Vika 48

8. kafli – Byggjum upp samband – hluti 3


​Þessi hugsun virtist gefa færi á sambandi þar sem athafnir og líf þeirra beggja skarast aðeins að hluta. Milli þeirra ríkir ekkert samkomulag um að útiloka aðra í því skyni að slá skjaldborg utan um þau bæði til að verjast upplifun af, og áhuga á, því sem liggur utan sambandsins. Sambandið væri mikilvæg kjölfesta fyrir þau bæði en mætti ekki útiloka allt annað. Hvort um sig, saman eða á eigin spýtur, gæti og mætti víkka sjóndeildarhringinn og njóta fleira af því sem lífið hefur upp á bjóða en bara þess sem finna má innan sambandsins. 
Að lifa lífinu svona, að hluta til sitt í hvoru lagi, gæti raunar eflt og styrkt sambandið. Sambandið fengi að njóta ávaxtanna af nýjum þroska sem þau hefðu öðlast hvort í sínu lagi. Þannig gæti sambandið vaxið og dafnað enn frekar. Né þyrftu þau að hanga utan í hvort öðru af ótta við að kerfinu sjálfu þverri kraftur. Engin hætta væri á því svo lengi sem sambandið héldist opið og þau hefðu bæði svigrúm til að vaxa og þroskast. Hugmyndir um að hefja aftur nám væri engin ógn í slíku kerfi. Þau myndu bæði skilja að án tækifæris fyrir hvort um sig til að rækta möguleikana sem í þeim byggju gæti hvorugt þeirra fundið sátt í sambandinu. Sambandið getur einungis auðgað og gefið nánd svo lengi sem báðir aðilar leita sér næringar á öllum þeim sviðum lífsins þar sem hana má finna á viðeigandi hátt.
Í lokuðum þráhyggjusamböndum þar sem áherslan er á tilfinningalega ánauð er stærsti óttinn að sambandið gangi ekki upp. Misheppnað samband jafngilti sálrænum dauða fyrir báða aðila.  Það olli skelfingu við minnsta skjálfta.  Í sambandi með opnu kerfi voru endalok þess enginn „dauði“ fyrir einstaklingana sem áttu í hlut. Að glata sjálfstæðinu og afsala sér mannlegri reisn hljómaði miklu verr. Að halda reisn sinni og vera heilsteypt manneskja væri því meira virði en að halda í sambandið. Minni kvíði og áhyggjur af hvað tæki við eftir hugsanleg sambandsslit varð svo til þess að stytta tímann sem fór í slíkar vangaveltur. Tilfinningin um eigið frelsi jókst hjá báðum aðilum. Samband af þessu tagi gæti vel átt góðar lífslíkur. 
Stóra spurningin var þessi. Gátum við í ljósi dapurlegrar fyrri reynslu af lokuðum þráhyggjusamböndum orðið tilbúin í jákvætt samband? Kerfisfræðin gaf til kynna að slík sambönd gætu verið til.  Stóra svarið var: Við vissum það ekki, að minnsta kosti ekki í byrjun. 
Hvað vissum við þá? Alla vega kunnum við að vera opin gagnvart félögum okkar í SLAA, um nokkurn veginn allt sem við vorum að hugsa, finna og upplifa. Með því að opna okkur þannig höfðum við lært eitthvað um heiðarleika og líka eitthvað um að vera sjálfum okkur samkvæm tilfinningalega. Við höfðum líka kynnst hlýjunni innra með okkur sem fylgdi því að finnast við eiga heima meðal fólks, ekki með því að þykjast eitthvað annað en við vorum, heldur vegna veikleikanna sem við áttum sameiginlega.
Við vissum líka sitthvað um hvað átt var við með sjálfsnánd – því að vera náinn sjálfum sér. Fráhvörfin kenndu okkar það. Eftir reynslu okkar af SLAA fundum vorum við meðvituð um að alla vega í öruggu skjóli fundanna gátum við verið innan um fólk sem einhvern tímann hefði verið fullkomið fóður fyrir fíknina. Með því að deila reynslu hvort með öðru höfðum við kynnst þessu fólki sem manneskjum og sögur þeirra eyðilagt flestar fantasíurnar sem við hefðum getað spunnið upp um þær. Hugarórum fíknarinnar um frábæra eiginleika þeirra var sópað burt fyrir framan nefið á okkur. Samskipin við aðra urðu heilsteyptari og gagnkvæmari. Meira að segja komu þau augnablik að við gátum hlustað á einhvern segja sögu sína án þess að hlutir eins og kyn eða kynhneigð skiptu okkur nokkru máli. Okkur tókst betur og betur að „heyra“ sammannlega hrynjandina sem hafin var yfir ólík kyn, kynhneigðir og kynferðislegar langanir. Við vorum öll fiskar í sama vatni.
Þessi hægfara en lífsnauðsynlega endurforritun á því hvernig við sáum aðra SLAA félaga fól í sér margt af því sem hugsanlegt samband yrði sömuleiðis að innihalda, vaxandi getu til að auðsýna heiðarleika, traust, nánd og skuldbindingu. Raunar var SLAA sem slíkt opið orkukerfi, sem endurnærðist í sífellu af eilífu flæði af guðlegri náð. Batinn var gerast og við skynjuðum það. 
Því var það svo að mörg okkar byrjuðu að byggja upp samband. Þegar ólgu fráhvarfanna tók að linna vorum við reiðubúin að mæta þeim aðstæðum í lífinu þaðan sem hefja mátti vinnu við sambandssmíðar. 
Augljóslega mátti almennt séð flokka mögulega félaga í tvo hópa. Annað hvort ákváðum við að reyna taka aftur upp þráðinn með einhverjum sem við höfðum áður verið með, hversu ófullkomið samband sem það hafði nú verið, eða við reyndum að skapa eitthvað með nýjum félaga. 
Hvort sem við reyndum að púsla saman brotnu fyrra sambandi, eða stofna til nýs, beið okkar stórt verkefni. Þó að margt sé sameiginlegt með öllum vel heppnuðum samböndum þá á hvert einstakt dæmi sín eigin verkefni og vandamál, hvort sem um er að ræða sættir eða nýtt samband.

