2. kafli – Byrjun bata og samtök ástar- og kynlífsfíkla – hluti 1
Ég fór í fráhvörf þann 30. september, 1976. Ég bjó einn í fyrsta sinn á ævinni. Þráhyggjan mín var virk í AA heimadeildinni minni svo ég varð að breyta því alveg hvaða fundi ég sótti. Ég var orðinn þokkalega stór fiskur í AA tjörninni minni svo þetta var ekki sársaukalaust, en ég gerði það samt. Ég varð eins og hver annar nafnleysingi á fundum lengra frá. Þetta var einhver hollasti niðurskurður á ofvöxnu egói mínu sem ég hafði nokkurn tíma þurft að þola. Sú tilfinning að með því væri ég að þjóna innri kjarna sem ég hefði hunsað hingað til, , var andlega nærandi og færði mér einfalda en raunverulega ánægju.
Fyrir fráhvörfin hafði mér oft þótt sem mér væri úthlutað tilteknu magni kynorku sem yrði einfaldlega að fá útrás ella færi illa. Þið megið því rétt ímynda ykkur furðu mína þegar ég sá eftir að hafa losað mig við alla kynferðislega virkni (í mínu tilviki að sjálfsfróun meðtalinni) að náttúrulegt ástand mitt var ekki losti. Strax snemma í fráhvörfunum fór líkaminn að róast og það slaknaði á kynhvötinni.
Þessi umbreyting frá látlausri kynferðislegri fullnægju og örvun náði líka inn í draumaveröldina. Blautir draumar voru venjulega enn einn farvegurinn fyrir uppspenntan losta minn til útrásar. Á þeim sjö mánuðum sem fráhaldið stóð dreymdi mig samt bara tvisvar þannig.
Þvílík uppgötvun eftir áralanga og látlausa ágjöf holdsins! Ekki það að ég fyndi aldrei fyrir spennu; hún var einfaldlega ekki kynferðisleg. Eitthvert umrót var tekið að krauma. Tilvist þessarar undirliggjandi persónugerðar sem var hreint ekkert kynferðisleg, var óvænt uppgötvun.
Þegar alveg nýtt landslag tilfinninga tók að birtast varð umbreytingin ennþá rækilegri. . Eftir að ég hætti að bæla allar tilfinningar með ríðingum eða fantasíum fóru tilfinningarnar að síast inn í vitundina og þar gat ég borið kennsl á þær og ávarpað með nafni Þessi lærdómur í byrjun reyndist mér mjög dýrmætur.
Nú þegar ég fór ekki lengur í botnhegðun, aktaði út kynferðislega eða magnaði upprómantíska spennu, þá uppskar ég ekki lengur þá umbun sem allt lífið hafði fram að þessa snúist um. Þetta þýddi samtekki að ég hætti að finna fyrir freistingum. Reyndar var því þveröfugt farið. Ég var bókstaflega umkringdur tækifærum. Í fyrsta skipti tók ég eftir því hversu stöðugt ég skapaði, ósjálfrátt og ómeðvitað, endalausa runu möguleika á spennandi kynlífi og tilfinningaþrungnum stundum.
Til dæmis hafði ég alltaf verið snöggur til að heilsa með handabandi, faðma og kyssa.
Ég var stöðugt að með þessum einföldu snertingum, allan daginn, alla daga. Þessi hegðun þjónaði þeim tilgangi að finna út í skyndi hvort ég ætti einhvern séns í viðkomandi. Að einhverju leyti var ég stöðugt að „skanna“ fólk með þessum hætti til að athuga hvar ég gæti eignast félaga í laumi. Þó að ég vissi nú að umbunin fyrir slíkt væru eitruð fyrir mig var ég samt ósjálfrátt að nota þessar aðferðir. Þetta hafði þær afleiðingar að ég gat skyndilega staðið frammi fyrir tækifæri til að akta út í fíkn og þegar það gerðist hrökklaðist ég frá og dró mig beiskur í hlé. Eftir því sem þessar aðstæður endurtóku sig tók ég að loks að sjá nákvæmlega hvað það var sem ég gerði til að skapa þær og skilja tilgangsleysi þess að halda þeirri hegðun áfram.
Ég fór að gera mér skýra grein fyrir því hversu gegnsýrður af fíkninni ég hafði verið, ómeðvitað. Þegar ég var enn virkur fíkill var þetta safn tækifæra til mögulegs leynimakks einhvers konar öryggisnet fyrir mig. Núna hófst hins vegar langt sorgarferli. Hverjum litlum áfanga nýrra vitundar fylgdi djúp tilfinning fyrir missi og sorg þar sem hver einasta lítil fíknihegðun var mér næstum jafn mikilvæg og sjálfsmynd mín. Þessi viðleitni að kyssa og faðma alla var sá gjaldmiðill sem persóna mín notaði út á við tæki mitt til að tengjast öðrum.
Um leið og ég sætti mig við allt sem í fráhaldi mínu fólst var samt eins og sjálfsmynd mín minnkaði og minnkaði. Ég bölvaði Guði fyrir að hafa gefið mér aðlaðandi líkama sem mér fannst tilgangslaus nú þegar ég gat ekki lengur misnotað hann. Sú hugmynd vinar míns að kannski hefði Guð gefið mér fallegan líkama „til að gleðja augu annarra,“ var mér alls engin huggun.
