Vika 44

7. kafli – Að stofna S.L.A.A. deild – hluti 4


Deildir fyrir afmarkaða hópa 
Nú viljum við beina sjónum að máli sem mörg ykkar hafa kannski hugsað um. Ykkur kann að þykja skrýtið að þegar við rekjum upphafssögu okkar þá er hvergi minnst á stofnun S.L.A.A. deilda fyrir afmarkaða hópa, svo sem karladeild, kvennadeild, hommadeild, lesbíudeild o.s.frv. Staðreyndin er einfaldlega sú að á níu ára þroskasögu S.L.A.A. deilda þá hefur engin slík deild orðið til. Af og til hafa ýmsir einstaklingar, bæði karlar og konur, kannað jarðveginn meðal félagsmanna almennt fyrir því að stofna „þessa“ eða „hina“ tegund deilda, en undirtektirnar fyrir slíku hafa aldrei verið miklar og slíkar „sér“ deildir ekki orðið til. Við teljum að fyrir því séu nokkrar ástæður. 
Í fyrsta lagi þá hafa þeir eða þær sem hafa sóst eftir að búa til deild sem er bara fyrir „þetta“ eða bara fyrir „hitt“ sagst gera það í leit að „öruggu“ umhverfi þar sem þau gætu berskjaldað sig. En samt fær hugmyndin sjálf um „öruggan hóp“ – þar sem félagar myndu ekki laðast hver að öðrum – ekki staðist í raun og veru. Til dæmis myndi lesbískur ástar- og kynlífsfíkill augljóslega finnast hún vera í jafn mikilli hættu á kvennafundi eins og stofnandi slíkrar deildar myndi finnast hún vera á blönduðum fundi. Sama á auðvitað við um samkynhneigða karlmenn sem sækja karlafundi. 
Staðreyndin er einfaldlega sú að ekki er hægt að dauðhreinsa neina S.L.A.A. fundi af kynferðislegri eða rómantískri spennu með því að takmarka aðgang að „þess konar“ deild út frá þeirri hugsun að með því að félagar deildarinnar laðist ekki hver að öðrum kynferðislega vegna kynhneigðar sinnar þá sé komið í veg fyrir öll vandamál innan deildarinnar. Kynhegðun okkar er alltof fjölskrúðug til að það gangi upp. 
Í öðru lagi getur annars konar bábilja alltof auðveldlega orðið til á fundum „afmarkaðra“ hópa óháð því hvers konar hópur það er. Margir ástar- og kynlífsfíklar sem eiga sér erfiða fíknarsögu hafa tilhneigingu til að kenna „hinum“ um. Þessir hinir eða hinar kunna að hafa á sér klisjulega stimpla svo  sem „karlkonur“, „karlrembur“, „feðraveldi“, „kvennaríki“, „öfgafemínistar“, „kvenhatarar“, „femínistar“, „karlapungar“ og þar fram eftir götunum þangað til manni verður bumbult. Fyrir félagsfræðinga er kannski einhver glóra í skrumkenndar úthrópunum um að alls kyns hópar (og þá ekki síst sá sem við sjálf tilheyrum!) séu fótum troðin fórnarlömb og kúgaður minnihluti af þeim sem þá vilja undiroka, en slíkar vangaveltur eru alveg gagnslausar fyrir ástar- og kynlífsfíkla í leit að bata. Sannleikurinn er sá að þangað til við viðurkennum að ástar- og kynlífsfíkn er okkar eigið vandamál og sem við sjálf öxlum ábyrgð á og tökum á með sjálfsvinnu, þá er fjandskapur í garð einhverra ytri ógnvalda hrein sóun á tíma. Þess vegna teljum við að fundir fyrir afmarkaða hópa hafi ekki orðið til fyrir þá sök að almennt hafa S.L.A.A. félagar varann á sér gagnvart allri nálgun sem býður upp á að útmála einhverja ytri óvini, og þannig dreifa athyglinni frá því að takast á við ástar- og kynlífsfíknina sem okkar eigin persónulega ástandi. 
