1. kafli – Uppgötvun ástar- og kynlífsfíknar: Sagan mín – hluti 5
Ég ákvað að höggva á hnútinn með því að endurvekja rómantískar glæður hjónabandsins. Við fórum í ferðalag saman um nokkur fylki. Ég ætlaði að koma sérstaklega vel fram og beita ofurkröftum til að elska þessa konu. Ég myndi þvinga hana til að endurgjalda ástina. Samveran myndi rista nógu djúpt til að mér tækist að hrista Söru af mér. Afrakstur stjórnseminnar og skeytingarleysinu gagnvart raunverulegum tilfinningum var svo heiftúðlegt rifrildi að lá við slagsmálum milli okkar.
Þegar ég lít til baka sé ég hversu örvæntingafullur ég var. Mig langaði svo heitt að sannfæra sjálfan mig um að hjónabandið væri til góðs. Auðvitað hafði mér aldrei tekist að sýna því neina staðfestu tilfinningalega. Um margra ára skeið hafði ég veðjað tilfinningum mínum í alltof ríkum mæli á eitthvað annað.
Við Kata komum heim úr ferðalaginu í ótryggum friði og töluðumst ekki við. Á meðan hafði Sara dvalið á Vesturströndinni og var von á henni aftur nokkrum dögum síðar. Ég var aðeins efins um hvort töfrarnir og ástríðuhitinn sem hnýttu okkur Söru saman héldu ennþá mætti sínum eftir þennan aðskilnað. Þótt undarlegt væri hikaði ég við að hafa samband og kanna hvort hún væri komin heim, heldur kaus frekar að rekast á hana „fyrir tilviljun“ á AA fundi. Óviss um hvernig færi og upptendraður af hugaræsingi hafði ég beðið vin um að vera nálægt mér, ef ske kynni að ég myndi hrynja saman. Hún kom og var ennþá hrifin af mér. Ég varpaði öndinni léttar. Seinna um kvöldið rifjuðum við upp hvorutveggja kynferðisleg og tilfinningaleg kynni okkar af eldheitum ákafa. Þar með hlóð ég einn einum steini gjörðum úr „skyndilausn“ í múr hinnar vaxandi sturlunar.
Í lok apríl fór ég að finna fyrir kynferðislegu getuleysi heima fyrir. Það var áfall. Ég hafði alltaf talið kynorku mína vera takmarkalausa. Þrisvar i röð klúðraðist kynlíf með Kötu vegna getuleysis míns, jafnvel þótt á sama tíma væri ég á reglulegum kynferðislegum fóðrum hjá Söru og stundaði sjálfsfróun tvisvar eða þrisvar á dag. Ég óttaðist að getuleysið kæmi upp um kynferðislega virkni mína annarsstaðar. Úr því að mér var ómögulegt að hætta að stunda kynlíf með Söru ákvað ég að sleppa frekar sjálfsfróuninni. Ég vonaði að ef mér tækist það (fyrsta tilraun mín til að hrófla við mynstri sem skapast hafði á þeim sautján árum sem ég hafði stundað hana), þá gæti ég leynt því áfram hvað var í gangi. Lausnin keypti mér sex vikur til viðbótar en á þeim tíma sökk ég enn dýpra ofan í vitfirringuna.
Um nokkurt skeið höfðum við Sara rætt um að fara upp í fjöllin saman. Mig langaði til þess en sá ekki hvernig það væri mögulegt. Sara hóf að leggja drögin að heimsókn til vina sinna sem þar bjuggu, einhvern tíma eftir útskriftina. Nokkrum vikum fyrr, þegar hún heimsótti ættingja sinn sem bjó í öðrum bæ, tókst mér að haga málum þannig að ég gæti hitt hana þar. Ég hringdi til að láta hana vita, en áttaði mig þá á því að hún hafði tekið gamlan kærasta sinn með sér. Mér brá mjög en þá var ekki tími til að ræða málið frekar. Á miðvikudagskvöldi kæmi hún aftur heim og þá myndum við hittast.
