7. kafli – Að stofna S.L.A.A. deild – hluti 5
Í dæmi stofnandans sem fer fram af varfærni og samviskusemi eru sambærilegar hættur til staðar, þó atburðarásin sé önnur. Þessi aðili þekkir fordæmin sem sett eru fram í erfðavenjunum tólf og kallar eftir samvisku deildarinnar í öllum hversdagsmálum. Að hann eða hún leggi sig fram um að leita eftir sjónarmiðum deildarinnar verður til þess að fólk leitar leiðsagnar hins reynslumeiri foringja og finnur ekki hjá sér neina uppreisnarþörf gegn svo mildri forystu.
En samt tifar klukkan eins víst og örugglega fyrir þessum „upplýsta“ stofnanda eins og hún gerir fyrir þann markalausa. Og ástæðan er þessi. Árin líða, kannski nokkur, og varfærni, samviskusami vinur okkar stefnir í gildru, þó hann eða hún átti sig ef til vill ekki á því í tæka tíð. Einmitt af þeirri ástæðu að þessi manneskja hefur aldrei misnotað vald, hvorki opinskátt né laumulega, þá hefur fólk vanist því að reiða sig á þá opnu og vönduðu afgreiðslu sem hjá henni er vís í málum deildarinnar og samtakanna. Og sannarlega talar hún með röddu þeirrar sem vel er sjóuð í sínu fráhaldi, gjarnan í sannri auðmýkt og lítillæti. Samt gæti þessi stofnandi svo hæglega hafa leyft ákveðnum væntingum að grafa um sig í sálinni, án þess einu sinni að taka eftir því. Á vissan hátt er hún farin að trúa því að staðan sem sú eða sá sem orðar samvisku deildarinnar sé trygg, þökk sé sívökulli samvisku hennar sjálfrar og góðum hug. Á ákveðinn hátt fyllist þessi einstaklingur sams konar öryggistilfinningu og valdapotarinn vegna áhrifanna sem hann eða hún virðast eiga svo vís. Væntingarnar eru þær að þannig verði þetta alltaf. Heldur betur skellur þegar það svo reynist ekki vera!
Fyrr eða síðar kemur einhver á S.L.A.A. fund sem er illa haldinn af ástar- og kynlífsfíkn, en er mikið í mun að finna sér „óvin“ í deildinni í staðinn fyrir að horfast í augu við eigin sjúkdóm. Nýliði sem tregðast við að viðurkenna hversu alvarlegur sjúkdómurinn er getur fundið sér margar sannfærandi réttlætingar til að útnefna einhvern sem slíkan „óvin“. Nýliðinn mun finna sér bandamenn, alveg eins og hópar innan samfélagsins finna samstöðu með öðrum hópum þrátt fyrir mismunandi lífsviðhorf, með því að kenna sameiginlegum ytri fjandmanni um vandræði sín.
Sama hversu vandlega þeir hafa gætt að framgöngu sinni þá munu stofnendur S.L.A.A. deilda óhjákvæmilega lenda í þeirri stöðu að vera útmálaðir ytri óvinir. Þeir fá það hlutverk eingöngu fyrir þær sakir hversu áhrif þeirra innan deildarinnar eru augljós. Hvort sem stofnandinn hefur öðlast þau áhrif með yfirgangi eða fyrir mannkosti skiptir nákvæmlega engu máli þegar hér er komið. Það er veruleiki „leiðtogastöðunnar“ sem espar upp þann eða þá sem leita sér óvinar og ekkert sem stofnandinn getur gert í því.
Jafnvel enn vandaðri og betur meintar samviskutilkynningar af hálfu stofnandans ýfa bara enn frekar reiði þess eða þeirrar sem leita sér óvinar. Vanmáttur stofnandans er nú algjör. Góður hugur gagnast ekkert til að leysa hnútinn.
Hvað gerist næst? Það fer eftir ýmsu. Ef stofnandinn hefur verið virkilega samviskusamur, mun deildarsamviskan, sem hann eða hún hefur stöðugt reynt að virkja, á endanum leysa vandamálið. Deildin mun skynja togstreituna og bregðast við ólgunni með því að taka af skarið, hugsanlega í fyrsta skipti. Fram að þessu hafa meðlimur deildarinnar líklega treyst á dómgreind stofnandans í svo ríkum mæli að þau hafa ekki meðtekið hversu ómissandi skoðanir þeirra eru þegar þau taka þátt í samvisku deildarinnar. En núna stíga þau fram. Við það flytjast völd og áhrif til með óafturkallanlegum hætti.