Að ná aftur saman – leiðin til sátta
Tilraunir til að ná aftur saman og sættast við fyrrverandi maka, ástmann eða ástkonu kenndi okkur að sættir taka jafn mikið á eins og skilnaðurinn. Eitt var að við vorum mörg ekkert alltof viss um að geta haldið okkur frá fíkninni. Þegar við tengdumst aftur fólkinu sem hafði verið hluti af fyrra lífi okkar, fengum við alvöruna beint í æð og þurftum virkilega að láta reyna á skuldbindinguna um fíknarlaust líf sem við gengumst undir í byrjun fráhvarfanna. Hugtakið „einn dagur í einu“ skipti sköpum á þessum tímabili nýrra breytinga og aðlögunar. 
Flest höfðum við rætt málin ítarlega við fyrrverandi áður en þau komu til okkar aftur. Þrátt fyrir góða viðleitni höfðu tilfinningarnar til þessara einstaklinga gjarnan fengið á sig rósrauðan bjarma tilfinningasemi og upphafningar í fráhvörfunum, sérstaklega þegar þannig stóð á að viðkomandi einstaklingur hafði búið langt í burtu. Við hugsuðum ekki út í gömlu, endalausu samskiptakreppurnar, sem meiddu okkur svo síðast, og mundum kannski varla eftir þeim. Því miður var það svo að ef samskiptavandamál voru fyrir hendi áður, þá var alveg áreiðanlegt að þau kæmu upp aftur, hvað sem leið nýju „edrú“ tilverunni okkar. 
Í viðhorfum okkar til sátta bjuggu oft margvíslegar væntingar um framhaldið sem við ekki sögðum upphátt. Þær snerust meðal annars gjarnan um að við ættum heimtingu á sérstöku klappi á bakið frá endurheimtum makanum fyrir það að vera ekki lengur ríðandi út um allan bæ eða tilkippileg í rómantísk ævintýri. Þessar sjálfhverfu væntingar komu líka fram í viðhorfinu til kynlífs í sambandinu. Okkur fannst við eiga mjög mikinn rétt á að gefa afgerandi skilaboð um kynferðislegar langanir okkar. Ákveðnin var oft alger andstæða hlédrægninnar sem einkenndi okkur áður í sambandinu meðan við vorum virk í fíkninni! Þá áttum við gjarnan svo mikið undir í því að vera aldrei hreinskilin í kynferðislegum málum. Raunar höfðu mörg okkar eytt heilmiklu púðri í að rækta þá ímynd af fyrrverandi aðalbólfélaga okkar að hún eða hann væri kynferðislega ófullnægjandi, heftur, lokaður og leiðinlegur og í að stimpla þá ímynd sem óumbreytanlega. Orðin edrú, gerðum við gjarnan í því að sækja á og krefjast þess að þau kæmu til móts við kynferðislega löngun okkar eins og við skilgreindum hana. 
Þessar væntingar og aðrar í þeim dúr voru óhjákvæmilegar. Að freista þess að ná sáttum aftur þýddi að við urðum að moka okkur í gegnum þykkt lag af gömlum skít (stundum virtist skítahaugurinn óendanlegur!) og leggja algjörlega nýjan grunn að samvinnu, trausti og nánd.
Verkefnið var, og er, risastórt. Ef við hefðum ekki nálgast það „einn dag í einu“ hefðu erfiðleikarnir þegar illa gekk verið óyfirstíganlegir. Og ef uppgjöfin fyrir ástar- og kynlífsfíkn var ekki skilyrðislaus þá hefðum við verið vís til að grípa eitthvert ömurlegt andartakið í sáttaferlinu, sem vissulega reyndi á þolrifin, sem afsökun til að leita aftur á slóðir fíknarinnar.