Þriðja ástæðan fyrir því að fundir fyrir „afmarkaða“ hópa hafa ekki náð fótfestu er að fólk í S.L.A.A. hefur áttað sig á góðum þerapískum áhrifum þess að vera innan um fjölskrúðugan hóp fólks þar sem meðal annarra er að finna þá sem áður hefðu verið taldir spennandi leikfélagar. Með því að vera nálægt mjög aðlaðandi fólki í S.L.A.A. höfum við tilneydd byrjað að læra, í þessu öruggu skjóli, hvernig eiga á samskipti á manneskjulegri nótum við þá eða þær sem annars hefðu ekki verið neitt annað en týpur fyrir okkur. Eins og við er þetta fólk núna hluti af S.L.A.A. og líka ákveðið í að komast í fráhald og ná traustum bata. Við höfum séð að á S.L.A.A. fundum, þar sem allir ástar- og kynlífsfíklar mæta eigum við öll sömu forsendur til að skynja sjúkdóminn, óháð öllum öðru. Að miklu leyti hafa S.L.A.A. fundirnir verið eins konar æfingasvæði sem við höfum þurft á að halda til að ná betri færni í því að skipta við annað fólk utan funda sem gæti verið hættulegt fráhaldi okkar. Okkur hefur lærst að skynja möguleg ánetjandi fíknaráhrif fólks og láta ekki glepjast af blekkingum fíknarinnar, svo að við sjáum manneskjuna sjálfa. Þessi færni til að sjá í gegnum möguleg fíknaráhrif, sem við öðluðumst fyrst innan S.L.A.A., hefur okkur síðan tekist að yfirfæra á samskipti við aðra þá utan samtakanna sem ennþá gætu verið til í okkur. Þau gildi sem mótuðust í samskiptum félaga á milli hafa orðið að uppskriftinni að því hvernig við metum raunverulegt virði sambanda utan S.L.A.A.
Augljóslega geta deildir, sem aðeins eru opnar einu kyni eða afmarka sig á annan hátt, endað á því með tilraunum sínum til að útiloka allar freistingar, að bregðast þeim (öllum) sem þurfa að læra að glíma við heiminn eins og hann er, frekar en að einangra sig frá honum. Ef við fáum ekki tækifæri til að læra þetta á S.L.A.A. fundum sem opnir eru öllum ástar- og kynlífsfíklum, þá munum við aldrei aðlagast því sem virkilega getur slegið okkur út af laginu úti í hinni stóru veröld. Fráhaldið verður brothætt og mun trúlega ekki endast.
Til að loka þessari umfjöllun um „afmarkaða“ hópa þá viljum við taka fram að S.L.A.A. sem slíkt getur aldrei hindrað að slíkir hópar verði til. Ef þeir verða til þrátt fyrir allt og eiga að þjóna einhverju uppbyggilegu hlutverki, þá verða þeir að byggjast á öðru en þeirri blekkingu að þeir geti tryggt „öruggt“ umhverfi þar sem búið sé að má út allt laumuspil og alla kynferðisleg spennu. Slíkir hópar verða að hverfast um annan tilgang en að úthrópa „ytri óvini“, eða á annan hátt að réttlæta tilveru sína með því að þykjast öruggt skjól fyrir aðþrengda minnihlutahópa. 
Eina raunverulega „öryggið“ sem nokkur S.L.A.A. deild (eða S.L.A.A. í heild sinni) getur nokkurri sinni átt er í löngun til að ná bata sem sameiginleg er meirihluta félaga deildarinnar og að þar sé í boði náð æðri máttar, sem ein getur gert bata mögulegan. 
Þjónar sem við treystum og samviska deildarinnar
Næst viljum við ræða um mjög viðkvæmt málefni og beinum því til ykkar sem eigið eftir að stofna eða hafið þegar stofnað S.L.A.A. deild. Segja má að þið séuð eins konar leiðarvitar S.L.A.A. á ykkar svæði, sérstaklega í byrjun. Þú hefur ef til vill komið á S.L.A.A. fundi annars staðar á landinu og séð hvernig deildin starfar. Eða þá að þú finnur fyrir sterkri innri þörf, eingöngu fyrir tilstilli þessarar bókar, í bland við að vera sjálf eða sjálfur í fráhald frá virkri ástar- og kynlífsfíkn, til að koma boltanum af stað heima hjá þér.  
Þú munt finna, eða hefur þegar fundið, mögulegan nýliða í S.L.A.A. til að vinna með. Kannski ertu byrjaður að halda reglulega fundi heima hjá þér og ert búinn að hafa samband við nokkra einstaklinga sem þér finnst augljóst að séu í vanda. Kannski hefurðu þegar reynt í nokkur skipti að hefja starf með einhverjum, sem hafa svo gufað upp eftir skamma stund. Það er skelfilega niðurdrepandi! Með þrautseigju þinni og þörf fyrir félagsskap ertu að halda lífi í von þinni um að stofna S.L.A.A. deild á meðan þú bíður eftir uppskeru erfiðisins. Fyrr eða síðar muntu uppskera.