Taumhald stofnandans er nú í höndum hópsins, hvað sem honum eða henni finnst um það. Sá eða sú sem leitar ytri fjandmanns á ekki lengur augljósan skotspón í „stofnanda“ til að beina spjótum sínum að og fær ekki lengur umflúið raunverulegan áhrifamátt deildarinnar, kærleiksríkan guð, sem birtist með misskírum hætti í samvisku hennar. Vel getur verið að þessi manneskja róist og snúi sér aftur að því að glíma við eigin ástar- og kynlífsfíkn þegar hún hefur ekki lengur þennan áberandi skotspón. Stofnandinn upplifir erfiðan missi í þessu ferli öllu en afar þroskandi. „Barnið“ hans eða hennar hefur slitið barnsskónum og er ekki lengur barn. Reynslan er ekki ólík því sem foreldri gengur í gegnum. Ef uppeldinu var sinnt af alúð mun deildinni áfram þykja vænt um og virða stofnandann sem ennþá hefur mikilvægu hlutverki að gegna. En eftir þetta mun sambandið verða samband fullorðinna, en ekki foreldris og barns.
Ef einhvern lærdóm má draga af þessari stuttu reynslusögu okkar um þroskaferli deildar í S.L.A.A. er hún þessi: Þrautseigjan, einbeitnin og fókusinn á tilganginn sem eru svo nauðsynlegir eiginleikar í upphafi fyrir þann eða þá sem reyna að koma S.L.A.A. deild í gang eru jafnframt þeir sömu eiginleikar og síðar kunna að hamla eða kæfa þörf deildarinnar sem slíkrar til að „fullorðnast“ – að taka ábyrgð á eigin velferð. Tímarnir breytast, og sömuleiðis þarfir samtaka sem þroskast og þróast.
Tækifæri upphafsfólks deilda til innleiða Tólf erfðavenjur S.L.A.A. og hugmyndirnar um völd og þjónustu sem settar eru fram í þeim, er á meðan þau ennþá hafa til þess völd og áhrif. Klukkan tifar.
Þannig höfum við sjálf reynt sannindin í annarri erfðavenjunni: Í málefnum deilda er aðeins einn leiðtogi, kærleiksríkur Guð, eins og þessi máttur birtist í samvisku hvers hóps. Forsvarsmenn okkar eru þjónar sem við treystum en ekki stjórnendur.
Í september, 1985 setti Trúnaðarráð hreyfingarinnar, The Board of Trustees of The Augustine Fellowship, Sex and Love Addicts Anonymous, Fellowship-Wide Services, Inc., (félagið um þjónustuhluta S.L.A.A.), fram safn leiðbeininga um samskipti í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi sem eru nú stefna S.LA.A. Þessar hugmyndir eru byggður á reynslu níu ára tilvistarsögu samtakanna, (til þessa). Hér á eftir fara Tólf leiðbeiningar um samskipti við fjölmiðla og á opinberum vettvangi – til hliðsjónar á öllum þrepum S.L.A.A. samtakanna.
- Við forðumst að vekja óþarfa athygli á S.L.A.A. í heild sinni í opinberum fjölmiðlum. — úr Inngangsorðum S.LA.A.
- S.L.A.A.-samtökin taka ekki afstöðu til annarra mála en sinna eigin. Nafni þeirra ætti því að halda utan við deilur og dægurþras. — tíunda erfðavenja S.L.A.A.
- Afstaða okkar út á við byggist fyrst og fremst á aðlöðun en ekki áróðri. — úr elleftu erfðavenju S.L.A.A.
- Sérstaklega er varað við öllu einstaklingsframtaki án samráðs, af hálfu hvaða S.L.A.A. félaga sem er, til að koma S.L.A.A. á framfæri í fjölmiðlum í hvaða mynd sem er. — úr samþykkt samvisku alþjóðaráðstefnu S.L.A.A. þann 14. október, 1981
- Allar ákvarðanir um hvort við hæfi sé að samþykkja eða hafna sérhverju tækifæri um aðgang að fjölmiðlum eða til almannatengsla verða að vera teknar af samvisku deildar eða hóps og ennfremur, ef til þess kemur að slíkt tækifæri er þegið, á hvaða hátt það skuli nýtt, í anda þessara leiðbeininga. —byggt á annarri erfðavenju S.LA.A.
