1. kafli – Uppgötvun ástar- og kynlífsfíknar: Sagan mín – hluti 6
Það var um miðjan júnímánuð 1976 sem ég byrjaði að æla upp hinni úldnu fortíð minni og hætti að lifa lífinu í afmörkuðum hólfum. Í fyrsta skipti í mörg ár fann ég fyrir jákvæðum tilfinningum til Kötu sem ég þorði að treysta á. Ástæða mín fyrir því að vilja bíða með skilnaðinn fram yfir barnsfæðinguna var raunveruleg samkennd með hlutskipti Kötu í þessari sorglegu atburðarás.
Það var þess vegna sem ég sagði Söru að ég vildi raunverulega vera sem mest heima og reyna að nýta tímann sem við Kata áttum eftir saman sem best. Ekki stæði til að endurhugsa ákvörðunina um skilnað en leikar hefðu breyst. Kata ætti mikið inni hjá mér. Frásögnin af næstu tveimur og hálfa mánuðinum fjallar að mestu leyti um það hversu ófær ég var um að standa við ákvörðun mína. Með því að halda áfram að segja alltaf opinskátt frá tilfinningum mínum og gjörðum, hvað sem það kostaði, þá tókst mér samt sem áður að öðlast betri skilning á því hversu vanmáttugur ég var til að hafa nokkra stjórn á þráhyggjusambandi mínu við Söru.
Við Kata sammæltumst um nokkrar grunnreglur. Hátt og ögrandi heimtaði ég, fullur sjálfsréttlætingar, að halda áfram kynferðislegum og tilfinningalegum samskiptum við Söru. Í bland við svokallaða „umhyggju“ mína fyrir Kötu fór mikið fyrir uppsöfnuðu ergelsi og þörf fyrir að kenna henni um að ég gæti ekki gleymt mér öllum stundum í ástríðufullum leik með Söru! Með þeim augum séð gat ég varla beðið eftir því að Kata léti sig hverfa og lét mig jafnvel dreyma um að hún færist í slysi. Aðeins hluti af mér fyrirleit slíkar hugsanir. Annar hluti vissi sem var að sú leið væri auðveldust fyrir mig. Samt gat aðeins guð almáttugur hindrað Kötu í að vera áfram á staðnum og ég hvorki vildi né gat hætt að hitta Söru á meðan við Kata biðum eftir barninu.
Kata setti aðeins tvö skilyrði, að ég svæfi ekki heima hjá Söru þann tíma sem eftir lifði af sambúð okkar og að ég kæmi heim fyrir eitt hverja nótt. Það er ofar mínum skilningi hvernig Kötu tókst að afbera sársaukann sem þetta fyrirkomulag hlýtur að hafa valdið henni. Hún sá það sem ég var blindur á (af því að sjálfur var ég staddur í hringiðunni miðri) hversu sterk tök þráhyggjan gagnvart Söru hafði á mér og hvernig ég kom mér undan því að horfast í augu við veikleika minn með því að réttlæta allt, sem eitthvað sem ég ætti „rétt á“. Fyrir mitt leyti þá vildi ég ekki staldra nógu lengi við til að íhuga augljós einkennin sem fólust í dramatískum skapsveiflum mínum, en þær fóru alveg framhjá mér. En eitthvað var þó byrjað að síast inn.
