8. kafli – Byggjum upp samband – hluti 6
Ný sambönd
Í okkar hópi voru þau til sem ekki fundu fyrir neinu óútkljáðu gagnvart fyrrverandi, en voru reiðubúin í samband. Það að við værum tilbúin að spreyta okkur í nýju sambandi mátti ráða af því að okkur lá ekkert á að komast í samband, eins mótsagnakennt eins og það nú hljómar. Nú þegar erfiðleikar fráhvarfanna voru að baki höfðum við sæst í hjarta okkar við líf innan þess ramma sem okkur var nauðsynlegt að virða til að geta verið í fráhaldi. Þó við vissum harla lítið um hvað það að vera í sambandi fæli í sér eða hvað samband yfirleitt var, þá vissum við heilmikið um hvernig við yrðum að lifa lífinu ef okkur átti að takast sómasamlega að vera í fráhaldi. Við vissum að það sem við gátum og þurftum að gera til að tryggja fráhald og hugaró, yrðum við að eiga áfram í hvaða nýja sambandi sem væri.
Raunar var það svo að það hversu vel okkur tókst að vera áfram heiðarleg og opin og vera einlægir og virkir félagar í SLAA og í hversu ríkum mæli okkur tókst að deila því öllu með annarri manneskju var mælikvarðinn á hvort okkur var mögulegt að þróa samband við viðkomandi manneskju eða ekki. Ef hugsanlegur félagi átti erfitt með að samþykkja okkur eins og við vorum þá urðum við að velja. Annað hvort væri að sníða okkur til og aðlagast væntingum hins hugsanlega félaga eða við yrðum að horfast í augu við að viðkomandi manneskja var ekki efniviður í samband. Ef það síðara var raunin yrðum við að láta þetta samband eiga sig.
Að sníða okkur að væntingum einhvers annars var satt að segja alls ekki valkostur sem kom til greina. Í fíkninni höfðum við byggt alltof stóran hluta tilverunnar á einhverjum slíkum lausnum vegna þess að við höfðum ekkert skynbragð borið á hver við sjálf vorum í raun og veru. Við gátum ekki núna, né nokkurn tímann, staðið í sambandi sem þýddi að við yrðum að eyðileggja lífsnauðsynlegan hluta af sjálfinu til þess að gera okkur boðlegri í augum annarrar manneskju. Nei takk.
Vaxandi getan til að sjá betur út möguleikana á nánum jafningjatengslum í hinum ýmsu samböndum sló okkur stundum illilega út af laginu. Núna vorum við að vísu raunverulega orðin vel vakandi, meðvituð og í góðum tengslum við veruleikann. Á hinn bóginn þótti okkur stundum sem þessi mikla meðvitund færði okkur heldur blendna ánægju. Það hversu mörgum tækifærum við kusum að sleppa fékk okkur til að íhuga hvort kröfuharkan væri orðin slík að við hefðum óvart dæmt okkur til eilífrar einveru. Við veltum okkur upp úr hugsunum um að með minni meðvitund hefðum við nú þegar getað stofnað til ótal kynna fullra af ástarsælu. Þegar við vorum einmana mundum við alltof vel eftir spennunni sem einkenndi jafnvel vonlausustu sambönd í byrjun. Samt, hvort sem það var nú til góðs eða ills, gátum við ekki kastað frá okkur vitundinni um hversu nauðsynlegt fráhaldið var út af einhverri ólundarlegri löngun. Og fyrr eða síðar kom að því við vorum tilbúin að stökkva.
Annað fólk var líka tilbúið í okkur. Stundum tók vinátta að þróast í eitthvað annað og meira. Nýlegur kunningi eða vinur vinar birtist kannski í lífi okkar og nánari kynni tóku að þróast. Engin þörf er að hafa frekari orð um tækifæri af því taginu. Væntanlega kom ósýnileg hönd æðri máttar eitthvað við sögu. Hvað sem öðru leið þá virtust hlutirnir gerast eðlilega, þegar við vorum tilbúin. Og ef við vorum það ekki gat engin handstýring bjargað neinu.
Öfugt við þau okkar sem voru að reyna að byggja aftur upp gamalt brotið samband þótti okkur sem vorum að byrja frá grunni sem við værum þannig séð að byrja með hreint borð. Að svo miklu leyti sem núverandi tilvera okkar var ekki beinlínis mörkuð af fólki úr fortíð okkar í fíkninni var það alveg rétt. Að vera tiltölulega frjáls undan því að dröslast með drauga fortíðarinnar á bakinu þýddi á hinn bóginn að allt var nýtt og spennandi. Við urðum að hafa varann á til að láta það ekki villa okkur sýn og hrífast af því. Spennandi ferskleiki þess sem er nýtt fylgir óhjákvæmilega öllum nýjum samböndum en við gátum ekki byggt samband á nýjabruminu einu saman.
