Vika 8

1. kafli – Uppgötvun ástar- og kynlífsfíknar: Sagan mín – hluti 8


Ég hringdi í Kötu snemma á sunnudagskvöldið. Hún var mér ennþá reið fyrir heimsóknina og fannst ég hafa blekkt sig. Kata talaði um að við hefðum eytt sumrinu í að rannsaka mitt líf og okkar saman. Við höfum rætt fortíðina í þaula, sagði hún, og hvort eitthvað sé þar að finna til að byggja framtíð á. Hún treysti sér ekki lengur til að hitta mig á meðan ég væri ennþá með Söru. Hvað  Kötu varðaði þá hafði tilraunum okkar um sumarið til að vinna í sambandinu lokið daginn sem hún flutti út. Hún væri ekki til í neitt framhaldsvinnu – kvótinn fyrir þann sársauka væri alveg búinn.  „Hvað með samband mitt við dóttur mína?“ spurði ég, fálmandi eftir síðasta hálmstráinu. „Ekki á kostnað geðheilsu minnar,“ svaraði Kata. Ég skildi að hún hafði rétt fyrir sér. Ég gat ekki haldið öðru fram, né kærði ég mig um það. Ég gat ekki gagnrýnt hana þegar hún stóð svona ákveðið með sér, heldur virti ég hana fyrir það. 
Eftir símtalið við Kötu, snemma sunnudagskvöldið 26. september 1976,  þá stóð til að ég myndi sækja Söru, en ég var mjög hikandi. Einhver löngun var að fæðast innra með mér til að draga mig í hlé frá öllum samskiptum við bæði hana og alla aðra. Skyndilega vissi ég hvað ég þyrfti að gera. Líf mitt stóð á krossgötum og ákvörðun yrði ekki umflúin lengur. Ég hringdi í Söru og tilkynnti henni að nú myndi loka mig af til að gera úttekt á sambandi okkar. Þegar því væri lokið þá myndi hún heyra frá mér aftur. Svo kvaddi ég og lagði á.
Ég fór einn á AA fund þetta kvöld og fann fyrir létti vegna þessarar litlu sjálfstæðisyfirlýsingar um að sinna mínum eigin þörfum frekar en hennar. Mér þótti verkefnið framundan yfirþyrmandi, enda vel meðvitaður um  að tvær fyrri tilraunir mínar til að hrista af mér hlekkina höfðu mistekist. Hvernig gat ég tryggt frelsi mitt? Ég gat alls ekki verið viss um neitt. Engin hvatningarræða hefði getað dugað mér. 
En ég var orðinn svo langt leiddur að enn eitt bakslagið gæti þýtt að ég ætti ekki afturkvæmt. Sjálfsvíg var alls ekki útilokað.  Jafnvel þótt ekki kæmi til sjálfsvígs líkamans þá fann ég til nístandi ótta um að missa geðheilsuna varanlega. Tilfinningar mínar voru undarlegur kokteill. Auðmýkt vegna veikleika míns og óttanum um að láta bugast af honum,  sem fyllti mig skelfingu, í bland við vilja til að reyna enn einu sinni að breytast, hversu sterkur sem sá vilji nú var en um það gat ég ekkert vitað þá. Með því að gefa mér enga „niðurstöðu“ fyrirfram varðandi Söru keypti ég mér dýrmætan tíma, svo dýrmætan reyndar að hann var mér sem heilagur tími.
Þegar ég kom heim af fundinum þetta sunnudagskvöld settist ég niður við eldhúsborðið og byrjaði að skrifa. Niður á blaðið helltist lýsing í smáatriðum á eðli erfiðleika minna. Næst skráði ég í tímaröð  eins mikið um samband okkar Söru og ég gat. Í fyrstu skrifaði ég skipulagslaust, en síðan byrjaði ákveðið form að myndast. Samantektin fjallaði um hvoru tveggja, neikvæðar og jákvæðar hliðar í samböndum mínum við bæði Kötu og Söru. Eftir því sem ég hélt áfram að skrifa rann upp fyrir mér að ég hafði verið jafnveikur í báðum samböndum. Spurningin um pólana tvo sem togað höfðu í mig í sitt hvora áttina og kvalið árum saman kristallaðist nú fram. „Viltu vera í föstu sambandi eða viltu stunda kynlíf úti um allt? Af hverju get ég ekki látið mér lynda annað hvort?“ Nú skildi ég loksins að ég hafði aldrei getað tekið af skarið af eða á vegna þess að ég hafði aldrei haft næga tilfinningalega staðfestu til að kynnast því hvað gjafir buðust í skuldbundnu sambandi, ekki á nokkurn hátt. Tilfinningum mínum hafði ég fórnað í skiptum fyrir glópagull spennufíknar.
