Vika 7

1. kafli – Uppgötvun ástar- og kynlífsfíknar: Sagan mín – hluti 7


Þegar Kata kom heim af spítalanum fjórum dögum seinna var ég meðvitaður um að þá áttum við eftir tvær vikur saman. Mér var ennþá mjög áfram um skilnaðinum. Ég áttaði mig líka á að þær vikur yrðu lokakaflinn í löngu og sársaukafullu ferli. Allt mitt var nú upp á borðum og sýnilegt, sama hversu tætt og laskað sumt af því var. Þessi „opna“ tilvera sem ég hafði haldið til streitu síðan um miðjan júní hafði saxað mjög á forskotið sem Sara hafði haft fyrr um vorið, sem fólst í að þekkja mig betur og vita meira en Kata gerði. Enn hélt það áfram að bera ávöxt að sýna hugsanir mínar og tilfinningar. Þótt ég væri meðvitaður um mikilvægi þess tíma sem við Kata áttum ennþá eftir saman, þá varð það deginum ljósara að þrátt fyrir bestu fyrirætlanir mínar um annað, þá eyddi ég óeðlilega miklum tíma með Söru. Ég komst ekki hjá því að sjá sífellt betur misræmið á milli þess sem ég vildi gera og þess sem ég gerði. Að sjálfsögðu hafði ég mikið fyrir því að loka augunum fyrir misræminu. Ef ég horfðist í augu við það þá yrði jú ekki hjá því komist að að viðurkenna stjórnleysi mitt og vanmátt varðandi kynlíf og tilfinningar. Það gæti þýtt að ég yrði að breytast. Miklu auðveldara var að halda óbreyttu striki áfram og varpa allri sök á ytri aðstæður.
Í september ók ég Kötu og litlu dóttur minni nokkurn hundruð mílna leið, heim til systur hennar. Kvöldið áður hafði ég spilað á tónleikum í háskólanum og Sara komið með mér. Fyrir tónleikana hafði ég verið svo þreyttur og úrvinda að ég hafði áhyggjur af því að geta yfirleitt staðið uppi á sviði fyrir framan áhorfendur. En mér tókst að komast í gírinn og gleyma mér í tónlistinni. Eftir tónleikana og bíltúrinn til baka skilaði ég Söru heim mjög seint og kvaddi. Hún ætlaði að gista á eyju helgina sem stóð til að ég myndi keyra Kötu og barnið norður. Einhvern veginn tókst mér, eftir nokkurra tíma svefn, að tjasla mér saman og lagði af stað. Á leiðinni leit ég á Kötu og gjóaði augum á barnið sofandi í bastkörfu í aftursætinu. Tilfinningarnar flæddu yfir mig. Í hljóði hugleiddi ég hversu þjáningarfullur þrítugsaldurinn hafði verið mér. Bráðum yrði ég þrjátíu ára.  Hvernig vildi ég að fertugsaldurinn yrði? Ég horfði á Kötu og barnið mitt og fann að ég vildi skjólið í því að tilheyra minni eigin fjölskyldu. Ég vildi „fullorðnast“. Hér vildi ég skjóta rótum. Þessi hugsanir brunnu á mér mestalla leiðina. Ég gat ekki deilt þeim með Kötu, því ég vissi að þá gæti ég farið að lofa einhverju sem ég gæti svo ekki staðið við.