Þetta stutta og ógnvekjandi símtal átti sér stað á mánudegi. Á einhvern hátt komst ég í gegnum þriðjudaginn og kvöld með eiginkonunni, sem ég fór með í fyrsta tímann á paranámskeiði fyrir verðandi foreldra, sem vildu læra hvernig eiginmaðurinn gæti veitt konunni virkan stuðning við barnsburð. Ég hafði samþykkt að gera þetta til að þóknast Kötu, en í rauninni skelfdi tilhugsunin mig. Mér tókst að harka af mér kynninguna. Síðan var okkur sýnd kvikmynd um fæðingu með aðstoð eiginmanns. Myndin sýndi svo berlega að hlutverk eiginmannsins væri fyrst og fremst að veita tilfinningalegan stuðning. Ég varð dauðskelkaður. Það rann upp fyrir mér að ég bar alls engar tilfinningar til þessarar konu sem átti að heita eiginkona mín. Ég hafði ekki hugmynd um hvort ég hataði hana eða elskaði. Tómið þar sem tilfinningarnar áttu að vera kom mér í mikið uppnám. Mér leið hræðilega. Auðvitað gat ég heldur ekki sagt neinum frá því hversu einn og einangraður mér leið. Það eina sem ég man eftir var skelfilegt og stigvaxandi taugaálag.
Miðvikudagskvöldið vann ég fram eftir eins og viðbúið var, en fór síðan til Söru, eins og til stóð, mjög stressaður. Þangað kom ég laust eftir miðnætti. Fimmtudagurinn var runninn upp – dagurinn þegar ég loksins bugaðist. Man að ég þurfti stöðugar staðfestingar frá henni um að vissulega væri hún ekki að fara frá mér nú þegar ég hafði loksins ákveðið að helga mig alfarið því sem við Sara höfðum skapað saman, þessu sem fyrir löngu hafði öðlast sjálfstætt líf.
Nokkru síðar, eftir aðeins fjögurra tíma svefn, hafði ég mig til fyrir útskriftarathöfn Söru. Tengdafaðir minn var samviskusamur eldri útskriftarnemi úr háskóla Söru. Þetta árið sá hann um athöfnina. Ég gerði mér grein fyrir því að hann yrði forviða ef hann myndi rekast á mig á staðnum og einnig að ég gæti með engu móti útskýrt veru mína þarna. Ég tók strax eftir honum og þurfti að vera mjög var um mig til að forða því að hann kæmi auga á mig. Á sama tíma þurfti ég að gera mitt besta til að virðast afslappaður og veita vinum mínum athygli! Að athöfn lokinni stóð til að hitta Söru og fjölskyldu hennar. Sara hékk á handleggnum á mér og fékk mig til að vera með á fjölskyldumyndum. Ég sveiflaðist á milli þess að vilja helst hrinda þeim öllum frá mér og stinga af eða þá að reyna að hverfa inn í hópinn þeirra og láta sem minnst á mér bera. Kvíði minn stigmagnaðist þegar ég velti fyrir mér þeim mjög svo raunverulega möguleika að tengdafaðirinn gæti sem hægast gengið fram á tengdasoninn í rómantískum pósum með annarri konu umvafinn framandi fjölskyldu.
Eftir þessa skelfilegu lífsreynslu stóð til að fara út að borða með vinum mínum. En þegar á veitingahúsið var komið stóð ég með grátkökkinn í hálsinum. Þetta gæti ég ekki mikið lengur. Ég gat ekki opnað munninn, hvað þá að neytt ofan í mig mat. Tíu mínútum síðar afsakaði ég mig við áhyggjufulla vini mína og fór heim. Heima var hljótt, ég var einn. Síðdegislúr hressti mig örlítið við og síðan bankaði sendill upp á með sófa sem við Kata höfðum keypt til að hafa í stofunni. En þegar Kata kom heim gat ég hvorki sagt nokkuð né gert. Kata gekk á mig hvort ég væri henni reiður út af einhverju. Orðin hrutu snögglega út úr mér. „Ég vil skilnað.“ Ég trúði vart að ég hefði sagt þetta. Svo spurði hún: „Er önnur kona í spilinu?“ „Já,“ svaraði ég. „Er það Sara?“ „Já,“ svaraði ég aftur.