Ég átti kannski nokkra góða klukkutíma með Kötu, fann hlýjar tilfinningarnar í hennar garð og langað til að eiga áfram nándina með henni. En svo var komið að því að hitta Söru. Í byrjun angraði það mig kannski að þurfa að fara og hitta hana, af því að mig langaði að halda í góðu straumana sem ég fann heima fyrir. En samt fór ég og var ekki fyrr kominn til hennar en fyrri tilfinningar hurfu sem dögg fyrir sólu. Alger viðsnúningur varð á afstöðu minni. Nú var það Sara sem ég sá fyrir mér að eyða ellinni með, en Kata þurrkaðist út í huga mínum. Á meðan ég var að sogast inn í orkuvið Söru sá ég hvað var að gerast en ég gat samt ekki stöðvað það. Þvínæst hvarf ég alveg á hennar vald og tíminn stóð kyrr. Hvert töfrum þrungið augnablik með henni, þó aðeins væri örstutt leiftur í rauntíma, tók á sig yfirbragð eilífðarinnar og á slíkri stundu hvarf mér öll vitneskja um hvernig hugarástand mitt hafði umhverfst. Ég mátti mín einskis.
Alltaf þegar útivistarleyfinu lauk klukkan eitt kom ég heim fullur gremju vegna hinnar hræðilegu stöðu minnar. Breytt hugarástand mitt kallaði á viðbrögð Kötu. Tilfinningalega var ég ekki tiltækur, það sá ég sjálfur og neyddist til að viðurkenna það. Það skelfdi mig að vita hvorki hvenær ég hvarf inn í þetta leiðsluástand, þetta algleymi þar sem ég týndi öllu öðru, eða hvernig það gerðist og ekki síst að vita að það myndi gerast aftur. Í algleymisvímunni hafði ég engan áhuga á neinu öðru, en nú var mér frekar byrjað að líða eins og fórnarlambi vímunnar. Allt í einu þótti mér sem einhver djöfullegur kraftur ásækti mig og notaði mig að eigin geðþótta. Í fyrstu tók ég aðeins eftir vanmætti mínum einstaka sinnum, en eftir þau skipti leið mér eins og þráhyggjusambandið væri að éta mig lifandi. Þannig fann ég smjörþefinn af því hvernig endalokin yrðu, ef ég héldi áfram á þessari braut: Vitfirring, geðsjúkrahús eða sjálfsvíg. Ég vissi nú þegar að valkosturinn „meira af því sama“ var alls ekki í boði, vegna þess að afleiðingar hegðunar minnar breyttust stöðugt. Ég gæti aldrei framar gert mér vonir um að komast upp með þá hegðun til nokkurrar frambúðar. Veruleiki vanmáttarins var nú samt sem áður sá að jafnvel vitandi um afleiðingarnar gat ég ekki hamið mig. Þrátt fyrir að sjá með hálfluktum augum mætavel hvert stefndi þá stefndi ég stjórnlaust hraðbyri niður brekkuna.
Upp úr þess tók ég að upplifa hreinræktaða skelfingu. Ég var vitni að eigin geðveiki og um leið og ég fylgdist með henni þá vissi áhorfandinn í mér að reglulega náði geðveikin algjörum tökum á mér. Innikróaður og dæmdur, það var mitt hlutskipti. Fyrst þegar ég áttaði mig á þessu brást ég hart við og reyndi að slíta sambandinu við Söru í eitt skipti fyrir öll. Það var í byrjun júlí. Á vissan hátt var það, eða átti að vera, fyrirbyggjandi aðgerð að hætta með henni. Ég skynjaði að hún vildi halda opnum öðrum kynferðislegum tækifærum í lífi sínu þrátt fyrir að játa mér ákaft „ást“ sína. Tilhugsunina um hana í rómantískum eða kynferðislegum samskiptum við aðra kom mér hratt og rækilega úr jafnvægi, þökk sé eigin tilfinningalegu óöryggi Ég reyndi að hemja þennan ótta minn með rökræðum við sjálfan mig um að með þessu væri ég að heimfæra mína eigin óáreiðanlegu hegðun og viðhorf á hana. Það dugði til að friða mig tímabundið. Öryggisleysið hvarf samt ekki. Valdabarátta var að hefjast.