Daginn eftir flaug ég heim, eftir að hafa hjálpað til við að setja upp vöggu fyrir barnið og kvatt. Nú var ég staðráðinn. „Ég verð,“ hugsaði ég, „að hætta með Söru núna. Hún er í burtu yfir langa helgi og nú er laugardagskvöld. Ég hef tvo daga til að styrkja staðfestu mína. Ég geri hvað sem er til að losna við hana.“ Fyrsta áskorunin kom strax á heimleiðinni. Vinir Söru ætluðu að sækja mig út á flugvöll. Nú hræddi það mig. Ég vissi að ég vildi velja fjölskylduna en ég vissi líka að tilfinningaleg sannfæring mín leystist fljótt upp á áhrifasvæði Söru og það að hitta vini hennar gæti hleypt skriðunni af stað innra með mér. Ég var óttasleginn. Ég losaði mig við þau eins fljótt og ég gat með því að þykjast óþreyjufullur. Ég kom heim og gekk í fyrsta skipti inn í tóma íbúðina, einn á báti. Kisan mín var þarna og ennþá hafði ég ekki týnt viljanum til að hætta með Söru. Upphaflega hugmyndin hafði verið að hitta Söru á eyjunni þar sem hún dvaldi eftir ég kæmi heim frá því að skutla Kötu. Það átti að fagna. Ég vissi að það réði ég ekki við. Sú hugsun mín að vilja losna úr sambandinu var svo brothætt að ég vissi að hana yrði ég að næra og hlúa að eins og viðkvæmt blóm. Þegar Sara hringdi seint um laugardagskvöldið var ég ekki viðbúinn. Mér tókst að segja að ég myndi ekki koma að hitta hana, heldur myndum við bara sjást þegar hún kæmi aftur. Á sunnudeginum reyndi ég að sækja mér styrk með því heimsækja vinafjölskyldu. Ég reyndi að soga til mín eins mikla orku út úr þeirri samveru eins og mér var unnt. Frá þeim snéri ég heim ennþá harðákveðinn í að hætta með Söru.
Ég kom heim seint á sunnudagskvöldi. Á símsvaranum biðu skilaboð frá Söru. Hún hafði tekið ferjuna á undan mér og greinilega flýtt sér heim eins og hún gat. Hún var í greinilegu uppnámi og ekkert alltof örugg með tilfinningar mínar en vissi greinilega hvernig hún yrði að bregðast við ef þær tilfinningar hefðu nú snúist gegn henni. Skilaboðin komu mér úr jafnvægi sem og sú staðreynd að hún væri í minna en mílufjarlægð frá mér. Mér þótti sem brotist hefði verið inn til mín.
Ég tók þá óþægilegu ákvörðun að fara og hitta hana strax þá um kvöldið. Ég hringdi á undan mér og boðaði komu mína. Ég barði að dyrum og hún tók á móti mér, nakin í opnum baðsloppi. Hún faðmaði mig og kyssti og ég stífnaði upp – ekki typpið á mér heldur allur líkaminn. Mér fannst ég vera gerður úr tré og gat ekki endurgoldið atlotin. Hún leiddi mig inn í herbergið sitt og ofan í rúmið. Ég heyrði sjálfan mig segja: „Ég vil láta reyna betur á sambandið við Kötu. Það er það sem ég vil.“ Ég var alveg stjarfur og var ómögulegt að slaka á. Í kjölfarið fylgdi löng þögn. Loks sagði hún: „Viltu ekki bara fara heim?“ Eins og til að brenna allar brýr að baki mér fjarlægði ég lykilinn hennar af lyklakippunni minni og fleygði honum á skrifborðið hennar. Ég gæti hafa stunið einhverju upp eins og: „Þetta er búið,“ en ég man það ekki. Líklega reyndi ég frekar nota þögnina til að koma tilfinningunni örugglega til skila – án þess að loka öllum dyrum. Síðan sneri ég mér við og gekk út. Ég var ennþá harðákveðinn þegar ég kom heim en kannski nokkuð brugðið og klappaði mér á bakið fyrir að hafa haft kjarkinn til  standa fyrir framan hana, horfast í augu við hana og segja það sem ég þurfti að segja.
Ég hafði sagt hvað ég vildi. Með sjálfum mér fannst mér að ef ég gæti haldið út sex vikna aðskilnaði þá hefði ég náð nægri fjarlægð til að gerast ekki sekur um fleiri vanhugsaðar ákvarðanir. Næstu helgi fór ég út úr bænum að heimsækja vin minn og fjölskyldu hans. Þegar ég kom heim á mánudegi ákvað ég að fara á AA fund þar sem ég myndi ólíklega rekast á Söru. Á þriðjudeginum vaknaði ég aumur og í fráhvörfum en ennþá hélt staðfestan. Ég manaði mig upp í að mæta á hádegisfund. Kominn á staðinn leit ég yfir fundarsalinn og adrenalínið þaut um æðar mér. Það var eins og ég „sæi“ hana – með því að finna fyrir návist hennar – áður en ég sá hana í raun og veru. Sara var á staðnum. Þegar ég kom auga á hana var ég kominn inn og mjög sýnilegur. Hvað gat ég gert? Ég þóttist ekki taka eftir henni, náði mér í kaffi og lagði á ráðin um að láta mig hverfa áður en fundurinn yrði búinn. Meðan ég var að laumast út án þess að líta um öxl skynjaði ég að hún stóð upp. Ég var aðeins komin fáein skref út úr húsi þegar hún náði mér. „Rich, STOPPAÐU,“ sagði hún Ég reyndi að líta í aðra átt en ég komst ekki undan þessum ágengu, dökku augum. „Ég tala við þig eftir sex vikur,“ sagði ég. Hún gekk fram fyrir mig eins og til að neyða mig til að horfa á sig. „Ég get ekki haldið svona áfram, ég missi vitið,“ sagði hún. Ég svaraði engu heldur gekk fram hjá henni og hélt áfram, með hnút í maganum og gjörsamlega búinn á sál og líkama.