  Á meðan ég skrifaði rann upp fyrir mér að valið stóð í raun og veru ekki á milli einhverra Söru og Kötu, heldur miklu frekar um að  leggja af mynstur áráttu og þráhyggju gagnvart kynferðislegri nautn og tilfinningalegri meðvirkni. Með því að undirgangast þjáningar fráhvarfanna í öllum sínum myndum þá gæti ég öðlast getu til að taka einhverja ákvörðun um hvernig ég vildi lifa lífi mínu. Slík ákvörðun myndi þá grundvallast á nýfenginni þekkingu á því hver ég raunverulega var og hvernig maður ég væri. Sú þekking gæti orðið til á tíma sem ég tæki frá fyrir mig einn með sjálfum mér og horfðist jafnframt hiklaust í augu við fíknarfortíð mína án þess að líta undan. Geta mín til að rata leið reynslunnar að hinu rétta svari við þessari togstreitu gat aðeins orðið til ef ég myndi af fúsum og frjálsum vilja velja að fara í fráhvörf. 
Ég vissi vel að ef ég færi þessa leið yrðu þjáningar fráhvarfanna yfirþyrmandi. Ég skildi að fyrir mig þýddi þetta ekki aðeins endalok fíknarsambands okkar Söru, heldur skilyrðislaust fráhald frá allri þeirri fíknarhegðunar sem ég hafði tamið mér undanfarin fimmtán ár. Ekkert minna en dauði þeirrar persónu sem ég hafði verið fram til þessa virtist duga til. Ég myndi þurfa að þola upplausn míns fyrra sjálfs. Ég hafði aðeins séð skuggann af því hvað slíkt fráhald gæti haft í för með sér og hversu mjög  það myndi koma mér úr jafnvægi. Mér leið eins og yfirveguð ákvörðun væri rétt í þann veginn að fæðast, en vissi líka að þetta var óvissuferð sem ég hafði enga tryggingu fyrir hvar myndi enda. Eina leiðin var að láta berast með straumnum.
Í þessu hugarástandi var ég ekki endilega að sækjast eftir breytingum, heldur frekar eins og þörfin fyrir breytt ástand hefði náð í skottið á mér. Ég hafði um tvo kosti að velja. Að sætta mig við það eða deyja ella. Hvort sem mér líkaði betur eða verr, þá blasti við að aðlagast breyttum lífsreglum sem bæði voru strangar og skýrar. En þó virtist staða mín mögulega opnar nýjar dyr. Tækifæri til að upplifa einskonar dauða/endurfæðingu sem gefið gat ríkulega af sér.  Þann möguleika greip ég báðum höndum í heitri von og bað þess að mér mætti hlotnast sú guðs náð sem hjálpa mundi mér að skilja minn eigin veruleika. Í brjósti bar ég von og skynjaði návist sannleikans, jafnvel þó að fyrirfram gæti ég ekki vitað á hvern veg hinn umbreytti Rich myndi breytast, endurgerður og kannski andlega heilbrigður á ný. Ég fór að sjá „klemmuna“ sem var í og sem var að sumu leyti svo ógnvekjandi á sinn hátt, sem óhjákvæmileg afleiðingu ástar- og kynlífsfíknarinnar. Hvíldarlaus framganga sjúkdómsins gat ekki endað á anna hátt  en í þeirri vonlausu stöðu sem ég var í. Val mitt stóð ekki á milli tveggja ástmeyja af ólíku tagi. Það snérist um gamla mynstrið eða algjörlega nýja sjálfsvitund sem ég gat ekki einu sinni gert mér í hugarlund.
Það tók mig um tvo daga að skrifa siðferðisleg reikningsskil mín niður á blað. Ég átti þrítugsafmæli þessa daga 1976. Skjalið var það mikilvægasta sem ég hafði nokkru sinni skrifað eða átti eftir að skrifa. Ég faðmaði það að mér. Nú vissi ég að sannleikurinn stóð þarna á blaðinu í mínum höndum. Tilfinningar mínar og hugsanir, sem áttu svo erfitt uppdráttar þegar þrá fíknarinnar knúði dyra, voru nú fangaðar á pappír. Þær myndu ávallt vera til staðar fyrir mig þar sem ég gæti sótt þær aftur, „kyrrar“ á sínum stað. Innra með mér fann ég að ekki yrði aftur snúið héðan í frá. Út á við óttaðist ég ennþá mjög að mér tækist ekki að halda breytni minni í samræmi við þennan sannleika sem birst hafði í reikningsskilunum um sjálfan mig og fíknina. Skilaboð mín til Söru höfðu verið þau að ég yrði að „draga mig í hlé.“ Að ég vildi ekki láta ónáða mig. En ég vissi líka að ég gat alls ekki reitt mig á „samvinnu“ hennar. Ef ég reyndi það væri ég að búa til blekkingu um „samvinnu“  um lausn vandamáls sem snérist einmitt um að „samvinna“ var útilokuð!