Stundum fékk ég hugaróra um að yrði ljótur, typpið á mér dytti af eða að mér færu að vaxa brjóst, eða þá bara um að verða gamall og skorpinn. Löngum stundum var ég þjakaður af angist yfir því öngstræti sem sjálfsmynd mín og lífstilgangur voru lent í. Líf mitt var þjáning – þjáning án lausnar!
Stundum kom ég seint heim, fullur örvæntingar yfir stöðu minni. Ég lagðist niður á stofusófann og tók mér bók í hönd. Kötturinn stökk upp á bringuna á mér, malaði og horfði æðrulaus á mig. Á slíkum stundum fannst mér að þrátt fyrir að ég væri ekki viss um að ég hefði neitt til að lifa fyrir þá fannst kettinum ég greinilega einhvers virði… hann elskaði mig. Fyrst einhverri annarri veru fannst ég vera í lagi gat ég ekki alveg afskrifað sjálfan mig. Þetta hafði aukna þýðingu fyrir mig vegna þess að Sara hafði ofnæmi fyrir köttum og eftir að Kata fór hafði ég ætlað að láta svæfa köttinn. Nú var mal kisunnar og æðruleysi eins og tákn um þakklæti fyrir að ég lét ekki lóga henni.. Á erfiðustu og örvæntingarfyllstu augnablikum fráhvarfa minna var þetta eina staðfesting mín á að ég væri einhvers virði.
Að hluta til snerist breytt fundamynstur mitt í AA ekki aðeins um að forðast að hitta Söru heldur líka að forðast sameiginlega kunningja. Ég var mjög viðkvæmur fyrir tilfinningalegum afleiðingum „tilviljana“ og ég vissi það. Það var mikilvægt að ég afneitaði ekki missi mínum og krefjandi þörf gagnvart Söru.
Nógu mikið kunni ég í sálfræði til að skilja hættuna við að reyna að þröngva upp á sjálfan mig þeirri hugmynd að ég hefði engar langanir eða þrár. Ég vissi að ef ég reyndi það þá myndi þráin ekki hverfa neitt heldur safna kröftum og sennilega stökkva á mig þegar síst skyldi. Nei, að hræra í sjálfum mér með því að „að ég vildi ekki sjá Söru“ var hættulegt. Það virtist miklu skynsamlegra að viðurkenna hversu mjög ég þráði hana. Þannig gat ég þó allavega haft vakandi auga á tilfinningunum.
Ég byrjaði að þróa með mér ákveðna aðferð. Ég spurði sjálfan mig: „Er ég í góðu standi andlega eða slæmu?“ Ég hafði góðu andlegu fótfestu þegar ég var ekki að leita að tækifærum, einhverri leið til baka í fíknihegðunina, hversu smávægilega sem það var. Ég gat fundið fyrir nístandi löngun, en ef ég gekkst við því og gerði ekkert í því með því að mynda einhvers konar „andlega“ brú til Söru, þá var andlegt jafnvægi mitt gott. Að sama skapi var það slæmt ef ég vísvitandi aðhafðist eitthvað til að opna þær dyr. Ég vissi að ef ég var í góðu andlegu ástandi, þá myndi ég, sama hversu mjög ég kveið því að rekast á hana fyrir tilviljun, líklega sleppa frá því án þess að dragast aftur inn í fíknina. Ef ég rækist á hana af tilviljun þegar ég væri í slæmi andlegu ástandi þá myndi sú hending hafa skapast vegna ástands míns og ég væri aftur kominn í hringiðuna.
Til þess að viðhalda góðu andlegu ástandi fór ég að skrifa niður hugsanir og tilfinningar sem ég var endurtekið að hnjóta um í fráhvörfunum. Þessi listi fólst að mestu í stuttum setningum í þessum dúr: „Ég finn enn fyrir miklum sársauka og missi í dag en ég finn ekki fyrir viðbjóði á sjálfum mér.“ Listinn varð nokkuð langur og ég hafði hann alltaf á mér. Þetta var eins og að bera með mér landfestar til að tryggja stöðugleika öllum stundum. Sjö mánuðum eftir að ég byrjaði að nota þennan lista, eftir að hafa párað á þrjú vandlega samanbrotin blöð beggja megin, lenti hann í þvottavélinni og urðu þau endalok hans. En þá hafði hann líka þjónað tilgangi sínum.
Ég vissi líka að til þess að halda góðu andlegu ástandi þurfti ég að sleppa því alveg að spyrjast fyrir um „hvernig hún hefði það.“ Við þeirri spurningu var ekkert það svar til sem gæti gagnast mér. Ef hún hefði það „gott“ væri það högg á egóið mitt og ef hún hefði það „ekki svo gott“ þá myndi ég túlka það sem ómótstæðilegt tilboð um að tengjast henni aftur, með öllum þeim afleiðingum sem því fylgdu. Að sjá hlutina á þennan hátt létti mér aðeins lífið. Ég skildi að ef ég, einn dag í einu, léti hjá líða að spyrja fyrir um hana þá væri að firra mig hatrinu og afbrýðisemina sem ég myndi örugglega finna til ef ég reyndi að fylgjast með aðstæðum hennar.
