Vika 50

8. kafli – Byggjum upp samband – hluti 5


Með því að deila því sem við höfðum haldið fyrir okkur, sterkri tilfinningunni um að verða út undan í kynlífi og á kynferðislega sviðinu opnaðist sameiginlegur vettvangur fyrir okkur bæði þar sem samskipti – að hlusta og tjá – gátu átt sér stað. Báðum fannst okkur við út undan – við vorum bæði út undan.
Nú höfðum við bæði viðurkennt stöðuna eins og hún var. Við vorum kannski út undan af mismunandi ástæðum en tilfinningin var sú sama. Neitun og ásökun um ergelsi og neikvæðan ásetning glumdu ekki lengur eins hátt og áður. Við sáum að við vorum undir sömu sökina seld og stríddum við sama vandann. Við vorum bara tvær manneskjur, án væntinga, með særðar tilfinningar í farteskinu, að rembast við að skapa einhvers konar nánd og nýtt líf saman. Frjóangar að fálma eftir sólinni, skjótandi sprotunum upp undan skothylkjakraðakinu á gömlum vígvelli. Þegar við fundum hvort annað á þessum stað, viðkvæm og berskjölduð á sama hátt, fullkomlega laus undan þykjustulátum, þá hlýnaði innra með okkur. Kannski grétum við, eða hlógum, eða hvoru tveggja í senn. Tilfinningin um vera undirokuð gufaði upp. Að  mætast þannig á miðri leið og takast saman á við angistina sem þjakaði okkur bæði, opnaði fyrir töfrana sem til verða þegar tveir líkamar tvinnast saman í eitt. Við skynjuðum að við vorum manneskjur, mjög mannlegar manneskjur. Við gátum elskað og leyft öðrum að elska okkur. Í þessu dásamlega heilandi andrúmslofti var enginn sekur eða saklaus. Þau hugtök áttu einfaldlega ekki við. Við vorum bara tvær manneskjur. 
Að sjá að við áttum þá reynslu sameiginlega að upplifa okkur sem undirmáls leysti okkur undan því að útmála hvort annað sem „óvininn“. Hugmynd ástar- og kynlífsfíkilsins um kynferðislegt dugleysi makans fékk að leysast upp. Makinn fann ekki fyrir sömu þörfinni til að gagnrýna. Honum þótti umsátursástandinu heldur létta sem stöðug, kynferðisleg ýtni okkar hafði skapað. Um leið tókst okkur líka að viðurkenna að við fórum oft yfir strikið í kynferðislegum væntingum.
Nýir tímar tóku við. Tímar endurhugsunar og skilnings. Við áttum margt ólært saman. Tökum dæmi. Það rann upp fyrir okkur að ef kynorka makans sveiflaðist í fjögurra daga takti en okkar í tveggja eða þriggja daga tímabilum var misræmið nógu mikið til að skapa alvarlega togstreitu og misskilning, svo lengi sem við vorum ómeðvituð um það. Sá sem var í fjögurra daga takti þótti kynferðislegir tilburðir eftir tvo til þrjá daga vera óhóflega uppáþrengjandi. Aftur á móti gátum við tveggja og þriggja daga fólkið ekki upplifað áhugaleysi makans sem annað en höfnun og kynkulda. En eftir að hafa rekist á sama auma blettinn okkar beggja skipti ekki lengur máli „hver hafði rétt fyrir sér“ eða „hvor takturinn væri eðlilegri“ heldur miklu frekar „hvernig getum við unnið úr stöðunni á uppbyggilegan hátt, í ljósi ólíkra náttúrulegra þarfa okkar?“
Þref um þetta og margt annað tók sinn tíma. Gamla mótun hugarfarsins í væntingar, vantraust og ótta við skort hafði skotið mjög djúpum rótum. Framfarirnar voru hægar. Á ýmsan hátt hafði edrúlífið verið einfaldara án sambandsins vegna þess að auðveldara var sleppa kynlífinu alveg en að standa í samvinnu við annan um lausn málanna. En, við vorum í sambandi núna, og héldum áfram að prófa okkur áfram með aðferðir til að glíma við kynferðislegar væntingar. Til dæmis reyndum við að skiptast á hvort okkar ætti frumkvæði í kynlífinu, eða þá að við reyndum bara að sleppa því. Einstaka sinnum reyndum við fyrirkomulag sem gekk út á að sá sem reynt væri við mætti segja nei, en yrði þá að bæta fyrir það seinna. Við mátuðum ótal afbrigði í þessum dúr. 