Þessi nýjabrumsvandi var náskyldur öðru sem við höfðum oft átt til í fíkninni, sem sé að upphefja okkur sjálf í hetjuljóma, sem við sveipuðum okkur í, ef við vorum í sambandi. Til dæmis ef við höfðum náð einhverjum frama eða hlotnast einhver ytri viðurkenning fyrir verðleika sakir þótti okkur gjarnan sem slíkur árangur ætti skilið stöðugt hrós og athygli frá félögum okkar. Ekki síður átti það við í þeim tilvikum þegar við þóttumst hafa verið hlunnfarin um réttmæta veraldlega viðurkenningu og ætluðumst til þess af okkur nánustu að þau bættu fyrir það sem á vantaði.
En staðreyndin var sú að í raun og veru kröfðumst við þessarar dýrkunar vegna þess að undir niðri fannst okkur sem án hetjumyndarinnar ættum við ekki skilið að vera elskuð. Sambandið sjálft var ekki það sem höfðum sóst eftir. Við höfðum bókstaflega reynt að safna fólki, að gera þau að meðlimum í okkar eigin söfnuði. Í öllu þessu fólst að með því að fela okkur á bak við merkimiðana sem okkur höfðu stundum verið gefnir (eða sem við hefðum að eigin mati átt að fá), og troða þeim upp á fólkið sem stóð okkur næst, reistum við múra milli þeirra og okkar sjálfra, sem útilokuðu raunverulega samkennd. Ákallið eftir viðurkenningu, að „staða“ okkar væri virt innan veggja eigin heimilis var máttlaust jarm innan úr holu grafhýsi og minnisvarða sem við sjálf höfðum hlaðið okkur úr einsemd og einangrun.
Hvernig gátum við ekki verið „hetjur“? Myndi mögulegur ástvinur laðast að okkur ef við slepptum takinu á tilefninu til dýrkunar? Það fór að renna upp fyrir okkur að við áttum í rauninni engra kosta völ. Ef við reyndum að leika hetju í sambandinu eða þykjast vera einstök vorum við um leið að reyna að „stjórna“ ástinni með fjarstýringu. Hvorki „stjórnin“ né „fjarstýringin“ myndu virka. Hið fyrra drap alla eðlilega leikgleði, hið síðara útilokaði nánd og einlægni. Saman myndu þau gera út af við raunverulegt jafningjasamband.
Ef nýju ástvinirnir voru heilsteyptar og sjálfstæðar manneskjur þá var líka augljóst að þeir gátu ekki leyft okkur að troða þeim í þjónshlutverk sem „aðdáendur“ á útkallsvakt. Hvað sem þeir nú sáu nýtt og spennandi í okkur fari í byrjun þá hlaut sá ferskleiki að fölna og hverfa.
Þau sem tengdust okkur náið hlutu að meta meira getu okkar til snarast með skyndilega veika kisu til dýralæknis, eða grípa eitthvað úr búð á heimleið, ellegar sinna krökkunum af einhverju viti þegar á reyndi, miklu frekar en faglegt orðspor eða rómantíska kvöldverði á flottum veitingahúsum, rándýrt gaman eða gjafir.
Og sjálf urðum við að horfast í augu við raunverulegu sjálfsmyndina sem duldist að baki hetjugrímunnar. Hún var ekki ýkja hetjuleg. Innst inni leið okkur miklu fremur eins og þeim sem útilokað væri að elska, væri ófær um að elska og alveg óverðugur ástar. Við höfðum tekið eftir að ástvinir okkar virtust iðulega meta okkur vegna hluta sem okkur þótti fyrir neðan virðingu okkar að kannast við. Í rauninni vissum við ekki hvers vegna eða fyrir hvað við vorum elskuð. Það hlaut bara að vera gljáinn á yfirborðinu! Vorum við ekki einmitt líka sjálf svo gagntekin af hetjulegri sjálfsmynd okkar, og létum um leið blekkjast af henni?
En ást makans byggðist ekki á þessu. Að draga auglýsingatjaldið til hliðar, sem við hömpuðum út á við og raunverulega tengjast tilfinningunni um að við sjálf værum verðug ástar og ættum ást og hlýju til að gefa öðrum, var mjög erfitt. Ef við opnum okkur og leyfum öðrum að sjá hvað býr undir grímunni var hin hliðin á peningnum hættan á höfnun, djúpstæður og skelfilegur ótti sem nísti okkur öll. Við komumst að því að erfiðast af öllu var að berskjalda okkur fyrir annarri manneskju sem fengi að sjá okkur eins og við raunverulega vorum. Og ekkert lát virtist á kröfum um afhjúpanir! Við áttum til að detta tímabundið aftur ofan í gömlu sósuna þar sem heimtufrekjan, sársaukinn og ásakanir gengu á víxl. Til allra lukku urðu samskiptin við SLAA samfélagið yfirleitt til þess að kippa okkur út úr slíkum tilfinningasósum eða þurrafylleríum.