Þegar það svo gerist er líklegt að þú verðir aðalgaurinn eða gellan. Jafnvel þó fastir gestir séu á fundum, og það gleðilega gerist að einn eða fleiri byrji sitt eigið fráhald og bata, mun meiri reynsla þín gera þig þokkalega gildandi í nýstofnaðri deildinni. Þú ert vís með að finna rækilega fyrir föðurlegum eða móðurlegum tilfinningum gagnvart henni og þær geta verið flóknar. Þú skapaðir deildina. Á vissan hátt bjóst þú hana til með þrautseigju þinn og staðfestu. Á móti hafa meðlimir deildarinnar staðfest bata þinn og gefið honum gildi með því að feta sömu leið. 
Ef þú nálgast málin með tólf spora hugarfari og vandar þig, eins og við höfum reynt eftir bestu getu, munt þú fljótlega innleiða hugmyndina um samvisku deildarinnar. Kannski kallarðu eftir sameiginlegum ákvörðunum um frekar hversdagsleg málefni eins og fundarstað, tíma, hver stýrir fundi, o.s.frv. Svona snemma á þroskaferlinum birtist samviska deildarinnar fyrst og fremst sem formsatriði. Nýliðar verða svo fastir í eigin nafla meðan þeir takast á við fráhvörfin sín að þeim mun verða gjarnt á að treysta á þig og þína reynslu um leiðsögn í flestum málum, hvort sem þau eru persónuleg eða snúast um deildina. 
En þrátt fyrir að samviska deildarinnar virki eins og hreint formsatriði, EKKI VANRÆKJA HANA. Klukkan tifar. Hvort sem þú veist það eða ekki þá eru dagar þínir sem „upphafins stofnanda“, (eða meðstofnanda), sem alltaf tekst að koma réttu orðunum að niðurstöðu samvisku deildarinnar, þeir DAGAR ERU TALDIR. Það á við hvort sem þú misnotar valdið sem féll þér í skaut í upphafi, eða þú sért vandvirkasta og samviskusamasta manneskjan á jarðríki í tilraunum þínum til að koma jafnt fram við alla og af ábyrgð í málefnum deildarinnar. 
Tökum tvö dæmi um nálgun „stofnanda“ og rýnum í hvers vegna tími stofnandans sem óskoraðs leiðtoga er takmarkaður. 
Lítum fyrst á þann sem misnotar aðstöðu sína. Hann eða hún er sá eða sú sem meira og minna  hefur alltaf verið á höttunum eftir vettvangi þar sem viðkomandi gæti stjórnað. Hann eða hún tekur einstrengingslega afstöðu í málum sem varða S.L.A.A., fráhvörf, fráhald, hvernig fundirnir eiga að vera og svo framvegis. Þessi þörf til að stjórna er gjarnan falin (þó aldrei alveg) bak við þá réttlætingu að hann eða hún séu aðeins að vernda S.L.A.A. fyrir áhrifum sem afvegaleiða fundina frá upphaflegum tilgangi sínum. Hann eða hún bera eiginlega aldrei neitt undir deildina. Rödd deildarinnar er hvorki treyst né er hún umborin! Öllum spurningum sem varða form og ferli  deildarinnar eða fráhald er mætt af stífni og einstrengni. Þannig stofnandi verður að haga sér svona til að halda stjórninni í sínum höndum. Öllum spurningum um hvernig deildin afgreiðir sín mál, eða um skoðanir hans eða hennar á ástar- og kynlífsfíkn er tekið sem persónulegri árás, því slíkar spurningar ógna völdum hans eða hennar. 
Valdasjúkt fólk getur aldrei hlúð að einu eða neinu. Dæmigert er að það leitist við að gera aðra háða sér annað hvort í krafti persónutöfra eða undir yfirskini umhyggju og samviskusemi, og dylji þannig ósveigjanlegt eðli sitt. 
Deild sem verður til í þvílíkri ofstjórn getur hugsanlega umborið hana í dágóðan tíma, dolfallin yfir töfrum stofnandans og sannfærandi rökum hans. En fyrr eða síðar er bylting óumflýjanleg þegar aðrir gera sér ljósa óslökkvandi valdaþorsta hins fyrrum rómaða stofnanda. Sauðirnir breytast í úlfa og deildin gæti tortímt sjálfri sér þegar púðurtunnan loksins springur. Aðrir félagar sem þykjast nógu sterkir gætu reynt að taka völdin sjálfir. Eða þá að deildin gangi í gegnum róstusamt og sársaukafullt tímabil en nái loks lendingu á grunni erfðavenja S.L.A.A., stofnandanum úthýst úr leiðtogahlutverkinu  og sennilega tilfinningalega útskúfaður eða útskúfuð. Þeim eða þeirri sem misnotar þannig vald sitt mun fyrr eða síðar verða launað á þennan hátt. Ef hann eða hún getur ekki unnið úr því á uppbyggilegan hátt er ástar- og kynlífsfíknin líkleg til að taka sig upp aftur.