8. kafli – Byggjum upp samband – hluti 1
Þegar við komum út úr fráhvarfstímabilinu urðu mörg okkar að takast á við gjörbreytta tilveru. Tímabili einveru og íhugunar var að ljúka og athyglin beindist nú að tækifærum og ábyrgð okkar út á við. Kannski var mesta áskorunin, og um leið stærsta tækifærið, í hinu nýja edrúlífi okkar fólgin í því að stofna til sambands við aðra manneskju og rækta það. Við vissum að við vildum leyfa nýfenginni innri reynslu okkar af reisn, sjálfsvirðingu og sjálfsnánd að móta nýjan ramma um hvernig við ættum að þróa samband við aðra manneskju. Við þurftum að læra hvernig og við hvaða aðstæður við gátum leyft kynverunni og tilfinningaverunni sem vissulega bjó innra með okkur að njóta sín á viðeigandi hátt og blómstra í slíku sambandi.
Reynsla SLAA félaga af því að byggja upp sambönd hefur verið ögrandi ævintýri. Fráhvörf frá ástar- og kynlífsfíkn snúast að miklu leyti um að slíta sambandinu við þráhyggjuna sem við vorum með og hvernig við gætum svo haldið okkur frá henni þrátt fyrir freistinguna. Meðan fráhvörfin vara gefum við því harla lítinn gaum hvernig heilbrigt samband er eða hverjir séu góðu kostirnir við sambönd. Við getum það ekki. Fráhvörfin, sérstaklega fyrsta skeið þeirra, gera okkur ljóst hvaða hlutir tilheyra ekki sambandi. En skilgreining á heilbrigðu sambandi er alltaf of takmörkuð ef hún byggist eingöngu á því að fjarlægja það sem heyrir fíkninni til. Það er fyrst eftir að fráhvörfunum er lokið að við förum að kynnast eigin tilfinningalegri, andlegri og kynferðislegri getu til að mynda sambönd á annan og meiri hátt en bara með því að „fjarlægja fíknina“. Mest lærum við með því að þreifa okkur áfram eftir að við hættum að einblína eingöngu fráhald frá botnhegðun í ástar- og kynlífsfíkn og förum að spá í samband. Raunar hættum við aldrei að nota þá aðferð til að læra. En áður en við deilum reynslu okkar af því að byggja upp og rækta samband langar okkur að ræða annan möguleika sem mörg okkar hafa látið reyna á: Að vera ein(n).
Í samband? Eða vera ein(n)?
Ef þú ert eins gerð(ur) og við flest er framtíð án sambands ekkert sérstaklega aðlaðandi. Að öllum líkindum komstu inn í SLAA í þeim tilgangi að læra hvernig á að vera í heilbrigðu sambandi, en ekki til að læra að lifa án þess! Með öðrum orðum, þú varst tilbúinn að taka til heima hjá þér, en að því búnu áttirðu svo sannarlega von á því að geta boðið heim! Við viljum skjóta þeim möguleika að þér að halda hreinu húsi af því að það er einfaldlega notalegra fyrir þig, frekar en að það sé til þess eins gert að geta boðið öðrum heim. Sagt með orðum SLAA þýðir þetta að vera einn af því að við kjósum okkur þannig líf, ekki af því að við séum að reyna verða húsum hæf í næsta sambandi.
Þú spyrð ef til vill hvers vegna einhver færi að velja sér það að vera einn. Svarið er margþætt. Fyrir mörg okkar, sérstaklega í fyrstu, var einfaldlega léttir að vera laus við þráhyggjuna og áráttuna sem hafði stjórnað öllu í lífi okkar. Við vorum alsæl með að njóta þess að vera komin í nokkuð öruggt skjól frá daglegum bardögum við fíknina. Sum okkar þóttust hafi fengið nóg af kynlífi og rómantík fyrir lífstíð. Úr því drekinn var loksins sofnaður var engin ástæða til að vekja hann. Við fundum líka fyrir nýjum þrótti og lífsgleði eftir að við vorum laus við árátturnar. Að því leyti til snerist þetta alls ekki um að forðast eða sækja í samband. Við vorum einfaldlega ekki að leita neitt því við höfðum nóg annað að sýsla.