Seinna um kvöldið hringdi mjög aumur Rick í Söru … án þess að hafa neitt sérstakt að segja… þurfti bara að tengja. Eftir langa þögn hlaðna óvissu snerist taflið við. Tuttugu mínútum seinna var ég aftur inni í líkama hennar, uppi í rúmi hennar og lét sefast af blíðlegum ástarhljóðum. Ég gleymdi því að hafa nokkru sinni yfirgefið hana eða langað til þess.
Þar sem Kata bjó svo langt í burtu hefði ég getað haldið áfram að afneita örvæntingu minni. En nokkru áður hafði ég byrjað að hitta sálfræðing reglulega og eitthvað var byrjað að síast inn í mig.  Fyrstu þrjár vikurnar í september lét ég dæluna ganga í sálfræðitímunum um hversu slæmt mér þætti að vera svona háður Söru og hversu mjög ég þráði að losna úr þeim fjötrum. Fíkn var aldrei nefnd á nafn í samtölum okkar en augljóslega vildi ég fá einhvern töfralykil frá sálfræðingnum eða þá einhverja leynilega kunnáttu sem gera myndi mér kleift að losna. Satt að segja vildi ég helst að sálfræðingurinn sæi bara um þetta fyrir mig (og tæki svo sjálf við keflinu). Meðvitundin um eigin örvæntingu og vanmátt entist aðeins rétt á meðan sálfræðitíminn stóð yfir og í skamma stund þar á eftir. Svo leystist hún upp í frumeindir sínar þegar hún komst í tæri við uppleysandi nálægðina við Söru.
Ég heimsótti Kötu þremur vikum síðar. Hún hafði ræktað með sér þá von að ég hefði slitið sambandinu við Söru úr því ég hafði virst svo staðráðinn í því.  Einhverra hluta vegna hafði ég látið hjá líða að láta Kötu vita af því að einmitt það hefði mér mistekist.  (Auðvitað hafði mér ekki þótt það nein „mistök“ þá þegar ég var aftur sokkinn á kaf ofan í þá flækju). Við Kata áttum ekki í neinum samskiptum fyrr en síðasta daginn. Við stunduðum ekkert  kynlíf.
Ég kom heim aftur seint  á laugardagskvöldi og hitti Söru síðla sunnudagsins. Í fjarveru minni var hún búin að baktryggja  sig með öðrum elskhuga. Alla jafna hefði afbrýðisemin heltekið mig en nú brást ég við með reiði og vonbrigðum, en óttaðist að sýna þau viðbrögð til fulls. Hún virtist meira en til í að koma hlutunum aftur í samt lag með kynlífi. Venjulega tók ég mjög vel við slíku en í þetta skipti var ég ekki líkur sjálfur mér og ruddaskapur minn átti ekkert skylt við ást. Í miðjum klíðum tók ég eftir hvernig hún reif í lakið liggjandi með augun lokuð. Yfirleitt hefði ég skynjað slíkt sem merki um mikla nautn og æst mig upp ennþá meira. Nú voru viðbrögð mín allt önnur. Fyrir henni gat ég verið hver sem er. Hugmyndin um mig sem einstakan „elskhuga“ var blekking ein. Ég var að reyna að mála mig upp sem einstök og ómissandi manneskja með þátttöku í algengustu athöfn mannkyns. Lítið  einstakt við það. Ég fyllti bara upp í hlutverk sem hver sem er gat leikið.