8. kafli – Byggjum upp samband – hluti 4
En við héldum áfram að reyna og ástæðan er þessi: Við vissum að vandamálin varðandi samvinnu, traust og nánd áttu rót sína í okkur. Alveg óháð ögrandi ytra áreiti, (sem við fengum oft frá fyrrverandi), þá vissum við að þetta snerist um okkur. Við gátum ekki kennt öðrum um allt. Við vissum að ef við myndum gefast upp á tilrauninni til þess að láta fyrir alvöru og heiðarlega reyna á hvort við gætum náð sáttum við viðkomandi, myndu vandamálin bíða óleyst eftir okkur síðar á lífsleiðinni, með hvaða nýja ástvin sem við myndum vera með þá. Ef við gæfumst upp þá gætum við fundið nýjar persónur í hlutverkin en ekki breytt leikritinu sjálfu.
Þess vegna héldum við áfram að reyna, nema okkur væri orðið alveg fulljóst að útilokað væri að taka upp þráðinn aftur við fyrrverandi. Ef að því kom að hafið var yfir allan vafa að það gengi alls ekki, þá hvarf tilfinningin um að við ættum eitthvað eftir óklárað alveg frá okkur. Við gátum farið án eftirsjár og í átakalausri hreinskilni. Við urðum líka allan tímann að vera minnug þess að geta okkar til að vera til staðar í sambandinu tilfinningalega og andlega á nokkurn veginn viðvarandi hátt væri lykillinn að árangri allra sáttatilrauna við fyrrverandi ástvini. Að við reyndum að vera hvorki of né van í hringiðunni miðri var árangur í sjálfu sér, hvort sem sambandið heppnaðist eða ekki.
Þegar sáttaferlið snerist ekki lengur um að hreinsa út gömlu ósiðina og nýtt, vaxandi samband fór að verða til, upplifðum við eitthvað sem við köllum náð guðs. Okkur leið líkt og eitthvað sem við hefðum lengi leitað að hefði rekið á fjörur okkar á slóðum þar sem við áttum þess síst von. Til þess að auðvelda ykkur að rata inn á sömu slóðir viljum við nefna nokkrar flækjur sem þvældust fyrir á leiðinni og hvernig fór að rakna úr þeim innan sambandsins. Í tilfinningalífinu skipti mestu máli að endurheimta traustið. Vantraustið og tortryggnin í garð fráhaldsins, sem hrjáðu fyrrverandi maka okkar svo greinilega í upphafi, gufaði frekar átakalítið upp. Meginvandinn var endurómur gamallar gremju og vantrausts sem svo rækilega hafði verið kynt undir áður fyrr. Ef aðstæður núna minntu örlítið á fyrri tíð gátu þær endurvakið þessar tilfinningar eða espað þær upp. Að svíkjast einstaka sinnum um að koma heim í mat á réttum tíma, eða slá af einhver plön um að gera eitthvað saman – nokkuð sem kemur upp af eðlilegum ástæðum og er sjálfsagt í öllum samböndum – gat komið ástvinum okkur alveg úr jafnvægi og látið gömlu, vondu tilfinningarnar blossa upp. Afleiðingin gat orðið togstreita um traust. Viðbrögð okkar voru stundum að streitast á móti, með yfirlýsingum um að við ætluðum okkur ekki að vera á skilorði það sem eftir væri og búa við eilífar grunsemdir.
Ef til vill reyndi ennþá meira á þolrifin þegar okkur fannst makinn fjarlægur og við ekki geta náð til hans. Þessar skapsveiflur virtust stundum lifa eigin lífi. Iðulega var erfitt að tengja þær neinu sérstöku sem væri í gangi þá stundina. Þegar þær birtust, sérstaklega ef við höfðum einmitt þá lagt okkur fram í samskiptunum (og gjarnan látið skína í þörf okkar fyrir viðurkenningu á viðleitninni), var sem heimstyrjöld brytist út. Þess háttar átök, sem virtust blossa upp án tilefnis, slógu okkur meira út af laginu en nokkuð annað. Þau komu af stað vangaveltum um hvort við hefðum kannski misskilið illilega möguleikana á því að ná aftur saman. Voru gömlu sárin of djúp til að gróa nokkurn tímann aftur? Okkur sveið undan þessum spurningum, en við stungum höfðinu ekki í sandinn.
Á kynferðissviðinu komu svipuð vandamál upp. Mörg okkar mundu alltof vel eftir ákveðnum þráhyggjusamböndum þar sem kynferðislegt neistaflug var hluti af dæminu. Þeir spennuleikir gáfu okkur kynlíf á kvarða sem okkur fannst útilokað að ná í sambandinu sem við vorum núna að reyna að endurvekja. Samt dreymdi okkur um það! Kannski gátum við brotið niður múrana sem einkenndu gamla sambandið og sem við kenndum hlédrægni makans um. Á laun hungraði okkur í að glæða nýja sambandið sömu spennunni og hömluleysinu sem okkur hafði þótt svo æðislegur hluti af fíkninni og sem var svo stór hluti af því sem við skildum sem „ást“. Vonin um að kveikja kynferðislega brímann með nýja, gamla félaganum okkar var auðvitað skiljanleg. En einföld uppskrift að ást eða kynferðislegri hamingju var ekki til.
