8. kafli – Byggjum upp samband – hluti 2
Í skuldbundnu sambandi
Jafnvel áður en við SLAA félagar vorum komin með nokkra reynslu að ráði af því að byggja upp samband, (enda ennþá illa þjökuð af fráhvarfseinkennum), hugsuðum við heilmikið um hvernig heilbrigt samband gæti verið og hvernig væri að vera í slíku sambandi. Við leituðum að nýjum hugmyndum og í tilraunum okkar til festa hönd á hvað í heilbrigðu sambandi gæti falist hnutum við um hugtakið „kerfisfræði“. Það reyndist okkur gagnlegt til að öðlast nýja sýn á málin.
Of mikið væri færst í fang ef við ætluðum að útskýra alla anga og flækjur kerfisfræðinnar. Hér nægir að benda á samsvörunina milli lokaðra og opinna kerfa og reynslu okkar af samböndum fyrir og eftir bata.
Grunnhugmyndin er sú að „lokað kerfi“ sé lýsing á ástandinu þegar engin orka flæðir milli kerfisins og umhverfisins. „Opið kerfi“ er þegar orkuflæði ER til staðar, alveg eins og lifandi vera tekur til sín næringu, súrefni og reynslu og umbreytir í hold, orku og þekkingu. Fyrir lifandi verur fær lokað kerfi ekki staðist lengi. Alveg eins og geimfari úti í geimnum mun verða uppiskroppa með mat og loft þá verður kerfið að „opnast“, annars deyr hin lifandi vera.
Þráhyggjusambönd með alla sína nauðandi þörf og kröfur á aðra um tilfinningalega og kynferðislega björgun eru eins og lokuð kerfi. Í þannig samböndum reiða tveir einstaklingar (sem í rauninni eru ekki-„ein“-staklingar) sig algjörlega á sambandið um allt sem heitir sjálfsmynd, tilgang og merkingu. Hvort um sig eru þau bæði orðin alveg háð hvort öðru um alla festu í lífinu. Samt er ekkert hald í þeirri festu sem þannig er fengin. Eins og önnur lokuð kerfi er engri ytri orku hleypt að því á hana er litið sem ógn gegn kerfinu sjálfu.
Tökum dæmi um slíkt „lokað“ samband milli A og B. Ímyndum okkur að A íhugi að fara aftur í nám, rækta nýjan vinskap eða sinna einhverjum hugðarefnum sem makinn deilir ekki. Í „lokuðu“ kerfi hlýtur B að þykja sem þetta ógni möguleikum sínum á að fá eigin þörfum fullnægt í sambandinu. Það er jú þannig að ef A notar sinn tíma í eitthvað annað eða með öðrum vinum þá mun B ekki lengur hafa óheftan aðgang að A. Ef B er þvingaður til að deila tíma með einhverjum eða einhverju, mun honum þykja, sérstaklega ef hann er ástar- og kynlífsfíkill, sem sínar þarfir kunni að verða út undan ef hann er orðinn háður því hvenær A á lausan tíma. Jafnvel þó að A myndi taka sérstaklega frá tíma bara fyrir B, væru hugsanleg tækifærin sem A byðust, stöðug ógn og eilíft kvíðaefni fyrir B. Engu máli skipti hvort þessi tækifæri snerust um rómantík eða persónulegan þroska. Hvort heldur væri gæti orðið til þess að A kynni ef til vill að „vera ekki til taks“ til að þjóna þörfum B þegar á þyrfti að halda. Úr því að opið og viðstöðulaust tækifæri til að tengjast er bensínið sem fíkill í lokuðu sambandi gengur fyrir, hlýtur sá möguleiki, að vera hrint nauðugum út í sársaukann, sem við skiljum núna að eru fráhvörf, að vera afar fráhrindandi tilhugsun.
Þegar B stendur frammi fyrir slíkri ógn, hlýtur hann að reyna spilla framtaki A til að prófa eitthvað nýtt. Hann mun ekki eiga í erfiðleikum með það. A gæti vel hafa reynt að víkka sjóndeildarhringinn vegna þess að hann var frekar öruggur í sambandinu með B. En tilfinning um öryggi, að eiga eitthvað með öðrum í þráhyggjusambandi, er yfirleitt afleiðing þess að annar aðilinn er orðinn háðari sambandinu en hinn, sama hversu tímabundið ástand það er. Raunar er eina „öryggið“ sem hægt er að fá í þráhyggjusambandi það að „hún þarfnast mín meira en ég hennar.“
En hlutverk A og B, þess sem finnst hann vera með þetta og hins sem er í „henglum“, þau skiptast á. Í lokuðu sambandi mun hvoru um sig finnast þeim hafa allt í hendi sér að því marki sem hinum aðilanum finnst hann vera missa allt úr sínum höndum! Þegar B stendur andspænis því að A gæti hugsanlega ekki verið til staðar, mun hann hóta því að leita á önnur mið til að þjóna þörfum sínum, þörfum sem gætu sprottið fram fyrirvaralaust hvenær sem er. Og A sem raunverulega er alveg eins háður sambandinu og B mun í snarhasti varpa öllum sínum hugmyndum fyrir róða til að tryggja eigið öryggi.