„Láttu ekki svona“, segir þú. „Hvers vegna myndi einhver sem er fær um að vera í heilbrigðu sambandi vilja forðast það?“ Hvort sem þú trúir því eða ekki, þá þótti okkur í raun og veru annað orðið mikilvægara í lífinu. Við erum ekki á neinum flótta undan nýjum tækifærum, heldur hafa rómantísk sambönd bara fengið eðlilegra vægi í lífsævintýrinu.
Í nýja edrúlífinu sátum við líka uppi með að þurfa ekki bara að halda okkur frá fíknarhegðun heldur urðum við líka fylla upp í allan þennan lausa tíma og það var ekki síður erfitt. Við þurftum heilmikinn tíma ein með sjálfum okkur svo svigrúm gæfist til að kynnast eigin tilfinningum, en við þurftum líka að hafa eitthvað fyrir stafni. Meira að segja í miðjum fráhvörfunum fórum við að fást við ný áhugamál sem tóku huga okkar, tíma og orku. Þegar þráhyggjurnar hættu að hrjá okkur eins mikið og áður, kom gjarnan í ljós að við höfðum virkilega gaman af að sýsla við þessa hluti. Ýmist rifjuðum við upp hæfileika sem við bjuggum yfir, eða uppgötvuðum áður óþekkta. Í SLAA líta nýjar doktorsgráður, tónlistarmenn, maraþonhlauparar og listamenn dagsins ljós.
Það lá í hlutarins eðli að sjálfsmyndin stækkaði svo hún fengi rúmað þessar nýju hliðar okkar og þær skapa okkur nýtt og heilbrigt hlutverk í tilverunni. Kannski er pláss fyrir lífsförunaut og kannski ekki. Við erum ekki að segja að löngunin í samband hafi aldrei skotið upp kollinum. Hún var einfaldlega aldrei það sterk að við værum til í að endurskipuleggja tilveruna svo við gætum gert eitthvað í því. Samviskan var hrein, tilveran gefandi og við sátt með lífið. Þar að auki upplifðum við nánari og dýpri tengsl við vini, vinnufélaga og jafnvel kunningja. Í dag búum við ef til vill ein, en við höfum eignast gefandi vináttusambönd og félagsleg tengsl, án kynlífs, og við erum ekki einmana.
Hins vegar væri ofureinföldun að halda því fram við ástar- og kynlífsfíkil að honum sé nóg að sökkva sér niður í nýja, áhugaverða hluti í lífinu til þess að öðlast fullnægjandi tilveru. Fíknin þjónaði margvíslegum tilgangi. Hún var að minnsta kosti flótti um stundarsakir frá lífsleiða og þjáningu og glæddi lífið lit og ánægju sem okkur tókst ekki að finna með neinum öðrum hætti. Allar manneskjur forðast sársauka og sækja í ánægju, þó fæstir gangi svona langt, eða noti ánetjandi meðul. Við erum sannfærð um að við höfum alla tíð sóst eftir einhverju bitastæðara út úr fíkninni. Kannski rugluðum við kynlífi og rómantískum spennuleikjum saman við ást en þegar upp var staðið var það alltaf raunveruleg ást sem við innst inni sóttumst eftir.
Eftir dálítinn tíma í fráhaldi vorum við orðin vel málkunnug þessari þörf sem ýtti okkur inn í sífellt vonlausari og örvæntingarfyllri kynferðislegar eða rómantískar flækjur: Þörfina fyrir að lífið hefði tilgang. Fastar tekjur gátu verið mikilvægar, skapandi útrás var ánægja, vinir sem studdu hvern annan lífsnauðsynlegir. En ekkert af þessu gaf lífinu þann tilgang sem okkur þyrsti í.
Við leituðum í heimspekilegar vangaveltur og helstu trúarbrögð heimsins til að skilja hvernig aðrir, sem ekki voru fíklar, gátu fundið lífi sínu merkingu. Svarið virtist vera að tilgangur lífsins er að elska.