Þegar við endurvöktum kynlífssambandið var allt við sama heygarðshornið: Of mikil sjálfsmeðvitund, engin galsi eða leikgleði, varla nokkrir neistar og svo framvegis. En núna vorum við edrú og þóttumst eiga rétt á að kvarta! Þar að auki lifðum við núna fyrir opnum tjöldum og höfðum gert það um nokkra hríð. Því gátum við ekki dulið hvernig okkur leið. Guð minn góður, hve sárt þetta var! Að viðurkenna kynferðislega ófullnægjuna með makanum vakti ákafan söknuð og sorg vegna ástríðunnar og spennunnar sem hvarf með fíknarlífinu. Makinn vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og var sárgramur. Hann eða hún var reið og sorgmædd. En, í því andrúmslofti sem erfiðar en algjörar afhjúpanir sköpuðu, fórum við að heyra hvað makinn hafði um þetta allt að segja. Geta okkar til að „hlusta“ var til muna betri þegar við vorum ekki alltof upptekin af því að útlista eigin kröfur og „rétt“ okkar til að fá þeim framgengt. Nefnum nú nokkur atriði meðal þess sem við heyrðum:
Jafnvel í þeim tilvikum sem makinn hafði ekki „vitað“ um athafnir okkar utan sambandsins meðan við vorum í fíkn, þá höfðum við aldrei almennilega dulið hversu tilfinningalega fjarlæg við vorum. Okkur þótti kannski sem við hefðum leynt tilfinningum okkar en makinn hafði samt skynjað þær. Afleiðingin var sú að ósjálfrátt fór hann eða hún að „lokast“, meðvitað eða ómeðvitað. Það gerðist sjálfkrafa. Þegar tilfinning makans um athafnir okkar gekk ekki upp miðað við hávær (eða þögul) andmæli okkar, sem vorum vön að þvertaka fyrir allan áhuga út fyrir sambandið, fannst honum hann neyðast til að stunda með okkur kynlíf því hann óttaðist að ella kynnum við að leita annað!
En í kynlífi undir formerkjunum „ef ég er ekki til í það, þá fjarlægist hann/hún mig ennþá meira“ er fyrir fram slökkt á mögulegum neistum og leikgleði. Í staðinn verður kynlífið að kvöð. Og það var fleira. Okkar fyrrverandi leið gjarnan eins og hann eða hún væri metin og borin saman við alla elskhuga og ástmeyjar sem við höfðum áður verið með. Meðan á kynlífinu stóð leið makanum eins og hann væri í prófi og fengi einkunn fyrir frammistöðu frá okkur. Og satt að segja var það oft alveg rétt.
Aðstæðurnar drógu ansi hressilega úr leikgleðinni hjá fyrrverandi! Aftur tókst okkur að hlusta og meðtaka þetta. Rétt er að undirstrika að þessi afdrifaríka bæling kynlífsins gerðist ekkert síður þó fyrrverandi maki eða ástvinur vissi ekki nákvæmlega út í hvað við höfðum leiðst í ástar- og kynlífsfíkninni. Við höfðum trúað í svo mörg ár að við værum að „komast upp með það“, en allan tímann höfðum við grafið undan mögulegri tilfinningalegri og kynferðislegri ánægju með makanum, þeirri manneskju sem svo átti að heita að stæði okkur næst. Að hlusta í alvöru á það sem makinn hafði um málin að segja skipti sköpum. Aðeins með því að hlusta af athygli og algjörlega opnum huga gátum við öðlast nýjan skilning á hvaða afleiðingar fíknin hafði haft og hvaða verkefni þyrfti að leysa.
Við höfðum ýmist reynt að þvinga makann til að svala kynferðislegum löngunum okkar eða við sátum á okkur algjörlega, út af einskærri góðmennsku, (sem við bókuðum yfirleitt hjá okkur bæði til eigna og skulda. Að sitja á okkur núna þýddi kynferðislega umbun síðar). En eftir langa þrautagöngu kom að nýrri uppgjöf. Uppgjöfin var einlæg viðurkenning á því að enn sem komið væri hefðum við ekki glóru um hvað heilbrigð kynferðisleg samskipti snúast um. Makinn var útslitinn og úttaugaðar eftir endalausa kynferðislega tilætlunarsemi okkar. Hann eða hún hafði aldrei náð að tengjast eigin kynlífslöngunum. Makinn hafði aldrei fengið það næði fyrir kynlífsóskum okkar að honum eða henni gæfist tækifæri til uppgötva sjálfan sig sem kynveru á eigin forsendum. Honum/henni fannst hann/hún út undan og sagði það.
Hin nauðsynlega uppgjöf var þessi: Að baki allra yfirlýsinganna um rétt okkar á og tilkall til kynlífs duldist sú staðreynd að okkur fannst við líka út undan. Við urðum að viðurkenna að óttinn við kynferðislegan skort var stundum stjórnlaus. Við upplifðum kynferðislegan skort sem höfnun á allan hátt. Þegar þessi ótti þjakaði okkur var hvergi hlutlaust svæði að finna og óttinn gegnsýrði allt! Við vissum líka að sambandið sem við þurftum var samband byggt á trausti og nánd. Óttinn við kynferðislegan skort var í rauninni óttinn sem til varð vegna rótgróins vantrausts á fúsleika einhvers annars til að taka tilfinningalegar og kynferðislegar þarfir okkar alvarlega. En sjálfar „þarfirnar“ sem allt snerist um, einmitt um þær efuðumst við sjálf um, því þær áttu sér svo djúpar rætur í fíkninni.