- Öllum boðum um aðgang að fjölmiðlum eða til almannatengsla sem bjóðast S.L.A.A. og háð eru skilyrðum um tímafrest sem veldur því að sniðganga þarf sameiginlega ákvarðanatöku samvisku deildar eða hóps skal hafna. — úr samþykkt samvisku alþjóðaráðstefnu S.L.A.A. þann 14. október, 1981; staðfest í viðbrögðum samstarfsnefndar Bay Area S.L.A.A. við tilboði um aðgang að fjölmiðlum í ágúst 1985.
- Alltaf skulu að minnsta kosti tveir S.L.A.A. félagar í fráhaldi koma að öllum kynningum í fjölmiðlum eða á opinberum vettvangi. Þeir S.L.A.A. félagar sem taka þátt í slíkri kynningu skulu alltaf gera ljóst að þeir geta aðeins tjáð sig sem einstaklingar en ekki fyrir S.L.A.A. sem slíkt. Enginn S.L.A.A. félagi ætti nokkurn tímann að lenda í þeirri stöðu að virðast tala fyrir hönd S.LA.A. í heild sinni. — viðmiðunarregla mótuð af alþjóðaskrifstofu S.L.A.A., í samráði við samstarfsnefnd S.L.A.A. í New England vegna greinar í Boston Phoenix í júlí 1985
- Sérhver S.L.A.A. félagi sem tekur þátt í að svara boði um að koma fram í fjölmiðlum eða á opinberum vettvangi ætti að alltaf að gera það undir nafnleynd. Einnig er eindregið mælt með því að koma ekki fram undir þekkjanlegri mynd í sjónvarpi, kvikmynd eða öðru myndskeiði í slíkum tilgangi. Við þurfum ávallt að gæta nafnleyndar í prentmiðlum, útvarpi, sjónvarpi, kvikmyndum og öðrum opiniberum miðlum. — fyrsta setning mótuð af samstarfsnefnd S..L.A.A. í New England og alþjóðaskrifstofu S.L.A.A. vegna viðtals í Boston Phoenix í mars; önnur setning staðfærð úr stefnu A.A. samtakanna varðandi samskipti við fjölmiðla. Þriðja setningin úr elleftu erfðavenju S.L.A.A.
- Við forðumst þátttöku opinberum vettvangi, vinnustofum eða öðrum fjölmiðlaviðburðum þar sem virðast vera einhverjar líkur á því að S.LA.A. verði stefnt gegn andstæðum eða óvinveittum viðhorfum eða talsmönnum annars konar hagsmuna eða málstaðar. —byggt á ákvörðun S.L.A.A. deildar í San Diego í ágúst 1985 í samráði við alþjóðaskrifstofu S.L.A.A.
- Viðeigandi þrep „samvisku deildar eða hóps“ sem taka þarf á málum varðandi fjölmiðlun og almannatengsl er það þrep sem er fulltrúi S.LA.A. á því svæði sem viðkomandi umfjöllun nær til. Tækifæri í fjölmiðlum og almannatengslum sem myndu hafa áhrif á stærra svæði S.L.A.A. ætti að bera undir „samvisku deildar eða hóps“ sem þjónar því stærra svæði. Sérhvert þrep samvisku innan S.LA.A getur kosið að skipa samviskuhóp um kynningarmál, sem ábyrgur er gagnvart samviskunni sem hana skipar, og þjónar þá sem vettvangur samviskunnar til samráðs og ákvarðana í málum sem varða tækifæri til fjölmiðlunar og almannatengsla á því þjónustustigi.— byggt á fjórðu erfðavenju S.L.A.A.
- Sérhverju tækifæri til fjölmiðlunar og almannatengsla sem gæti hugsanlega haft áhrif á S.L.A.A. í heild sinni ætti að bera undir samvisku alþjóðasamtakanna í heild, sem er trúnaðarráð F.W.S.—byggt á fjórðu erfðavenju S.L.A.A.
- Mælt er með því að á sérhverju þrepi samviskunnar sé ákvörðun, sem varðar fjölmiðlun og almannatengsl, ekki tekin fyrr en að undangenginni hljóðri stund í eina mínútu til að hugleiða saman og greiða þannig götu fyrir því að við skynjum handleiðslu guðs sem er grundvöllur S.L.A.A. og tryggjum þannig að ákvörðun samviskunnar endurspegli sannarlega vilja Æðri Máttar í málefnum S.L.A.A.— byggt á ellefta spori og annarri erfðavenju S.L.A.A.(Samþykkt af trúnaðarráði samtakanna, Board of Trustees, The Augustine Fellowship, Sex and Love Addicts Anonymous, Fellowship-Wide Services, P.O. Box 119, New Town Branch, Boston, MA 02258)