Eitt fenið sem við festumst í út af ástar- og kynlífsfíkninni var þetta: „Kynferðislega lotan“ (sem viðurkennist að er óvísindalegt hugtak) var yfirleitt styttri hjá okkur en makanum (kemur varla á óvart!), sem gerði að verkum að okkur hætti til þunglyndis og gremju ef makinn sagði nei. Okkur fannst makinn sitja beggja megin borðs. Hann eða hún gat neitað okkur, en þegar og ef hann eða hana langaði  í kynlíf vorum við alltaf tiltæk. Ójafnræðið sem okkur fannst vera í þessu fékk okkur stundum til að loka sjálf á kynlíf í von um að geta lækkað rostann í makanum og breyta honum í slefandi kjölturakka – en nákvæmlega þannig leið okkur ef við fengum neitun. Eða, ef við „létum undan“ makanum þegar hann reyndi við okkur eftir að hafa áður neitað okkur um kynmök, þá leið okkur stundum eins og ódýr útsöluvara með því að stunda kynlíf við slíkar aðstæður. Stundum þurftum við að refsa makanum, eða þannig leið okkur, og „sanna“ fyrir honum að við gætum nú líka verið án kynlífs, sama þótt við ættum helst von á því að verða í algjöru rusli á eftir. 
Alla vega var svona hringlandaháttur og fleira í svipuðum dúr alls ekki fátíð reynsla. Brothættar stoðir trausts og nándar gátu gefið eftir fyrir gömlu valdatogstreitunni á augabragði. En á sama tíma vorum við að læra að gömlu viðbrögðin voru ekki þau einu mögulegu. Til voru aðrar leiðir. Stöku, dásamleg upplifun af raunverulegri nánd og kærleika var nóg til halda okkur við efnið og vinna áfram í kynlífinu og tilfinningunum í sambandinu. Við vissum að gull og gersemar voru í boði, þær mundum við finna og deila hvort með öðru, ef okkur tækist að halda áfram að vinna saman. 
Þegar við komumst lengra áleiðis og lærðum meira sáum við að fjölskyldumál af ýmsum toga höfðu mikil áhrif á kynlífið og gæði þess. Viðhorf makans til kynlífs voru iðulega beintengd við hversu fús við vorum og auðvelt að eiga við okkur varðandi umönnun barnanna eða heimilisstörfin. Kynlífið lifði ekki sjálfstæðu lífi í eigin heimi. Frekar var það mælistika á hversu vel við vorum til staðar tilfinningalega og hversu góð samskiptin voru innan sambandsins. Þegar við bættum hversu vel og staðfastlega við tókum þátt í öllum hliðum heimilislífisins batnaði kynlífið sömuleiðis. Makinn sem við litum áður niður á sem kynferðislegan vesaling breyttist fyrir augliti okkar í virkan kynlífsfélaga alla leið. Breytingin var hæg, en mjög afgerandi og breytti líkamsvitundinni og hvernig við snertumst. Kynlífið losnaði úr fjötrunum og blómstraði. Sem tjáning  dafnandi ástar var það undursamlegt, gáskafullt og dásamlega nærandi. 
Á sama tíma þurftum við minna á kynlífinu að halda til að treysta böndin á milli okkar. Ofurvald væntinganna dvínaði. Við komumst að því að makinn var fær um að njóta kynlífs alveg jafn vel og við! Og sjálf upplifðum við kynlíf á nýjan hátt. Smám saman hættum við stunda kynlíf eftir stundatöflu en treystum í þess stað sífellt betur kynferðislegum og tilfinningalegum takti makans (og okkar) og gagnkvæmri skuldbindingunni sem ríkti milli okkar til að sjá um málin á farsælan hátt. Við fórum að treysta því að við værum í lagi og að sambandið væri heilbrigt og sjálfheilandi. Við gátum hætt að telja fullnægingarnar. 
Tilfinningalegar þarfir, sem við afgreiddum áður með því að kynlífsgera þær, tókumst við núna á við án kynlíf. Oft tókum við frá tíma reglulega til að vera saman. Fórum til dæmis á kaffihús eða út að borða stöku sinnum. Við sáum að mjög mikilvægt var að eiga reglulegar kynlífslausar samverustundir. 
Smátt og smátt rann upp fyrir okkur að öll gömlu viðmiðin höfðu umpólast frá því sem var í fyrra lífi okkar saman, sem verið hafði svo þrúgað af virkri ástar- og kynlífsfíkn. Við sátum ekki lengur föst og hjálparvana í eyðileggjandi mynstri virkrar fíknar. Sambandið var núna gjörbreytt í grundvallaratriðum. Brunarústir fíknarinnar, óljósir fyrirboðar á erfiðri sáttagöngu og endalaus tíminn sem tók að læra leiðina um völundarhús árekstra og óvissustunda. Um allt þetta rötuðum við saman inn í nýja og vaxandi tilveru í kærleiksríku sambandi. 
Að öðlast þessa ríku sameiginlegu reynslu og fá að þekkja og skilja hvort annað svo miklu betur, varð til þess að draumurinn um hina sívaxandi lifandi ást, sem við undir niðri sóttumst alltaf eftir í öllum samböndum, tók að verða að veruleika. Við vorum núna fær um að elska og að vera elskuð heitt og innilega. Okkur hafði hlotnast syndaaflausn og guðleg náð og það vissum við. Dag frá degi verður okkur nýfengið ríkidæmið stöðugt ljósara, allt fram til þessa dags.