8. kafli – Byggjum upp samband – hluti 7
Sálarskjálfti, sorg og tár fylgdu því stundum þegar við köfuðum dýpra og upplifðum nánd, traust og að vera berskjölduð með öðrum. En jafnvel á kafi í gömlum sorgum skynjuðum við að ástvinir okkar komu til móts við okkur líka á þessum stað og að þá gat brothætt sálin og skelfingin innra með okkur vikið fyrir hlýju og tilfinningunni um að tilheyra öðrum. Við vorum elskuð sem þær viðkvæmu og veikburða verur sem við vorum. Í reynslunni af því að fá kjark til að fella grímuna skynjuðum við loks eigin verðleika til ástar. Við urðum hreint og beint áköf í að hrista af okkur hlutverk hetjunnar og hins einstaka. Við vildum brjóta af okkur fjötrana og losna undan þeim. Þeir voru hluti af brynvörn sem hafði sligað og heft okkur. Núna þráðum við að geta þekkt aðra manneskju raunverulega og að aðrir þekktu okkar innstu hjartarætur. Við vorum auðsærð og berskjölduð, en ekki lengur bundin og reyrð. Við vorum manneskjur, við vorum að vaxa og þroskast. Tilfinningin um að hafa hlotnast guðleg náð styrktist og dýpkaði.
Þegar við byrjuðum kynferðislegt samband með mögulegum framtíðarmaka, gjarnan eftir langt fráhaldstímabil frá öllum kynferðislegum samskiptum, vorum við sannarlega að stíga inn i hið ókunna. Viðfangsefnið var ólíkt þeirra sem voru að taka aftur saman við fyrri maka. Við glímdum ekki við gamla ímynd um kynferðislega vangetu fyrrverandi, eða aðrar álíka mótaðar hugmyndir. Í staðinn þurftum við enn einu sinni að takast á við eigin kynferðisleg viðhorf. Í fráhvörfunum höfðum við ekki ósjaldan leitt hugann að því hvernig yrði að stunda kynlíf aftur. Hugarórar okkar höfðu eðlilega slegið á alla strengi allt frá kitlandi daðri og hamslausra ástríðna, til kulda og áhugaleysis. Frammi fyrir veruleika nýrra kynferðislegra samskipta urðu mörg okkar undarlega hlédræg og hikandi. Við uppgötvuðum að nú áttum heilmikið undir í því hrífast ekki með af kynferðislegum ástríðum!
Fyrsta reynslan af endurvakinni kynferðislegri virkni var satt að segja mjög undarleg. Ef við þóttumst komin um of í eltingaleik við kynferðislega sælu urðum við efins og tvístígandi. Í kjölfarið deildum við efasemdum okkar með vinunum í SLAA og sem skipti kannski meira máli, með kynlífsfélaganum. Ef hikið var vegna ótta við svíkja okkur sjálf vegna kynferðislegrar ánauðar urðum við líka að tala um það. Ef til vill er sameiginlegi þráðurinn í þessu að hvernig sem við upplifðum fyrstu kynferðislegu kynni með mögulegum framtíðarfélaga, hvort sem samskiptin einkenndust af kynferðislegu algleymi eða varfærni og hæfilegri fjarlægð, hlutum við öll að finna fyrir efasemdum og áhyggjum af gæðum sambandsins. Okkur fannst við skuldbundin til að horfa óvenju hátt eftir viðmiðum um heiðarlegan ásetning við kynferðisleg kynni. Samt þurftum við skilja að ásetningur er sjaldnast svo hreinn að ekkert fljóti með. Mikilvægast af öllu var að vera opin áfram með því að deila heiðarlega hvaða hiki sem við fundum fyrir. Það átti við hvort sem okkur fannst við hafa týnt sjálfum okkur í leitinni að kynferðislegri ánægju eða að neistinn og leikgleðin væru horfin úr kynlífinu og það kannski fyrir fullt og allt.