Ég skrapp aðeins út þegar ég var kominn langleiðina með að klára reikningsskilin. Þegar ég kom til baka, seinni partinn á afmælisdaginn minn, þá fann ég fjórar hvítar rósir í póstkassanum mínum, ásamt korti sem var einfaldlega undirritað „S“. Viðbrögð mín komu strax og þau voru ofsafengin. Tilfinningatengslin blossuðu upp. Ég held ég hafi tekið rósirnar með mér upp og haft þær hjá mér í íbúðinni í fáein andartök áður en mér leið eins og lamaður í návist þeirra. Ég virti þær vandlega fyrir mér. Rósirnar voru dálítið ólögulegar og aðeins farnar að drúpa. Hvíti liturinn var ekki hreinn, heldur frekar eins og þær væru slegnar fölva, líkt  og þær hefðu verið rauðar en liturinn síðan sogaður úr þeim.  Þetta kallaði fram minninguna um hvernig mér hafði liðið eins og mergsoginn þessa mánuði sem samband okkar hafði varað. Ég hafði vonast til að væntanlegur skilnaðurinn við Kötu myndi létta álaginu sem fylgdi því að vera í tveimur samböndum samtímis. En eftir að Kata yfirgaf mig hafði mér hins vegar þótt álagið vaxa. Sara hafði stagast á því að eftir að Kata færi og flækti sambandið okkar ekki lengur þá fengjum við tækifæri til að kanna hversu djúpt það væri. Á meðan ég horfði á rósirnar heyrði ég rödd Söru segja í huga mér: „Synd að þú gefist upp áður en við getum látið reyna á hvað við  eigum í alvöru saman,“ og líka þetta: „Þú gafst okkur aldrei neinn möguleika.“
Einblínandi  á rósirnar fann ég að spenna og kvíði var órjúfanlegur þáttur sambands okkar Söru. Hvorugt var í neinu aukahlutverki. Sú hugmynd að sambandið gæti verið eitthvað annað og meira  en þessi spenna, eða gæti verið til án hennar, var lygi. Hættuleg blekking. Slík hugmynd gæti aðeins orðið til þess að festa mig enn frekar á önglinum. Frelsunin og bjargræðið myndu ávallt virðast handan við hornið, … eilíflega hverful og alltaf rétt utan seilingar … ef ég bara gæti reynt örlítið betur … 
Ég fór með rósirnar út á pall þar sem ég virti þær fyrir mér dágóða stund. Mér fannst þær grátbiðja mig. Grátbiðja um mig. Ég fann reiðina ólga innra með mér. Skyndilega greip ég þær og reif í sundur. Tætti sundur í höndum mér öll blómin fjögur og stilkana og kramdi undir fótum. Sigurgleðin var allsráðandi þetta augnablik. Á eftir hreinsaði ég upp leifarnar og fleygði í ruslatunnu sem ég fann  í botnlanga í grenndinni. Tilfinningarótið var afstaðið. Átakalaust henti ég sundurslitnum blómunum í ruslið og gekk í burtu. Teningunum var kastað.
Ég vissi að engir töfrar myndu halda verndarhendi yfir mér og verja ákvörðun mína um að slíta sambandinu við Söru. Ég lét símsvarann sjá um öll símtöl og var sem minnst heima. Ég skynjaði að ekki yrði hjá því komist að upplýsa hana með einhverjum hætti um ákvörðun mína. Um leið vissi ég líka að ef ég léti framsetninguna skipta máli og hætti á að útskýra sjálfan mig frammi fyrir þessum augum, þá myndi mér mistakast. Þetta yrði enginn Hollywood hetjuskapur hjá mér. Ef ég ætlaði raunverulega að klára málið þá gæti ég leyft mér að vera gunga. Þess vegna afréð ég að skrifa bréf.
Bréfið var blátt áfram og einfalt.:
Sara,
Ég er að slíta sambandi okkar. Ég hef komist að því að fyrir hverja ögn ástar á milli okkar, – sem hefur verið mikil, – þá hefur að minnsta kosti verið jafn mikið af sjúkleika, þráhyggju og taugaveiklun.
Ég hef alltaf fórnað langtímaþörfum mínum fyrir vellíðunarskot og þú ert snillingur í að veita mér þau.. Til að þjóna þínum þörfum, sem eru miklar, þá hef ég snúið sjálfum mér á hvolf. 
Ég hef gert ítarleg siðferðisleg reikningsskil um líf mitt og þau hafa sýnt mér fram á þá sorglegu staðreynd að þú gerir mér ekki gott. Því ætla ég núna að forða mér..
Á milli okkar verður ekkert framar.. 
Ef þú finnur einhvern tímann fyrir löngun til að nálgast mig þá bið ég þig að lesa þetta bréf aftur.
Rich
Ég skrifaði drög að bréfinu á miðvikudagskvöldi og setti það í póst á fimmtudeginum þann 30. september 1976. Þegar ég lét bréfið detta inn um rifuna á póstkassanum var það framkvæmdin sem öllu breytti, gjáin á milli heima og gjörðin sem skipti sköpum, bæði táknrænt og raunverulega. Allt sem gerðist fyrir þetta tilheyrði ákveðnum kafla ævinnar – æviskeiðinu þar sem allt snérist um fíknina. Allt sem síðan hefur gerst hefur verið hluti ævintýris sem snýst um að verða fær um að lifa á nýjan hátt og uppgötva nýtt líf.