Þegar ég reyndi að slíta sambandinu í júlí notaði ég jákvæða hugsun til að herða mig upp eins vel og ég framast gat. Ákvörðunin sjálf var raunar tekin í fljótræði eitthvert skiptið þegar við vorum saman í bíl og ég hlustaði á sjálfan mig buna orðunum út úr mér og var ekki laust við að ég fyndi um leið bragð af sætleika hefndarinnar. Heimkominn tilkynnti ég framtakið stoltur og dreif mig svo strax til vina minna sem bjuggu fjörutíu mílur í burtu til að hlaða batteríin. Svo sannarlega ætlaði ég að standa við stóru orðin, í guðs nafni! Áður en sólahringurinn var liðinn hringdi ég titrandi og í fráhvörfum í Söru. Þegar hún var aftur komin í faðm minn og líf mitt mundi ég aðeins óljóst hvað hafði fengið mig til að vilja losna. Hugsun mín var eitthvað á þessa leið, „hvernig datt mér í hug að fara frá þessu?“ og lét aftur undan.
Eftir því sem sumarið leið við ýmis tilbrigði af þessari ánauð og valdatogstreitu jókst örvæntingin innra með mér. Ég hélt áfram að vera „opinn“ og sagði frá öllu því sem flögraði í gegnum hugann og tilfinningarnar eða þá gerðist, hvað sem það kostaði! Eitt skiptið var ég á ferðinni og var hársbreidd frá því að láta freistast til stunda kynmök með konu sem ég hafði eignast kynferðislega „inneignarnótu“ hjá mörgum árum fyrr. Við vorum tvö ein heima hjá henni lengst í burtu þar sem hún bjó á skógi vöxnum hæðum og þar og þá fann ég fyrir sterkri löngun. En vitneskjan um sálrænt ástand mitt og afleiðingarnar sem fylgja myndu í kjölfarið vék ekki frá mér, þó ég vildi það svo gjarnan. Eftir ástríðufulla kossa og faðmlög neyddi ég sjálfan mig til að standa upp úr sófanum og hringja tvö langlínusímtöl – eitt í Kötu og annað í Söru. Ég útskýrði fyrir þeim báðum hvað hefði næstum því gerst. Ég vissi að símtölin myndu óhjákvæmilega draga dilk á eftir sér tilfinningalega, en þessar ytri hömlur voru eina leiðin til að halda sjálfum mér í skefjum. Kynlíf með konunni hefði fært Söru vopn í hendur sem myndi duga henni til að rústa mér. Með því að bakka beiskur og ófullnægður út úr spennunni neyddi ég sjálfan mig til að læra eitthvað um fánýti þess að komast í slíkar aðstæður úr því að ekki var lengur í boði að taka síðasta skrefið inn í kynferðislegan og rómantískan unað. Enn átti ég margt ólært.
Snemma morguns þann sextánda ágúst kom ég heim á svipuðum tíma og venjalega, klukkan eitt eftir miðnætti. Eftir um tvo erfiða mánuði í kjölfar þess að hafa komist að sambandi mínu við Söru, þá var Kata nú á leið upp á fæðingardeild. Fæðingin gekk erfiðlega og tók langan tíma. Ég fylgdist með, fullur angistar. Mér leið eins og sársaukinn sem ég varð vitni að væri ekki bara vegna fæðingarinnar sjálfrar heldur ekki síður vegna úlfakreppunnar sem hún var í og mér fannst ég bera ábyrgð á. En meira að segja þá, í miðjum klíðum, laumaðist ég út úr fæðingarstofunni og leitaði uppi myntsíma til að ná hinni lífsnauðsynlegu tengingu við Söru. Við ætluðum að borða saman og úr því að Kata myndi verða á sjúkrahúsinu þá gæti ég eytt nóttinni með Söru. Yfir kvöldverðinum fannst mér það hjákátlegt að þiggja hlýjar hamingjuóskir frá Söru og meðleigjendum hennar í tilefni hins nýja hlutverks míns sem föður lítillar stúlku. Enginn minntist einu orði á Kötu.