Með því að vera vakandi fyrir því hversu góður ásetningur bjó að baki kynferðislegri virkni okkar og með því að sýna öðrum þessar tilfinningar tókum við að axla ábyrgð sem kynlífsfélagar, hvort sem við gerðum okkur grein fyrir því eða ekki. Óttinn, efasemdirnar og óöryggið sem við deildum, dýpkuðu skuldbindinguna. Kynferðislegar áhyggjur, um leið og þær voru orðaðar upphátt og deilt, urðu að tilfinningalegum áhyggjuefnum sem við gátum unnið úr með félaganum. Augljóst varð að útilokað er að rækta kynferðislega vin í miðri tilfinningalegri eyðimörk.
Við gátum heldur ekki tekið þátt í kynferðislegum samskiptum á fölskum forsendum. Ekki aðeins þurftum við að deila, eftir á, hvaða áhrif gæði kynlífsins hafði á okkur, heldur urðum við líka að vera meðvituð, fyrir fram, um hvaða krefjandi þörf við bárum í brjósti sem við gátum mögulega tengt fram hjá með flótta í kynlíf. Til dæmis, ef ergelsið var vegna erfiðra aðstæðna í vinnunni eða í samskiptum við annað fólk, urðum við að flagga þeirri stöðu. Að flagga þýddi að segja félaganum frá stöðunni og hvaða ergelsi hún olli okkur. Við komumst að því að ef við slepptum þessu, gátu kynferðislegu samskiptin ekki verið raunverulega gagnkvæm. Án gagnkvæmninnar gat hvort um sig aðeins tekið þátt vegna einhvers sem var ósagt einkamál. Hitt var því í hlutverki „tækis“ sem hafði þann tilgang að veita svölun. Eftir slíka svölun sátum við uppi með vaxandi tilfinningu einsemdar og einangrunar.
Við erum ekki að halda því fram að með því að segja félaga okkar frá öllum áhyggjum og ergelsi sem á sér rætur utan kynlífsins munum við endilega leysa þau mál, eða að nauðsynlegt sé að finna lausn á öllum ytri erfiðleikum áður en við stundum kynlíf. En við fullyrðum að grunninn verði alltaf að byggja á gagnkvæmni, opinni tjáningu og virðingu, sem skapað geti farveg fyrir einlæga tjáningu milli okkar og að það verði að gerast áður en við elskumst. Að stunda ástarleiki gat bara þýtt að við sýnum ást.
Ef við vorum svo sokkin upp fyrir haus í ytri erfiðleikum að kynferðislega nándin gat ekki vaxið upp úr tilfinningalegri tengingu þá slepptum við því að stunda kynlíf við þær aðstæður. Þrátt fyrir að finna einstaka sinnum sáran sting undan gömlum skorti, voru áhrifin af fráhaldi í slíkum aðstæðum jákvæð þegar upp var staðið. Við höfðum ekki reynt að sópa vandamálum undir teppi með því að ríða þau burt! Með réttri hegðun höfðum við staðfest eigin reisn og náin tengsl við okkur sjálf. Upplifun okkar var sem um okkur flæddi innri hlýja og endurvakin sálfsást. Með því að búa yfir reisn gátum við verið viss um að heilbrigð kynferðisleg nánd yrði í boði síðar.
Nú gæti það vel virst sem úttektirnar og mótvægisleikirnir sem fólust í opinni tjáningu okkar innan sambandsins (jafnt nýtt sem endurvakið) og svo til algjör áherslan á sjálfsskoðun og vöktun ásetnings gæti aðeins orðið til þess að drepa niður sanna leikgleði og kynferðislega örvun. Vissulega virtust þessi eftirsóknarverðu atriði víkja til hliðar í byrjun. En á hinn bóginn virtust áhrifin af stöðugum spurningum um kynferðislegar goðsagnir og drifkrafta að lokum leiða til þess að andrúmsloft trausts og tilfinningalegrar nándar tók að verða til.
