfðavenja). En átökin og framvindan í sögu Ágústínusar, innri vinnan og barátta mannsins sjálfs, skildu okkur ekki eftir í neinum vafa um að hann hefði bæði skilið okkur og fundið sig eiga heima á meðal okkar.  
Aftur héldum við á fund prestsins og spurðum hvort nafnið „Ágústínusarfélagið“ gæti leyst vanda hans. Hann sagði svo vera og svo varð. Eftir þetta hefur okkur þótt við hæfi að hafa „Ágústínsarfélagið“ sem hluta af skráðu nafni þjónustusamtaka S.L.A.A. (The Augustine Fellowship, Sex and Love Addicts Anonymous, Fellowship-Wide Services, Inc.).
Síðan fyrsta S.L.A.A. deildin fann sér opinberan fundarstað þá hefur önnur deild gert það sama og valið sér fundarstað á sjúkrahúsi. Seinna dæmið kallaði á að nálgast forstöðumann sjúkrahússins og sýna honum bækling sem innihélt nafnið Samtök ástar- og kynlífsfíkla („Sex and Love Addicts Anonymous®“). Félaginn sem hafði samband við hann lagði öll spilin á borðið um hver og hvað við værum, og bauðst til að nota nafnið „Ágústínusarfélagið“ til að þóknast sjúkrahúsinu. Forstöðumaðurinn hringdi í prestinn í kirkjunni þar sem fyrsta deildin hafði nú fundað í rúmt ár. Presturinn tók af öll tvímæli um hversu alvarlega við tókum  yfirlýstan tilgang okkar og hve við hefðum umgengist kirkjuna af mikilli umhyggju. Skömmu síðar hafði Tólf spora hópurinn okkar komið sér þægilega fyrir á nýja fundarstaðnum sínum á sjúkrahúsinu. 
Einu má bæta við að lokum. Presturinn, vinur okkar, sem er afar samviskusamur og nærgætinn maður, gerðist svo mikill stuðningsmaður að veru okkar í kirkjunni að innan átján mánaða vorum þekkt í söfnuðinum undir báðum heitunum og þessi góði maður hafði að eigin frumkvæði komið S.L.A.A. bæklingunum okkar fyrir í hillunni hjá öðrum bæklingum í anddyri kirkjunnar!