Hún varð bálreið og illa brugðið. Viðbrögð mín spruttu upp úr þeim ólgusjó sem búið hafði innra með mér mánuðum saman og tilfinningarnar urðu ennþá ofsafengnari vegna kringumstæðnanna sem slegið höfðu mig svo illa út af laginu fyrr um daginn. Ég hágrét og hrundi gersamlega. Um kvöldið hafði ég ætlað mér að hitta Söru. Í staðinn fórum við Kata, með vaggandi óléttubumbuna, í langa gönguferð um bæinn og töluðum og töluðum saman endalaust. Einhvern veginn vissi ég að ekkert í lífi mínu yrði eins eftir þetta og hluti af mér sætti sig við að þannig ætti það að vera. Kata hringdi í systur sína sem bjó nokkur hundruð mílur í burtu og gekk frá því að fá búa hjá henni þangað til við gengjum frá skilnaðinum. Mér leið eins og iðrin lægju úti öllum til skoðunar sem sjá vildi og á þeim tíma sem ennþá væri til reiðu vildi ég draga sem allra flest fram í dagsljósið. Við ákváðum að búa saman þangað til barnið væri fætt. Ég sagðist myndu halda áfram að hitta Söru því ég þyrfti á því að halda. Annað væri ekki til umræðu. Ef Kata vildi vera um kyrrt yrði hún að sætta sig við það.
Mest af sumrinu 1976 fór í að bíða eftir barninu og leyna engu. Ég sagði Kötu frá öllu sem ég hafði gert, eins langt aftur og ég mundi – og samhliða því hélt ég áfram ástríðufullum samskiptum mínum við Söru. Einn þáttur í sambandi okkar Söru hafði verið sá að mér fannst ég geta deilt raunverulegum tilfinningum mínum með henni og sýnt hver ég var í raun og veru. Þrátt fyrir að hafa ekki þekkt hana nema í tvo mánuði fannst mér sem Sara þekkti mig miklu betur en Kata, sem hafði þó þekkt mig í átta ár. Það var svo sem ekkert skrýtið. Aðrar konur höfðu alltaf átt huga minn í svo ríkum mæli að ekkert var eftir fyrir Kötu. Auðvitað vildi ég að Kata þekkti mig. En ef hún myndi þekkja mig og vita hvernig ég væri þá hlyti hún óhjákvæmilega að yfirgefa mig, hún hafði jú aldrei þolað lauslæti mitt. Samt vissi Kata aðeins takmarkað um mig í gegnum hálfkveðnar vísur um fjarlæga fortíð, en því sem gekk á í raun og veru hélt ég vandlega leyndu fyrir henni. Í mér toguðust á tvenns konar þrár. Sterk þrá mín um að láta þekkja mig og elska mig eins og ég var, en líka þráin um að festuna, að geta treyst á sambandið sem tryggði öryggi mitt, jafnvel þó að það samband veitti mér hvorki hamingju né fullnægju.
Ákvörðun mín um að afhjúpa allt varð vendipunkturinn. Niðurlægingin með hverri játningu og hver einasti stingur sársauka sem þær ollu Kötu voru löngu tímabær skuldaskil af margra ára tvöföldu lífi. Blekkingin um að sleppa við afleiðingar gjörða minna hrundi endanlega. Afleiðingarnar komu nú allar æðandi saman í einni fylkingu, tvíefldar sökum áranna sem þeim hafði verið skipað sundur í aðskilin hólf og bældar niður. Kata á takmarkalaust hrós skilið fyrir að hafa séð hversu miklu máli það skipti að sópa út þessum gamla sora – og aldrei hvikaði hún sér undan sínu hlutverki í hreinsunarferlinu. Nú sá hún loks í raun og veru hverju og hvernig hún hafði verið gift. Eftir þetta afneitaði hún heldur aldrei erfiðleikum okkar.
Samhliða þessum grimmúðlegu aðförum átti ég stundir með Söru. Ef líf mitt átti að verða sem opin bók varð ég einnig að segja henni frá lífi mínu á sama hátt og Kötu, eins ítarlega og mér var unnt. Ég leyfði mér engin frávik af ótta við að slíkt myndi leiða mig aftur inn í hina eyðileggjandi þráhyggjuhegðun, sem mér þótti ígildi sjálfsmorðs.