Því er það svo í lokuðu kerfi að báðir aðilar leggja sífellt meira upp úr því að troða hitt niður, á sama tíma og stöðugt minni orka og næring berst þeim frá hinu stóra sviði lífsins. Til að standa vörð um eigið öryggi verður öll orkan að fara í að halda hinu niðri, til að tryggja að hvorugt hlaupi út undan sér, svo aldrei komi til þess að annað skorti aðgang að hinu.
Eftir því sem líf þeirra beggja verður sífellt snauðara sjá þau í æ ríkari mæli hvort annað sem bjargvætt og frelsara, en þó af og til líka sem fangavörð. Bæði hengja þau sig á hitt og reyna að vera mótaðila sínum allt, svo engar tilraunir verði nú gerðar til að opna gáttina út. Bæði nota hvort annað til að bæla niður allar innri þarfir um að vaxa og þroskast.
Hvaðan kemur orkan til að halda þessu lokaða sambandi áfram? Í fyrstu úr því sem þau komu með hvort í sínu lagi inn í sambandið. En eftir því sem þau einangra sig æ meira í sínum lokaða heimi, þar sem þau nærast hvort á öðru, gengur stöðugt hraðar á orkuforða þessara tveggja einstaklinga.
Alltaf þegar flögrar að öðru þeirra að eitthvað gæti komið upp á milli þeirra tveggja sækir hún eða hann rakleitt í sinn einkaforða og rýrir um leið orkuforðann sem þau eiga sameiginlega ennþá frekar. Afleiðingin verður sú að bæði verða þau enn frekari á sambandið. Ástin sem bjargvættur er líka ástin sem halda verður í gíslingu ef fíkillinn á að komast af og það á yfirleitt við um þau bæði.
Slík lokuð sambönd eru ekki kyrr og stöðug. Sífellt meiri áreynslu þarf til að viðhalda falskri ímyndinni um festu og stöðugleika. Báðum líður þeim eins og tilfinningakerfið sé að tærast upp að innan. Endrum og eins víkur heilaþokan fyrir ofsalegum bræðiköstum eða barnalegri upphafningu á hinu. Haldi þessi þróun áfram geta gerst ástríðuglæpir. Báðir aðilar sambandsins þurfa að „lifa“, að eiga sitt eigið líf. Meðvitað eða ómeðvitað hata þau hvort annað fyrir að hafa tekið það líf frá þeim. Samt er hatrið dýpst í eigin garð, fyrir þær réttmætu sakir að hafa gefið það frá sér að lifa raunverulegu lífi. Á endanum hlýtur lokað kerfi ástar- og kynlífsfíklanna óhjákvæmilega að hrynja til grunna.
Þegar við fórum að skoða þessa hugmynd um lokað kerfi var hún svo skelfilega kunnugleg. Okkar eigin saga var stráð dæmum um hina óhjákvæmilega hnignun og hrun sem kenningin sagði fyrir um. Núna, þegar við íhuguðum hvernig raunverulegt samband gæti verið sem „opið kerfi“, varð okkur ljóst að hér vorum við á ókunnugum slóðum og alveg reynslulaus. Við urðum að láta vaða og trúa því að „opin kerfi“ í skilningi sambands við aðra manneskju gæti raunverulega verið til fyrir okkur.
Þegar við hugsuðum málið frekar þótti okkur líklegt að ef stöðugt bærist ný orka inn í kerfið til að næra það og viðhalda því, myndu þær rýru aðstæður ef til vill ekki skapast sem óhjákvæmilega leiða til hruns lokaðs kerfis. Orka myndi flæða inn í kerfið, út úr því, og líka innan þess. Tvær manneskjur sem eiga í sambandi geta nært hvor aðra og líka gefið og endurnýjað orkuna með lífi utan sambandsins. Frekar en að vera algjörlega háð hvort öðru geta aðilar sambands í opnu orkukerfi haldið í sjálfstæðið upp að vissu marki. Athafnageta þeirra væri aðeins að hluta háð hvort öðru og þannig gætu þau frekar aðlagast alls kyns breytingum. Við gerðum okkur grein fyrir því að í lokuðu kerfi getur það hversu algjörlega þau eru háð hvort öðru svo auðveldlega haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þau bæði, ef eitthvað togar annað þeirra niður. Á hinn bóginn myndi samband opinnar orku endurnæra sjálft sig, jafnvel þegar breyttar kringumstæður mörkuðu annan aðilann.