Kannski vorum við ekki á svo miklum villigötum eftir allt saman í óslökkvandi þorsta okkar eftir „ást“. Þótt okkur tækist ekki að kreista varanlegan tilgang út úr þráhyggjusamböndunum var þörfin eftir tilgangi raunveruleg. Við höfðum skilið það rétt að líf sem einhver merking er fólgin í er þrungið ást, en brenglað þá merkingu með eigingirni og aðeins reynt að „fá“ frekar en „gefa“, að „græða á öðrum“ frekar en leggja eitthvað til. „Ást“ sem gekk kaupum og sölum sem neysluvara á markaði gat ekki haft neina varanlega merkingu. Ellefta og tólfta sporið í SLAA blés okkur nýja og ferska hugsun í brjóst. Ástin verður dýpri og fyllri ef við bæði gefum og þiggjum. Hvort um sig þarfnast hins. Hvorugt var nóg í sjálfu sér.
Með því að fylgja þessari aldagömlu visku og læra að þjóna öðrum á grunni þess að gefa og þiggja eignuðust sum okkar gefandi líf, ánægju og hamingju. Að temja okkur að þjóna, jafnt innan SLAA sem utan, hefur gefið okkur sterka tengingu við okkar innra sjálf, mannlegt samfélag og við guð.
Með því að víkka skilning okkar á ást út fyrir kynferðislegt og rómantískt samhengi, opna hjartað fyrir öðrum og gefa í einlægni af okkur sjálfum og öðlast þannig dýpri, persónulega reynslu af því hvað ást er, þá verðum við hluti af streymi guðlegrar ástar og tilgangs. Þannig líf getur verið tilgangur í sjálfu sér. Ef til vill kjósum við að lifa slíku lífi og leitum félags við kærleika guðs með því að þjóna. Vel má vera að þannig sé þörf okkar fyrir ást fullkomlega svalað.
Þeim er þó ákveðin hætta búin, sem velja að lifa lífi sínu einir. Svo getur farið að þegar við upplifum nándina í eigin garð og tengjumst nýrri tilveru betur að við förum að njóta eigin félagsskapar á kostnað samfélags við aðra. Aðrir komist ekki að. Eitt er að vera sátt og líða vel í eigin skinni og annað að týnast í eigin nafla, ein á þúfunni okkar. Alveg eins og við gátum haldið okkur tímabundið til hlés frá öllum eltingaleik við kynferðisleg ævintýri, hugaróra og sjálfsfróun, þá getum við í fráhaldinu leitað skjóls frá óvissunni sem fylgir mannlegum samskiptum með því að halda okkur út af fyrir okkur, sjálfhverf í leit okkar að ánægju. Við höfum komist að því að ef við ekki finnum jafnvægi og tilgang í lifi okkar þá munum við alltof auðveldlega dragast inn i sambönd, sem ekki eru kynferðisleg, en samt ekki ólík þráhyggjusamböndunum í fíkninni. Hvernig við tengjumst andlegum leiðtogum, hetjum eða góðum málstað verður að lúta sams konar lögmálum og fráhaldið á kynferðislega sviðinu. Raunverulegu hversdagslífi fylgir spenna, óhamingja og árekstrar, ef við erum heiðarleg við okkur sjálf og aðra. Til að geta vaxið í edrúlífinu verðum við að vera tilbúin til að skima eftir óheiðarleika og sérhyggju í öllum gjörðum okkar. Annars munum við enda á nýjum tilraunum til að flýja lífið. Grunnreglan er þessi: Reisn og sjálfsvirðing sem og óeigingjörn umhyggju fyrir öðrum eru hvoru tveggja hluti af lífi í fráhaldi.
Allt það sem við höfum lært um hvernig lifa má í félagi við aðra manneskju, hvort heldur er í hjónabandi eða öðru nánu, skuldbundnu sambandi, er ekki síður mikilvægt í allri flóru ókynlífstengdra samskipta við aðrar manneskjur, alveg óháð því hvort við höfum valið okkur að vera ein eða ekki.