Þegar það gerðist tók reynsla okkar af kynlífi og kynferðislegum veruleika gagngerum breytingum. Heilbrigður veruleikinn sem við lifðum gaf okkur gjöfulli kynferðislega reynslu og gæddi hana meiri dýpt. Við gáfum upp á bátinn gömlu rótgrónu væntingarnar sem við höfðum haldið þétt að okkur en ekki viljað kannast við og þá hófst stórfenglegur samleikur kynlífs og tilfinninga í sambandinu. Okkur opnuðust dyr að nýrri reynslu af ástríðuhita og kynferðislegum unaði. Þessi þróun gerði okkur loksins mögulegt að sleppa tökunum á þeirri gömlu trú að kynferðislega fullnægingu væri aðeins að finna í spennuvímu nýjunga, rómantískrar flækju, veiðiferða og nýrra sigra. Sú uppgötvun var því undursamlegri fyrir það að nú reiddum við okkur ekki lengur eingöngu á kynferðislegan funa sem límið í sambandinu. Kynlífið var meira gefandi en nokkuð sem við höfðum áður reynt, en um leið ekki lengur kúgarinn sem hafði heft svo mörg okkar. Eitt og sér gat það ekki látið samband „heppnast“. Frekar var það mikilvæg viðbót við þegar vel lukkað samband þar sem allt tengdist og skipti máli, að vera opin, einlæg og heiðarleg, tjá okkur og deila, skuldbinda okkur og treysta.
* * *
Fyrir þau okkar í SLAA sem höfum reynt að byggja upp sambönd, annað hvort með því að sættast og ná saman við fyrrverandi, eða reyna fyrir okkur með nýjum aðila, er óhjákvæmilegt annað en að viðurkenna svona í lokin að reynsla okkar er ósköp takmörkuð. Margt af því sem við reyndum að lýsa hér að ofan hefur snúist um að vinda ofan af gömlu hegðunarmynstri og viðhorfum. Við getum staðfest að það tókst. Við höfum líka deilt með ykkur eitthvað um hvernig við lærðum stöðugt fleiri leiðir til að glíma við þá fjölbreytta flóru áskorana og erfiðleika sem alltaf beið. En undan því verður ekki vikist að skilja þennan kafla um sambönd eftir ófullgerðan.
Við sem ekki gáfumst upp heldur héldum áfram að þoka okkur áleiðis á sambandsvegferðinni höfum aðeins því við að bæta að eftir að erfiða tímabilinu lauk, þegar við réðum varla neitt við neitt, þá tóku við nýjar hæðir mannlegrar reynslu sem við höfðum aldrei áður kynnst. Okkur grunar að nú séum við að lifa reynsluna af sannri ást og raunverulegu lífi. Svo sannarlega er hún eitthvað miklu meira en bara rétt svo að ráða við aðstæður. Mælikvarðinn sem segir okkur að sambandið sé „gott“ er ekki bara einföld ranghverfa gömlu fíknartilverunnar. Við skynjum svo sannarlega að eitthvað nýtt er að gerast. Nákvæm lýsing í einstökum atriðum er ekki möguleg, því þau eru torskilin og gætu auðveldlega misskilist. Orð duga skammt.
Okkur líður eins og fram undan sé eitthvað stórfenglegt. Við vitum ekki hvað. Við vitum einfaldlega ekki hversu langt heilbrigt líf getur leitt okkur. Alla vega þá er tilfinningin sú að við séum nýgræðingar á þessum stóra akri lífsins, sem breiðir úr sér í allar áttir. Ef okkur lánast þó ekki sé annað en að gefa þér líka þá von og sannfæringu sem við berum í brjósti um að með frekara fráhaldi bíði nýtt líf, sem í senn er þrungið dulúð, nærir og auðgar, þá erum við að standa skil á okkar hlut.
Megi hvert og eitt ykkar, þegar þið leggið upp í ævintýrið, finna ykkar hlutdeild í hinum gullna hring, því síverðandi kraftaverki sem við öll erum hluti af. Við stöndum með ykkur. Á vegi lífsins erum við öll samferðamenn og getum lært svo ótal margt hvert af öðru.
